Morgunblaðið - 15.05.2005, Blaðsíða 22
22 | 15.5.2005
og með því að efla hana velji fólk síður að leiðast út í þetta.“
Félagar í GLÍMA ræddu við alla 1. bekkinga í MA í haust, fyrir árshátíð skólans,
og gafst það vel, segir Arna Bryndís, „enda er árshátíð MA glæsileg og vímu-
efnalaus.“ Í framhaldi þessa ræddu meðlimir GLÍMA við nemendur annarra fram-
haldsskóla og ráðgert er að framhald verði á því, auk þess sem 7. bekkingar grunn-
skóla á Akureyri hafa verið heimsóttir. Þau urðu vör við andstöðu fólks við því að
fara á fund svo ungra krakka, ýmsir töldu 7. bekkinga of unga til þess arna „en svo er
því miður alls ekki. Forvarnarstarf þarf því miður sífellt að byrja neðar.“
Arna Bryndís segist vissulega hafa orðið vör við fíkniefni, en hún þekki þó ekki
þann harða fíkniefnaheim sem verið hefur í umfjöllun undanfarið. Og hún veit að
sumir krakkar eru hræddir við að nefna nöfn af ótta við hefndaraðferðir. „Þess vegna
höfum við hvatt krakka til þess að hafa samband við okkur í GLÍMA og við getum
komið upplýsingum á framfæri.“
Meðferðarheimili verði komið á fót á Akureyri
Karen Malmquist, forvarnarfulltrúi í Verkmenntaskólanum á Akureyri, upplýsir
að einn nemandi hafi verið rekinn úr skólanum í vetur vegna fíkniefnaneyslu. Hún
hefur sinnt starfinu í hálfan áratug og segir mikið hafa breyst á þeim tíma. Neyslan
hafi aukist og umræðan opnast til muna. Krakkarnir í VMA ræði málin frekar nú en
áður, bæði þeir sem vilja hætta í neyslu og þeir sem hafi áhyggjur af félögum sínum.
„Sum þeirra sem ég tala við segja reyndar að mér komi þetta ekkert við vegna þess að
þau noti efnin ekki í skólanum.“
Karen veit um 20-30 nemendur í VMA sem nota fíkniefni „en þeir gætu verið
miklu fleiri. Flestir neyta efnanna um helgar en of margir eru í daglegri neyslu.“
Hún segir, eins og fleiri, að sprenging hafi orðið í neyslu fíkniefna í vetur. „Og fleiri
fara í afeitrun – ég vil ekki tala um meðferð þó krakkar fari í 10 daga á Vog. Slíkt skil-
ar ekki alltaf miklu.“ Og hún leggur áherslu á nauðsyn þess að komið verði á fót með-
ferðarheimili í bænum.
Skjólstæðingar Karenar hafa sagt henni frá ofbeldinu sem viðgengst í veröld fíkni-
efnanna. „Sumir þeirra krakka sem hafa verið í neyslu eru orðin svo skemmd, svo
veruleikafirrt, að þeir hafa ekki hugmynd um að eitt spark í hausinn getur þýtt enda-
lok. Fólk hrökk mjög í kút við fréttirnar af ofbeldinu hér um daginn, ógnunin hefur
lengi verið fyrir hendi, en fólk hefur ekki gert sér grein fyrir henni. Allt of margir
halda að svona lagað sé eitthvert Reykjavíkurvandamál! Fullorðna fólkið þarf að
opna augun.“ Hún orðar það svo að ekki þýði að fólk telji sjálfu sér trú um að svona
lagað komi ekki fyrir börn þess og þar af leiðandi þurfi það ekki að skipta sér af mála-
flokknum. „Það eru ekki bara atvinnuleysingar og „aumingjar“ sem lenda í fíkniefn-
um, það kemur alveg eins fyrir börn frá fyrirmyndarheimilum.“
Margir sem blaðamaður ræddi við glöddust yfir framtaki framhaldsskólanema bæj-
arins, sem gengust á dögunum fyrir útifundi þar sem ofbeldi var gefið rauða spjaldið.
Gjarnan var bent á að orð eru til alls fyrst, en jafnframt áréttað að orðin dugi ekki ein og
nauðsynlegt sé að styðja ungdóminn til þess að halda áfram. „Það er eðlilegt að krakkar
hlusta frekar á jafnaldra sína en miðaldra karla og kerlingar, þó boðskapurinn sé sá
sami!“ sagði einn viðmælandi Tímaritsins. Annar orðaði það svo að best væri að unga
fólkið skipulegði starfið sjálft. Áhrifamestu boðin komi úr grasrótinni, frá unga fólkinu
sjálfu, það sé áhrifaríkara en „kerfið“ setji upp einhvers konar forvarnarstefnu sem til-
kynnt sé að fara eigi eftir. Karen Malmquist sagði eðlilegt að þegar skotið væri á fólk og
það barið væri skólafélögum þeirra ekki sama. „Þau spyrja: hver er næstur? Það var
mjög gott hjá þeim að lyfta rauða spjaldinu en við foreldrar þurfum líka að ræða þessi
mál meira inni á heimilum. Við getum ekki látið sem þetta sé alfarið vandamál skóla og
lögreglu. Öll erum við fyrirmyndir og skiptum miklu máli.“
Líta ekki á það sem vímuefnaneyslu að fá sér í pípu eða drekka bjór
Gísli Baldvinsson, námsráðgjafi í Síðuskóla, segist meta ástandið svo að Akureyri
og raunar Eyjafjarðarsvæðið allt, þyki orðið athyglisvert markaðssvæði, sérstaklega
fyrir hass. „Það er ódýrara að fá sömu áhrif með því að reykja hass en drekka eina
bjórkippu og það skiptir yngra fólk og efnaminna máli. Í vetur hefur orðið miklu
meira vart við þessi lón [– plastflöskurnar sem breytt er í „pípu“ og áður voru nefnd-
ar –] í kringum grunnskólana en áður; það var eins og flóðbylgja skylli á í verkfalli
kennara í haust. Málið er að krakkarnir líta ekki á það sem fikniefnaneyslu að drekka
bjór eða fá sér í pípu.“ Einn viðmælandi blaðsins nefndi að ofbeldið væri orðið mun
verra en áður, dæmi væru um brotnar hnéskeljar vegna fíkniefnaskulda, en reyndar
þyrfti ekki alltaf tengingu við fíkniefnaheiminn. Farið væri að bera á höfuðspörk-
umog fleiru í þeim dúr hjá krökkum sem ekki væru í neinni neyslu, heldur hefðu séð
slíkar aðfarir í tölvuleikjum.
Ljóst er að vandinn á Akureyri er talsverður, en rétt að ítreka að ekki er nema um
lítinn hluta ungs fólks í bænum sem á í erfiðleikum vegna vímuefnanotkunar. Flestir
eru til mikillar fyrirmyndar. En vandann þarf að leysa, eða eins og einn viðmælandi
Tímaritsins sagði, móðir stúlku sem um tíma barðist við fíkniefnadjöfulinn og hafði
sigur: Það má ekki fyllast einhvers konar móðursýki vegna þess sem gerst hefur í
bænum undanfarið – en það má heldur ekki hlaupast frá vandanum. | skapti@mbl.is
EITUR Í BEINUM AKUREYRINGA
Eins og að missa barnið sitt
Móður ungs drengs á Akureyri grunaði ekki á sínum tíma hve mikilvægt það myndi
reynast síðar að hún fór á fræðslufund hjá SÁÁ um kannabisefni. Þetta var fyrir
nokkrum árum, þegar drengurinn var rúmlega 10 ára. Á fundinum var bent á allar þær
breytingar í hegðun sem yrðu á unglingum sem leiddust út í fíkniefnaneyslu, hvaða
hlutir hyrfu gjarnan af heimilum og svo framvegis – en nú segir hún fræðslufundinn
ástæðu þess að hún áttaði sig á því hvað var í gangi, mjög fljótlega eftir að sonurinn
hóf að neyta eiturlyfja, 16 ára gamall, í fyrrasumar.
Hún segist reyndar hafa verið svo vitlaus að telja unglinga alltaf byrja í hassi og
keypti því svokallað hasspróf sem fæst í apótekum, þegar hana grunaði hvers kyns var.
Allt virtist í lagi, en hún trúði því ekki og keypti annað próf og niðurstaðan varð sú
sama. Drengurinn hélt að þar með væri hann sloppinn, en móðir hans og faðir þjörm-
uðu saman að drengnum lungann úr deginum, vegna þess að þau voru viss um að hann
hefði óhreint mjöl í pokahorninu. Hann gaf sig á endanum og staðreyndirnar komu í
ljós: drengurinn var farinn að nota amfetamín.
Aðeins var hálfur mánuður frá því hann prófaði efnið fyrst þar til móður hans fór að
gruna að ekki væri allt með felldu og þá tók við „hreint helvíti“ í heila viku eins og hún
segir. „Við gáfum honum róandi lyf í heila viku, 7 sterkar töflur á dag og það þurfti að
hugsa um hann eins og smábarn. Ég gat ekki skroppið út í búð öðruvísi en fá einhvern
til þess að passa hann á meðan. Og ég var satt að segja drulluhrædd ein með honum.“
Hún segist þakka guði fyrir það hve vel hún fylgdist með drengnum, bæði með vina-
hópnum og eins fylgdist hún alltaf með færslum af debetkorti hans, í heimabankanum í
tölvunni heima hjá sér.
Hún segir einmitt að eitt það mikilvægasta sem foreldrar þurfi að huga að sé fé-
lagsskapurinn; það sé grunsamlegt ef allir gömlu vinirnir hætti skyndilega að láta sjá
sig og foreldrarnir megi ekki vita hverjir þeir nýju eru. Einnig þurfi að huga að fjár-
útlátum viðkomandi, svefnvenjum og mataræði.
Drengurinn hefur tvisvar farið í meðferð síðan í haust. Hann var í vinnu í vetur, þar
sem hann var vel liðinn enda mjög duglegur en flosnaði síðan upp og hætti. „Hann ætl-
aði að vinna í sjálfum sér, mæta á AA-fundi og þess háttar en gerði það ekki. Og allt fór
á sama veg.“
Eftir að hann kom heim úr seinni meðferðinni ætlaði pilturinn aftur að fara að
„vinna í sjálfum sér, mæta á AA-fundi og svo framvegis. En hann hefur ekki farið á
einn einasta fund ennþá og nú er ég alveg hætt að treysta honum.“
Drengurinn var erfiður heima fyrir eftir að hann hætti í vinnunni og á endanum rak
móðirin son sinn að heiman. Gafst upp. „Hann var snarvitlaus, sinnti engu og sagði mig
leggja sig í einelti og ekki skilja alka.“ Hún segist því miður ekki bjartsýn á að bata-
horfurnar séu miklar. „Ég tel að drengurinn sé lifandi tímasprengja.“
Kraftaverkin geta að vísu alltaf gerst, segir hún, og auðvitað lifir móðirin í voninni.
„Það er ömurlegt að lenda í svona aðstæðum, nánast eins og að missa barnið sitt.
Auðvitað þykir manni vænt um barnið, en verður að passa sig á því að vera ekki góð við
fíkilinn.“
Hún ákvað strax í upphafi að verða ekki meðvirk, talar um málið án nokkurrar
skammar og hefur frá upphafi látið lögreglunni allar þær upplýsingar í té sem hún
verður áskynja. Það veit sonurinn og félagar hans líka. En þrátt fyrir það hefur henni
aldrei verið hótað og óttast ekkert. „Ég er ekkert hrædd. Enda vil ég ekki þegja; ef
allir þegja leysist ekki vandinn.“
Hún segir lögregluna á Akureyri vinna frábært starf, en sé engu að síður greinilega
of fáliðuð „vegna þess að þeir segjast stundum ekki geta sinnt ýmsu sem þeim er bent
á. Þess vegna fannst mér þær fréttir frábærar núna í vikunni, að lögreglumönnum í
bænum sé að fjölga.“