Morgunblaðið - 08.07.2005, Side 21
Reuters
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 8. JÚLÍ 2005 21
ÁRÁS hryðjuverkamanna í Lund-
únum í gær minnir um margt á
fjöldamorðið í Madríd 11. mars í
fyrra þegar 191 maður lét lífið í
þaulskipulagðri aðgerð íslamskra
öfgamanna.
Árásin í Madríd í fyrra var gerð
þremur dögum fyrir þingkosn-
ingar á Spáni. Ódæðið var því
framið „í pólitísku samhengi“ ef
svo má að orði komast og raunar
héldu sumir því fram að hryðju-
verkamönnunum hefði tekist ætl-
unarverk sitt því stjórn José
María Aznar féll óvænt og til
valda komust sósíalistar. Eitt
fyrsta verk ríkisstjórnar þeirra
var að kalla heim spænska herlið-
ið í Írak en Aznar hafði stutt
George W. Bush Bandaríkja-
forseta dyggilega í því efni.
Um áhrif árásarinnar á kosn-
ingarnar er enn deilt á Spáni.
Þingnefnd komst nýverið að þeirri
niðurstöðu að Aznar og und-
irsátar hans hefðu reynt að nýta
sér illvirkið í pólitískum tilgangi
með því að halda því fram að
basknesku hryðjuverkasamtökin
ETA hefðu staðið fyrir því. Flokk-
ur Aznars, Þjóðarflokkurinn, hef-
ur neitað að fallast á þessa nið-
urstöðu þingnefndarinnar. Enginn
vafi er á hinn bóginn á því að við-
brögð Aznars og manna hans við
illvirkinu höfðu mikil áhrif á kjós-
endur á Spáni. Margir töldu for-
sætisráðherrann vísvitandi hafa
reynt að blekkja þjóðina.
Tengist meiri háttar
stjórnmálaviðburði
Nú líkt og í Madríd í fyrra
tengist árásin í Lundúnum meiri
háttar atburði á stjórnmálasvið-
inu. Þar ræðir um leiðtogafund
átta helstu iðnríkja heims (G-8)
sem nú fer fram í Skotlandi.
Fundur þessi er án nokkurs vafa
einn stærsti viðburður ársins á
sviði alþjóðastjórnmála. Tímasetn-
ing árásarinnar í Lundúnum hefur
því sýnilega verið ákveðin með til-
liti til G-8-fundarins með sama
hætti og blóðbaðið í Madríd var
skipulagt með tilliti til þingkosn-
inganna 14. mars.
Sjálf framkvæmd árásarinnar í
Lundúnum minnir einnig mjög á
hryðjuverkið í Madríd. Þá líkt og
nú var ráðist á óbreytta borgara
sem voru á ferð í lestarkerfinu á
háannatíma. Sprengingarnar voru
samhæfðar að því marki að
skammur tími leið á milli þeirra.
Hið sama gerðist í Lundúnum í
gærmorgun.
„Sella“ hryðjuverkamanna
Íslamskir öfgamenn tengdir al-
Qaeda-hryðjuverkanetinu báru
ábyrgð á blóðbaðinu í Madríd.
Eftir því sem næst verður komist
hafði „sella“ hryðjuverkamanna
undirbúið tilræðið lengi og látið
lítið fyrir sér fara. Nokkrir
þeirra, flestir Marokkómenn, voru
handteknir en fimm menn, sem
taldir voru hafa myndað „kjarna“
hópsins frömdu sjálfsmorð í
sprengingu þegar lögregla hugð-
ist handtaka þá þar sem þeir
héldu til í íbúð í Leganes, útborg
Madrídar. Á meðal þeirra fimm
sem sprengdu sig í loft upp í
Leganes var Sarhane Ben Ab-
delmajid Fakhet, 35 ára Tún-
ismaður, sem grunaður var um að
hafa skipulagt hryðjuverkin í
Madríd.
Hópur, sem kallar sig Leynilegu
samtökin – al-Qaeda í Evrópu,
birti í gærmorgun yfirlýsingu á
íslamskri vefsíðu og kvaðst bera
ábyrgð á sprengjuárásunum í
Lundúnum. Ógerlegt er að leggja
mat á þessa yfirlýsingu en grunur
hlýtur að vakna um að „sella“
hryðjuverkamanna hafi lengi unn-
ið að skipulagi ódæðisins líkt og
kom á daginn í Madríd í fyrra.
Minnir á fjölda-
morðið í Madríd
Framkvæmd árásarinnar og tíma-
setning minnir um margt á blóðbaðið
í Madríd í fyrra þegar 191 týndi lífi
Eftir Ásgeir Sverrisson
asv@mbl.is
ÖFLUG sprengja sprengdi tveggja hæða strætisvagn
við Tavistock Square í loft upp. Á mynd sem vegfar-
andi tók rétt eftir sprenginguna má sjá særða liggja
innan um brak af völdum hennar. Vegfarendur aðstoð-
uðu sjúkralið og lögreglu við að hlúa að hinum særðu.
Staðfest er að þrír létust af völdum sprengingarinnar í
vagninum en sjónarvottar telja að þeir hafi verið fleiri.
Að auki slasaðist fjöldi fólks og sagðist sjónarvottur
hafa séð fimm manns stökkva ofan af efri hæð vagnsins
eftir sprenginguna.
Slys og eyðilegging eftir
sprengingu í strætisvagni
TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, for-
dæmdi hryðjuverkin í Lundúnum fyrir hönd
allra fundarmanna á fundi leiðtoga átta helstu
iðnríkja heims, G8-ríkjanna svokölluðu, í
Gleneagles í Skotlandi í yfirlýsingu rétt fyrir
hádegi í gær. Blair sagði árásirnar „villi-
mannslegar“ og sagði hug allra hjá þeim sem
ættu um sárt að binda vegna árásanna.
Blair ræddi tvívegis við fréttamenn í Gle-
neagles áður en hann flaug til London um há-
degisbilið til að vera nær vettvangi hryðju-
verkaárásanna. Hann sagðist gera ráð fyrir
því að koma aftur til Gleneagles undir kvöld
til að snæða kvöldverð með leiðtogum G8 en
þeir sátu þar á fundi um málefni fátækustu
ríkja heimsins og umhverfismál þegar fréttist
um hryðjuverkin í höfuðborginni.
„Lönd okkar allra hafa mátt þola afleið-
ingar hryðjuverka,“ sagði Blair er hann las
upp sameiginlega yfirlýsingu G8. „Þeir sem
ábyrgir eru bera enga virðingu fyrir manns-
lífinu. Við stöndum saman og erum staðráðnir
í að uppræta þessi hryðjuverk, sem eru ekki
árás á eina þjóð heldur allar þjóðir heimsins
og á siðað fólk hvarvetna.“
Blair þótti bera þess merki að fréttir um
árásirnar hefðu verið honum þungbærar.
Hann sagði það „sérstaklega villimannslegt“
að hryðjuverkamenn skyldu láta til skarar
skríða á sama tíma og leiðtogar helstu iðn-
ríkja heims væru að ræða hvernig bregðast
mætti við fátækt í Afríku og langtímavanda-
málum er tengjast vaxandi gróðurhúsaáhrif-
um.
„Við munum ekki leyfa ofbeldi að breyta
samfélögum okkar eða gildum okkar, né mun-
um við leyfa því að hafa áhrif á störf þessa
fundar. Við munum halda áfram að ræða
hvernig bæta má heiminn,“ sagði Blair er
hann las sameiginlega yfirlýsingu G8.
„Hryðjuverkamennirnir munu ekki hafa sitt
fram,“ sagði hann ennfremur. „Við munum
sigra, ekki þeir.“
„Þetta er fjöldamorð“
Ken Livingstone, borgarstjóri í London,
fordæmdi einnig árásirnar en hann var stadd-
ur í Singapúr til að vera viðstaddur ákvörðun
Alþjóða ólympíunefndarinnar um hvar halda
skuli ólympíuleikana 2012. Livingstone hafði
fengið þau gleðitíðindi í fyrrakvöld, að Lond-
on hefði orðið fyrir valinu, en í gær var hann
á hraðferð heim á leið vegna hryðjuverka-
árásanna.
„Ég vil leggja áherslu á eitt: þetta var ekki
hryðjuverkaárás er beindist gegn hinum vold-
ugu og ríku, þetta beindist ekki gegn for-
setum eða forsætisráðherrum, þetta beindist
gegn venjulegum, vinnandi Lundúnabúum,“
sagði Livingstone. „Það felst engin hug-
myndafræði í slíku, þetta eru ekki einhver öf-
ugsnúin trúarbrögð, þetta er fjöldamorð,“
bætti hann. „Svartir og hvítir, múslímar og
kristnir menn, hindúar og gyðingar, ungir og
gamlir,“ sagði Livingstone og bætti því við að
um væri að ræða árás þar sem menn létu sig
engu skipta hver yrði fyrir henni.
Leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Bretlandi
lýstu yfir fullum stuðningi við stjórnvöld og
báru lof á framgöngu björgunarmanna og
lögregluliðs. Michael Howard, leiðtogi Íhalds-
flokksins, sagði þetta „skelfilegan dag“ og
kvað samstöðu bresku þjóðarinnar algjöra.
Bretar væru ákveðnir í að sigrast á hryðju-
verkaógninni. Charles Kennedy, leiðtogi
Frjálsynda demókrataflokksins, sagði viður-
styggilegt grimmdarverk hafa verið framið.
Órofa þverpólitísk samstaða ríkti um að í
engu mætti gefa eftir gagnvart hryðjuverka-
mönnum.
„Árás á sjálfa
siðmenninguna“
Tony Blair segir Breta aldrei gefa
eftir gagnvart hryðjuverkamönnum
Reuters
Tony Blair ávarpar fréttamenn á leiðtogafundi G8-ríkjanna í Skotlandi í gær. Leiðtogar G8-
ríkjanna sýndu Blair samstöðu á fréttamannafundinum og fordæmdu hryðjuverkin.