Morgunblaðið - 08.07.2005, Page 38
38 FÖSTUDAGUR 8. JÚLÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ HrafnhildurGísladóttir
fæddist á Selnesi á
Breiðdalsvík 23.
febrúar 1922. Hún
lést á hjúkrunar-
heimilinu á Höfn 3.
júlí síðastliðinn.
Foreldrar hennar
voru hjónin Ingi-
björg Guðmunds-
dóttir, f. 1894, d.
1987, og Gísli
Guðnason, f. 1903,
d. 1982. Systkini
Hrafnhildar eru
Margrét Helga, f. 1924, Haukur, f.
1925, d. 2003, Guðbjörg, f. 1927,
og Heimir Þór, f. 1931.
Hrafnhildur ólst upp á Breið-
dalsvík og stundaði síðan nám við
Alþýðuskólann á Eiðum. Á að-
fangadag 1943 giftist hún Arn-
grími Gíslasyni vélstjóra frá
Grímsstöðum á Höfn, f. 1919, d.
1997. Þau bjuggu alla sína bú-
skapartíð á Höfn,
lengst af á Sólhól í
nánu sambýli við
Margréti systur
Hrafnhildar og fjöl-
skyldu hennar.
Hrafnhildur og Arn-
grímur eignuðust
tvo syni: 1) Stefán
Guðmund, f. 18.9.
1944, kvæntur Sig-
rúnu Hermanns-
dóttur, þau eiga
þrjú börn, Arn-
björgu, Hermann og
Kötlu, og 2) Borg-
þór, f. 12.4. 1950, kvæntur Vil-
borgu Þórunni Hauksdóttur, þau
eiga Arngrím.
Hrafnhildur vann alla sína
starfsævi hjá Pósti og síma á
Höfn, lengst af sem talsímavörð-
ur.
Útför Hrafnhildar verður gerð
frá Hafnarkirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 15.
Fallegur sumardagur í ágúst 1965.
Blágrár bíll rennur í hlað á bæn-
um mínum í sveitinni. Rólega og
festulega var bílnum lagt og út stigu
hjón. Hávaxinn maður, ljós á hár og
hlýr, og mjög dökkhærð, lagleg og
fallega klædd kona, lágvaxin, frekar
þétt, en með fallega fætur og sérlega
nettar hendur.
Hún tók greinilega vel eftir öllu,
kurteis, erfitt að átta sig á svip henn-
ar, en þó auðséð að þar fór kona föst
fyrir, gerði ekkert með hangandi
hendi og vissi hvað hún vildi.
Þarna voru komin í heimsókn til-
vonandi tengdaforeldrar mínir að
hitta mig í fyrsta sinn. Margri móður
hefði ekki þótt þetta góður kostur
fyrir eldri son sinn, ólétt stelpa, ný-
byrjuð í námi og Stefán nýbúinn í
sínu. Nú hlaut allt að breytast. Hún
vissi líka að þeir sem hann elskaði
gengu fyrir hans hagsmunum, þann-
ig var það hjá Hrafnhildi og Arn-
grími.
Ég var bara lítil stelpa, sem þekkti
heiminn lítið, með bæði barn og stór-
an hnút í maganum af kvíða yfir því
að hitta foreldra Stefáns. En hnút-
urinn hvarf og Hrafnhildur lét mig
strax finna að ég var komin í þessa
fjölskyldu. Kom þá í ljós hæfileiki
hennar til að sýna hlýju og um-
hyggju á sinn hátt án þess að vera
með mörg orð um það.
Það var eins og amma á Sólhól
væri alltaf heima, samt vann hún á
Símanum. Eldhúsið á Sólhól var
minnsti samkomusalur í fermetrum
talið en stækkaði og tognaði á alla
kanta þegar margt var um manninn.
Frændur og vinir á Höfn ráku inn
nefið og fengu kaffibolla. Hvað voru
bátarnir að fiska? var það góður fisk-
ur? fóru þeir langt? nýr háseti á
Hvanney? hver er það? þar fengu
þeir góðan mann. Úr Reykjavík?, er
eitthvað gagn í honum? Allt snerist
um bátana. Hrafnhildur vissi hve-
nær þeir fóru á sjóinn, þekkti bátana
á vélahljóðunum eða möstrunum. Á
þessum árum slípuðust rauðu sess-
urnar vel á eldhússtólunum, sem
Borgþór gerði svo skemmtilega
ódauðlega fyrir ári síðan.
Svona var lífið á Hólnum.
Það eru forréttindi fyrir börnin að
hafa átt Hrafnhildi fyrir ömmu, hún
var alltaf til staðar fyrir þau þegar
þurfti. Pabbi þeirra úti á sjó og vinn-
an mín gat verið á öllum tímum. Mig
minnir að stundum hafi ég verið
komin til Reykjavíkur í sjúkraflugi
þegar ég gat hringt í Hrafnhildi, en
oftast voru þau komin út á Sólhól,
enda man ég ekki eftir að hafa haft
áhyggjur af börnum mínum, miklu
frekar af þeim sem þurftu að komast
á sjúkrahús.
Hún Hrafnhildur átti stærsta
frænd- og vinahóp sem ég hef
kynnst. Hún ræktaði sambandið við
allt þetta fólk, þótt hún væri orðin
nánast blind undir það síðasta, því
hún þekkti takkaborðið á símanum.
Elsku Hrafnhildur, þakka þér fyr-
ir allt.
Þín tengdadóttir,
Sigrún Hermannsdóttir.
Aðfaranótt sunnudags missti ég
góðan vin, ömmu á Sólhól.
Við amma höfum verið vinir frá
því að ég man eftir mér. Hún gat allt-
af talað við mig eins og jafningja og
það var sama hvað ég tók mér fyrir
hendur, alltaf hafði amma áhuga,
fylgdist með mér og hvatti mig í því
sem ég var að gera. Amma á Sólhól
var líka alveg ekta amma, bakaði
pönnukökur, jólaköku og svoleiðis.
Hve oft skyldi ég hafa setið í eldhús-
inu hjá henni og hámað í mig sæta-
brauð á meðan við töluðum saman
um daginn og veginn? Og hversu
margar ferðirnar skyldi afi hafa
komið heim í Hlíðartún með bakkelsi
frá ömmu (oftast kanilsnúða og vín-
arbrauð)? Oft kom ég á Hólinn og við
amma tókum í spil. Hún hafði gaman
af því að spila. Ég hafði líka gaman
af því að spila, ekki síst við ömmu,
þar sem hún hafði einstakt lag á því
að mér gengi vel.
Amma á Sólhól þurfti ekki að hitta
mann til að spyrja frétta, hún
hringdi líka. Hún notaði símann
raunar giska mikið. Eða jafnvel
mjög mikið. Enda vann hún á Sím-
stöðinni alla tíð. Það eru ekki margir
dagar sl. 20 ár sem við töluðum ekki
saman, ef ekki yfir kaffibolla þá í
síma.
Þegar fólk var á ferðinni fylgdist
hún með framgangi með því að
hringja á þá bæi sem ekið var hjá,
eða í sjoppuna í Vík – ef fólk skyldi
hafa stoppað þar til að kaupa pyls-
una. Eftir að farsímar komu til sög-
unnar varð þetta auðveldara og ekki
man ég eftir því að hafa farið á milli
Hafnar og Reykjavíkur án þess að
amma hringdi a.m.k. einu sinni. Ef
ömmu fannst ferðin ganga of vel
sagði hún jafnan: ,,Ja, einhvers stað-
ar hefur verið ekið!“ Þegar maður
var á ferðinni, ,,seint og snemma – út
og suður“, eins og amma sagði, var
Sólhóll iðulega síðasti viðkomustað-
ur fyrir brottför og fyrsti viðkomu-
staður við heimkomu. Oftar en ekki
var steikt læri við heimkomuna.
Amma ferðaðist ekki mikið sjálf, en
alltaf var hún með mér, hvert sem ég
fór.
Amma fylgdist vel með lang-
ömmubörnunum og þau nutu þess að
heimsækja ömmu á Sólhól. Hrafn
Logi, sonur minn, sagði við mig í gær
að ef hann ætti eina ósk þá myndi
hann óska þess að langamma væri
komin aftur út á Sólhól.
Amma var engum lík, hún þekkti
allt og alla og varla var hægt að
nefna þann mann sem ekki hafði
drukkið kaffi hjá henni, flestir oftar
en einu sinni. Já, það voru ófáir kaffi-
bollarnir drukknir í eldhúsinu á Sól-
hól, niðri. Borgþór sonur hennar hef-
ur reiknað það út að varlega megi
ætla að hátt í 200 þúsund bollar hafi
verið drukknir í téðu eldhúsi.
Síðustu árin dvaldi amma á Skjól-
garði þar sem hún naut einstakrar
umhyggju starfsfólksins. Þar reyndi
á umburðarlyndi herbergisfélaga
hennar, en býsna mikill erill var í
kringum ömmu, bæði gestagangur
og sími.
Það er erfitt að sjá á eftir ömmu á
Sólhól, hún hefur alla tíð verið svo
fastur punktur í lífi mínu. En minn-
ingin um góðan vin og yndislega
ömmu lifir.
Hermann Stefánsson.
Amma á Sólhól er dáin. Hver
hringir nú og fylgist með ferðum
okkar og daglegu lífi?
Amma var öðruvísi en ömmur
flestra vina minna, hún vann úti. En
þrátt fyrir það var alltaf tími til að
hræra í pönnukökur og taka á móti
okkur barnabörnunum. Afi var send-
ill hjá henni og kom oft færandi
hendi heim í Hlíðartún með bakkelsi.
Og ekki lét hún fjarlægðina standa í
vegi fyrir sér þegar við vorum farin
suður í skóla. Þá komu reglulega
sendingar með ýmsu matarkyns. Ég
man sérstaklega eftir einni sendingu
þegar við Hemmi bróðir höfðum af-
þakkað rækjusalat og hún sendi okk-
ur allt hráefnið í staðinn alla leið frá
Hornafirði.
Ef líf mitt væri leikrit hefði amma
á Sólhól farið með aðalhlutverkið í
því. Hún var alltaf til staðar og ef
hún var ekki heima eða svaraði ekki
símanum fór maður að óttast um
hana. Eftir að ég flutti aftur heim
voru þeir fáir dagarnir sem ekki var
komið við á Sólhól í kaffi á leiðinni
heim og var þá margt spjallað og oft
glatt á hjalla. Við töluðum líka sam-
an í síma oft á dag og það er skrítið
að svara í símann núna og engin
amma á hinum endanum.
Langömmubörnin voru henni allt-
af ofarlega í huga og fannst þeim afa
við foreldrarnir ýmist allt of strangir
eða allt of linir. Og það var ekki verið
að skafa af hlutunum þegar hún
sagði okkur sína skoðun á uppeldinu.
Amma var kona sem hafði sterkar
skoðanir á mönnum og málefnum og
lá ekki á þeim. Oft höfum við hlegið
að því hvernig hún tók til orða þegar
henni ofbauð eitthvað og þá sérstak-
lega ferðalög okkar Hemma.
Amma ólst upp á símstöð og vann
á símstöð allan sinn starfsferil enda
þekki ég engan sem notaði síma jafn
mikið og hún. Það voru ekki bara við
afkomendurnir sem hún lét sér annt
um. Hún var í símasambandi við fólk
um allt land og hafa margir drukkið
kaffi á Sólhól í gegnum tíðina.
Eftir að afi dó varð hún ósköp ein-
mana eins og gefur að skilja og
þurfti þá meira á okkur að halda og
er ég þakklát fyrir að hafa verið bú-
sett hér og getað varið tíma mínum
með henni. Þó að ég hefði fengið
mörg ár í viðbót hefði mér aldrei tek-
ist að jafna út allt sem hún gerði fyr-
ir mig.
Síðustu vikurnar var amma farin
að bíða eftir að fá hvíldina og það veit
ég að afi hefur tekið vel á móti henni
við hliðið.
Elsku amma, takk fyrir allt.
Arnbjörg.
Enn hefur dauðinn hoggið skarð í
barnahóp þeirra Ingibjargar og
Gísla frá Selnesi. Hrafnhildur, elsta
barnið í hópnum, liggur nú á líkbör-
unum þegar þessi fátæklegu orð eru
sett á blað. Hadda, eins og hún var
oftast kölluð, ólst upp á Selnesi, einu
fárra húsa sem þá voru á Breiðdals-
vík. Það varð fljótt hlutskipti hennar
að gæta okkar yngri systkinanna.
Nú er farið að fyrnast yfir flest smá-
atriði frá svo löngu liðnum árum.
Einna helst man ég líklega eftir því
þegar hún var að siða mig til, óvit-
ann. Ekki síst ef hún fór með mig á
aðra bæi. Ég tók afar nærri mér ef
ég taldi að ég hefði orðið mér til
skammar á einhvern hátt. Einhvern
veginn hefur hún líklega komið því
inn hjá mér að það væri ekki mitt
einkamál hvernig ég hegðaði mér,
ekki síst á öðrum bæjum. Það var
t.d. argasti dónaskapur ef boðið var
upp á veitingar á nágrannabæjum,
að taka sér aftur og aftur af sömu
sortinni en snerta ekki við öðru. Þó
keyrði alveg um þverbak þegar lítill
drengur ætlaði að bæta fyrir brotið
með því að skila til baka hálfétinni
pönnuköku.
Hvers vegna man ég þetta frekar
en hin og þessi óhöpp frá þessum
tíma? Á því er einföld skýring: Í
vörslu Höddu systur minnar henti
mig vart nokkur óhöpp. Hún sá til
þess að ég væri ekki í fjörunni þegar
brimalda svarraði þar, hún dreif mig
inn í bæ þegar hún uppgötvaði
ókunnugt naut með kúnum við fjósið
og hún var fljót að afvopna mig ef ég
óvitinn náði í hníf eða eldspýtur.
Þetta var minn „forskóli“. En líklegt
tel ég að það sé einnig eldri systk-
inum góður skóli að sinna svona hlut-
verki. Fljótlega tóku svo yngri syst-
urnar við pössuninni. Hadda var
ekki orðin gömul þegar hún var orð-
in of dýrmætur vinnukraftur til að
vera að snúast með litla pjakkinn. Á
bóndabæ við sjávarsíðu var alltaf
nóg að sýsla árið um kring: Sauð-
burður, selveiði, rýingar, móvinna,
heyskapur, berjatínsla, sláturtíð,
ræstingar, eldhússtörf, sendiferðir,
mjaltir, fiskaðgerð þegar pabbi kom
úr róðri o.s.frv.
Við þessi venjulegu störf á alþýðu-
heimili bættist það svo við að heima
var pósthús og símstöð. Hvoru-
tveggja var inni á heimilinu auk bók-
sölu. Hadda systir vandist fljótt við
að sinna afgreiðslu á símstöðinni.
Segja má að það hafi svo orðið ævi-
starf hennar að afgreiða á símstöð.
Við það vann hún á Höfn í Hornafirði
í meira en 4 áratugi.
Þegat ég flutti með fjölskyldu
mína til Hafnar upp úr 1970 vorum
við tíðir gestir á Sólhól hjá þeim
systrum Hrafnhildi og Margréti.
Eftir að Margrét fluttist frá Sólhól
fyrir allmörgum árum má segja að
Hadda hafi yfirtekið allan gesta-
ganginn á þeim bæ. Og kannski gott
betur. Ef til er eitthvað sem heitir
„gestaaðdráttarafl“ þá var Hadda
systir haldin því í ríkum mæli.
Þegar ég nú kveð mína kæru syst-
ur með þessum fátæklegu orðum
verður mér hugsað til allra liðnu ár-
anna sem ég og síðar öll fjölskylda
mín nutu gestrisni hennar og hjálp-
semi. Tvo vetur fyrir 1950 var ég hjá
Höddu og Arngrími manni hennar í
húsnæði og fæði að hluta til, endur-
gjaldslaust sem nemandi á Höfn.
Kona mín beið barnsburðar og ól son
í skjóli systra minna á Sólhól haustið
1954. Margsinnis dvaldi fjölskylda
mín eða hluti hennar hjá þeim í
lengri eða skemmri tíma. Fyrir allt
þetta og mikið meira vil ég þakka.
Sonum Hrafnhildar, öðru skyld-
fólki hennar og vinum sendi ég hug-
heilar samúðarkveðjur.
Heimir Þór Gíslason.
Mín fyrsta bernskuminning er úr
stofunni á Grímsstöðum á aðfanga-
dagskvöld 1943, en þá gengu þau í
hjónaband Hrafnhildur og Arngrím-
ur bróðir minn ásamt Borghildi syst-
ur okkar og Jóni Kristjánssyni. Það
voru engir viðstaddir nema heimilis-
fólkið og presturinn, en þetta var há-
tíðleg stund sem greyptist í barns-
minninu. Alla mína bernsku voru
Hadda og Aggi á næstu grösum, tún-
in í Brekkugerði og Grímsstöðum
lágu saman, og það var oft hlaupið á
milli húsa og ef aðstoðar var þörf var
hún fúslega veitt á báðum stöðum.
Hrafnhildur kom til Hafnar til að
vera vinnukona hjá Knúti lækni í
Garði og vann jafnframt á símanum,
en símstöðin var þá til húsa þar í
kjallaranum og var opin nokkra tíma
á dag. Hadda sagði mér stundum
skemmtilegar sögur frá þessum
fyrstu árum, það þótti ekkert óeðli-
legt að það tæki nokkra klukkutíma
að ná sambandi við fólk. En mikil
umbylting var þetta fyrir fámenn
byggðarlög og Hrafnhildi fannst það
vera forréttindi að fá að vinna við
símann á þessum frumbýlisárum
hans. Hrafnhildur var ein af tiltölu-
lega fáum konum af hennar kynslóð
sem vann úti, eftir að hún stofnaði
heimili og það var alla tíð síminn sem
naut starfskrafta hennar, henni var
alltaf annt um það fyrirtæki og ég
hugsa að hún hafi haldið sambandi
við alla sem störfuðu með henni. Hún
beið ekki eftir því að aðrir hefðu
samband við hana, hún var yfirleitt
fyrri til. Hún lét vita af sér og leitaði
eftir helstu fréttum af sínu fólki og
öllum sem henni voru kærir og þeir
voru margir. Hún lét sér svo annt
um fólk að slíks eru held ég fá dæmi
og ef hún gat komið einhvers staðar
til aðstoðar eða huggunar gerði hún
það. Þau eru ómæld áhrifin sem
hennar góðu hugsanir til samferða-
fólksins hafa skilið eftir.
Á heimili hennar var óvenju gest-
kvæmt, hún sá til þess að öllum
fannst þeir velkomnir og gætu varla
farið framhjá án þess að heilsa upp á
hana og þiggja góðgerðir. Ófá börn
nutu aðhlynningar hjá henni, eink-
um meðan synir hennar tveir voru á
barnsaldri. Á búskaparárunum í
Brekkugerði var lasburða föðursyst-
ir mín Pálína Björnsdóttir í heimili
hjá þeim og flutti með þeim á Sólhól
ásamt sonum þeirra tveimur, íbúðin
var lítil en henni var líka ætlaður
staður þar.
Ég heimsótti hana oft á Hjúkr-
unarheimilið síðustu árin og ég hafði
örugglega ekki minna út úr þeim
samverustundum en hún, það var
hvíld í því að sitja hjá henni. Hún
hafði alltaf eitthvað að segja manni,
einstakt minni, sem alla tíð var til
staðar og það fór ekki mikill tími í
sjúkdómslýsingar.
Þau hjónin söfnuðu ekki miklu af
veraldlegum gæðum, en ég held að
þeim hafi báðum fundist þau vera
rík, þau lifðu fyrir kæra fjölskyldu
og samferðafólkið á Hornafirði og
gáfu bæði svo miklu meira en þau
tóku. Þau komast nær því en flestir
aðrir sem ég þekki að uppfylla boð-
orð Krists: Elska skaltu náunga þinn
eins og sjálfan þig.
Blessuð sé minning þeirra beggja.
Kristín Gísladóttir.
Heima
er hugur minn ætíð
í Hornafirði, þar er hjarta mitt.
Þangað
mun ég þrá að fara
og þar að lifa, við ljósið þitt.
Ég ann þér vinur
þú átt mitt hjarta,
þér aldrei gleymi, ég unni þér.
Heima
skal hugur minn dvelja
því horfnar stundir nú ylja mér.
(Aðalsteinn Aðalsteinsson.)
Elsku Hadda mín, ég er svo þakk-
lát fyrir allar yndislegu stundirnar
sem við höfum átt saman. Þegar ég
hugsa til Hafnar hugsa ég til þín, þú
tókst alltaf svo vel á móti mér þegar
ég kom til þín og varst svo glöð að fá
mig til þín. Þú varst alltaf jafn ynd-
isleg við mig eins og þú varst nú við
alla. Mér hefur alltaf fundist ég vera
svo heppin að eiga tvær ömmur á
Höfn. Það verður mjög skrítið að
koma austur og þú ekki þar.
Nú ertu komin til hans Agga sem
er eflaust búinn að vera að bíða eftir
þér og ég veit að þú ert ánægð með
að vera komin til hans. Það verður
skrítið að heyra ekki í þér á hverjum
degi eins og ég er vön. Ég er svo
ánægð með að hafa heyrt í þér á
fimmtudaginn, það gaf mér mjög
mikið.
Takk fyrir allt elsku Hadda mín,
þín verður sárt saknað.
Þín
Hrafnhildur Arna.
Nú þegar Hadda frænka á Sólhól
hefur yfirgefið það svið sem við
mennirnir göngum um stund eftir,
þá hvarflar hugurinn ósjálfrátt til
baka.
Hadda og Aggi og Sólhóll virtist
mér órjúfanleg heild þegar ég fyrst
man eftir mér. Til þeirra kom ég oft
og þar var gott að koma. Sem barn
og unglingur varð ég þeirrar gæfu
aðnjótandi að kynnast allvel Höddu
móðursystur minni á Sólhóli. Hadda
var sífellt með opið hús tilbúin að
taka á móti gestum og gangandi sem
leið áttu um. Þar var aldrei neinum í
kot vísað og uppbyggilegar umræð-
ur um hin ýmsu mál ásamt einlægum
áhuga húsráðenda á gestum sínum
gerði heimsóknirnar eftirminnileg-
ar. Fór þaðan margur mettur á
munni og sál því jákvæðnin og vel-
vildin eru smitandi og gott veganesti
hvort sem leiðin er stutt eða löng.
Hadda og Aggi voru samhent hjón
sem lögðu mikið af mörkum til að
bæta mannlífið hvort á sinn hátt en
ávallt í hljóði og án þess að vakin
væri athygli á því. Þeir sem hljótt
fara eru oft þeir sem mestu skila og
víst er að í hugum okkar mun Höddu
frænku, sem nú hefur lagt upp í
langferðina miklu, ætíð verða minnst
með hlýhug og þakklæti.
Þröstur, Guðrún og dætur.
HRAFNHILDUR
GÍSLADÓTTIR