Morgunblaðið - 11.07.2005, Side 38
38 F MÁNUDAGUR 11. JÚLÍ 2005 MORGUNBLAÐIÐ
M
iklatún eða Klambratún er
yngsti almenningsgarðurinn
sem tekinn verður fyrir í þess-
um greinaflokki. Garðurinn af-
markast af umferðargötum á
allar hliðar. Svæðið er nokkurn veginn fer-
hyrnt og um 10 ha að stærð. Hæst rís landið
við horn Flókagötu og Lönguhlíðar við skeif-
una og lækkar til vesturs niður að Rauð-
arárstíg.
Yfirbragð garðsins í dag einkennist af
stórum opnum grasflötum umluktum há-
vöxnum trjám og runnagróðri sem veitir
vernd fyrir ys og þys um-
ferðarinnar allt umhverfis.
Mest áberandi er sitka-
greni og alaskaösp, dæmi-
gerðar tegundir sem náðu
mikilli útbreiðslu eftir
stríð. Flötin í garðinum
miðjum frá norðvest-
urhorni til suðausturhorns
garðsins gerir hann mjög
opinn.
Hringlaga skál eða
skeifan í norðausturhorni
garðsins er eitt helsta kennileiti hans. Hún
átti að þjóna sem áhorfendabrekka fyrir
uppákomur á flötinni í skálinni miðri. Lítið
hefur farið fyrir uppákomum á því sviði en
brekkurnar oftar notaðar sem sleða- og
skíðabrekka á vetrum fyrir íbúa í nágrenn-
inu.
Kjarvalsstaðir standa á Miklatúni við
Flókagötu. Starfsemin þar hefði getað nýtt
sambýlið við garðinn betur en glæsileg
byggingin er eins og eyja í litlum tengslum
við umhverfið.
Gerð garðsins
Með skipulaginu á Hlíðunum eftir stríð
var svæðið umhverfis býlin Klambra og
Sunnuhvol tekið frá. Strax 1953 kom fram
tillaga um nafn á svæði og mun örnefna-
nefnd þá hafa samþykkt nafnið Miklatún.
Allt fram yfir 1970 deildu menn hins vegar
um nafn á svæðinu. Fyrstu hugmyndir að
garði á Miklatúni voru mótaðar í samkeppni
á vegum Reykjavíkurborgar 1957. Í þeirri
samkeppni hlaut Reynir Vilhjálmsson þriðju
verðlaun. Á Klömbrum var stunduð svína-
rækt og rekið sláturhús allt þar til að fram-
kvæmdir við garðinn hófust 1965.
Leitað var til Reynis Vilhjálmssonar
landslagsarkitekts og hann beðinn að gera
tillögu að skipulagi garðsins. Helsti hvati
þess var að koma þurfti fyrir styttu af Ein-
ari skáldi Benediktssyni vegna 100 ára af-
mælis hans 31. okt. 1964. Miklatún er fyrsta
stóra hönnunarverkið sem Reynir tók að sér
eftir heimkomuna. Garðurinn er hannaður
með þarfir nútímans í huga enda Reynir ný-
kominn heim eftir tæplega 10 ára dvöl við
nám og rekstur teiknistofu í Danmörku.
Hugmyndafræðin að útliti garðsins er sótt
í samtímaverk á Norðurlöndunum og má
kallast modernískur. Bent hefur verið á að
yfirbragð hönnunar Miklatúns sé undir
sterkum áhrifum gömlu lærimeistara hans í
Danmörk þeirra C. Th. Sörensen sem var
prófessor hans á skólanum og Eriks Mygind
sem Reynir vann hjá og rak síðan teikni-
stofu með áður en hann kom heim.
Framkvæmdir við gerð garðsins hófust
vorið 1965. Gerð hans gekk mjög hratt fyrir
sig og var til þess tekið að limgerðin sem
mynda hinar sterku línur garðsins og eru
eitt aðaleinkenni garðsins voru strax komin
og fullvaxin. Skýringin á því hve fljótt gróð-
urinn setti svip á garðinn var sú að á sama
tíma var að hefjast uppbygging á Fossvogs-
hverfinu. Innarlega við Bústaðaveg var verið
að leggja niður gróna garðyrkjustöð og var
skjólgróðurinn úr gróðrarstöðinni allur flutt-
ur á Miklatún og settur þar niður. Lokið var
við gerð garðsins á skömmum tíma.
Á vegum garðyrkjudeildar borgarinnar
hefur Ræktunarstöð Reykjavíkur haft yf-
irumsjón með Miklatúni og hefur rækt-
unarstefna verið endurskoðuð og hefur verið
gerð töluverð endurnýjun í runnum og trjám
og við það hafa línur í garðinum orðið mýkri
en um leið hefur hann misst dálítið af þeirri
festu og ákveðni sem hönnunin byggðist á.
Í frumtillögu Reynis sést að hann gerir
ráð fyrir rýmum í garðinum til margvíslegra
nota. Hann notaði gróðurinn markvisst til
þess að mynda ramma umhverfis svæði fyrir
leiki og íþróttir. Hann sá og fyrir sér að í
garðinum miðjum yrði einskonar miðrými
sem tengdist Kjarvalsstöðum og þeirri starf-
semi sem þar var fyrirhuguð.
Kjarvalsstaðir voru teknir í notkun 1973
átta árum eftir að garðurinn var mótaður.
Miðsvæðið garðsins var því ekki gert í
upphafi, né heldur var komið fyrir búnaði í
leikrýmum eins og gert var ráð fyrir. Á ráð-
stefnu um umhverfismál í þéttbýli sem hald-
in var um miðjan níunda áratuginn á Kjar-
valsstöðum lýsti Reynir því í erindi sem
vantaði í garðinn og líkti Miklatúni við
byggingu sem væri rúmlega fokheld. Nokkr-
um árum seinna var gert átak í að koma upp
leikaðstöðu og boltavöllum á svæðum sem
undirbúin höfðu verið tveimur áratugum áð-
ur.
Lýst eftir uppbyggingu
Hér með er lýst eftir uppbyggingu í miðju
garðsins sem tengdi starfsemi Kjarvalsstaða
og garðsins saman t.d. með hlýlegu útidval-
arsvæði, listaverkum og aðstöðu til veit-
ingasölu. Nærtækt er að benda á lista-
miðstöð eins og byggð hefur verið upp í við
Luisiana-safnið í Humlebæk norðan við
Kaupmannahöfn.
Eins og áður er getið var einn helsti hvati
þess að garðurinn var gerður sá að koma
þurfti fyrir styttu af Einari Benediktssyni
athafnaskáldi eftir Sigurjón Ólafsson mynd-
höggvara. Fjögur önnur listaverk hafa verið
sett upp í garðinum. Með gerð Miklatúns
lauk merkilegu skeiði í menningarsögu okk-
ar á tuttugustu öldinni. Að gerð Miklatúns
stóð ekki áhugamannahópur eða fé-
lagsskapur, heldur var sveitarfélagið að
svara kalli samtímans fyrir íbúa nærliggj-
andi hverfa. Garð sem byggðist á innlendri
reynslu frá Hellisgerði og Lystigarði Ak-
ureyrar og erlendum fyrirmyndum.
Miklatún missti af þeirri tíð að verða
skemmtigarður í skilningi eldri garða á Ís-
landi. Hugmyndir landslagsarkitekts garðs-
ins stóðu til þess að garðurinn og Kjarvals-
staðir tengdust í öflugu menningarstarfi og
væri um leið útivistarsvæði fyrir nærliggj-
andi byggð. Tími almenningsgarða var á
enda runninn og tími útivistarsvæða upp-
runninn. Sveitarfélögum, sem byggðu al-
menningsgarða, fannst auðsjáanlega fram-
kvæmdir við þá kostnaðarsamar og rekstur
og viðhald sömuleiðis. Þjóðfélagið gerði og
nýjar kröfur.
Nýjar áherslur
Bíllinn gerði fólk færanlegra og jók kröfur
um meiri afþreyingu. Það gerir Miklatún
hins vegar ekki síður mikilvægan stað fyrir
íbúa Reykjavíkur í framtíðinni og ættu
menn að sjá að sér og fara varlega í að
sneiða af honum fyrir lóðir undir óskylda
starfsemi. Margt má hins vegar gera til þess
að bæta aðstöðu í garðinum og bíða þar ótal
tækifæri til þess að auka nýtingu í framtíð-
inni til afþreyingar bæði andlegrar og lík-
amlegrar.
Svarið við kalli nútímans kom síðar með
Borgargarðinum í Laugardal þar sem upp-
bygging svæðisins er markviss og í þeim
anda að koma til móts við afþreyingarþörf
nútímamannsins. Þar er samankominn
grasagarður, húsdýragarður, fjölskyldugarð-
ur, þjóðaríþróttaleikvangur og ferðaþjón-
usta. Allt tengt saman af gróðurþekju,
greiðfærum gönguleiðum, akvegum og af-
drepum til þess að njóta óskipulagðrar og
skipulagðrar útiveru vetur, sumar, vor og
haust.
Reykjavíkurborg hefur þar sýnt stórhug
og kallað til að móta þá umgjörð marga
helstu landslagsarkitekta, arkitekta og
tæknimenn sem völ var á. Með þessum pistli
lýkur frásögum af merkustu almennings-
eða skemmtigörðum landsins. Margra garða
er ekki getið og verða sögur af þeim að bíða
seinni tíma. Í stuttri lokagrein í næsta blaði
verða endar hnýttir og lagt mat á gildi
skemmtigarða fyrir íslenskt samfélag.
ÍSLENSKIR SKEMMTIGARÐAR
Miklatún í Reykjavík
Fyrstu hugmyndir að garði á Miklatúni voru mótaðar í samkeppni á vegum Reykjavíkurborgar 1957.
Í þeirri samkeppni hlaut Reynir Vilhjálmsson þriðju verðlaun.
Leitað var til Reynis Vilhjálmssonar landslagsarkitekts og hann beðinn að gera tillögu að skipulagi
garðsins. Helsti hvati þess var að koma þurfti fyrir styttu af Einari skáldi Benediktssyni vegna 100
ára afmælis hans 31. okt. 1964.
Á vegum garðyrkjudeildar borgarinnar hefur Ræktunarstöð Reykjavíkur haft yfirumsjón með Mikla-
túni og hefur ræktunarstefna verið endurskoðuð og hefur verið gerð töluverð endurnýjun í runnum
og trjám.
Hér með er lýst eftir uppbyggingu í miðju garðsins sem tengdi starfsemi Kjarvalsstaða og garðsins
saman t.d. með hlýlegu útidvalarsvæði, listaverkum og aðstöðu til veitingasölu.
Einar E.
Sæmundsen
Eftir Einar E. Sæmundsen
landslagsarkitekt