Morgunblaðið - 05.08.2005, Page 6
6 FÖSTUDAGUR 5. ÁGÚST 2005 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
MALTA nýtti smæð landsins þegar landið
samdi við Evrópusambandið um aðild fyrir
tveimur árum og fékk alls 72 undanþágur, til-
slakanir og aðra fyrirvara í aðildarsamningum
við ESB, að því er fram kom í máli dr. Roder-
icks Pace, gestakennara á Bifröst og forstöðu-
manns Evrópufræðaseturs Háskólans á Möltu
á hádegisfundi Evrópusamtakanna á Lækj-
arbrekku í gær.
Pace ræddi þar um viðræðurnar við Evr-
ópusambandið og þróun mála á Möltu eftir að
ríkið fékk aðild í maí í fyrra ásamt níu öðrum
ríkjum. ESB-aðild var samþykkt í þjóð-
aratkvæðagreiðslu í mars árið 2003 með naum-
um mun; rúmlega 53% kjósenda studdu aðild
en tæp 47% voru á móti henni. Kosningaþátt-
taka var um 91%.
Aukin alþjóðleg samskipti
Pace sagðist vera í það heila mjög ánægður
með gang mála eftir að Malta hlaut aðild.
Margir hefðu haft áhyggjur af því að smáþjóð
eins og Malta yrði áhrifalaus innan sambands-
ins en sú hefði ekki orðið raunin. Að sögn Pace
er nú leitað mun meira til Möltu þegar kemur
að þýðingarmiklum ákvörðunum í Evrópu-
málum en gert var áður auk þess sem sam-
skipti Möltu við arabaríkin hafi aukist talsvert.
Hann bendir ennfremur á að þótt Malta nái
ekki að láta til sín taka í hverju einasta máli
sem upp komi innan sambandsins geti fulltrú-
ar Möltu í Brussel einbeitt sér að því sem máli
skiptir fyrir landið.
Pace lítur svo á að talsverð sátt ríki um aðild
Möltu að Evrópusambandinu nú og bendir á
að þing Möltu hafi einróma samþykkt stjórn-
arskrá Evrópusambandsins á dögunum. Þetta
sé athyglisvert í ljósi þess hve skammt er liðið
frá þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusam-
bandsaðild, þar sem harkalega var tekist á um
málið. Verkamannaflokkurinn hafi t.a.m. verið
á móti aðild á sínum tíma, en hinn flokkurinn á
þingi, Þjóðernisflokkurinn, hafi verið fylgjandi
henni.
„Umræðan kemur þó reglulega upp í fjöl-
miðlum,“ segir Pace en bætir við að hún sé
ekki jafnáköf og áður.
Hann segir að þótt skammt sé liðið frá aðild
hafi margt áunnist. Malta hafi tekið upp mikið
af lögum og regluverki Evrópusambandsins
sem hafi knúið á um nauðsynlegar breytingar.
Hagkerfið í lægð
Pace tekur sem dæmi slippi og skipa-
smíðastöðvar í landinu sem hafi lengi verið í
slæmu ásigkomulagi. „Enginn tók á því máli
en núna erum við aðilar að ESB og höfum tek-
ið á okkur ákveðnar skuldbindingar. Við þurf-
um því, hvort sem okkur líkar eða ekki, að laga
þetta fyrir árið 2008.“
Hann bendir einnig á umhverfismál, lög og
reglur um neytendavernd, vinnueftirlit og að
fleiri markaðir hafi opnast. Hagkerfið á Möltu
er hins vegar í lægð um þessar mundir en það
tengist þó ekki Evrópusambandsaðild, að mati
Pace. „Vandamálin stafa ekki af því að við
gengum í Evrópusambandið, heldur þeim
mörgu málum sem hafa beðið fram að Evrópu-
sambandsaðild og þarf nú að ganga frá.“
Að loknu erindi dr. Pace var opnað fyrir
spurningar og var hann m.a. spurður út í und-
anþágur sem Malta fékk við aðild sína. Pace
sagði að Malta hefði farið þá leið að nýta sér
smæð sína í viðræðunum við ESB og hve lítil
áhrif einstakar undanþágur myndu hafa fyrir
sambandið í heild sinni. Þannig hefði t.d. feng-
ist í gegn að Malta ákveði heildarafla og stærð
veiðarfæra innan efnahagslögsögu landsins,
sem er 25 mílur.
Óbundin af reglum um fóstureyðingar
Pace segir Möltu hafa fengið mikið af und-
anþágum, tilslökunum og frestum og segist
hafa talið saman um 72 slík atriði í samningum
Evrópusambandsins og Möltu, sem sé um
helmingi meira en áður hefur þekkst. Sem
dæmi nefnir hann að yfirvöld á Möltu stýri enn
vinnumarkaði landsins og að skilyrði fyrir hús-
næðiskaupum í landinu séu enn í gildi. Þá hafi
verið veitt undanþága varðandi reglur um fóst-
ureyðingar, en það er hitamál á hinni kaþólsku
eyju.
Í sérstökum viðauka við aðildarsamninginn
var tekið fram að Malta væri óbundin af lög-
gjöf ESB þar að lútandi. „Það er mögulegt að
semja sem smáríki við ESB svo lengi sem
menn vita hvað þeir vilja,“ segir Pace.
Sérfræðingur frá Möltu lýsti reynslunni af aðildarviðræðum við Evrópusambandið
Morgunblaðið/Jim Smart
Doktor Roderick Pace með plakat Evrópusamtakanna í bakgrunni.
Eftir Árna Helgason
arnihelgason@mbl.is
72 undanþágur í samningum við ESB
INNHEIMTAR tekjur ríkissjóðs
á tímabilinu janúar til júní 2005
námu 165,5 milljörðum króna og
hækkuðu um 32 milljarða frá sama
tíma í fyrra, eða um tæp 24%. Þar
af námu skatttekjur ríkissjóðs um
148 milljörðum króna sem er
18,7% hækkun frá sama tíma í
fyrra. Þetta kemur fram í vefriti
fjármálaráðuneytisins.
Skattar á tekjur og hagnað
námu 48,7 milljörðum króna á
tímabilinu, sem er 15,5% hækkun
frá fyrra ári. Þar af hækkuðu
tekjur af tekjuskatti einstaklinga
um 10,3% en skatttekjur vegna
lögaðila drógust saman um 1%.
Tekjur af fjármagnstekjuskatti
jukust umtalsvert milli ára eða um
54%, sem er rakið til aukinna fjár-
magnstekna af arði og vaxta-
tekjum.
Greidd gjöld ríkissjóðs námu
151,9 milljörðum króna á tíma-
bilinu janúar til júní 2005. Hækk-
uðu þau um 13,5 milljarða frá
fyrra ári. Þar af eru 5,7 milljarðar
tilkomnir vegna innlausnar spari-
skírteina í apríl.
„Útgjöld til félagsmála, þ.e.
vegna almannatrygginga, fræðslu-
og heilbrigðismála, vega lang-
þyngst í útgjöldum ríkissjóðs, eru
96 milljarðar sem er 63%,“ segir í
vefriti ráðuneytisins. Hækka þessi
útgjöld um 6,9 milljarða á fyrstu
mánuðum þessa árs miðað við árið
á undan.
Tekjur af fjármagns-
tekjuskatti aukast
TALSVERT vinnutap varð á bygg-
ingarsvæði Alcoa í Reyðarfirði í gær
en að sögn mótmælenda sem fóru inn
á svæðið var það einmitt markmið
þeirra. Þeir starfsmenn Bechtel sem
voru við vinnu á svæðinu í gærmorg-
un þegar mótmælaaðgerðir hófust
voru allir fluttir þaðan á brott en þeir
voru á annað hundrað. Að sögn
Björns S. Lárussonar, samskiptafull-
trúa verktakafyrirtækisins Bechtel,
var öll vinna stöðvuð þar til gengið
hafði verið úr skugga um að allir mót-
mælendur væru farnir af svæðinu.
Hann segir vinnu á svæðinu hafa
stöðvast í nákvæmlega fjórar stundir
en ekki sé enn ljóst hvert vinnutapið
hafi orðið. Talan tvær milljónir á
klukkustund hafi verið nefnd en það
geti allt eins verið fjarstæða.
Áhyggjur af mótmælendunum
„Okkar ákvörðun var að kæra at-
hæfið ekki,“ sagði Hrönn Pétursdótt-
ir, kynningarstjóri Alcoa Fjarðaáls.
Aðspurð segir hún öryggisgæslu
kringum byggingarsvæðið ekki hafa
verið mikla hingað til en hins vegar
mikið lagt upp úr að þau sem vinna
innan þess meiðist ekki. Svæðið sé til-
tölulega lítið en að sama skapi mikið
að gerast þar og mörg stór tæki á
ferðinni. „Það sem gerist í dag er að
fólk fer inn á svæðið, sem við vitum
ekki af til að byrja með og vitum ekki
hvar það er. Það fólk þekkir ekki um-
gengnisreglur sem gilda á svæðinu
og hefði getað meiðst. Það fer upp í
mjög háa krana í vindhraðanum 15
m/s og mikilli rigningu. Við höfðum
því áhyggjur af því að fólkið í krön-
unum yrði sjálfu sér til skaða.“
Í yfirlýsingu aðstandenda mót-
mælanna segir að aðgerðin sé ein af
mörgum sem ráðist verði í gegn Al-
coa og öðrum fyrirtækjum á sama
sviði á Íslandi og víðar um heiminn.
Einnig segir að markmiðið með að-
gerðunum hafi verið að koma í veg
fyrir að vinna gæti farið fram á svæð-
inu. „Aðgerðunum er beint gegn Al-
coa vegna þátttöku fyrirtækisins í
stíflugerðinni við Kárahnjúka og öðr-
um fyrirhuguðum stíflugerðum og ál-
bræðslum á Íslandi og eyðileggingu á
umhverfi víða um heiminn.“
Ólafur Páll Sigurðsson, mótmæl-
andi við Kárahnjúka, tók ekki þátt í
aðgerðunum en varð vitni að fyrstu
handtökunni, á stúlku sem hljóp út af
svæðinu og í átt að bíl sem hann sat í.
„Lögreglan greip hana fantatökum
með miklu offorsi. Handtakan var
óblíð þrátt fyrir að fólkið hefði áður
ákveðið að veita enga mótspyrnu við
handtöku.“ Ólafur sagði að síðast
þegar mótmælendur hefðu verið yf-
irheyrðir, fyrir nokkrum dögum,
hefðu yfirheyrslur staðið yfir í ein-
hverjar átta stundir. „Fólkið var
svelt og kona varð mjög veik vegna
blóðsykurfalls en fékk þó ekki að
borða.“
Gunnar Hjaltason, íbúi á Reyðar-
firði, kvaðst vera afar ósáttur við at-
hæfi mótmælendanna. „Það er ægi-
lega ömurlegt að horfa á þetta,“ sagði
Gunnar en hann ræddi við nokkra af
mótmælendunum sem voru íslenskir.
„Það er í lagi að þeir hafi sína skoðun.
En þeim finnst þeir geta vaðið inn á
vinnusvæði sem er lokað, farið upp í
krana og gert hvað sem er. Það er
náttúrulega það ömurlega í þessu.“
Gunnar ætlaði, ásamt félaga sín-
um, að draga bifreið mótmælenda í
burtu og batt við hana tóg í þeim til-
gangi. Ekkert varð þó úr drættinum
þar sem lögregla kom að, stöðvaði at-
hæfið og færði Gunnar á brott.
Markmiðið var að
stöðva vinnu við álverið
Morgunblaðið/Helgi Garðarsson
Lögregla leiðir mótmælendur á brott frá byggingarsvæði Alcoa í Reyðarfirði í gær.
Mótmælendur fóru inn á byggingarsvæði Alcoa í Reyðarfirði