Fréttablaðið - 28.02.2004, Blaðsíða 16

Fréttablaðið - 28.02.2004, Blaðsíða 16
16 28. febrúar 2004 LAUGARDAGUR Ég eignaðist barn þegar égvar nítján ára og í kjölfarið einangraði ég mig og þá byrjaði þetta,“ segir þrítug kona sem Fréttablaðið ræddi við, en hún hefur átt við ofát að stríða. Hún er nú félagi í OA-samtökunum á Íslandi, sem heita fullu nafni Overeaters Anonymous, og eru samtök þeirra sem glíma við ofát eða aðrar átraskanir. Ofát og aðrir erfiðleikar tengdir mataræði eru vaxandi heilbrigð- isvandi í heiminum og er Ísland ekki undanskilið. OA-samtökin byggja á 12 spora kerfi, áþekku því sem AA-samtökin notast við til að glíma við áfengisvanda. Viðmælandi Fréttablaðsins hefur athyglisverða sögu að segja af vanda sínum. Sam- kvæmt reglum OA-samtakanna má konan ekki láta nafns síns getið. Hún segist hafa byrjað að borða eftir fæðinguna og eftir að hún hafði einangrað sig. „Ég veit ekki alveg af hverju það var,“ segir hún. „Kannski var það til að deyfa einhverjar til- finningar. Ég byrjaði að narta í eitthvað á hverju kvöldi og svo jókst þetta með hverjum degin- um. Innan tveggja ára var ég komin með mat á heilann og borðaði endalaust. Það komst ekkert annað að en matur. Þegar ég vaknaði á morgnana snerist allt um hvað ég ætlaði að borða, hvenær, með hverjum, hve mik- ið,“ segir konan. Á þessum árum var viðmæl- andi Fréttablaðsins í háskóla- námi og gat ekki sinnt því sem skyldi. „Ég var meira að stúdera mat en námið. Ég var komin með þráhyggju fyrir mat og út- liti. Ég fór því í megrun og náði af mér nokkrum kílóum en bætti á mig strax aftur. Þetta var orð- inn vítahringur um útlitið og þyngdina,“ segir konan. Öfundaði anorexíusjúklinga Í stað matarþráhyggjunnar hjá konunni fór allt að snúast um megrun. „Ég var í svo mikl- um vítahring að ég öfundaði fólk sem var með búlemíu og anorex- íu. Ég reyndi meira að segja að æla. Ég skiptist því á að borða of mikið og svelta mig. Ég svelti mig í nokkra daga en tók svo át- köst þess á milli.“ Stjórnleysi konunnar varð al- gjört næstu ár á eftir. „Eftir há- skólanámið var þetta farið að stjórna lífi mínu algjörlega. Ég gat ekki sinnt vinnunni almenni- lega. Ég var annaðhvort búin að borða alltof mikið og var því of þreytt til að gera eitthvað, eða búin að svelta mig það mikið að ég hafði enga orku. Ég gat held- ur ekki einbeitt mér, gat ekki sinnt dóttur minni, vinum og það mátti enginn vita af þessu.“ Skipulagður feluleikur Konan segir ástand hennar hafa verið mjög mikið feimnis- mál, en það eigi félagar í OA all- ir sameiginlegt. Hún faldi fíkn sína ekki aðeins fyrir vinum og ættingjum heldur einnig starfs- fólki í matvöruverslunum. „Ég fór í margar búðir svo af- greiðslufólkið gæti ekki vitað hvað ég var að borða. Ég skipu- lagði hvað ætti að kaupa í hverri búð. Það fór jafn mikil orka í að undirbúa og skipuleggja ofátið eins og fyrir alkóhólistann að ná sér í drykki.“ Sjálfsmat konunnar varð lítið sem ekkert í kjölfar sjúkdóms- ins. „Mér fannst ég vera ógeðs- leg, að hafa ekki stjórn á hlutum sem aðrir höfðu stjórn á,“ segir hún og bætir við að mikið þung- lyndi fylgi sjúkdómnum. „Ég var í læknisrannsóknum í ár af því ég vissi að það væri eitthvað að mér en ég gat aldrei sagt lækninum hvað ég borðaði mik- ið.“ Frétti af OA fyrir tilviljun Árið 2001, sjö árum eftir að sjúkdómurinn fór að gera vart við sig, frétti konan fyrir tilvilj- un af OA-samtökunum, þegar hún var að hlusta á útvarpið. „Þar var kona að lýsa AA, OA og öðrum tólf spora samtökum. Þar lýsti hún meðal annars ofætu og mér fannst hún vera að lýsa mér. Um skömmina og stjórn- leysi í mat. Ég þorði ekki að gera neitt eftir að ég heyrði þáttinn en svo frétti ég af því að frænka mín væri í samtökunum og hún tók mig með sér á fund. Þar fann ég lausnina.“ Konan kynntist þar fólki sem átti við sama vandamál að stríða og hún. Þar komst hún í fráhald en það er matarplan O A - s a m t a k - anna. „Með frá- haldinu sleppi ég að borða matartegundir sem ég þoli ekki, svo sem sykur og önnur sætindi. Nú borða ég þrisvar á dag, fæ mér bara einu sinni á diskinn og stundum milli- bita. Ég borða eins og annað fólk, bara ekki sykur,“ segir konan og bætir því við að með hjálp OA-félaga hafi hún fengið stuðning til að vera í fráhaldinu. Allt annað líf Konan tók einnig reynslusporin tólf og við það breyttist líf hennar. „Ég hef náð stjórn á matar- venjunum og svo hef- ur allt annað í kring- um mig breyst. Mér gengur vel í vinnunni, er farin að taka ábyrgð á mér og dóttur minni, og er farin að lifa lífinu aftur,“ segir konan en áður hafði hún veigrað sér við að borga reikn- inga og jafnvel að fara til lækn- is. „Þessi sjúkdómur einangraði mig algjörlega. Ég tók ekki þátt í lífinu, fór til dæmis ekki í leik- hús því mér fannst ég vera of feit og átti engin föt til að fara í. Ég var of upptekin af því að spá hvað öðrum fannst um mig. Ég veit í dag að öllum er nákvæm- lega sama,“ segir hún og skellir upp úr. „Það hefur allt breyst. Ég er betri mamma, er aftur komin í samband við fjölskyldu mína og tek þátt í þeirra lífi.“ Matur gengur fyrir öllu Konan sækir nú tvo til þrjá OA-fundi í viku og segir þá bráð- nauðsynlega. „Ef ég hætti að mæta á fundi finn ég strax hvernig hausinn reynir að selja mér hugmyndir um að það sé allt í lagi að borða. Þá getur epli mjög auðveldlega orðið að stóru súkkulaðistykki. Ég hef reynslu af því að mæta ekki á fundi og falla. Þá þurfti ég að byrja allt upp á nýtt.“ Konan segir matarfíknina vera þá sömu og aðra, til dæmis áfengis- eða vímuefnafíkn. „Þetta er alveg sama fíknin og jafn sterk. Fólk sem á við matar- fíkn að stríða lætur hana ganga fyrir öllu. Það kaupir sér frekar mat en að borga húsaleiguna.“ OA-samtökin á Íslandi standa fyrir kynningarfundi að Selja- vegi 2, í húsi Al-Anon samtak- anna, á morgun klukkan 14–16. kristjan@frettabladid.is OA-samtökin (OvereatersAnonymous) voru upphaf- lega stofnuð í Bandaríkjunum í janúar árið 1960. Kona að nafni Rosanne hafði setið fundi hjá Gamblers Anonyomous, sam- tökum gegn spilafíkn, og ákvað að yfirfæra tólf skrefa kerfi þeirra yfir á matarfíkn. Kerfi OA-samtakanna er byggt á samskonar kerfi og AA-sam- tökin nota en í stað orðanna „áfengi“ og „alkóhólisti“ eru notuð orðin „matur“ og „hömlulaus ofæta“. Meginmarkmið samtakanna er að halda félögum frá hömlu- lausu ofáti og bera boðskap samtakanna til þeirra sem þjást af matarfíkn. Þó eru einnig í félaginu fólk sem á við annarskonar átraskanir að stríða, svo sem anorexíu- og búlemíusjúklingar. OA-samtökin á Íslandi voru stofnuð árið 1982. Ekki er til nein skrá um fjölda félaga en þeim hefur fjölgað gríðarlega síðustu ár. Að staðaldri sækja um 40–50 manns fundi, frá sextán ára aldri og upp úr. OA heldur fundi alla daga vikunnar, nema föstudaga, að Tjarnargötu 20 í Reykjavík. Einnig eru haldnir fundir á vegum samtakanna í Hafnar- firði, Akureyri, Þorlákshöfn og Hvolsvelli. ■ OFFITA Ofát og offita eru vax- andi heilbrigðisvandamál í heiminum öllum. Tekið skal skýrt fram að þessi mynd er ekki af viðmæl- anda Fréttablaðsins, enda er það svo að offita þarf ekki endilega að fylgja ofáti. Ofát er fíkn. „Fólk sem á við matarfíkn að stríða lætur hana ganga fyrir öllu,“ segir viðmæl- andi Fréttablaðsins. „Það kaupir sér frekar mat en að borga húsa- leiguna.“ Ég fór í margar búðir svo af- greiðslufólkið gæti ekki vit- að hvað ég var að borða. Ég skipulagði hvað ætti að kaupa í hverri búð. Það fór jafn mikil orka í að undir- búa og skipuleggja ofátið eins og fyrir alkóhólistann að ná sér í drykki.“ ,, Ofát getur tekið á sig mynd stjórnlausrar fíknar, sem fólk glímir við svo árum skiptir. Manneskja sem hefur átt við slíka fíkn að stríða, og er meðlimur í OA-samtökunum á Íslandi, talar um reynslu sína í viðtali við Fréttablaðið. Erfiðleikar tengdir mataræði eru sívaxandi heil- brigðisvandi í heiminum. Mér fannst ég vera ógeðsleg Samtök hömlulausra ofæta

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.