Fréttablaðið - 31.07.2004, Síða 20
20 31. júlí 2004 LAUGARDAGUR
Fyrir tíu árum fór Maríus Sverr-
isson, þá tvítugur, til Vínarborgar
til að stunda nám við Tónlistarhá-
skólann þar í borg. Síðan þá hefur
hann leikið í kabarettum og leik-
ritum í Austurríki og Þýskalandi.
Fyrsta stóra verkefnið sem hann
tók þátt í var uppfærsla á söng-
leiknum Kabarett í Vínarborg þar
sem þekktir þýskir og austurrísk-
ir leikarar voru í aðalhlutverkum.
„Það var mikil upplifun að vinna
með því frábæra fólki og hafa lít-
ið og skemmtilegt hlutverk í sýn-
ingunni. Það nægði mér alveg,“
segir hann.
Hann vann síðan stórsigur í
hlutverki Jim Farrell í söngleikn-
um Titanic sem sýndur var í Ham-
borg við gríðarlega góðar viðtök-
ur. Sýningin gerði Maríus að
stjörnu í þýskum leikhúsheimi.
Eftir frumsýningu samdi annar
höfundur söngleiksins sérstakt
aukalag fyrir Maríus og mót-
leikkonu hans. „Ég mæli vel-
gengni á sérstakan hátt,“ segir
Maríus. „Það er yndislegt ef mað-
ur nær samblandi af vinnuham-
ingju og velgengni. Slíkt stendur
þó ekki til langframa heldur kem-
ur og fer alveg eins og flóð og
fjara. Maður á kannski eitt eða
tvö ár þar sem allt gengur vel en
svo þarf maður að fara í eins kon-
ar sjálfskoðun og íhuga næstu
skref.“
Uppfylling draums
Hann segist ekki ætla að sérhæfa
sig í leik í söngleikjum. „Mér
finnst gaman að leika í söngleikj-
um en það er of einhæft að taka
eingöngu þátt í þeim. Það er nauð-
synlegt fyrir listamenn að geta
gefið af sér. Ef listamenn geta það
ekki, eru of bældir eða kunna ekki
aðferðina, þá fara þeir að taka
orku frá umhverfinu í stað þess að
gefa af sér. Þá verður fólk sjálf-
hverft og erfitt í umgengni. Mín
reynsla er sú að því lengra sem
fólk hefur náð því þægilegra er
það í umgengni. Auðvitað eru
undantekningar frá þessu.
En ég held samt að þegar mað-
ur er óöruggur og stefnir að tak-
marki sem maður veit ekki hvern-
ig maður á að ná þá er maður full-
ur af minnimáttarkennd og það
bitnar á öðrum. Öfgarnar eru oft
svo miklar hjá listamönnum sem
eru að hefja ferilinn. Einn daginn
finnst þér þú vera ömurlegur og
ekkert kunna og annan daginn
finnst þér þú vera svo góður að þú
heldur að þú getir gengið á vatni.
Jafnvægið milli þessara tilfinn-
inga kemur með tímanum.“
Það er nærtækt að spyrja hann
hvort velgengni hans í Titanic sé
ekki uppfylling á draumi. „Ég er
þrítugur og hugsa ekki lengur
eins og þegar ég var tvítugur,“
segir Maríus. „Þá fór ég út í heim
með draum og takmark og auðvit-
að má segja að Titanic sé uppfyll-
ing þess draums. Sá draumur
fjallaði um það að standa á sviði í
risastóru leikhúsi fyrir framan
2000 manns með mömmu og
pabba í salnum og vera í aðalhlut-
verki. Allt þetta gerðist í raun-
veruleikanum og meira til því að í
salnum sátu Liza Minnelli, Gina
Lollobrigida og Sophia Loren. Það
var ekki einu sinni pláss fyrir þær
í draumnum mínum, þannig að
þetta kenndi mér að maður á ekki
að láta sig dreyma mjög mikið því
maður hefur ekki nógu mikið
ímyndunarafl til að sjá fyrir hvað
gerist í lífinu. Eftir Titanic fannst
mér kominn tími til að slaka á og
íhuga. Ég hefði getað farið í næsta
söngleik og rúllað því batterí
áfram. En ég fann og vissi að ég
þyrfti að gera eitthvað fyrir mig,
eins og að syngja tónlistina sem
mig langar til að syngja.“
Lífið sem dragdrottning
Hann syngur tónlistina sem hann
vill syngja á nýjum geisladisk,
Mobile. „Þetta eru lög héðan og
þaðan,“ segir hann. „Þau eru
kannski ekki öll í hópi uppáhalds-
laga minna en allt eru þetta lög
sem ég tengi mig við á einn eða
annan hátt.“ Hann fylgir disknum
eftir með tónleikum sem verða
föstudaginn 6. ágúst í Loftkastal-
anum og tengjast opnun Hinsegin
daga en auk hans koma þar fram
skemmtikraftar frá San
Francisco.
Á tíunda áratugnum skemmti
Maríus á dragsýningum á
skemmtistaðnum Moulin Rouge
ásamt vini sínum Páli Óskari
Hjálmtýssyni. „Við Palli gerðum
þetta á sínum tíma en við hefðum
alls eins getað verið í rokkbandi
eða pönkhljómsveit. Við þurftum
að fá útrás fyrir sköpunargleði og
þetta var ein aðferð til þess. Við
vorum ungir og höfðum mjög
gaman af þessu. Ég man ekki eftir
öllu á þessu tímabili en ég man að
við hlógum alveg óskaplega mik-
ið. Þetta var reynsla sem nýttist
mér mjög vel úti þegar ég fór að
starfa í leikhúsinu, til dæmis þeg-
ar ég lék í La Cage aux Folles í
Þýskalandi. Ég er ekki viss um að
ég hefði getað gert það eins vel
nema af því ég hafði prófað að
vera í dragi og vissi hvernig það
væri. Í bíómyndinni Strákarnir
okkar er ein sena sem gerist á
Hinsegin dögum þar sem ég kem
niður Laugaveginn í gervi Victor-
iu Beckham.“
Ganga fyrir manneskjuna
Hinsegin dagar eru haldnir 6.-7.
ágúst og þá er mikið um dýrðir í
höfuðborginni. „Þetta er lítið land
en hálf borgin mætir á hátíðina og
gengur með í Pride-göngunni,“
segir Maríus. „Mér finnst fallegt
að Pride-gangan sé orðin ganga
fyrir manneskjuna. Hún er tákn
fyrir stolt. Stolt fólks fyrir að
vera öðruvísi og fá að vera til.
Þetta eru ekki bara hommar og
lesbíur að koma út úr skápnum.
Íslendingar, fólkið, er að koma út
úr skápnum sem þau sjálf og sýna
hluta af sjálfum sér sem þau þora
kannski ekki að sýna. Það finnst
mér fallegt.
Annars er ég orðinn leiður á
því að verið sé að búta fólk niður í
samkynhneigt eða gagnkyn-
hneigt. Við erum lítið þjóðfélag og
erum oft upptekin við ýta fólki
burt. Við höldum að þannig séum
við að skapa okkur rými en það
virkar ekki þannig. Við eigum að
taka fólki eins og sjálfsögðum
hlut. Á sama tíma og verið er að
reyna að steypa alla í sama mót er
talað um gráa tilveru. Auðvitað er
hún grá ef allir þurfa að vera eins
og enginn má gera neitt öðruvísi.“
Maríus er samkynhneigður.
Spurður hvort það sé erfitt segir
hann: „Ég held að sumt fólk haldi
að það sé þjáning en það er ekki
þannig heldur er það einmitt mjög
gaman. Það er ekki að ástæðu-
lausu að þetta er kallað „að vera
gay“. En lífið hjá samkynhneigð-
um er eins og hjá öllum öðrum
manneskjum, það koma hæðir og
lægðir. Fólk þarf alltaf að horfast
í augu við sjálft sig og það er ekk-
ert erfiðara eða auðveldara fyrir
samkynhneigða en annað fólk.
Þetta er eins og að spyrja: Er
erfitt að vera manneskja? Svarið
er að það er erfitt fyrir suma en
auðvelt fyrir aðra.“
Maríus hefur búið erlendis í tíu
ár en segist ætla að dvelja hér á
landi fram á haust. „Ég vil ekki
glata tengingu við Ísland og það
er ástæðan fyrir því að ég er
heima núna. Mér fannst ég verða
að koma heim. Hérna á ég vini
sem ég hef átt síðan ég man eftir
mér. Það er ekkert sem jafnast á
við æskuvini. Maður þarf ekki að
útskýra neitt fyrir þeim, maður
þarf ekki einu sinni að tala, þeir
skilja allt.“
List er samræða
Hann hefur nóg að gera, er að
leika í kvikmyndinni Strákarnir
okkar og í haust verður hann ein-
söngvari á tónleikum Sinfóníu-
hljómsveitar Íslands og leikur síð-
an í söngleiknum Sweeney Todd í
uppsetningu Íslensku óperunnar.
Hann segist ekkert vera að velta
því fyrir sér hvort hann sé stjar-
na. „Ef fólk segir við mig: „Mér
finnst þú vera listamaður“ þá
nægir mér það alveg. Ástæðan
fyrir því að fólk sem kemur fram
opinberlega kemur fram í fjöl-
miðlum er ekki til að vera stimpl-
að sem stjarna heldur til að aðrir
viti af þeim og list þeirra. Öll list
er samræða milli listamannsins
og móttakandans. Ef ég syng í
baðkerinu heima hjá mér þá getur
vel verið að söngur minn sé list en
hver ætlar að segja það ef enginn
heyrir til mín.
Það hljómar kannski eins og
AA-prógram þegar ég segist taka
einn dag í einu. En þannig er það.
Ég veit ekkert hvað mun gerast.
Það eina sem ég get stefnt að er að
verða eins trúr sjálfum mér og ég
get. Það er hættulegt þegar fólk
setur sér það markmið að verða
stjarna. Ég held að það sé stund-
um þannig í lífinu að það sem
maður sækist mest eftir í upphafi
reynist vera stærsta lygin. En það
má kannski segja að allt sem mað-
ur gerir sé ákveðin ferð. Ef maður
hefur ekkert takmark þá nýtur
maður ekki leiðarinnar en tak-
markið má samt ekki skyggja á
ferðina sjálfa. Ef takmarkið er að
syngja á Wembley-leikvanginum
þá eru tónleikarnir þar búnir eftir
tvo tíma. Þú getur ekki eytt öllu
lífinu í þessa tvo klukkutíma, það
væri svo mikil synd. Leiðin er tak-
markið og svo er árangurinn rús-
ínan í pylsuendanum. Ef þú ert
heppinn þá færðu rúsínuna. Ef
ekki þá kaupirðu þér aðra pulsu.
En mér finnst alltaf jafn merki-
legt að sjá fólk fara í ferð til að
fylgja eftir því sem það vill gera.
Það er svo gaman að sjá mann-
eskjur ganga leiðina sína.“
kolla@frettabladid.is
MARÍUS SVERRISSON „Ég mæli velgengni á sérstakan hátt. Það er yndislegt ef maður nær samblandi af vinnuhamingju og velgengni.
Slíkt stendur þó ekki til langframa heldur kemur og fer alveg eins og flóð og fjara.“
Maríus Sverrisson varð stjarna í Þýskalandi eftir leik sinn í söngleiknum Titanic. Hann er staddur hér á landi og vinnur að ýmsum
verkefnum á listasviðinu.
Ferðin hans Maríusar
MARÍUS SVERRISSON Í HNOTSKURN
Fæddur: 15. nóvember 1973
Stjörnumerki: Sporðdreki
Foreldrar: Margrét Jóhanna Pálmadóttir kórstjóri
og Sverrir Hermannsson athafnamaður
Nám: Listdansskóli Þjóðleikhússins
Tónlistarskólinn í Reykjavík
Söngleikjadeild Tónlistarháskólans í Vín
Helstu hlutverk á sviði: My Fair Lady
Skilaboðaskjóðan
Cabaret
Sound of Music
La Cage aux Folles
Kiss Me Kate
Nafn rósarinnar
Titanic
Næstu verkefni Einsöngvari á opnunartónleikum
Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Hlutverk í Sweeney Todd í uppsetningu
Íslensku óperunnar
Hlutverk í kvikmyndinni Strákarnir okkar
„Ég veit ekkert hvað
mun gerast. Það eina
sem ég get stefnt að er að
verða eins trúr sjálfum mér
og ég get. Það er hættulegt
þegar fólk setur sér það
markmið að verða stjarna.“
,,
FR
ÉT
TA
B
LA
Ð
IÐ
/E
Ó
L