Fréttablaðið - 31.07.2004, Blaðsíða 29
LAUGARDAGUR 31. júlí 2004 21
Í Listasafni Reykjavíkur Hafnarhúsi
stendur yfir einkasýning Þorvaldar
Þorsteinssonar „Ég gerði þetta
ekki“. Auk eigin verka hefur Þor-
valdur safnað saman verkum héðan
og þaðan í viðleitni sinni til að varpa
upp mynd af Íslandi: „Sýningin ein-
kennist af þeirri tröllatrú sem ég hef
á öðrum en sjálfum mér til að búa til
skemmtilega hluti. Mitt hlutverk
hefur oft verið að leiða fólk saman til
að draga það besta út úr öðrum og
sýningin ber þess merki að vera unn-
in í samvinnu við aðila sem unnu
verkin fyrir mig,“ segir Þorvaldur
Þorsteinsson, myndlistarmaður og
rithöfundur.
Einn salur sýningarinnar er til-
einkaður ljósmyndum úr auglýsinga-
herferðum Icelandair sem koma fyr-
fyrir sjónir almennings erlendis.
„Samstarfið við Icelandair er tilkom-
ið vegna þess að mig langaði að gera
eitt heildstætt verk á sýningunni
sem væri dálítið ögrandi. Ég vildi
skoða þá landkynningarmynd sem
Icelandair heldur fram erlendis í
samstarfi við fyrirtækið og setja
þessa mynd í samhengi við þá sjálfs-
mynd sem Íslendingar hafa haft af
sjálfum sér í gegnum tíðina,“ segir
myndlistarmaðurinn.
Auk ljósmyndanna er í salnum
myndin Fjallamjólk eftir Kjarval
sem gæti staðið fyrir sjálfsmynd Ís-
lendinga á fyrri hluta aldarinnar
sem leið. Hún er mjög frábrugðin
myndunum í kring og kemur með
nýja og skerandi mynd inn í rýmið
sem lætur áhorfandann velta því
fyrir sér hvað hún sé að gera þarna
innan um nýlegar ljósmyndir úr
náttúru Íslands.
Frá opnun sýningarinnar hefur ís-
lenskum gestum sýningarinnar verið
boðið upp á að segja skoðanir sínar á
því hver myndanna gefi raunhæfasta
mynd af þeirra sjálfsmynd og hver
þá óraunhæfustu. Tölur yfir skoðanir
gestanna á myndum sýningarinnar
hafa nú verið teknar saman og gefa
skemmtilegan þverskurð af því
hvernig Íslendingar sjá sjálfa sig.
„Ein sönn mynd af Íslandi er auð-
vitað ekki til. Það er kannski niður-
staðan af þessari skoðanakönnun
Þorvaldar. Sannasta myndin sýnir
nútímafólk á hestum úti í náttúrunni,
sú ósannasta höfrung að stökkva,“
segir Guðjón Arngrímson,
upplýsingarfulltrúi hjá Icelandair,
sem segir verk Þorvaldar vel útfært.
„Kannski minnir þetta verk okkur
fyrst og fremst á að enn er sjálfs-
mynd okkar mjög lítið mótuð og þess
virði að halda umræðunni um hana
áfram,“ segir Þorvaldur að lokum.
Hægt er að hafa áhrif á lokaniður-
stöðu könnunarinnar þar til sunnu-
daginn 9. ágúst þegar sýningunni
lýkur.
ingi@frettabladid.is
Sjálfsmynd Íslendinga
STROKKUR Geysir og Strokkur eru hluti af
þeirri ímynd sem við höfum selt erlendis.
Einnig hefur hún haft áhrif hér heima og
telst gefa sanna mynd af landinu.
Þorvaldur Þorsteinsson veltir fyrir sér myndunum í textabrotunum sem fylgja þeim.
HESTAFERÐ Þessi útivistarmynd úr náttúru landsins er sú mynd sem gestir gefa hæstu
einkun sem raunhæfa mynd af Íslandi. „Hrifning fólks af þessari mynd er líklega tvíbent.
Annars vegar raunveruleiki margra sem eru í hestamennsku og hins vegar óskhyggja
þeirra sem vildu að þeir væru meiri Íslendingar.“
HVALUR Þetta er sú mynd sem gestir sýningarinnar segja síst gefa sanna mynd af Íslandi.
„Öðrum þræði er þessi mynd afskaplega dæmigerð fyrir Ísland, hún er í takt við það sem
við erum að selja sem eru hvalskoðunarferðir og einnig er hún táknræn fyrir umræðuna
um íslenskan veruleika. Eigum við að skoða náttúruna eða skemma hana. Eigum við að
skoða hvali eða drepa þá? Eigum við að drekkja hálendinu eða njóta náttúrufegurðarinnar?
Hins vegar er hún dálítið floridaleg, eins og hún hafi verið tekin upp í skemmtigarði á
Florida eða sé tekin úr Disney-mynd. Samt er myndin ekki stílfærð. Kannski er náttúran
miklu fallegri en við þorum að gangast við. Að afneita þessari mynd kemur upp um okkur.“
SKEMMTUN Ein sú mynda sem ekki telst gefa sanna mynd af íslensku lífi er einföld mynd
af skemmtanalífinu. Þrátt fyrir það er Reykjavík, sem djammborg norðursins, ítrekað notað í
markaðsherferðum ferðaskrifstofa erlendis til að selja ferðir til Íslands. Íslendingar eru einnig
kunnir fyrir að vera stolltir af þessum skemmtanastimpli sem Reykjavík hefur.