Fréttablaðið - 01.05.2005, Page 16
D anska fríríkið Kristjanía ímiðborg Kaupmannahafn-ar er komið í sviðsljósið
enn eina ferðina eftir að ungur
maður var skotinn til bana í aðal-
götu hverfisins í síðustu viku.
Árásin var óvenju hrottafeng-
in, en grímuklæddir menn skutu
þar á hóp fólks, meðal annars með
vélbyssu. Auk mannsins sem beið
bana særðust þrír aðrir. Danska
lögreglan telur líklegt að málið
tengist uppgjöri milli hópa glæpa-
manna en þó er ekki talið að fólk-
ið sem skotið var á hafi átt per-
sónulega sökótt við byssumenn-
ina, heldur hafi þeir skotið á það
af handahófi.
Deilur glæpahópanna tengjast
að öllum líkindum átökum vegna
sölu eiturlyfja og þá aðallega á
hassi en Kristjanía hefur um lang-
an aldur verið miðstöð hassversl-
unar í Skandinavíu. Eftir að sala á
hassi fyrir opnum tjöldum á
Pusher Street í Kristjaníu var
bönnuð í fyrra blossuðu upp hat-
römm átök milli glæpagengja um
yfirráð yfir hasssölu í Kaup-
mannahöfn.
Einn maður hefur verið hand-
tekinn vegna árásarinnar en hann
er af íröskum uppruna og tilheyr-
ir einu glæpagenginu. Hann er
aukinheldur eigandi annars
tveggja bíla sem byssumennirnir
flúðu burtu í af vettvangi.
Ýmsir spá því að þessi morð-
árás sé upphafið að endalokum
Kristjaníu en deilur hafa staðið
um tilveru fríríkisins allt frá til-
urð þess fyrir 34 árum. Og reynd-
ar hefur endalokum þess verið
margspáð gegnum tíðina.
Ein milljón ferðamanna árlega
Upphafið að Kristjaníu má rekja
aftur til síðari hluta sjöunda ára-
tugar síðustu aldar. Þá fóru íbúar
Kristjánshafnar, en svo heitir
hverfið sem Kristjanía er í, að
ásælast svæði í hverfinu sem
danski sjóherinn hafði yfirráð
yfir. Vildi fólkið fá að nýta það
sem útivistar- og leiksvæði fyrir
sig og börn sín.
Svæðið samanstóð af misgöml-
um húsum og náði alls yfir 34
hektara. Húsin stóðu að mestu auð
og þegar borgaryfirvöld sinntu í
engu óskum íbúanna fór fólk að
setjast að í húsunum í leyfisleysi
og banni. Yfirvöld létu þetta
óáreitt til að byrja með en þegar
æ fleiri fóru að gera sig heima-
komna í hverfinu var ákveðið að
hrekja fólkið á brott.
Þessi áform mættu hins vegar
mikilli andstöðu, ekki aðeins
meðal íbúa Kristjánshafnar, held-
ur líka þorra íbúa Kaupmanna-
hafnar, en á þessum tíma gekk
mikil frjálsræðisbylgja yfir
Vesturlönd í kjölfar stúdentaupp-
reisnanna í París, Berlín og víðar
sumarið 1968.
Dönsk yfirvöld sáu að lokum
sitt óvænna og haustið 1971 hafði
sjóherinn sig á brott með allt sitt
hafurtask frá Kristjaníu. Er litið á
26. september 1971 sem formleg-
an stofndag fríríkisins Kristjaníu.
Það hefur alla tíð verið umdeilt
og þurft að berjast fyrir tilveru
sinni, en um leið verið vinsæll
ferðamannastaður, líklega sá vin-
sælasti fyrir utan Tívolí. Áætlað
er að um ein milljón ferðamanna
heimsæki Kristjaníu árlega en
íbúar eru um eitt þúsund manns.
Hassverslunin eilíft deiluefni
Einn af fylgifiskum frelsisbylgju
hippaáranna kringum 1970 var
frjálslegt viðhorf til neyslu á
kannabisefnum. Dönsk stjórnvöld
á þessum tíma voru afar umburð-
arlynd í þessum efnum og því
varð Kristjanía fljótlega miðstöð
hassverslunar í Kaupmannahöfn
og jafnvel allri Skandinavíu.
Brátt urðu þessi viðskipti þó
mikill þyrnir í augum danskra
yfirvalda og hafa verið það alla
tíð síðan og um leið einn helsti
ásteytingarsteinn íbúa fríríkisins
og borgaryfirvalda í Kaupmanna-
höfn.
Deilur um þessa verslun hafa
líka verið tilefni innbyrðisátaka
meðal íbúa Kristjaníu hvað eftir
annað og af síðustu fréttum að
dæma virðist ekkert lát þar á.
Lögreglan í Kaupmannahöfn
hefur hvað eftir annað látið til
skarar skríða gegn eiturlyfjasölu
í Kristjaníu en án verulegs árang-
urs. Þegar við blasti að ríkisstjórn
borgaraflokkanna í Danmörku
sem tók við eftir kosningarnar
2001 myndi gera alvöru úr því að
rýma Kristjaníu ef ekki yrði tekið
á þessum vanda sáu sölumenn-
irnir sitt óvænna og fjarlægðu
hassverslanir sínar af Pusher
Street.
Sú aðgerð hefur þó fjarri orðið
til þess að útrýma þessari verslun
úr Kristjaníu. Hún hefur þess í
stað horfið undir yfirborð jarðar
og í kjölfarið leitt af sér þau átök
glæpahópa sem nú ógna tilveru
Kristjaníu.
Lögreglan hefur brugðist af
hörku við þessu og má segja að
umsátursástand hafi ríkt í Kristj-
aníu undanfarna daga. Lögreglan
hefur haft þar mikinn viðbúnað og
handtekið fjölda fólks fyrir að
hafa hass í fórum sínum og ýmis
önnur smáafbrot. Hafa tugir þurft
að gista fangageymslur lögregl-
unnar vegna þessa.
Óveðursskýin hrannast upp
En það eru ekki bara átök glæpa-
hópa sem skapa óvissu um fram-
tíð Kristjaníu. Stjórnvöld vilja
koma skikki á húsnæðismál í
hverfinu, rífa gömul og úr sér
gengin hús og byggja ný í stað-
inn. Þessu eru íbúar Kristjaníu
ekki mótfallnir en deilur standa
hins vegar um eignarfyrirkomu-
lag.
Heimamenn, sem eru sam-
eignarfólk að upplagi, vilja hafa
þann háttinn á áfram en stjórn-
völd vilja að hús og íbúðir verði í
eigu einstaklinga eins og gengur
og gerist annars staðar í Dan-
mörku. Og þau vilja enn fremur
að íbúar Kristjaníu leggi fram
kröfur um eignarhluta sína í
öðrum húsum í hverfinu, og hafa
gefið þeim frest til 1. júlí að skila
þeim inn. Þessu hafna íbúarnir
með öllu og er við búið að dóm-
stólar verði að skera úr um þetta.
Mikilvægasti þátturinn í að
Kristjanía fái að lifa er þó fólginn
í stuðningi almennings við frírík-
ið, sem hefur verið mikill alla tíð.
Vaxandi ofbeldi og glæpastarf-
semi í Kristjaníu mun þó án efa
grafa undan þessum stuðningi og
létta þar með róðurinn fyrir þá
sem vilja koma Kristjaníu fyrir
kattarnef. ■
16 1. maí 2005 SUNNUDAGUR
Ofbeldi ógnar framtíð Kristjaníu
PUSHER STREET Í KRISTJANÍU Það var á þessum slóðum í Kristjaníu sem ungur maður var skotinn til bana í síðustu viku. Lögreglan hefur haft mikinn viðbúnað á svæðinu síðan.
Skotárás og morð á götu úti í Kristjaníu stefnir
framtíð þessa 34 ára gamla fríríkis í miðborg
Kaupmannahafnar í voða. Lögregla handtekur fólk
í stórum stíl fyrir kannabisnotkun. Yfirvöld vilja
uppbyggingu hverfisins og breytingar á eignarfyrir-
komulagi fasteigna. Sigurður Þór Salvarsson kynnti
sér sögu Kristjaníu og framtíðarhorfur fríríkisins.