Fréttablaðið - 01.05.2005, Síða 55

Fréttablaðið - 01.05.2005, Síða 55
SUNNUDAGUR 1. maí 2005 19 Ekki fórn sem gefur gleði „Þetta er kærkomin viðurkenning. Ég hef verið í þessu sambandi ára- tugum saman, auk þess að vera fyrsti formaður þess,“ segir Björn Th. Björnsson um viðurkenning- una, en hann var formaður og vara- formaður Rithöfundasambands Ís- lands frá 1958 til 1964, auk þess að kenna myndlistarsögu við Mynd- lista- og handíðaskóla Íslands, Kennaraháskóla og Háskóla Ís- lands, en Björn stundaði nám í listasögu við Edinborgarháskóla, Lundúnaháskóla og Kaupmanna- hafnarháskóla frá 1943 til 1949. „Listasaga er auðvitað saga í sjálfu sér, og ég hef alltaf verið áhugasamur um sögur. Þess vegna sveigðist ég til þess að skrifa sögu- legar skáldsögur og er núna með eina viðamikla í smíðum. Ég reyni að skrifa á hverjum degi og vonast til að mér endist heilsa til að klára bókina fyrir haustið. Þá gæti hún litið dagsins ljós í kringum jólin.“ Björn segir listasögu hafa verið besta grunninn fyrir rithöfunda- starfið. „Því hún snertir meira en bara myndir á vegg. Hún snertir fatnað og atferli fólks, tísku hvers tíma, húsgögn og híbýli. Listasaga er óskaplega vítt fag sem gott er að byggja á og getur hjálpað mikið, auk þess að vera rík af merkum heimildum.“ Birni finnst lítil breyting felast í því að vera rithöfundur nú til dags eða fyrr á hans ferli. „Breytingin er ekki mikil nema hvað áhugi á nýjum bókum var miklu meiri fyrir þrjátíu, fjörutíu árum síðan. Þegar ég skrifaði Virk- isvetur og sigraði í skáldsögusam- keppni Menntamálaráðs 1959 var ákaflega mikill áhugi fyrir nýjum bókum, sem ég skynja ekki jafn mikinn nú. Það skrifast sennilega á áhugatvístring í þjóðfélaginu. Það er orðið um svo margt að velja.“ Hugrekki um hjartans mál Fríða Á. Sigurðardóttir segir viður- kenninguna ákaflega ánægjulega, enda sé almennt skemmtilegt að vera rithöfundur þótt henni hafi ekki þótt sá bransi álitlegur á þrí- tugsaldrinum þegar hún leit til starfa systur sinnar og samskáld- konu Jakobínu Sigurðardóttur. „En ég gat ekki annað en skrif- að. Ég var búin að prófa allt mögu- legt áður en komst ekki undan þessu. Ég var byrjuð að skrifa löngu áður en ég fór að gefa út og var eitt sinn á leiðinni með smá- sagnasafn til Ólivers Steins útgef- anda hjá Skuggsjá, sem vildi fá það óséð. Þegar ég var komin í kápuna varð mér hugsað hvað í ósköpunum ég væri að fara að gera. Fannst rit- höfundabransinn satt að segja ekki mjög spennandi, klæddi mig úr kápunni, fór aftur inn og beið í tíu ár,“ segir Fríða og hlær að minn- ingunni. Segir að hugrekki þurfi til að leggja fram sín hjartans mál. „Það var mikið meira um illdeil- ur og persónulegri hörku hér áður fyrr á milli höfunda, en nú er þetta orðið mun friðsamlegra. Það skipt- ir máli því þetta er nógu andskoti erfitt þótt höfundar séu ekki að ýfast hver við annan. Rithöfundar- starfið er oft ansi mikill þrældóm- ur og maður verður að gefa allt sem maður á. En ég kalla það ekki fórn sem gefur manni gleði, heldur gjöf, því það eru forréttindi að vinna við eitthvað sem gefur manni mikla ánægju, þótt rithöfunda- starfið sé vart eftirsóknarvert í dag nema maður skrifi metsölu- bækur,“ segir Fríða og skellir upp úr. Hún segist vera með skáldsögu í smíðum sem hún vonist til að geta einhvern tímann klárað. „Ég er langt komin með bókina, en ef ég klára hana ekki í ár þá hendi ég henni. Það endar með því að maður verður leiður á verkinu þurfi maður alltaf að byrja upp á nýtt vegna þess að utanaðkomandi öfl grípa fram fyrir hendur manns. En svo spilar hjátrúin sterkt inn í þetta líka. Kannski á þetta alls ekki að verða?“ ■ BJÖRN TH. BJÖRNSSON RITHÖFUNDUR „Listasaga er auðvitað saga í sjálfu sér, og ég hef alltaf verið áhugasamur um sögur.“ FRÍÐA Á. SIGURÐARDÓTTIR SKÁLDKONA „Ég er langt komin með bókina, en ef ég klára hana ekki í ár hendi ég henni.“ Rithöfundarnir Björn Th. Björnsson og Fríða Á. Sigurðardóttir eru nýkjörin heiðursfélagar Rithöfundasambands Íslands fyrir merk framlög og mikilvægt starf í þágu íslenskra bókmennta. Þórdís Lilja Gunnarsdóttir ræddi við þessa margverðlaunuðu rithöfunda, sem báðir eru með nýjar bækur í smíðum.

x

Fréttablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.