Fréttablaðið - 28.06.2006, Side 38

Fréttablaðið - 28.06.2006, Side 38
MARKAÐURINN 28. JÚNÍ 2006 MIÐVIKUDAGUR8 F R É T T A S K Ý R I N G Eignarhaldsfélagið Stoke Holding keypti árið 1999 sextíu og sex prósenta hlut í enska knattspyrnufélaginu Stoke City. Kaupverðið var um 1,1 milljarður íslenskra króna. Auk þess var tekið rúmlega 340 milljóna króna lán í nafni Stoke Holding. Í upphafi ríkti mikil bjartsýni; aðdáendur Stoke tóku íslensku fjárfestunum fagn- andi og veifuðu þúsundum íslenskra fána á fyrsta heimaleik liðsins eftir kaupin. Fimmtudaginn síðastliðinn var hluthöfum formlega tilkynnt um sölu á eignarhlut Stoke Holding og að félaginu yrði í kjöl- farið slitið. Fundurinn, sem haldinn var á Grand hóteli í Reykjavík, var fásóttur; þrír stjórnarmenn í Stoke Holding létu sjá sig, auk framkvæmdastjórans, níu almennra hluthafa og blaðamanns. Peter Coates, stjórnarmaður og fyrr- um eigandi Stoke, keypti eignarhlut Íslendinganna á tæpa 620 milljarða, auk greiðslna er velta á framtíðargengi liðsins. Gunnar Þór Gíslason, fyrrverandi stjórnar- formaður, kvaðst þó síður búast við því að þær greiðslur skiluðu sér að undanskildum tæpum 69 milljónum króna sem væntan- legar væru að lokinni áreiðanleikakönnun. Kaupsamningur Íslendinganna og Coates er nokkuð flókinn. Fram kom í máli Gunnars Þórs að gangi allt upp megi hlut- hafar vænta allt að níutíu prósenta af nafn- virði hlutafjár. Til að svo verði þarf Stoke City að komast upp í ensku úrvalsdeildina innan fimm ára og halda sér þar í það minnsta eitt tímabil. Þá fær Stoke Holding helming af söluvirði fjögurra leikmanna, Íslendingsins Hannesar Sigurðssonar meðal annarra, fari svo að þeir verði seldir frá Stoke City. Loks gat Stoke Holding átt von á skaðabótum vegna gjaldþrots sjón- varpsfyrirtækisins ITV Digital. Nú er hins vegar ljóst að af því verður ekki. „Menn skulu ekki búast við meira en þrjátíu prósentum af nafnvirði hlutafjár. Restin er vonarpeningur,“ sagði Gunnar Þór, sem talaði hreint út á hluthafafund- inum. Stoke Holding, sem skráð er í Lúxemborg, verður formlega viðhaldið næstu fimm árin til að taka við hugs- anlegum greiðslum. Félagið verður síðan formlega lagt niður. Stjórnarmönnum í Stoke Holding verður fækkað úr sjö í þrjá; eftir sitja þeir Gunnar Þór, Magnús Kristinsson og Júlíus Bjarnason. Hlutafé í félaginu verður minnkað um þrjátíu pró- sent. Framkvæmdastjóri Stoke Holding er sem fyrr Lárus Sigurðsson. KEYPTI VEGNA GAUJA ÞÓRÐAR Stærstu hluthafar í Stoke Holding eru Kaupthing Luxembourg SA, KB banki og Magnús Kristinsson fjárfestir úr Vestmannaeyjum. Um fimm prósent af heildarhlutafé KB banka í Stoke Holding var selt á almennu hlutafjárútboði á geng- inu 1,3. Fagfjárfestar keyptu á genginu 1,0. Af þessu má vera ljóst að gangi spá Gunnars Þórs eftir fá smærri fjárfestar, sem keyptu á genginu 1,3, um tuttugu og þrjú prósent upphaflegrar fjárfestingar aftur í vasann. Þeir fáu hluthafar sem létu sjá sig á fundinum voru greinilega ósáttir og töldu sig jafnvel illa svikna. Einn hafði sig áber- andi mest í frammi og greip hvað eftir annað fram í fyrir Gunnari Þór. „Við feng- um aldrei neinar upplýsingar um hvern- ig reksturinn gengi. Maður lagði fullt af peningum í þetta og fékk ekki einu sinni skitinn boðsmiða að launum. Ég keypti bara vegna Gauja Þórðar, en hann staldraði ekki lengi,“ sagði maðurinn og vísaði til Guðjóns Þórðarsonar, fyrrverandi landsliðsþjálfara sem þjálfaði Stoke City fyrst um sinn eftir kaup Íslendinganna. Gunnar Þór Gíslason kvaðst gera sér grein fyrir því að menn hefðu orðið fyrir vonbrigðum. Öllum hefði verið ljóst að um var að ræða áhættufjárfestingu, sem því miður hefði ekki gengið upp. Hann bað fundarmenn um að setja hlutina í sam- hengi. „Ef menn hefðu keypt í DeCode á sama tíma sætu þeir uppi með tíu prósent nafnvirðis. Hér getum við vænst þrjátíu prósenta. Þannig má segja að kaup á bréf- um í Stoke hafi verið þrisvar sinnum betri fjárfesting en í DeCode.“ Gunnar Þór taldi einkum fjórar ástæður fyrir því að fjárfestingin gekk ekki upp. Félagið hefði fyrir það fyrsta verið of dýru verði keypt. „Ef við hefðum haft þolin- mæði til að bíða í tvo mánuði hefði verðið lækkað. Menn voru bara ekki tilbúnir til þess.“ Í annan stað hefði gjaldþrot sjónvarpsfyrirtækisins ITV Digital komið afar illa við Stoke, eins og flest neðri deildar félög á Englandi. Öruggar tekjur vegna sjónvarpsréttar hefðu horfið eins og hendi væri veifað. Þá sagði Gunnar Þór að félagið hefði eytt of löngum tíma í annarri deild, en Stoke komst upp árið 2001 og spilaði því í þrjú ár í annarri deild (C-deild) ensku knattspyrnunnar. Loks sagði Gunnar Þór áætlanir um að kaupa unga og efnilega íslenska leikmenn og selja þá síðan áfram með hagnaði hefðu ekki gengið sem skyldi. Þeir Íslendingar sem komu til félagsins hefðu ekki verið betri en þeir sem fyrir voru. „Það var enginn hagnaður af íslensku leikmönn- unum. Það sem helst gekk vel voru leik- mannaviðskipti með erlenda leikmenn, þá seldum við marga hverja með hagnaði.“ Gunnar Þór sagði þó ekki endilega við leik- mennina sjálfa að sakast. Á tímabili hefði starfað knattspyrnustjóri hjá félaginu sem hreinlega vildi ekki íslenska leikmenn. „Kannski voru það okkar helstu mistök að láta Tony Pulis ekki fara fyrr.“ Tony Pulis tók við starfi knattspyrnustjóra af Guðjóni Þórðarsyni. DRAUMURINN UM ÚRVALSDEILDARSÆTIÐ Gunnar Þór Gíslason gegndi starfi stjórn- arformanns knattspyrnufélagsins Stoke City í sjö ár. Á þeim árum má segja að gengi félagsins hafi verið upp og ofan. Stoke komst upp í fyrstu deild vorið 2001 og vann bikarkeppni neðri deildar liða ári áður. Stoke bjargaði sér naumlega frá falli á fyrsta ári sínu í fyrstu deildinni en hefur síðan siglt lygnan sjó um miðja deild. Félagið hefur á þessum sjö árum haft þrjá knattspyrnustjóra. Samningur Guðjóns Þórðarsonar var ekki endurnýjað- ur eftir þriggja ára starf. Englendingurinn Tony Pulis tók við af Guðjóni en honum og íslensku stjórnarmönnunum kom ekki saman og var látinn fara. Gamli hollenski landsliðsmaðurinn Johan Boskamp stýrði skútunni síðustu tvö tímabilin. Gunnari Þór var tíðrætt um þá gríð- arlegu fjárhagslegu gjá sem er milli liða sem spila í ensku úrvalsdeildinni og neðri deildar liðanna. Ávinningur af því að vinna sér sæti í úrvalsdeildinni væri gríðarlegur en oft er talað um að sætið eitt og sér sé um þriggja milljarða króna virði. Gunnar upplýsti fundarmenn um að á þarsíðasta tímabili hefði verið ákveðið að láta slag standa og leggja allt í sölurnar; dýrir leik- menn hafi verið keyptir og meira fé lagt til launamála. Allt hafi hins vegar komið fyrir ekki og liðið endað um miðja deild, þrátt fyrir góða byrjun. Eftir nýliðið tímabil hafi ákvörðun verið tekin um að selja hlut Stoke Holding í félag- inu. Til þess að halda rekstrinum áfram eitt tímabil til viðbótar hefði þurft að safna um þrjú hundruð milljónum króna. Hins vegar væri þrautinni þyngra að nálg- ast lánsfé og menn hefðu ekki verið tilbúnir að leggja frekar fé í félagið. „Það var í raun einföld ákvörðun að leita kaupanda,“ sagði Gunnar Þór. Hann sagði að yfir árin hefðu bor- ist nokkrar fyrirspurnir um kaup á Stoke City en aldrei neitt sem hefði freistað. Gunnar sagðist telja að tilboð Peter Coates hefði verið vel ásættan- legt miðað við hvernig komið var. Var Stoke bara djók? Stoke Holding seldi nýlega eignarhlut sinn í enska knattspyrnufélaginu Stoke City. Mikil eftirspurn var eftir bréfum í félaginu á sínum tíma og íslensku fjárfestunum var fagnað sem hetjum í Stoke on Trent. Smærri fjárfestar brosa þó ekki lengur enda fá þeir tæpan fjórðung upphaflegrar fjárfestingar útgreidd- an. Sala félagsins var útlistuð fyrir hluthöfum og tilkynnt um slit Stoke Holding á tíu manna lokuðum hlut- hafafundi á Grand hóteli. Jón Skaftason sat fundinn og varð ekki var við lófaklapp að honum loknum. ÍSLENDINGUNUM FAGNAÐ Á BRITANNIA-LEIKVANGINUM Þúsundum íslenskra fána var veifað á fyrsta heimaleik Stoke City eftir yfirtöku Íslendinganna. Þessi patti var greinilega hæstánægður með nýju eigendurna. GUÐJÓN ÞÓRÐARSON Í FULL- UM SKRÚÐA Greinilegt var að margir smærri hluthafa keyptu í Stoke Holding vegna Guðjóns. „Maður lagði fullt af peningum í þetta og fékk ekki einu sinni skitinn boðsmiða að launum. Ég keypti bara vegna Gauja Þórðar, en hann staldr- aði ekki lengi,“ sagði einn. GUNNAR ÞÓR GÍSLASON, FYRRVERANDI STJÓRNARFORMAÐUR Gunnar Þór gegndi stöðu stjórnarformanns allt frá 1999. Hann sagði Stoke hafa verið áhættufjárfest- ingu sem því miður hefði ekki gengið sem skyldi.

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.