Fréttablaðið - 21.09.2006, Side 78

Fréttablaðið - 21.09.2006, Side 78
 21. september 2006 FIMMTUDAGUR42 GOTT GLÁP Inside Man: Hörkufín spennumynd frá Spike Lee sem er nýdottin inn á myndbandaleigur. United 93: Átakanleg mynd um skelfinguna meðal farþega fjórðu flugvélarinnar sem rænt var 11. september 2001. Volver: Pedro Almodovar er í góðu formi í sinni nýjustu mynd sem skartar Penélope Cruz í bitastæðu hlutverki. Börn: Íslensk gæðamynd sem er vel þess virði að kíkja á. Eftirlætiskvikmynd: Gaukshreiðrið með Jack Nicholson, hann er minn aðalmaður. Eftirlætisatriði: Atriðin inni á deildinni í Gaukshreiðrinu eru mér mjög eftirminnileg. Hef reyndar bara séð hana tvisvar sinnum en hún situr fast í hugskots- sjónum. Uppáhaldsleikstjóri: Klassískur í því vali, Steven Spielberg og Milos Forman. Mesta hetja hvíta tjaldsins: Jack Nicholson og Clint Eastwood hljóta að vera mestu hetjur hvíta tjaldsins. Versti skúrkurinn: Mannætan Hannibal Lecter, mikið illmenni þar á ferð og það getur ekki staðið meiri skelfing af nokkrum manni en honum. Hvaða persóna fer mest í taugarnar á þér? Sem ungum manni fannst mér J.R og Dallas alveg hrikalega leiðinlegt og viðurkenni það ekki fyrr en nú. Ef þú fengir að velja þér mynd, leikstjóra og mótleik- ara, um hvað yrði hún og hverjir væru hinir heppnu? Myndin myndi heita „Er knattspyrnan erótískt“. Bjarni Haukur Þórsson yrði leikstjóri og Angelina Jolie og Meryl Streep myndu leika tvær konur sem ákveðu að láta slag standa og reyna fyrir sér í knattspyrnu. KVIKMYNDANJÖRÐURINN: LOGI ÓLAFSSON, ÞJÁLFARI KF NÖRD Einlægur aðdáandi Gaukshreiðursins Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík hefst í næstu viku en nærri áttatíu mynd- ir verða sýndar þá ellefu daga sem hátíðin stendur. Fjöldi erlendra gesta er væntanlegur á hátíðina sem hefur vakið athygli utan landsteinanna. „Sérstaða hátíðarinnar er fólgin í breiddinni en við leggjum okkur fram um að sýna myndir úr ólík- um áttum þannig að flestir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í dag- skránni,“ segir Hrönn Marinós- dóttir, framkvæmdastjóri hátíðar- innar. „Myndirnar koma frá hinum ýmsu löndum og við sýnum gaman- myndir, spennumyndir, hrylling, barnamyndir og stutt- og heimildar- myndir.“ Vitranir ungs fólks Dagskrá hátíðarinnar er skipt upp í nokkra flokka og þar ber einna hæst keppnisflokkinn Vitranir en þar eru einungis sýndar myndir eftir unga og upprennandi leik- stjóra sem eru að gera sína fyrstu eða aðra mynd í fullri lengd. Dimitri Eipides, dagskrárstjóri hátíðarinnar, hafði veg og vanda af vali mynda í flokkinn þar sem fjórtán myndir keppa um titilinn „uppgötvun ársins“. Myndin Fjór- ar mínútur, eftir Chris Kraus, er ein þessara mynda en hún verður Evrópufrumsýnd á hátíðinni. Hátíðarmyndirnar verða sýndar í Háskólabíói, Iðnó og Tjarnarbíói, sem verður framvegis varnarþing hátíðarinnar. „Andrúmsloftið í Tjarnarbíói er hlýlegra en maður á að venjast í öðrum bíósölum lands- ins og það stendur til að taka húsið í gegn í samvinnu við sjálfstæðu leikhúsin á næsta ári og við erum því að fá sjálfstætt bíóhús í mið- borginni sem gerir okkur kleift að standa fyrir smærri viðburðum á öðrum árstímum,“ segir Hrönn og segir sýningar í Tjarnarbíói á hátíð- inni hafa vakið mikla lukku. Fjöldi erlendra gesta „Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík ætlar sér að breyta við- miðum um kvikmyndahátíðir á Íslandi og við höfum sett okkur það markmið að gera hana að menningarviðburði sem eftir verður tekið hér á landi sem erlendis,“ segir Hrönn, sem á von á rúmlega hundrað boðsgestum að utan. Þar af er rúmlega helming- urinn fagfólk í kvikmyndabrans- anum því skipulagðir eru sérstak- ir viðburðir fyrir það. „Erlendir fjölmiðlar, blaðamenn og sjón- varpsfólk sem hingað koma nálg- ast nú þriðja tuginn. Þar fyrir utan er gert ráð fyrir að nokkrir tugir manna til viðbótar sæki hátíðina á eigin vegum en Icelandair býður sérstakar tilboðsferðir til landsins í tilefni hátíðarinnar. Ég veit til dæmis um stóran bandarískan kvikmyndaklúbb sem ætlar að mæta, þannig að stemningin í kringum hátíðina er góð.“ Hátíðin var kynnt fyrir heims- pressunni á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor og Hrönn segir ljóst að sú kynning hafi skilað góðum árangri. „Dagskráin er það sérstök að hún sker sig úr á heimsvísu þannig að fólk sér fulla ástæðu til að gera sér ferð til landsins.“ Um 13.000 manns komu í bíó þá ellefu daga sem hátíðin stóð yfir í fyrra, sem gerir hana að best sóttu hátíð á Íslandi sé miðað við dagafjölda og Hrönn á von á því að fjöldinn verði enn meiri í ár. „Við vildum auka umfangið aðeins og hátíðin hefur því aldrei verið stærri. Úrvalið er mikið og við sýnum hverja mynd tvisvar til þrisvar sinnum þannig að það er um að gera að kynna sér dagskrána vel og skipuleggja sig svo fólk missi ekki af neinu. Öll miðasala verður á filmfest.is og midi.is.“ Málþing og ráðstefnur Auk kvikmyndasýninganna verð- ur á hátíðinni efnt til málþinga, ráðstefna og námskeiða um hina ýmsu anga kvikmyndanna. Þar ber einna hæst málþing með þremur fyrrverandi föngum í hinum alræmdu Guantanamo-fangabúð- um á Kúbu en málþingið er haldið í samstarfi við Amnesty Inter- national á Íslandi í tengslum við sýningu heimildarmyndarinnar The Road to Guantanamo. Þá verða möguleikar Reykjavíkur til að verða kvikmyndaiðnaðarborg norðursins ræddir á sérstöku mál- þingi á vegum Reykjavikurborg- ar. Af þeim námskeiðum sem boðið verður upp á má nefna nám- skeið um kvikmyndahátíðir við Háskóla Íslands sem felur í sér nokkurs konar starfsþjálfun í kvikmyndahátíðahaldi og nám- skeið í kvikmyndalestri fyrir almenning. Það verður því í nógu að snúast hjá kvikmyndaáhuga- fólki á næstunni. „Þetta verður mikið fjör, gleði og gaman,“ segir Hrönn, sem er enn að hnýta lokahnútana á dag- skrá hátíðarinnar sem byrjar eftir viku. thorarinn@frettabladid.is Alþjóðleg hátíð í örum vexti HRÖNN MARÍNÓSDÓTTIR Er ásamt sínu fólki með allar klær úti þegar kemur að því að finna myndir á hátíðina. Þau hafa sótt aðrar hátíðir, til dæmis í Cannes, og kynningarstarf- ið hefur skilað því að fólk sækist í auknum mæli eftir því að koma myndum sínum að í dagskránni. DIMITRI EIPIDES Sá um valið á myndunum- sem keppa til verðlauna í flokknum Vitranir. Quentin Tarantino heldur því fram að kvikmyndatökuvélin hafi verið fundin upp fyrir ofbeldi. Kannski full glannaleg yfirlýsing en það breytir því þó ekki að ofbeldi nýtur sín vel á hvíta tjaldinu og þau eru ansi mörg ofbeldisatriðin sem eru greypt í minninguna, þökk sé ýmist slagkraftinum eða mögnuðum útfærslum. Bíóofbeldið er samt háð þeim undarlegu lögmálum að oftast ristir það dýpst þegar minna er sýnt en meira þannig að þeir kvikmynda- gerðarmenn sem ganga hvað lengst í limlestingum og viðbjóði skjóta oft yfir markið og „horrorporn“ bylgjan sem virðist vera í uppsigl- ingu á því líklega eftir að fjara fljótt út. Nú er samt fátt jafn hressandi og góður „splatter“ þannig að þessar svokölluðu hryllingsklámmyndir, Hostel og The Hills Have Eyes, sem draga ekkert undan í myndrænu ofbeldinu, eru alltaf ágætar fyrir sinn hatt en því verður ekki neitað að áhrifamáttur mynda á borð við Seven og Angel Heart er miklu meiri. Þar eru ofbeldismorðin ekki sýnd, afleiðingum ofbeldisins bregður fyrir í augnablik og persónurn- ar ræða viðbjóðinn sín á milli. Manni er hlíft við sjokkinu sem fylgir splatternum en ímyndunaraflið fer af stað og lúmskur viðbjóðurinn hreiðrar um sig í kollinum, fylgir manni heim og inn í svefninn. The Proposition, sem gerð er eftir handriti Nicks Cave, og var frumsýnd á Iceland Film Festival í síðustu viku er ágætt dæmi um þetta. Þar eru viðbjóðsleg ofbeldisverk framin og töluvert var um að frumsýningargestir kveinkuðu sér undan hryllingnum. Samt var merkilega lítið sýnt. Það ofbeldi sem fyrir augu bar og afleiðingar þess sem nutu sín betur en verknaðurinn sjálfur nægði engu að síður til að einhverjum varð óglatt. Sem dæmi má nefna að maður er hýdd- ur til ólífis með svipu en áhorfendum var samt hlíft við því að horfa upp á sömu ósköp og Mel Gibson bar á borð í The Passion þar sem frelsarinn endaði eins og undin og blóðsósa gólftuska fyrir augum bíógesta. Þjáningin í þessu atriði The Proposition er þó engu síður áþreifanleg og ónotaleg. The Proposition er dæmi um smekklega útfært ofbeldi og þó langt sé gengið þá er jafnvægis gætt og viðbjóður- inn verður sterkari fyrir vikið. Yfirgangur er nefnilega ekki málið í matreiðslu á ofbeldi og nær- tækasta dæmið um það er hið margrómaða sturtuatriði í Psycho eftir Alfred Hitchcock. Þessi stutta sena þar sem Anthony Perkins í draggi slátrar Janet Leigh er öllum ógleymanlegt sem hafa séð það. Samt snertir búrhnífur morðingjans aldrei leikkonuna en það er nokkuð sem maður áttar sig varla á fyrr en í þriðja eða fjórða áhorfi. En maður læsir samt alltaf að sér þegar maður fer í sturtu. Gerviblóð og búrhnífar AF HVÍTA TJALDINU Þórarinn Þórarinsson ÚR VERINU Eli Roth í Grind House Quentin Tarantino hefur feng- ið leikstjórann Eli Roth til þess að leika í Death Proof, sínum hluta Grind House verkefnis- ins sem hann er að vinna með Robert Rodriguez. Tarantino og Roth eru eins og flestir vita ágætis kunningjar og hafa til dæmis skemmt sér saman á Íslandi í tvígang en Tarantino var einn framleiðenda Hostel, eftir Roth, sem var heims- frumsýnd í Reykjavík í fyrra. Kurt Russell, Zoe Bell og Rosario Dawson fara með aðalhlutverkin í mynd Tar- antinos en auk Eli hefur Tarantino einnig bætt Michael Bacall, sem lék í tvöföldum CSI þætti sem Tarantino leikstýrði, og nýlið- anum Omar Doom í hópinn. Tvær hryllingsmyndir í fullri lengd, Death Proof, og Pla- net Terror, eftir Rodrigu- ez, mynda saman Grind House en myndirnar verða frumsýndar í apríl á næsta ári. Jackson vill ódýran hrylling Leikstjórinn Peter Jackson er byrjaður að undirbúa sína næstu mynd The Lovely Bones sem hann ætlar að gera eftir samnefndri skáldsögu Alice Sebold um unga stúlku sem er nauðgað og myrt og fylgist með afdrifum ættingja sinna og morðingjans úr sínu einkahimnaríki. Annars er það helst að frétta af Jackson að hann hefur hug á að hverfa aftur til upprunans og gera hræódýra hryll- ingsmynd í anda Bad Taste og Braindead sem vöktu athygli á honum á sínum tíma. Howard spáir í Nixon Ron Howard er sjálfsagt búinn að telja peningana sem The Da Vinci Code færði honum í aðra hönd og er því far- inn að svipast um eftir nýjum verk- efnum. Meðal þess sem hann er sagð- ur geta hugsað sér að k v i k - mynda næst er leikritið Frost/Nixon sem er að gera stormandi lukku á West End. Leikritið fjallar um sjónvarpsviðtöl sem bretinn David Frost tók við Richard Nixon, forseta Bandaríkjanna, árið 1977. bio@frettabladid.is

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.