Fréttablaðið - 19.09.2007, Blaðsíða 20

Fréttablaðið - 19.09.2007, Blaðsíða 20
greinar@frettabladid.is Nú verður ekki lengur hjá því komist að viðurkenna að loftslagsbreytingar eru staðreynd. Tugmilljónir manna munu flosna upp og lenda á vergangi verði ekki dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda hið fyrsta. Vísindasamfélagið er einhuga um að helminga verði útblástur í heiminum fyrir miðja þessa öld miðað við 1990. Enn eru þó nokkrar eftirlegukindur eftir sem ekkert vilja aðhafast. Eftir að hafa um áraraðir vitnað í hvern tóbaksvísindamanninn á fætur öðrum um markleysi loftslagsbreytinga vitna nú sumir hægrimenn ákaft til skrifa Bjørns Lomborgs – sem ekki dregur loftslagsbreytingar í efa. Heldur er kenning Lomborgs sú, að hvað sem loftslagsbreytingum líði, þá borgi sig ekki að gera neitt í málinu – það þýði ekkert og sé alltof dýrt. Að hans mati eru önnur vandamál meira knýjandi. „Svo skal böl bæta að benda á eitthvað annað,“ er rökfærsla Lomborgs. Til allrar hamingju eru slík sjónarmið ekki lengur ráðandi meðal hægrimanna. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur tekið forystu um alþjóðlegar aðgerðir um framhald Kyoto-bókunarinnar. Annar hægrimað- ur, Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, beitir sér nú fyrir hækkun bensínskatts til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og telur lofts- lagsmálin mikilvægasta viðfangsefni sinnar ríkisstjórnar. Leiðtogi íhalds- manna í Bretlandi keppir nú við Gordon Brown um hylli kjósenda með yfirboð- um í loftslagsmálum. Sennilega er Geir H. Haarde eini leiðtogi hægrimanna í Evrópu sem enn hefur ekki látið að sér kveða í umræðu um loftslagsmál. Skýringin er vafalaust sú að innan Sjálfstæðisflokksins eru áhrifamiklir einstaklingar sem ekki má styggja og geta ekki viðurkennt að þeir höfðu rangt fyrir sér þegar þeir trúðu málpípum olíurisans Exxon Mobil. Þessir menn eru nú komnir í sömu stöðu og gömlu kommarnir sem ekki vildu viðurkenna tilvist Gúlagsins en töluðu þeim mun meira um illvirki Bandaríkjamanna. Lomborg er þessum hægrimönnum huggun harmi gegn – en það verður skammgóður vermir. Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. Svo skal böl bæta Fátt er um góðar fréttir af sviði hagstjórnar þessa dagana. Verðbólga er á uppleið og viðskiptahalli vaxandi á nýjan leik. Fullkomið ráðleysi virðist ríkja á stjórnarheimilinu í bland við afneitun og ráðherrum verður það helst fyrir að kenna annað hvort Seðlabankanum, krónunni eða bara einhverju öðru en ríkisstjórninni um. Til að bíta höfuðið af skömm- inni gengur nýskipaður viðskipta- ráðherra á undan með vondu fordæmi og talar gjaldmiðil þjóðarinnar niður. Þar heggur sá er hlífa skyldi. Viðskiptaráðherra eða ríkisstjórnin í heild getur haft þá skoðun að tími þess að reka sjálfstæða hagstjórn með eigin gjaldmiðli og efnahagslegum stýritækjum sé liðinn. En það verður að gera þá kröfu að áhrifamenn ræði um slíka hluti af lágmarksraunsæi og þekkingu, virði þá staðreynd að það að kasta krónunni getur vegna eðlis þeirrar aðgerðar aldrei orðið til lausnar bráðavanda í hagstjórn og er flóknara mál en kann að virðast í fyrstu. Innganga í Evrópusambandið, hvað þá upptaka evru í kjölfarið, er langt ferli. Fyrst þyrfti að taka til skoðunar, ræða og helst kjósa um, hvort þjóðin vildi leggja upp í slíkan leiðangur. Í öðru lagi fara í viðræðurnar sjálfar og ná þar niðurstöðu. Í þriðja lagi að bera samningsniðurstöðuna undir þjóðina. Þó aðild yrði samþykkt hér þarf einnig til samþykki og fullgildingu allra aðildarríkja ESB, sem nú eru víst 27. Að því loknu færi í hönd reynslutími þar sem Ísland yrði að sanna að efnahagsmálin væru í fullnægj- andi jafnvægi og við fær um að uppfylla öll skilyrði fyrir inngöngu í myntbandalagið og upptöku evru. Með öðrum orðum: margra, margra, margra ára ferli og á meðan þurfum við í öllu falli að notast við krónugreyið. Ætli sé þá ekki í þágu þjóðarhags að áhrifamenn reyni að viðhalda tiltrú á gjaldmiðlinum fremur en tala hann niður? Leitin að sökudólg þjónar sömuleiðis engum tilgangi. Allra síst er við hæfi að ríkisstjórnin, er fylgir fram óbreyttri stjórnarstefnu frá þeirri sem hefur orsakað hér stórfellt jafnvægisleysi í efna- hagsmálum, kenni öðrum um. Varðandi hugsanlega upptöku evru, að ekki sé nú talað um einhliða og án undangenginnar aðildar að Evrópusambandinu, þá legg ég til að viðskiptaráðherra og þess vegna ríkisstjórnin öll fari á námskeið hjá Ingimundi Friðrikssyni seðlabankastjóra. Hann fer á afar yfirvegaðan og málefnalegan hátt yfir þá hluti í viðtali við Viðskiptablað Morgun- blaðsins fimmtudaginn 13. september. Ingimundur hvetur til málefnalegrar umræðu og að farið sé að öllu með gát. Þau orð mega ýmsir sannarlega taka til sín. Hið alvarlega er að á meðan öll viðbrögð einkennast af afneitun og leit að sökudólgum flýtur allt að feigðarósi vaxandi erlendrar skuldir þjóðarbúsins. Þarf ekki annað en að lesa Hagtölur Seðlabankans því til sanninda- merkis. Erlend skuldastaða þjóðarbúsins er nú verri en nokkru sinni fyrr. Er þar ekki síst svakalegt að sjá hversu erlendar skammtímaskuldir hafa aukist og eru geigvænlega hátt hlutfall af útflutningstekjum, gjaldeyris- forða Seðlabankans eða hvaða viðmiðun annarri sem tekin er. Yfir þetta fer Þorvaldur Gylfason ágætlega í grein hér í Fréttablað- inu sl. fimmtudag. Hinn kaldi veruleiki er sá að við getum ekki rekið þjóðarbúið endalaust með bullandi halla útávið. Við getum ekki haldið áfram að safna skuldum út í hið óendanlega. Það verður að nást hér jafnvægi sem ekkert bendir hins vegar til, því miður, að núverandi ríkisstjórn, fremur en sú síðasta, hafi metnað til að endurheimta. Fullkomin lausatök hennar á fyrstu mánuðum við völd og algjört alvöru- eða andvaraleysi lofar ekki góðu. Það verður að átelja harðlega að ríkisstjórnin skuli ekki hafa notað tækifærið á fyrstu vikum og mánuðum valdaferils síns til að senda sterk skilaboð út í efnahagslífið og þjóðlífið allt um að nú verði tekið á málum. Opinberar heimsóknir og kynnisferðir forystumanna ríkisstjórnarinnar um lönd og álfur eru að sjálfsögðu góðra gjalda verðar og slíku er þarft að sinna ásamt öðru. En ef það er virkilega svo að ráðherrarnir telji það mikilvægara en að sinna brýnustu verkefnum íslenskra þjóðmála hér heima fyrir, þá eru þeir á miklum villigötum. Nú verður að krefjast þess að ríkisstjórnin geri grein fyrir áformum sínum í þessum efnum og hvernig hún ætli að leggja sitt af mörkum til að hér náist á nýjan leik viðunandi stöðugleiki í stað þess að ástandið versni eins og nýjustu mælingar á verðbólgu og viðskiptahalla benda til. Höfundur er formaður Vinstri grænna. Hagstjórn í upplausn T veir ráðherrar, iðnaðarráðherra og heilbrigðisráð- herra, hafa nú með nokkurra daga bili lagt línur hvor á sínu sviði um mikilvægar kerfisbreytingar. Um jafn ólíka hluti og lyf og orku hafa þeir leitað lausna með því að leggja á ráðin um að brjóta upp skipulag sem ekki svarar kröfum nýs tíma. Það er ekki á hverjum degi sem ráðherrar takast á við við- fangsefni sem við blasa með hugmyndafræðilegri greiningu og áræði til að takast á við skipulag sem er hvort tveggja í senn fast í viðjum vana og hagsmuna. Þetta er eigi að síður að gerast með eftirtektarverðum hætti. Margt hefur breyst til betri vegar á lyfjamarkaðnum. Á sumum sviðum hans hefur tekist að lækka verð. Það er hins vegar ekki algilt. Fákeppni sætir eðlilegri gagnrýni. Samkeppnisyfirvöld skoða ásakanir um óvönduð meðul í glímum á því sviði. Frumkvæði heilbrigðisráðherra að því að brjóta aftur tækni- legar hindranir í viðskiptum og opna heimamarkaðnum leið inn á stærri alþjóðlegan markað er lofsvert. Árangurinn verður að vísu ekki mældur fyrirfram. En aðferðafræðin er rökrétt og skynsamleg. Orkubúskapurinn er um margt miklu flóknara fyrirbæri. Þær breytingar sem gerðar voru í byrjun aldarinnar á lagaumhverfi á þessu sviði voru ófullnægjandi. Ein af ástæðunum fyrir því er sú að þáverandi iðnaðarráðherra varð vegna hagsmunaþrýst- ings að víkja frá upphaflegri stefnumótun í ýmsum veigamikl- um atriðum. Það á til að mynda við um aðskilnað einokunar og samkeppni. Afar hröð þróun í orkubúskapnum er fyrir vikið í einhvers konar kerfislegri bóndabeygju. Nútíma kröfur um réttmæta samkeppnishætti komast ekki að í orkuiðnaðinum. Nútíma hug- myndir um notkun skattpeninga almennings í áhættufjárfest- ingu eru gleymdar og grafnar. Nútíma sjónarmið um möguleika á mismunandi eignarhaldi einokunarbundinnar almannaþjón- ustu annars vegar og samkeppnisrekstrar hins vegar rúmast ekki í ríkjandi skipulagi. Aukheldur eru ólík sjónarmið um eign- arhald á auðlindum illleysanleg að óbreyttu. Sú hugmyndafræði sem iðnaðarráðherrann hefur nú kynnt opnar möguleika á að losa þennan vaxtarbrodd í efnahagsstarf- semi landsins úr skipulagslegum fjötrum. Um leið verða leiðir færar til þess að fella mál í farvegi sem líklegt er að almenn sátt geti tekist um. Mikilvægast er að ráðherrann telur rétt að skilja á milli einok- unarbundinnar almannaþjónustu og samkeppni. Hitt er svo ekki síður kjarnaatriði að hann telur eðlilegt að opna möguleika á að líta á þau orkuréttindi sem eru í opinberri eigu sem sjálfstæða rekstrareiningu. Yrði þetta að veruleika gætu ríki og sveitarfélög leigt orku- réttindi sem þau eiga. Orkuframleiðslufyrirtæki á samkeppnis- markaði gætu þar af leiðandi starfað sem hlutafélög á frjálsum grundvelli. Í öllum höfuðatriðum svara þessar hugmyndir kalli og þörfum nýs tíma. Um leið taka þær tillit til þess almenna og eðlilega sjónarmiðs að ríki og sveitarfélög afsali sér ekki orku- réttindum sínum í stórum stíl. Satt best að segja eru þessar fersku hugmyndir um skipulag lyfja og orku eins og hressandi haustgustur eftir sumarlægð stjórnmálaumræðunnar. Lyf og orka

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.