Fréttablaðið - 17.12.2008, Side 31
MIÐVIKUDAGUR 17. desember 2008 3
„Ég hugsaði ekki neitt um peninga,
hélt við myndum standa á Lauga-
veginum og gleðja fólkið á laugar-
dögum og sunnudögum. Svo allt í
einu var farið að bóka okkur,“
segir Sandra Þórðardóttir, sem
myndar ásamt þeim Kenyu Emil
og Ingu Þyri Þórðardóttur, tríóið
Þrjár raddir. „Við höfum allar
sungið frá því við vorum litlar,“
segir Sandra sem kynntist Kenyu
árið 2003 þegar þær sungu saman í
Motown-sýningu á Broadway. „Ég
spurði hana í nóvember hvort hún
vildi syngja með mér jólalög og þá
fékk hún Ingu til liðs við okkur,“
útskýrir Sandra tilurð tríósins en
Inga Þyri söng sem bakrödd í
hljómsveit sem Kenya hefur verið
með um nokkurt skeið. Sandra
segir að það hafi komið henni á
óvart hversu vinsælar þær urðu á
stuttum tíma. „Það er búið að vera
mikið að gera og við erum að
syngja allt upp í fimm sinnum á
kvöldi. Svo keyrum við sveittar á
milli,“ lýsir hún og bætir við:
„Enda er Inga dugleg að finna
fyrir okkur gigg, hún dregur þetta
áfram.“
Þrjár raddir eru líflegt tríó. „Við
vildum hljóma eins og barber-
kvartett og erum því svolítið gam-
aldags og hressar,“ segir Sandra
sem kom það á óvart hve mikinn
tíma fólk gæfi sér til að hlusta á
þær í jólaösinni. „Það stoppaði,
hlustaði og klappaði,“ segir Sandra
hissa en ánægð yfir viðtökunum.
Þær stöllur stefna á áframhald-
andi samvinnu á komandi ári.
„Okkur langar að koma fram á árs-
hátíðum og þorrablótum og erum
þegar byrjaðar að æfa þorra- og
árshátíðartónlist. Svo gæti verið
gaman að syngja í brúðkaupum
enda getum við með einhverjum
fyrirvara æft þau lög sem fólk vill
láta flytja.“
Sandra, Kenya og Inga syngja
ekki aðeins í verslunarmiðstöðv-
um heldur troða einnig upp á spít-
ölum og nokkrum góðgerðarsam-
komum. Meðal annars verða þær á
styrktarkvöldi samtakanna Blátt
áfram næstkomandi laugardags-
kvöld. solveig@frettabladid.is
Hljóma þrjár raddir í kór
Tríóið Þrjár raddir var stofnað í lok nóvember af þremur söngelskum stúlkum, þeim Kenyu, Söndru og
Ingu. Ætlunin var að komast í jólaskap með jólasöng en nú hafa þær varla undan að anna eftirspurn.
Kenya Emil, Sandra Þórðardóttir og Inga Þyri Þórðardóttir mynda tríóið Þrjár raddir. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM