Tíminn - 08.08.1982, Blaðsíða 10

Tíminn - 08.08.1982, Blaðsíða 10
Sumarkvöld undir álmunum ■ Sá sem heimsækir Stokkhólm í fyrsta sinn rekur augun í að fólk er þar ríkmannlega búið. Svíar eru, að ég held, mikið tískufólk. Handhæg efnishyggju- skýring (?) gæti verið sú að fataiðnaður þeirra er í kreppu, sem leiðir til lækkandi verðs, niðurgreiðslna, og áróðurs á móti kóreönskum klæðsker- um. Eða er það kannski bara af því að þeir eru ríkir? Einhvern veginn hangir tískufarganið að minnsta kosti saman við peninga, - svo mikið er víst. Jcans og merkisjeans. Á sínum tíma þegar gallabuxurnar héldu fyrir alvöru innreið sína í skólana álitu sumir í einfeldni sinni að dagar tískudynta væru nú taldir, en ónei: þá fyrst byrjaði ballið. í Ijós kom að gallabuxur áttu að vera í ákveðnum lit, klórþvegnar, með sjö vösum í stað fimm, með hnévasa, slitnar og hvað það nú var sem hönnuðum hugkvæmdist. Gallabuxur voru ekki lengur bara gallabuxur. í Stokkhólmi urðu tísku- kröfur þessarar hóflausu denímtíðar svo miskunnarlausar, að stundum dugðu buxur ekki nema í fáar vikur áður en þær voru orðnar blátt áfram hlægilegar sakir elli og klunnalegs útlits. Bisniss- kjarni tískufyrirbærisins er þó allra best afhjúpaður með hugtakinu márkes- jeans: ef tvennar gallabuxur líta ná- kvæmlega eins út og eru yfirleitt eins að því frátöldu að merki heimsþekkts framleiðanda er á öðrum, þá eru hinar frægari buxurnar góðar - þá eru márkesjeans - en hitt er rusl. Frægar buxur eru réttar skv. þessari rökfræði. Buxnaframleiðendur sem út frá þessu teljast merkilegir, narra fólk til að ganga með ókeypis auglýsingu á gumpinum. En þeim sem vanur er hinni hollu og fornu hippamenningu, frónskri og krist- janískri, þeim sem vanur er sundurgerð- arleysi námsmannsins, kann að bregða nokkuð í brún í Stokkhólmi. I’egar undirritaður kom í Stokkhólmsháskóla vorið 1977 varð mér á að spyrja: já en hvar eru nemendurnir? Lengi ímyndaði ég mér að lög og viðskiftafræði væru einu kennslugreinarnar í skólanum, og dró þá ályktun af klæðaburði manna. Af Boris dyraverði Skemmtanalífið í Stokkhólmi dregur nokkuð dám af þessu. Ekki svo að skilja að pönkið og þess broguðu einkennis- búninga vanti - öðru nær - heldur er nokkuð um ströng viðmið varðandi klæðaburð. Stundum heimta dyraverðir slifsi, stundum nýjustu tísku og stundum eitthvað enn annað og eru líklega mútuþegar vefaravaldsins. Ástandið í þessum efnum er kannski ekki eins slæmt og í Reykjavík, um það skal ég ekki segja, en slæmt er það samt. Austurvöllur Stokkhólmara nefnist Kóngstrjágarðurinn, og em þar nokkrir skemmtistaðir. Fyrir skömmu síðan ætlaði ég að sýna tveimur gestum mínum einhvern þeirra, helst hinn nafntogaða bar Röda rummet. Svíar hafa sama sið og íslendingar að ganga ekki rakleitt inn í öldurhús sín, heldur norpa klæðlitlir og vista í röð fyrir utan þau fyrst. Er hímt í slíkum röðum svo tímum skiftir, einkum þegar eitthvað er að veðri. Þegar okkur bar þarna að var hinsvegar skollinn á með 26°C og blíðu, svo það átti að hleypa okkur inn tafarlaust. En viti menn: Einn förunaut- urinn, sá okkar sem virðulegastur er óg best menntaður í guðfræði er stöðvaður í tröppunum. Aðspurður um hverju þetta sæti svarar aflraunamaðurinn sem gætir dyranna að svo sé mál með vexti að hann skifti aldrei um skoðun þegar hann sé eitt sinn búnn að varna manni inngöngu. Sé því tilgangslítið að ræða málið frekar. Ekki kveðst hann hinsvegar telja spariföt okkar Ijót svo neinu nemi, né heldur að við höfum drukkið óhæfilega. í langdreginni þrætu- bók við yfirsáta aflraunamanns verð ég þess eins vísari að þetta sé alveg hárrétt athugað hjá Boris, - hann sé sannast sagna stóreinkennilega tregur til allra skoðanaskifta, og munum við því ekki komast inn. Þegar ég neyti þrautalend- ingarinnar og fer að tala utan af guðfræðinámi og heilögum lífsmáta kunningjans linast viðmælandi minn lítilsháttar og bendir okkur á skemmti- staði hinum megin í garðinum. En það var nú hálfgerður bjarnargreiði hjá tamningamanninum. Sýnir í trjágarði Þegar gengið er yfir Kóngstrjágarðinn er útsýn til hafs. í garðinum sjálfum eru nokkrir álmar sem frægir urðu þegar átti að fara að saga þá niður fyrir allmörgum árum, en þá var verið að leggja neðanjarðarjárnbraut undir. Þessu mót- mælti almenningur með setuverkfalli á staðnum, en var þá barinn í hausinn af lögregluþjónum, svo og hrint úr stað af óeinkennisklæddum lögregluhestum, en mennirnir með keðjusagirnar óðu fram og hófust handa. En allt fór þó vel að lokum og álmarnir eru þarna enn, kúlan á höfði almennings hjöðnuð og lestin brunar undir. (suðurátt sést kóngshöllin á Gamla bænum og Suðurmálmur. Vestan þessara eyja er Lögurinn, hinum megin Eystrasaltið og skerjagarðurinn. Á Suðurmálmi sést í Katrínukirkjuna, við sjáum þarna líka Jakobskirkjuna og Skipshólmann, þar sem söfnin eru. Öllu þessu romsa ég uppúr mér meðan við röltum yfir garðinn. Ég veit nú ekki fyrr en athygli gesta minna beinist frá landafræði og kirkjuturnum yfir á skemmtistaðina hinum megin. Notaleg- ur hrollur fer um okkur þegar við sjáum biðraðirnar fyrir utan. „Bara alveg eins og heima“ hugsum við samtaka og hneppum hálsmálinu að. Stórir gler- gluggar eru á Café Viktoria og staðnum við hliðina á, svo maður getur stytt sér stundir við að horfa á fólkið inni; það er eins og að sjá kvikmynd. Ekki gerist þó öllu meira í þeirri mynd heldur en í langhundi eftir Ingmar Bergman. En efnið: Tískan. Fólk svífur þarna um í geysilegum tískuklæðum og er oft smekklegt. Ekki treysti ég mér til að lýsa fatnaðinum frekar, enda er það ekki í mínum verkahring, heldur tískufregnrit- ara blaðsins, auk þess sem heilir tveir mánuðir eru liðnir síðan þetta átti sér stað, en það er eitthvað nálægt ljósári í tískuheiminum. Iöur óperunnar Enn annar skemmtistaður er þarna rétt hjá og nefnist Óperukjallarinn. Þetta er pláss handa stjörnum eins og hinir tveir, en munurinn er sá að hér sést ekki inn svo neinu nemi. Skilur þar kannski á milli kallaðra stjarna og útvalinna, því mér skilst að Óperukjall- arinn sé ennþá fínni en hinir staðirnir ef eitthvað er. Við sáum að þarna var stutt biðröð og tókum okkur stöðu í henni, næst á eftir náunga sem greinilega vann á Stokkhólmsblaðinu nýja, morgunblaði sósíaldemókrata. Eftir drykklanga stund höfðum við ráðið gátuna um eðli biðraðar á stöðunum þarna. Málið var einfaldlega þetta: 1) Ef maður ætlaði ekjii inn á staðinn, þá fór maður í biðröðina og stóð þar lengur eða skemur eftir smekk. 2) Ef maður ætlaði inn fór maður framhjá biðröðinni, hafði yfir töfraformúlu í eyra dyravarðar og lukust þá dyrnar óðara upp. Svo var auðvitað til 3. ráðið og tókum við það: Að standa fyrst svolitla stúnd í röðinni, ganga svo til dyravarðar og segja við hann Oh, eh, We are English tourists va, o.s.frv., en Tarzan hristi bara hausinn, ýtti mér frá og togaði í vin sinn Batman sem stóð þarna á pardusbrók og hataði mig á merkislausum gallabuxum pexandi með lummó túristatrixi. Þessi þriðji kostur, sem við höfðum tekið, var að því leyti illur, að nú var varla stætt á því að fara aftur í biðröðina. Guðfræðingur og heimspekingur höfðu eins og ég þó þann vott sjálfsvirðingar, sem jafnframt er passíf andspyrna gegn portókrötum (þeas. gerráðum dyravörðum), að svífa hnarreistir á braut, steinþegjandi, - á ensku. Salurinn rauði Röda rummet er öðruvísi. Þar kemur nokkuð af því fólki sem ég kalla í þröngsýni minni venjulegt. Þetta eru menn undir þrítugu aðallega; sum kvöld eru þó flestir um tvítugt. Útgangurinn hneigist nokkuð í pönkáttina, en undanvilla frá því striki mætir hlýjum skilningi. Ekki er laust við að grunur falli á margan gestinn um ástundun ritstarfa eða listhneigð. Röda rummet er stór og glæsiskreyttur salur frá síðustu öld framanverðri. Mig minnir raunar óljóst að hann sé 150 ára sem skemmtistaður. Röda rummet, eða Bems salonger eins og það er líka nefnt, er fyrst og fremst þekkt vegna sögu Strindbergs, Röda rommet, sem fyrir fáum árum var þýdd á íslensku. Staðurinn var á sínum tíma, eins og sést í sögunni, samastaður listamanna. Það eimir trúlega enn eftir af því. Annars er þetta ósköp venjulegur skemmtistaður og minnir dálítið á Borgina. En glysið ogglamúrinn í hinum herfilegasta ofhlæðisanda skapar skemmtilega mótsögn við gestina, unga og vonandi frjóa og uppreisnargjarna. Þó getur maður, þrátt fyrir allt, að skaðlausu spurt þeirrar spurningar hvort „mótsögnin" sé veruleg. Alræmd og rómuð róttækni Svía hefur að miklu leyti farið framhjá mér. Hvað vinstriflokkana snertir þá er þar um að ræða eitt stykki einskonar alþýðubandalag, sem á á hættu að missa síðasta þingsætið í haust. Þessum flokki stýrir góðlátleg útgáfa af Aksel Larsen og heitir Lars Werner, - vinsæll maður semsé. Róttækari vinstri- félög eru til í landinu, en eru yfirleitt flísar úr öðru og mörg, og þar af leiðir að þeir hópar eru litlir. Þar sem sósíalísk viðhorf eru Svium hættuminnst, þeas. á sviði menningarmála og utanríkisstefnu, kemur ýmislegt fyrir sem sprellikörlum bandaríska auðvaldsins á íslandi þykja stórmerki. En í eigin efnahagslífi hafa Svíar jafnan verið jafn sauðdyggir auðvaldinu og þeir hafa elskað kónginn. Þess vegna getur svosem vel verið að æskulýður og menntafólk í Rauða salnum einbeiti sér að tilvistarstefnu og nýsálgreiningu (eða kannski nýnýsál- greiningu), en þau umræðuefni er vandalaust að flúra svo nosturslega að vel hæfi veggjunum hjá Berns. Já, nú er víst ekki rúm til að ræða frekar um Röda rummet og Ágúst gamla. Ég kem þá bara að því næst. En ég má til að segja frá því að maðurinn sem stóð á undan okkur í röðinni í Óperukjallarann var álíka illa settur og við að því leyti að hann komst aldrei inn í dýrðina. Hinsvegar var hann ver settur að því leyti að hann hafði verið gerður út af örkinni til að skrifa mikla kynningu í kratamoggann um flottu skemmtistað- ina í bænum. Skýrslan varð heldur þunn hjá manngreyinu, og ljósmyndir allar teknar utanhúss. Ein meginíþrótt með Svíum er að gægjast í skráargötin hjá fína fólkinu, eins og upplagstölur vikublaða sanna. Mér fannst það kannski segja sína sögu, þrátt fyrir allt, að vesalings kratasnápnum tókst ekki betur upp en þetta. Kannski hefði pilturinn helst viljað setja í stað utanhússljósmyndanna yfirlýsingu þess efnis að hann teldi berin í tískuparadís- inni undir óperuhelvítinu súr. En svoleiðis gerir maður bara ekki. Júlí, ÁS. Árni Sigurjónsson skrifar Slokkhólmsbréf

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.