Tíminn - 21.01.1988, Blaðsíða 9

Tíminn - 21.01.1988, Blaðsíða 9
Fimmtudagur 21. janúar 1988 Tíminn 9 Kristín Einarsdóttir: Breytt verkaskipting rikis og sveitarfélaga Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þetta frum- varp er sagt vera fyrsta skrefið sem stigið er í átt að skýrari verkaskipt- ingu og fjármálalegum samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga. Einnig er tilgangurinn sagður vera að gera sveitarfélögin sjálfstæðari og síður háð ríkisvaldinu. Aðeins hluti af tillögunum Að hluta til er frumvarpið byggt á tillögum tveggja nefnda, verka- skiptanefndar og fjárhagsnefndar, sem skipaðar voru af stjórnvöldum í september 1986. Nefndirnar skil- uðu áliti í apríl 1987. í nefndum þessum áttu sæti sjö menn allir af þéttbýlissvæðunum suðvestan- lands og þeim til aðstoðar voru sérfræðingar af sama svæði. M.a. af þeim ástæðum taldi ég og margir fleiri alþingismenn að nauðsynlegt væri að fá álit sveitarstjórna um efni frumvarpsins, ekki síst frá sveitarfélögum í strjálbýli og frá fámennari þéttbýlissveitarfélög- um. Frumvarpið sent til allra sveitarstjórna Loksins hefur það fengist f gegn að frumvarpið hefur verið sent öllum sveitarstjórnum til kynning- ar og fá þær nú tækifæri til að láta álit sitt í ljós. Vonast ég til að sveitarstjórnir láti sem fyrst til sín heyra um efni frumvarpsins. Enn- fremur er nauðsynlegt að sveitar- stjórnarmenn um land allt kynni sér vel og tímanlega næstu skref verkaskiptingar og komi athuga- semdum á framfæri. Sérkennilegt „fyrsta skref“ Þótt ég hafi ýmislegt við niður- stöður nefndanna að athuga og telji sumar tillögurnar orka tvímæl- is, finnst mér einkennilegt að nú á að flytja kostnaðarsamari verkefni til sveitarfélaganna en þau sem ríkið tekur að sér á móti. Val á verkefnum, þar sem breyta á verkaskiptingu „í fyrsta áfanga“ er næsta sérkennilegt og víst er að í því endurspeglast hvorki áherslur sveitarfélaga á verkefnatilflutningi né heldur annarra aðila er starfa að einstökum málum er frumvarpið tekur til. í því sambandi má benda á viðfangsefni eins og tónlistar- skóla, íþróttamálefni og byggða- söfn. Andstaða hjá mörgum sem hafa látið álit sitt í Ijós Viðtæk andstaða og mótmæli hafa komið fram um fyrirætlanir varðandi rekstur tónlistarskóla. FuIItrúar íþróttahreyfingarinnar hafa lýst þungum áhyggjum vegna breytinga á íþróttalögum og þjóðminjavörður og talsmenn byggðasafna eru örvæntingarfullir vegna breytinga á þjóðminjalög- um. Með samþykkt frumvarpsins er hætta á að faglegt eftirlit með dagheimilum verði úr sögunni af hálfu stjórnvalda. Ég lít svo á að uppeldi og menntun forskólabarna sé ekki síður mikilvæg en annarra barna og því verði fagleg sjónarmið að vera þar ráðandi ekki síður en í menntun annarra barna. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga Hluti af lögbundnum tekjustofn- um Jöfnunarsjóðs hefur á undan- förnum árum runnið í ríkissjóð. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1988 er Jöfnunarsjóðurinn skertur um rúmar 100 milljónir króna sem er minni skerðing en árið 1987. Svo furðulegt sem það kann að virðast er minni skerðing á Jöfnunarsjóðn- um í ár líklega vegna áðurnefnds frumvarps um aukin verkefni sveit- arfélaganna. Af Jöfnunarsjóðnum var áætlað að 100 milljónir færu til að mæta þeim verkefnum sem ríkissjóður hefði annars átt að taka á sig og 100 milljónir til gera upp hluta af því sem ríkissjóður skuldar sveitarfélögunum. Framtíð Jöfnunarsjóðsins Samkvæmt núgildandi lögum er gert ráð fyrir að í Jöfnunarsjóð renni ákveðinn hluti af söluskatti. Nú hefur ríkisstjórnin boðað að um næstu áramót skuli tekinn upp virðisaukaskattur í stað söluskatts. Hvað verður þá um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga? Nú eru lög um tekju- stofna ríkis og sveitarfélaga í endurskoðun. Pví er eðlilegt að þeirri endurskoðun verði lokið áður en verkefnatilflutningur milli rfkis og sveitarfélaganna á sér stað. Byrjað á öfugum enda Ég tel því að með þessu frum- varpi sé byrjað á öfugum enda. í stað þess að tryggja fyrst fjárhags- lega stöðu sveitarfélaganna er ráð- ist í „áfanga" í verkefnatilflutningi og valdir úr þættir sem orka tví- mælis að því er verkaskiptingu áhrærir og gagnast sveitarfélögun- um lítið fjárhagslega. Pað væri því miklu eðlilegra að fresta öllum hugmyndum um breytta verka- skiptingu milli ríkis og sveitarfél- laga um a.m.k. eitt ár. Það er í samræmi við tillögur nefndanna tveggja um breytta verkaskiptingu. Nefndirnar lögðu til að breytingin yrði gerð um áramótin 1988/1989. Rasa ekki um ráð fram Á einu ári er hægt að skoða málið betur í samvinnu við sveitar- stjórnir og hlutaðeigandi aðila bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fjármögnun við breytta verka- skiptingu verður að vera ljós en ekki í lausu lofti. Ekki er nóg að fjármagn sé tryggt í eitt ár ef botninn dettur svo úr um næstu áramót. Ég tel nauðsynlegt að skoða málið betur í heild, rasa ekki um ráð fram og gera öllum grein fyrir hvað þarna er á ferðinni. Pað eykur hvorki valddreifingu né sjálfstæði sveitarfélaga ef þau þurfa eftir sem áður að sækja í sjóði til ríkisins, sjóði sem ríkis- valdið getur ráðskast með að vild. Reykjavík 19. janúar 1988 Kristín Einarsdóttir BÓKMENNTIR Dýrð Sigfús Daðason: Útlínur bakviö minnið, fjórða Ijóðakver, Iðunn, 1987. í>að eru ekki mörg ljóð í þessari nýju ljóðabók Sigfúsar Daðasonar, aðeins eitthvað rúmlega tveir tugir, en hvernig sem á því stóð þá stað- næmdist sá er hér ritar aftur og aftur við eitt þeirra. Pað heitir Vængja- sláttur, er í hópi fleiri ljóða sem þarna eru undir samheitinu elegíur, eða saknaðarljóð, og á sér stað í höfuðstað Norðurlands. Þar segir fyrst frá því að Akureyri sé mjög skreytt reynitrjám, síðan er að því vikið að ef einhver gengi um bæinn á septemberkvöidi þá myndi hann upplifa það að dimmur skuggi innfjarðarins fylgdi honum á aðra hönd hvar sem hann færi, lifandi, kvikur og líkur sálarspegli. Eftir það víkur mynd ljóðsins upp í það sem nefnt er „heilagur lundur" er „rís í hæðir“ og óneitanlega virðist vísa til lystigarðs þeirra Akureyringa. Þar er persóna ijóðsins orðin að einmana manni, sem styggir upp fuglana með skóhljóði sínu. Og ljóðinu lýkur svo með þessum orðum: „Og upp fyrir honum rennur þá: hvíh'k/ sú dýrð sem einmananum hlotnast.“ Nú er það sannast sagna að í þessari bók yrkir höfundur mjög í þeim anda sem oftast er kenndur við atómskáldin sem hér ollu hvað mest- um deilum upp úr seinna stríði. Þetta eru innhverf og fáorð ljóð, þar sem áherslan er öll á hnitmiðun, skírskotunum og vísunum, en um fram allt á sparsemi með orð. Ljóðið einmanans um fuglana á Akureyri er vissulega í þessum dúr, en kannski kemur það á óvart vegna þess hve svið þess er óvanalega nálægt okkur í tíma og rúmi; þaðfjallarum stað og efni sem höfðað getur nánast til hvers einasta íslendings nú á dögum. Annars er það sannast sagna að í þessari bók kemur Sigfús Daðason nokkuð víða við. Meðal annars eru ádeilur nokkuð áberandi þarna, einkum í þremur ljóðum undir sam- heitinu Síðustu bjartsýnisljóð, en einnig víðar. Þá er þarna smekklegt minningarljóð sem heitir Jóhann Jónsson, um skáldið með því nafni. Þá er þarna forvitnilegt verk sem heitir í þessu húsi og gæti jafnvel verið skírskotun til Eddu og sögunn- ar um það er Óðinn hékk í trénu í leit að viskunni. Líka er þarna ljóð sem heitir Gullöid og felur í sér Sigfús Daðason skáld. býsna glögga mynd af dýrðartímum Rómverja hinna fornu. Líka má nefna ljóð sem heitir In memoriam og sýnist samkvæmt skýringum höfundar í bókarlok vera j eins konar erfiljóð um vinkonu hans, j Málfríði Einarsdóttur. Því lýkur á , andlátsorðum hennar, „Nú þarf stór- an galdur“, og út af þeim er svo lagt í næsta ljóði sem nefnist Galdur og er um ýmislegar hliðar lífsgaldurs- ins. Og fleira mætti hér til tína, en í stuttu máli sagt leynist töluvert margt forvitnilegt innan spjalda þessarar nýju ljóðabókar þó að fyrir- ferð hennar sé ekki mikil. Sigfús Daðason hefur ekki verið afkasta- mikill í ljóðagerð sinni, en það sem frá honum hefur komið er kjarngott, og svo er enn hér. -esig FRÍMERKI Noregur Árið 1974 hófu Norðmenn að gefa út frímerki með verkum sígildra norskra málara. Brúðarferðin á Harðangri og Stugunöset, myndir eftir Tidemann og Gude annars vegar og J.C.Dahl hinsvegar. Á degi frímerkisins, sem var sá sami hjá þeim og okkur, eða 9. október, gáfu þeir svo út sjöundu samstæðuna í þessum flokki með myndunum Hart til hlés eftir Christian Kroh, sem hann málaði 1882. Verkið er í kon- ungshöllinni í Osló, og verðgildi þess Nkr. 2.70. Hitt merkið er með mynd Gerhard Munthe Bóndagarð- urinn, sem er á Listasafni ríkisins og var málað 1889. Verðgildi þess er Nkr. 5.00. Merkin eru offsetprentuð hjá Chrix Dahl.. En á degi frímerkisins kom líka út örk, eins og hér og er haldið áfram með þemað úr atvinnulífinu. Nú er það fiskeldi sem er kynnt. Smáörkin er með árituninni Dagur frímerkis- ins 1987. Norskt atvinnulíf III, og kostar 15.00 Nkr. Fjögur frímerki eru í smáörkinni og eru þau samtals að burðargjaldsverði Nkr. 13.00, en 50 aurar leggjast á hvert frímerki. Það er laxinn sem er þema merkj- anna allt frá því að hann er kreystur þar til seyðin eru orðin fullunnin söluvara. Merkin eru teiknuð af Leif F. Anisdahl og offsetprentuð marglit. Þau verða aðeins til sölu út árið 1987. Gefnar eru út 800.000 smáark- ir og ef þær seljast upp gefa þær frímerkjaklúbbum og fræðimönnum 1.600.000 í styrki í norskum krónum, eða tæpar 10 miljónir ís- lenskar krónur. Það var nærri tveggja blaðsíðna listi sem var send- ur út yfir styrki þá sem veittir voru úr þessum sjóði í fyrra, til útgáfustarf- semi, ritunar bóka, styrkja til sýning- arhalds og reksturs klúbba o.s.frv. Þessi listi verður sennilega ekki svo langur hjá okkur í bráð, en bíðum og sjáum hvað setur. Svo eiga eftir að koma út fjögur jólafrímerki í heftum, samskonar heftum og landvættirnir okkar eru í, og er það síðasta útgáfa ársins í Noregi að þessu sinni. Þá er komin skrá yfir útgáfur norskra frímerkja á næsta ári, en henni verða gerð skil síðar. Það er athyglisvert að skoða og bera saman útgáfustjórnun þá sem er á annarsvegar íslenskum og hins- vegar norskum, dönskum og fær- eyskum frímerkjum. Vona ég að mér vinnist tími í vetur til að gera það hér í blaðinu og draga fram hversu líkar útgáfurnar eru og ýmis- legt sem varðar tilefnin. Vissulega hafa öll löndin sín sérkenni, en samkennin eru einnig mörg og vel þess virði að athuga þau. Sigurðnr H. Þorsteinsson.

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.