Tíminn - 04.03.1989, Blaðsíða 6
6 Tíminn
Láugaídágur 4. márs 1989
Markús Á. Einarsson veðurfræðingur í helgarviðtali:
„Veturinn hef ur sýnt
sitt rétta andlit"
Veturinn hefur lagst þungt á sálarlíf margra og
fjölmiðlar hafa mikið fjallað um hluti eins og veðraham,
ófærð, rafmagnsleysi, snjókomu og hafís. Einnig hafa
hin svokölluðu gróðurhúsaáhrif og eyðing ósonlagsins
verið til umræðu, en þar kemur fram að mannskepnan
getur með hegðun sinni jafnvel breytt veðrakerfi jarðar-
innar. Markús Á. Einarsson veðurfræðingur og deildar-
stjóri veðurspárdeildar Veðurstofu íslands er í helgar-
viðtali Tímans og ræðir meðal annars um þessi atriði.
- Nú hefur mikið verið talað um
hversu slæmur þessi vetur hefur verið
veðurfarslega séð, staðfesta tölur
Veðurstofunnar þetta?
„Svarið við þessu getur verið tvíþætt.
Erfitt er að meta það útfrá veðurathug-
unum hvort umhleypingar í vetur hafi
verið meiri en oftast gerist. Ég vil þó
halda því fram að þeir hafi veriðóvenju
miklir og langvarandi en áreiðanlega
ekkert einsdæmi. Rétt er að menn átti
sig á því að undanfarnir tveir til þrír
vetur hafa verið óvenju hagstæðir.
Mönnum bregður því í brún þegar
íslenskur vetur sýnir sitt rétta andlit.
Líklega eru undanfarnir þrír vetur
óvenjulegri en sá sem nú er að líða,
þótt ýmsum kunni að þykja það
kyndugt.
En þótt við getum ekki metið um-
hleypinga tölulega er enginn vafi á því
að mælingar sýna mikil snjóalög
norðanlands í vetur og hefur síðustu
daga mátt sjá ótrúlega háar tölur um
snjódýpt í veðurskeytum. Vindhraði
hefur einnig verið mikill víða um land
og á miðum umhverfis það. Allt hefur
þetta valdið gífurlegum samgönguerf-
iðleikum og stopulum gæftum. Þrátt
fyrir allt þetta leyfi ég mér að staðhæfa
að þessi vetur er ekkert einsdæmi, og
blæs á það þótt elstu menn muni ekki
annað eins.“
- Hvaða skýringar eru á því að svona
mikill fjöldi lægða hefur farið hér yfir
að undanförnu?
„Það er í rauninni afskaplega einföld
skýring á því. ísland er þannig staðsett
á norðurhvelinu að það er út í miðju
hafi og oft á tíðum á mörkum kaldra
loftmassa sem koma úr norðri og hlýrra
loftmassa úr suðri. Þar sem loft með
mjög miklum hitamismun mætist verð-
ur gífurleg ólga, það hreinlega myndast
lægðir og einkum að vetrarlagi geta þær
orðið mjög djúpar. Þær eiga þá mjög
oft leið úr suðvestri til norðausturs
nálægt íslandi. Það er því afstaða
landsins til hlýs og kalds lofts sem
ræður þessu.
Ég er hræddur um að það þyki ekki
góð ferðamannaauglýsing fyrir ísland
að í veðurfarsfræðinni er til hugtakið
„íslandslægð“. Sé teiknað eins konar
meðalveðurkort ársins fyrir Norður-
Atlantshafið reynist ætíð vera „meðal-
lægðarmiðja“ skammt suðvestur af ísl-
andi.Hún gefur tilefni til að ætla að í
grennd við okkur séu lægðir tíðastar og
dýpstar.
Nú, ég hef ekki enn svarað spurning-
unni að fullu, því að lægðirnar eiga
ekki alltaf leið nálægt okkur. Stundum
hagar svo til að kalda loftið ræður
ríkjum langt suður fyrir ísland. Skil
hlýja og kalda loftsins og þar með
lægðirnar eru þá talsvert sunnan við
okkur og renna gjarnan frá vestri til
austurs og angra Breta og Skandinava.“
Sálgæsla á Veðurspádeildinni
- Heldurðu að það sé rétt að íslend-
ingar hafi meiri áhuga á veðrinu en
aðrar þjóðir?
„Ég tel nú engan vafa Ieika á því, og
fyrir því eru mjög skiljanlegar ástæður.
Það er stór hluti atvinnulífsins sem á
allt sitt undir veðri og þeir sem tengjast
þessum atvinnuvegum hljóta að fylgjast
nokkuð náið með veðrinu. Því er svo
við að bæta að við búum á einu
órólegasta veðursvæði norðurhvelisins.
Illviðri hér eru oft miklu verri en
gengur og gerist til dæmis í Evrópu.
Þetta veldur því að almenningur verður
að fylgjast vel með. Hvort kalla á það
áhuga eða áhyggjur er svo annað mál.“
- Hafið þið á Veðurstofunni orðið
vör við það að veturinn hafi lagst þungt
á fólk?
„Það er erfitt að halda því fram að
við verðum vör við þunglyndi vegna
veðurs í skammdeginu. Hinu er ekki að
leyna að veðurspádeildin annast með
vissum hætti sálgæslu að því leyti að
mikið er um að fólk hringi af einhvers
konar hræðslu við veðrið og spyrji
spurninga sem að öðru jöfnu þættu
óþarfar.“
Athafnir sem breyta
veðrakerfunum?
- Ef við snúum okkur að því hvernig
athafnir mannsins geta hugsanlega
breytt veðrakerfinu, t.d. því sem kallað
hefur verið gróðurhúsaáhrif. Hverjar
eru skýringar vísindamanna á þessum
áhrifum?
„Já, þetta hefur svo sannarlega verið
mikið í fjölmiðlum að undanförnu, en
er þó alls ekki nýtt af nálinni. Ætli það
séu ekki einn til tveir áratugir síðan
menn fóru að hafa af því áhyggjur að
athafnir manna kynnu í framtíðinni að
hafa áhrif á veðurfar. Það er vissulega
ógnvekjandi tilhugsun.
Alþjóðaveðurfræðistofnunin hélt
heljarmikla ráðstefnu um veðurfar
heimsins og hugsanlegar breytingar
þess í Genf árið 1979. Ég átti þess kost
að sitja þá ráðstefnu og hef reynt að
fylgjast lauslega með framvindu mála
síðan. Þá þegar voru svonefnd gróður-
húsaáhrif ofarlega á blaði og ég skal
reyna að lýsa hvað í því felst þótt það
sé erfitt í stuttu máli.
Það er lofttegundin koltvísýringur
sem kemur þarna fyrst og fremst við
sögu. Hún hefur vitaskuld alla tíð verið
til í mjög litlu magni í lofthjúpnum
enda virkur þátttakandi í lífkeðju
jarðar. Það hefur hins vegar gerst í
sívaxandi mæli á þessari öld að olíur og
kol eru notuð sem eldsneyti og orku-
gjafi. Við bruna olíu og kola myndast
koltvísýringur, þar með hefur magn
hans í lofti aukist jafnt og þétt, og það
þrátt fyrir þá staðreynd að bæði hafið
og meginskóglendi jarðar nema þessa
lofttegund í sig og binda hana.
En hver eru svo áhrif vaxandi koltví-
sýrings í loftinu? Jú, þessi lofttegund
hefur þann eiginleika að hleypa sól-
geislum óhindrað til jarðaryfirborðs.
Þegar yfirborðið vill að hluta greiða
fyrir þá orku sem sólin hefur látið í té
snýst dæmið hins vegar við. Koltvísýr-
ingurinn hindrar geislun frá jörð í að
komast út í geiminn, nemur geislunina
í sig og endursendir varmaorku til
yfirborðsins með eigin geislun.
Hvað þýðir nú þetta? Spyr vafalaust
einhver. Jú, aukist koltvísýringur eykst
sá varmi sem hann kemur í veg fyrir að
komist upp gegnum lofthjúpinn. Úr
því að aukinn varmi er eiginlega neydd-
ur til að halda sig nærri yfirborði þýðir
þetta hitaaukningu. Og þá erum við
komin að því sem fjölmiðlar fjalla svo
mikið um.
Vísindamenn telja sumir hverjir að
magn koltvísýrings í lofthjúpnum
kunni að tvöfaldast á næstu 40-50 árum
aukist notkun olíu og kola áfram með
sama hraða. Hafa þeir útbúið einföld
reiknilíkön til að reikna út þá hitaaukn-
ingu sem kynni að verða við tvöföldun
magnsins. Niðurstöður eru auðvitað
margvíslegar, en það sem mesta athygli
hefur vakið er, að á norðlægum
slóðum, þ.e. á okkar slóðum og þar
fyrir norðan kynni hitaaukningin að
verða af stærðargráðunni 4-6 stig, sem
þýða myndi allt aðrar aðstæður en við
búum nú við og ef til vill mun hærra
sjávarborð, þar eð ís myndi bráðna
vegna hlýinda.
Ég held ég fari ekki nánar út í þetta
hér, en vil þó fá að bæta við þeirri
skoðun minni að umfjöllun um þetta í
fjölmiðlum hefur að því leyti verið í
æsifregnastíl að aldrei er minnst einu
orði á alla þá fyrirvara sem hafa ber í
huga. Nokkur dæmi um þá eru eftirfar-
andi:
í fyrsta lagi skulum við hafa í huga
að náttúrulegar veðurfarsbreytingar
sem vissulega eiga sér stað gætu á næstu
áratugum gengið í þveröfuga átt við
hitaaukningu af völdum koltvísýrings-
ins. Hér á Islandi þekkjum við á þessari
öld hitafar allt frá því hagstæðasta sem
hér hefur orðið frá því land byggðist,
og á ég þá við tímabilið 1926-1946, yfir
í veruleg kuldatímabil. Ekki skýrir
aukning koltvísýrings slíkar sveiflur.
Þeir strangtrúuðustu á áhrif koltví-
sýrings vísa til þess að meðalhiti jarðar
hafi aukist nokkuð síðustu öldina. Á
móti má spyrja hversu áreiðanlegur sá
samanburður er. Annars vegar er þétt
net veðurstöðva með góð tæki nú til
dags og hins vegar fáar og ónákvæmar
mælingar áður fyrr.
Nútímatölvuspár byggja á flóknum
reiknilíkönum fyrir lofthjúpinn en gilda
samt ekki nema í hæsta lagi fimm til tíu
daga fram í tímann. Hversu áreiðanleg-
ar eru þá niðurstöður einfaldra reikni-
líkana sem eiga að lýsa breytingum sem
gerast á mörgum áratugum.
Loks getum við velt því fyrir okkur
hvort notkun olíu og kola aukist með
sama hraða næstu hálfu öldina. Skyldi
ekki geta orðið erfitt að ná til olíu og
má ekki reikna með þróun nýrra orku-
gjafa??“
- En eru menn ekki almennt farnir
að draga þessa kenningu í efa?
„Það er mín skoðun að vísindamenn
hafi að undanförnu verið of ályktana-
glaðir hvað varðar þetta efni. Það
breytir hins vegar engu um það að
brýnt er að halda áfram rannsóknum á
hugsanlegum áhrifum manna á veður-
far og er þá ekki nema eðlilegt að ný
sjónarmið komi fram og efasemdir
vakni um það sem áður hefur verið
hald manna. Ég hef verið lítið hrifinn
af því hvernig fregnir af þessum kenn-
ingum hafa verið birtar almenningi.
Þótti mér til dæmis heldur djúpt í árina
tekið í ályktun frá alþjóðaráðstefnu um
þessi mál sem haldin var í Kanada á
síðasta ári, þegar afleiðingar gróður-
húsaáhrifa voru taldar ganga næst af-
leiðingum kjarnorkustyrjaldar.“
Ósonlagið
- Hvað með eyðingu ósónlagsins sem
einnig hefur verið mikið rætt um?
»Ég er nú enginn sérfræðingur á
þessu sviði og reyndar er það svo að
áhyggjur manna beinast ekki beinlínis
að veðri heldur að þeim möguleika að
hættuleg útfjólublá geislun nái niður til
yfirborðs jarðar ef ósonlagið veikist.
Óson eða þrígilt súrefni myndar í
20-30 kílómetra hæð eins konar ósýni-
legan skjöld sem verndar okkur gegn
bylgjustystu geislun sólar sem er út-
fjólublá geislun hættuleg lífríki jarðar.
Gæti hún meðal annars aukið húð-
krabbamein meðal manna. Öll orka
þessarar geislunar hefur fram til þessa
verið notuð þarna uppi til myndunar og
viðhalds ósonlagsins. En enn einu sinni
er maðurinn farinn að trufla umhverfi
sitt. Efnasambönd sem nefnast klór-
flúormethan eða Freon á viðskiptamáli
og notuð hafa verið í úðabrúsa af ýmsu
tagi og í kælikerfum virðast smám
saman berast upp í heiðhvolfið og hafa
þar eyðandi áhrif á ósonið. Vísinda-
menn víða um heim glíma nú við þann
vanda að mæla ósonlagið og greina
áhrif þessara efna. Komið hefur í ljós
mikil þynning ósonlagsins, einkum yfir
Suðurskautslandinu og er reynt að
finna svar við því hvort um eðlilegar
sveiflur er að ræða eða ekki.
í þessu máli sýnist mér umfjöllun
fjölmiðla hafa haft veruleg áhrif til
góðs. Vitneskja um málið hefur leitt til
þess að framleiðsla þessara vafasömu
Freon-efna hefur dregist saman.“
Hæglátt vorveður í nánd?
- Ef við snúum okkur aftur að veðri
dagsins í dag, viltu spá einhverju um
hvenær vorið kemur hingað til lands?
„Við höfum áreiðanlega öll tekið
eftir því hversu hratt ylur sólar eykst
þessa dagana með ört vaxandi sólar-
hæð. En allir ættu að vita að ég get ekki
með neinu móti spáð um það hvernig
veður hegðar sér næstu vikurnar. Oft
éigum við veðurfræðingarnir fullt í
fangi með að ráða við veðurspána einn
sólarhring fram í tímann. en reynum
þó líka að meta veðurhorfur á öðrum
og þriðja degi. En eitt er þó óhætt að
staðhæfa. Með hækkandi sól dregur úr
krafti lægða, vindar verða hægari og ég
er að minnsta kosti í hópi þeirra sem
hlakka til hægláts vorveðurs."
Sigrún S. Hafstein