Tíminn - 22.04.1989, Blaðsíða 6

Tíminn - 22.04.1989, Blaðsíða 6
6 Tíminn L'augardagur'22.! apríl -1989 jp Bjarni Felixson íþróttafréttamaður í helgarviðtali: Eg var í hlutverki stríðsfréttamanns Fyrir um rúmri viku var Bjarni Felixson mættur til Sheffield til að lýsa leiknum milli Liverpool og Notthingham Forest í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar á Hillsborough leikvanginum. Vegna harmleiks á áhorf- endapöllunum, þar sem 94 létu lífið og tugir slösuðust, breyttist hlutverk hans. Allt í einu er hann í þeirri aðstöðu að þurfa að lýsa meiðslum og dauðsföllum í stað spennandi íþróttakeppni. Þessu hlutverki líkir hann við starf stríðsfréttamanns og telur að enska knattspyrnan sem hann hefur fylgst með í áratugi verði aldrei söm og áður. - Hvemig blöstu hörmungarnar við þér? „Leikvangurinn var troðfullur þar sem miðar á leikinn höfðu selst upp löngu áður og mun færri fengu miða en vildu. Ég sat upp undir þaki suðurstúk- unnar þannig að atburðirnir urðu mér á vinstri hönd. Leikurinn hófst á réttum tíma og ég sá ekkert athugavert við svæðið fyrir aftan mark Liverpool. Leikurinn byrj- aði með miklu fjöri og hefði örugglega orðið einn skemmtilegasti Ieikur keppnistímabilsins, það fer ekkert á milli mála. Þegar sex mínútur voru liðnar af leiknum á Liverpool þrumu- skot í þverslánna og þá urðu menn varir við læti fyrir aftan mark Liver- pool. Slíkt er náttúrulega ekki eins- dæmi og flestir héldu að menn væru að kljást í þrengslunum. En síðan kemur lögreglumaður hlaupandi inn á völlinn og stöðvar leikinn. Þá héldu bæði ég og aðrir að um væri að ræða venjuleg ólæti sem geta brotist út og eru þá yfirleitt vegna þrengsla. Maður gerði sér ekki grein fyrir því að þarna var hörmulegt slys í uppsiglingu. Auðvitað hafði ég séð þessar öryggis- girðingar á knattspyrnuvöllum erlendis en þær eru settar upp til að halda áhorfendum aðskildum í eins konar hólfum til að koma í veg fyrir innbyrðis slagsmál og einnig til að þeir komist ekki út á völlinn. Þarna kemur upp úr kafinu að þetta eru dauðagildrur. Fyrstu tuttugu mínúturnar höfðu vallargestir og við fréttamennirnir ekki hugmynd um hvað var að gerast. Svo fór að renna upp fyrir mönnum ljós. Við fréttamennirnir fengum fyrst þær upplýsingar að mikill troðningur hefði orðið fyrir utan völlinn og í þeim atgangi hefði þeim sem þar voru tekist að opna eitt hliðið og síðan þrýst öllum sem voru í hólfinu fram að öryggisgirð- ingunni. Þá skildum við náttúrulega ekki að þarna var fólk að deyja. Seinna kom í ljós að lögreglan hafði opnað hliðið. Málið er það, frá mínum bæjardyrum séð, að þessi leikur var alltof stór fyrir þennan völl. Þó er auðvitað margt sem spilar þarna inn í. Áhangendur Liverpool, sem eru fjöl- mennastir allra stuðningsmanna á Englandi, fengu fjögur þúsund færri miða en stuðningsmenn Nottingham Forest. Þeim var líka ætlaður staður á vellinum sem er mun erfiðari inngöngu. Þegar ég fór daginn eftir til að skoða aðstæður sá ég hvernig þrengslin hafa getað myndast fyrir utan völlinn. Þar eru þröngar íbúðagötur, og troðningur- inn byrjaði fyrir utan tíu mínútum áður en leikurinn átti að hefjast og lögreglan réð ekki við neitt. Þegar lögregluforing- inn tekur þá ákvörðun að opna hliðið, gerir hann það í þeirri trú að hann sé að bjarga mannslífum fyrir utan völlinn. Það er alveg ljóst að þar voru í hættu börn og unglingar sem stóðu fremst við hliðið. Síðan þegar Iögreglan opnaði þá þustu allir stystu leið beint fyrir aftan markið. Þar voru fyrir um fjögur þúsund áhorfendur í sérstöku hólfi og síðan ýtti hver á annan. Þetta kom eins og bylgja og var auðvitað fyrst og fremst múgæsing. Seinna varði lögreglan gerðir sínar með því að með þeim hafi lögreglufor- inginn forðað slysum fyrir utan völlinn. Hann gat ekki gert sér grein fyrir afleiðingunum því til hliðar við þetta hólf, við hornfánana, var sæmilegt pláss en til þess að komast þangað þurfti að fara að inngöngudyrum sem eru við hornfánana. í stað þess fer allur straumurinn inn um inngöngudyrnar sem eru beint fyrir aftan markið. Þegar leikurinn hefst byrja fagnaðarlæti og fólk gefur sér engan tíma til að hugsa og skriðan fer af stað. Vallargæslan fyrir utan fór úr skorð- um vegna þess að alltof margt fólk var mætt á staðinn og mikill fjöldi var án aðgöngumiða. Síðan byrjar leikurinn með miklu fjöri. Nottingham Forest fékk hornspyrnu strax á fyrstu mínút- unni og síðan á Liverpool skot í þverslánna og þá heldur fólkið fyrir utan að það sé verið að skora mark og það sé að missa af einhverju. Þá ryðst það inn með þessum ógurlegu af- leiðingum. Atburðarásin er einkennileg því þetta virðist hafa byrjað fyrir utan tíu mínútum áður en leikurinn hófst. Það komu allt of margir áhangendur Liv- erpool á þetta áhorfendasvæði og mikiil fjöldi þeirra miðalausir. Öryggisgæslan var hreinlega ekki viðbúin þessu og það voru hundruðir manna sem fóru inn miðalausir. Þegar troðningurinn hefst fyrir utan reynir lögregluliðið sem var statt þar að koma boðum til varðanna inni um að seinka leiknum því þúsundir manna séu fyrir utan og fólk sé hrein- lega í hættu. Þarna hafa samskipti milli lögreglunnar brugðist því þessi skila- boð komust aldrei til skila. Lögreglan fyrir utan reyndi að róa fólkið með því að segja að leiknum yrði seinkað um korter en þegar fagnaðarlætin byrja fyrir innan þá greip um sig múgæsing og skriðan fór af stað. Fólkið hreinlega kramdist. Það voru margir sem létu lífið uppistandandi og hrundu niður þegar þrýstingurinn minnkaði. Þá gerðu menn sér grein fyrir því að þarna var fólk að deyja og greinilega margir þeirra dánir sem voru fremst við girðinguna. - Til hvaða ráða var þá gripið, var girðingin rifin niður? „Fyrst eftir að leikurinn var stöðvað- ur þá reyndu þeir að koma fólkinu frá girðingunni. Lögregluliðið gerði sér þá ekki grein fyrir því að þarna væri fólk hreinlega að deyja. Þeir héldu að þarna væri um múgæsingu að ræða á áhorf- endapöllunum og þeir reyndu að koma fólkinu aftar og til hliðanna. Á girðing- unni voru hlið sem áttu að vera til öryggis en þegar til átti að taka komu þau að mjög litlu haldi því þau voru svo þröng og langt á milli þeirra. Það var ekki fyrr en lögreglan réðist á girðing- úna með vírklippum að það fór að ganga að koma fólkinu í burtu. Það var hrikaleg sjón að sjá þegar menn voru að klifra úr hólfinu og upp í stúkuna fyrir ofan, til að forða sér og áhorfendur sem þar voru reyndu að bjarga þeim því auðvitað sáu þeir hvað var að gerast. - Aðrir gerðu sér enga grein fyrir því að þarna var fólk að deyja fyrir framan augun á þeim. Viðbúnaðurinn og skipulagningin fyrir leikinn brást alveg hryllilega, þeg- ar þessi aðstaða kom upp voru menn lengi að bregðast við. Vissulega var erfitt að koma auga á hvað var nákvæmlega að gerast. Stuðn- ingsmenn Nottingham Forrest púuðu og bauluðu í hálftíma eftir að leikurinn var stöðvaður og létu áhangendur Li- verpool heyra það. Þeir höfðu enga hugmynd um hvaða hroðalegi harm- leikur var að gerast hinumegin á vellin- um. Það var ekki fyrr en farið var bera dáið fólk út af vellinum á auglýsinga- spjöldum að þeir gerðu sér grein fyrir því að þarna hafði orðið slys en ekki slagsmál. Á tímabili var ég hræddur um að eitthvað enn verra myndi gerast þegar áhangendur Liverpool sem komust úr hólfinu hlupu yfir endilangan völlinn og ögruðu stuðningsmönnum Notting- ham Forest sem enn héldu að um venjuleg ólæti væri að ræða. Ef fjöl- mennt lögreglulið hefði ekki verið þar til staðar hefðu getað brotist út almenn slagsmál vegna ringulreiðarinnar og æsingsins sem var á vellinum. En það er einkennilegt að þeir lögreglumenn aðstoðuðu ekki félaga sína hinumegin við björgunarstörfin og það bendir til þess að samskipti milli lögreglunnar hafi ekki verið sem skyldi. Þegar búið var að aflýsa leiknum klukkutíma síðar hélt ég að loksins gæti ég komist í burtu frá þessu. En við urðum að halda kyrru fyrir í klukku- tíma í viðbót því þá voru stuðnings- menn Liverpool út um allt að leita að þeim sem þeir höfðu komið með á völlinn og vissu ekki hvort voru lífs eða liðnir. - Hvað fannst þér einkenna umfjöll- un fjölmiðlanna eftir þennan atburð? „Það sem einkenndi umræðuna var harmur og reiði. Strax á sunnudaginn reyndu menn að finna sökudólg án þess að þeir gerðu sér fyllilega grein fyrir atburðarásinni. Það sem snart mig mest var að koma aftur á leikvanginn á sunnudagsmorgn- inum og sjá öll blómin sem bæjarbúar höfðu lagt við hliðið, margir á leið sinni til kirkju. Einnig höfðu ungir drengir og gamlar knattspyrnuhetjur í Sheffield hnýtt knattspyrnutreflana sína á hliðið. Við hinn enda vallarins, bak við stúkuna sem stuðningsmenn Notthing- ham Forest voru í er íþróttahús og þangað var farið með líkin. í þetta íþróttahús var straumur fólks frá Li- verpool sem kom til að bera kennsl á líkin. Það var ekki fyrr en á hádegi á mánudeginum að hægt var að greina frá hverjir höfðu látist. Að verða vitni að þessum eftirleik snart mig mest því á laugardeginum var maður felmtri sleginn og vildi hreinlega ekki trúa þvf að svo hörmulegt slys gæti átt sér stað. - Hvaða þýðingu heldur þú að þessi atburður eigi eftir að hafa fyrir ensku knattspyrnuna? „Þetta á eftir að draga stóran dilk á eftir sér og það er ljóst að breska ríkisstjórnin heimtar breytingar á öll- um knattspyrnuvöllunum, m.a. þær að það verði einungis sæti á völlunum. Með slíkri ráðstöfun er rofin gömul hefð. í stæðunum fyrir aftan mörkin hafa dyggustu stuðningsmenn liðanna iðulega komið sér fyrir og það eru þeir sem hafa sungið og haldið uppi stemmningunni undir eðlilegum kring- umstæðum. Frá mínum bæjardyrum séð var þessi leikur allt of stór fyrir þennan völl, 54 þúsund miðar dugðu engan veginn. Liverpool fékk bara 24 þúsund miða þó svo að á heimavelli þeirra séu yfirleitt 40 þúsund áhangendur. Leikur milli þessara liða var á þessum sama leik- vangi í fyrra en munurinn í ár var sá Nottingham Forest var búið að vinna deildarbikarinn á sunnudeginum áður og Liverpool hafði unnið 11 leiki í röð og voru orðnir efstir í deildarkeppn- inni, þannig að það var gríðarleg stemmning fyrir þessum leik. - Forseti Evrópusambandsins kenndi skrílslátum Liverpool áhangendanna um að svona fór, voru fleiri með yfirlýsingar af þessu tagi? „Nei, ekki í fyrstu en slíkar raddir eru farnar að heyrast núna. Lögreglan í Sheffield er í varnarstöðu og forráða- menn hennar vilja auðvitað bera blak af sínum mönnum. Þeir vilja meina að orsök slyssins hafi verið æsingur í stuðningsmönnum Liverpool og það hafi ekki verið hægt að hemja þá. Þeir hafi meira að segja ráðist á félaga sína fyrir utan völlinn og ekki sýnt neina tillitssemi. En það liggja engar skýring- ar fyrir núna og þetta á allt eftir að koma í ljós. Öryggisgirðingarnar eru greinilega dauðagildrur enda er verið að rífa þær niður.“ - Nú var beinu útsendingunni slitið hér heima? „Sendingunni var slitið um tíma og einhverra hluta vegna misstum við sambandið við gervihnöttinn. Ég hefði viljað losna fyrr. Það er ósköp eðlilegt að þeir hér heima haldi sendingunni áfram þegar BBC og Reuter segja að leikurinn geti ekki hafist vegna óláta á áhorfendapöllunum. Meðan útsend- ingunni var haldið áfram var verið að sýna harmleik í beinni útsendingu þar sem fólk var að deyja. Kannski var ekki hægt að greina það af sjálfum myndun- um, en þegar maður les upp tölur yfir slasaða og látna þá er náttúrulega verið að sýna dauðastríð fólks í beinni út- sendingu. Það sýndist víst sitt hverjum um þetta. Ég var mjög sáttur við það þegar sendingin var rofin.“ - Líturðu knattspyrnuna sömu aug- um eftir að hafa orðið vitni að þessum harmleik? „Þetta er það allra versta sem ég hef komist í og miklu verra en þegar ég var að reyna að henda reiður á hvað var að gerast á Heysel leikvanginum í Brussel fyrir fjórum árum. Maður er sem lamaður eftir þessa reynslu og á sunnu- deginum hafði ég hreinlega ekki geð í mér til að fletta upp á úrslitum annarra leikja eins og ég er vanur. Ég fór til Sheffield fullur tilhlökkun- ar til að lýsa leik sem allir bjuggust við að yrði skemmtilegur og spennandi. En í stað þess að vera íþróttafréttamaður tók ég við hlutverki stríðsfréttamanns því hlutirnir sem ég sagði frá voru meiðsli og dauðsföll og ein sorgarsaga. Það er viðbúið að það verði beygur í mér næst þegar ég fer út til að lýsa knattspyrnuleik." Sigrún S. Hafstein

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.