Réttur - 01.01.1969, Síða 22
Hið fyrra er verkfallsvopnið. Það hefur verka-
lýðshreyfingin i höndum sér. Það vopn er beitt, það
er að vísu sárt að beita því (einnig fyrir verka-
menn), en þess stóri kostur er að sýna og sanna
allri þjóð hið raunverulega vald verkalýðsins sem
þess aðila, er skapar þjóðarauðinn. Hin miskunn-
arlausa harka í árás valdhafanna, tilraun þeirra til
að ræna þeim eignum, sem verkalýðurinn hefur
eignast undanfarinn aldarfjórðung, (ibúðum, hús-
gögnum o. s. frv.) og hrinda honum aftur niður í
gömlu fátæktina, — mun tvímælalaust skapa þá
hörku í varnar- og sóknar-aðgerðum verkalýðsins
sem þörf er á.
HITT VOPNIÐ ER RlKISVALDIÐ. Það er nú beitt-
asta vopn valdhafanna í stéttabaráttunni. Með einu
pennastriki gengislækkunar er eyðilagður ávöxtur
langrar og harðrar kaupdeilu. Með nokkrum handa-
uppréttingum brúðanna eru kúgunarlög samþykkt
og kaupdeila bönnuð. Með nokkrum ráðstöfunum
embættisvalds er atvinnuleysið gert almennt. Þegar
afturhaldið hefur rikisvaldið í rassvasanum, þykist
það vart þurfa að semja við verkamenn, bara beita
skæðasta vopninu. Einkum verðbólgan og gengis-
lækkanirnar eru skaðsamlegustu aðferðirnar við
beitingu rikisvaldsins gegn launafólki.
Valdhafarnir höggva nú æ tíðar og ægilegar með
þessu sverði. Tvær gengislækkanir á einu ári, sem
setja dollarinn úr 43 kr. í 88 kr., eru svo svívirði-
legar misbeitingar ríkisvalds gegn alþýðu að lengi
verður að leita til að finna slíkar. Sú staðreynd, að
ríkisstjórnin yfir Islandi skuli dirfast að beita slikum
aðferðum, sýnir að hún er farin að hugsa meira um
hag hins útlenda auðvalds, sem hún vill fá að
þjóna, en m. a. s. hag íslenzkra atvinnurekenda.
Gengislækkanirnar eru þeim tvieggjaðar: Aðeins
útlenda auðvaldið nýtur þeirra til fulls, en rekstur-
fé íslenzku atvinnurekendanna að svo miklu leyti
sem þeir eiga það sjálfir er skorið niður um helm-
ing, — hinsvegar er auðvitað aðaltilgangurinn nið-
urskurður kaupsins, en minkun kaupgetunnar hjá
alþýðu kemur svo eftir á líka við handverksmenn
og smákaupmenn.
Því meir sem rikisstjórnin beitir ríkisvaldinu í
stéttabaráttunni, því meir hlýtur það að vera aðal-
atriði i kaupgjaldsbaráttu verkalýðs og launafólks
alls að taka þetta vopn úr höndum hennar, svifta
herrana nýju höfuðvopni þeirra. Það er að verða
undirstaða allrar raunhæfrar kaupgjaldsbaráttu að
svipta afturhaldið ríkisvaldinu. Sár reynsla kennir
verkalýðnum nú þegar, að án verkfalla verður stöð-
ug kjararýrnun. En launafólkið þarf allt að læra
það lika: að án yfirtöku rikisvaldsins, eða a.m.k.
mjög sterkra áhrifa á það, verður engin varanleg
kjarabót.
Það er ekkert, sem verkalýð og starfsfólki liggur
nú meir á að ræða i samtökum sínum við hliðina
á hinum beinu tafarlausu aðgerðum i kaupdeilun-
um, en þetta hvernig heyja skuli kaupgjaldsbarátt-
una um ríkisvaldið. — Og þegar launastéttirnar hafa
lært það til fullnustu, hvað sú barátta þýðir, þá sjá
þær líka hve auðvelt er að sigra í henni, ef þær
bara standa þar sem ein heild. Þær eru 70% þjóð-
arinnar, yfirgnæfandi meirihlutinn, sem öllu ræður
þegar hann vlll. — Og þær láta vonandi ekki hræða
sig með því að það megi ekki setja „pólitík" i
kaupdeilurnar, þegar allar aðgerðir atvinnurekenda
eru ekkert annað en „pólitík!" Alt vinnanui fólk
í félögum A.S.l. og B.S.R.B. verður raunverulega
að taka afstöðu um hvort það ætlar að taka þátt
í þessari aðalkaupgjaldsbaráttu eða ekki.
Herstjórnarlist verkalýðsins er því Ijós. En það
þarf mest-allur verkalýður, mest-allt launafólk að
skilja hana og taka höndum saman um að fram-
kvæma hana, svo fullur sigur vinnist.
Frelsun verkalýðsins undan ránsvaldi hinna sí-
felldu kauplækkana með gengislækkunum verður
að vera verk verkalýðsins sjálfs.
Verkalýðurinn og launafólk allt er sú stétt sem
ein saman hefur hag af því að skapa festu í fjár-
mál Islendinga, koma á öruggu gengi og eins vægri
verðbólgu og hægt er. öfugt við það, sem er i
öðrum auðvaldslöndum, þar sem bankar eru eign
einstakra auðmanna, fjármálaauðvalds, sem hefur
hag af því að varðveita gengi landsins, þá hefur
hér ráðið sá hluti borgarastéttarinnar sem sér sér
hag í þvi að fella gengi i sífellu og afskrifa þannig
6kuldir sínar við þanka ríkisins, sem leggja fram
aðalfjármagnið til einkaatvinnurekstursins. Og þeg-
ar erlenda auðvaldið tekur hér völdin í æ ríkara
mæli, eru hagsmunir þess í málinu enn augljósari.
Með þvi að sigra hina nýju herra gengislækkana
og kaupkúgunar í verkföllum og svifta þá síðan
rikisvaldinu, til þess að forða sér frá frekari geng-
islækkunum og kaupkúgunum, er verkalýðurinn i
senn að bjarga sjálfum sér, skapa sér grundvöll að
atvinnuöryggi og raunverulega batnandi kaupgjalds-
kjörum (ekki bara fjölgandi en minnkandi krónum)
— og að bjarga þjóðinni frá auknu efnahagslegu
öngþveiti, sem erlent auðvald og innlendir erind-
rekar þess eru að leiða yfir hana.
22