Lesbók Morgunblaðsins - 04.02.2006, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 04.02.2006, Blaðsíða 6
6 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. febrúar 2006 P rýðileg umræða Morgunblaðsins um stöðu íslenskrar tungu í Lesbók 22. janúar var hressandi undantekning frá því einhæfa fari sem slík umræða lendir gjarnan í. Þar eru tveir vargar í véum einna skæðastir: a) heimsósómastíllinn sem umræðan er gjarnan þrúguð af, b) hneigð- in til að tala svo almennt um málið að umræðan leiðir ekki til neins. Þessari Lesbókarumræðu tókst hins vegar að vekja athygli á tvennu sem íslensku máli stafar nokkur ógn af. Annars vegar er hirðu- leysi ráðamanna um íslensku í skólakerfinu, sem nú sjást skýr dæmi um bæði á há- skólastigi og á framhaldsskólastigi. Þar stang- ast á orð og athafnir. Fræðigreinin íslenska er í raun öskubuska Háskóla Íslands. Þrátt fyrir allt ríkidæmið í sam- félaginu heyrast fregnir af samdrætti og niðurskurði og þeir sem ráða yfir fjármunum eru sinnulausir um framtíð greinarinnar. Á framhaldsskólastigi hefur þegar verið dregið úr íslenskukennslu og í Lesbókinni tíundar flokkur mennta- málaráðherra tillögur um frekari niðurskurð sem helsta afrek sitt á þessu sviði. Hitt stóra málið er hvernig viðskiptalífið og nýju háskólarnir líta nú á ensku sem mikilvæg- ara tungumál en íslensku. Væntanlega er það angi af þeirri „útrás“ sem er helsta fagnaðar- erindi nútímans. Af þessu hafa áhugamenn um viðgang íslenskunnar vitanlega áhyggjur. Þeir tala gjarnan um sterka stöðu enskunnar sem einn helsta vandann og stundum sleppa inn gamalkunnar heilsufarsmyndhverfingar eins og í baráttunni við þágufallssýkina. Þá er sagt að íslenska „smitist“ af ensku. Slík orðanotkun er ekki endilega vel fallin til að upplýsa málið. Þótt það sé varla ætlun þeirra sem nota líkinguna er eins og í henni búi sá skilningur að einangrun íslenskunnar sé helsta vörnin og að meiri notkun ensku auki smithættuna. Ég held að það sé nauðsynlegt að dýpka líkinguna og segja: í þessu tilviki eins og fleirum er mikilvægast að sjúklingurinn missi ekki meðvitund. Bólusetningin er þá þekking á tungumálinu, æfing í notkun þess og umfram allt íhugun um tungumálið. Eins og kemur skýrt fram víða í téðri Lesbók eru ensk áhrif ekki endilega ill. Þau valda fyrst og fremst krankleika málsins þegar fólk lætur enskuna hertaka sig hugsunarlaust. Sá sem slettir ensku af ásettu ráði er ekki jafn sjúkur og sá sem gerir það hugsunarlaust. En það þarf líka að kafa dýpra þegar rætt er um ensk áhrif. Mér finnst ófullnægjandi þegar rætt er um glímu ensku og íslensku að enska sé ekki skilgreind nánar – eins og það liggi fyr- ir hvað enska sé. Þegar ég heyri að enska sé töluð á stjórnarfundum KB-banka hugsa ég: Hvaða enska? Hvaða orðaforða hafa þeir sem þar vinna? Eru þeir jafn góðir í ensku og þeir halda? Kunna þeir hana betur en íslensku? Eitt sinn sagði frömuður í íslensku menn- ingarlífi í sjónvarpsviðtali að Íslendingar væru að sinni hyggju nánast tvítyngdir og á hans vettvangi notuðu menn ensku og íslensku jöfn- um höndum. Nokkru síðar sat ég í nágrenni við sama mann á kaffihúsi og var hann þá að vísu að tala ensku. En enskan sem hann talaði þætti hvorki góð latína né góð enska hjá þeim sem hafa ensku að móðurmáli. Þvert á móti hafði hún þau áhrif að hann virtist einfaldari og grunnhyggnari en hann eflaust er. Varasamasti misskilningurinn í umræðu um stöðu ensku og íslensku hér á landi er þegar Íslendingar telja sér trú um að þeir séu tví- tyngdir. Mín reynsla er að Íslendingar séu ekki nærri jafn góðir í ensku og þeir halda. Sjálfur þarf ég mjög oft að tala og skrifa ensku í mínu starfi. Um daginn var ég enn eina ferð- ina að paufast við að taka saman ritaskrá eins og nýja vísindasamfélagið krefst. Þá taldi ég 30 greinar í vísindarit á ensku og 20 erindi. Ég fæ ekki séð að það hafi skaðað íslenskunotkun mína hætishót að skrifa á ensku. Á hinn bóginn finnst mér ennþá þrekraun að hugsa á ensku þó að mér hafi farið fram síðan ég skrifaði fyrst á ensku. Mér finnst iðulega eins og hugs- un mína setji niður við að orða hana á erlendu máli þó að ég kunni það þokkalega. Enska er ekki einfalt mál. Íslendingur sem hefur sett saman texta á ensku um hríð er enn að rekast á smáorð sem hann veit ekki alveg hvar eiga heima í setningunni. Það er leitun að Íslendingi sem gerir alltaf greinarmun á v og w, afraddar ekki stundum óvart l eða n á und- an k eða t eða bætir við blæstri á undan þess- um lokhljóðum. Orðaforðinn er samt líklega það sem Íslendingurinn þekkist á. Enska er rík að orðum og það eru ekki margir Íslend- ingar sem hafa orðaforða á við menntaðan Englending á sama aldri. En jafnvel þó að ný kynslóð Íslendinga kom- ist yfir alla þessa hjalla er ekki þar með sagt að íslensku stafi hætta af því. Jafnvel við sem höf- um lengi fylgst með umræðunni um ágengni enskunnar höfum aldrei heyrt nákvæma greiningu á hvers konar enska er Íslendingum verst. Fara Íslendingar að missa tökin á eigin máli þegar þeir hafa loksins lært að gera greinarmun á v og w í ensku? Eða er til orðinn hópur Íslendinga sem hefur hvorki sæmileg tök á eigin máli né ensku? Sem leggur sig hreinlega ekki eftir góðri færni á neinu tungu- máli? Í framhaldinu er best að segja það eins og er: Ég óttast ekki betri tök Íslendinga á ensku. Þvert á móti held ég að þau styrki vit- und þeirra um eigin mál. Mér finnst raunar ólíklegt að Íslendingur sem lifir og starfar hér á landi nái góðum tökum á ensku nema að tök hans á íslensku séu líka sterk. Þeim mun skæðari óvinur er tvítyngisgoðsögnin, sú hug- mynd margra Íslendinga að þeir tali nánast fullkomna ensku og að bráðum nái öll þjóðin fullkomnu valdi á ensku. Þeir sem þurfa oft að tjá sig á ensku í starfi sínu þekkja manngerð- ina: Íslendinginn (þetta á ekki aðeins við Ís- lendinga en ég er að tala um þá hér) sem stendur kokhraustur upp á alþjóðlegu þingi með erindi sem enginn enskumælandi hefur svo mikið sem lesið yfir. Og frá honum streyma hugtök sem merkja eitthvað svipað og ætlunin var en alls ekki það sama. En þó að honum takist ekki að koma nema helmingnum af hugsun sinni á framfæri bregður Íslend- ingnum sem talar fullkomna ensku í eigin huga alls ekki. Hann er hæstánægður með sína ensku og telur hana fullboðlega á alþjóðavett- vangi. En hún er það ekki. Sú sjálfsblekking margra Íslendinga og annarra sem ekki hafa ensku að móðurmáli að enskan þeirra sé betri en hún er í raun veldur stéttaskiptingu í heim- inum. Sú er svo sannarlega raunin í menning- ar- og fræðaheiminum (sjálfsagt enn frekar í hugvísindum en raunvísindum) og líklega í við- skiptalífinu líka (þó að eflaust tali peningar alltaf sínu máli). Sá sem hefur orðaforða lítt menntaðs unglings er ekki tekinn alvarlega. Og það gildir oft um Íslendinga sem fara út í hinn stóra heim. Þeir eru álitnir meiri furðu- verk en ætlunin er – það eru ekki allir jafn leiknir að heilla fólk og Björk sem á sér líka annað mál sem er tónlistin. En vegna þess að enskumælandi menn eru kurteisari við þá sem tala bjagað og barnalega en til dæmis Íslend- ingar og Danir (enda vanari því að farið sé með tungumál þeirra á ýmsa lund) tekur það syndaselinn oft langan tíma að komast að því. Aukinheldur eru áhrifin gjarnan í undir- meðvitund hinna enskumælandi: sá sem talar ekki fullkomna ensku er ekki fyrirlitinn op- inskátt en samt hefur það áhrif á hvernig hon- um er tekið. Íslendingar munu aldrei geta valið milli þess að tala fullkomna íslensku og fullkomna ensku. Kynslóðin sem nú vex úr grasi er sjálfsagt mun betri í ensku en forfeðurnir þó að ensku- kunnáttan sé ekki alltaf fjölbreytt – á henni má samt byggja. En því fer víðs fjarri að ungir Ís- lendingar séu nógu góðir í ensku til þess að geta alið upp tvítyngda kynslóð. Sú enska sem yrði til ef Íslendingar reyndu núna að gerast tvítyngdir yrði nýtt mál: ísl-enska. Hætt er við að hún nyti lítillar virðingar í heimi þar sem enskumælandi menn fara með völdin. Jafnvel þótt Baugur keypti Harrods. Íslenski tvítyngisdraumurinn er á misskiln- ingi byggður. Vera má að sterk staða ensku ógni íslensku en ekki þannig að Íslendingar eigi nokkurn möguleika á að kasta eigin máli og taka upp ensku sem enskumælandi fólki þætti boðleg. Þess vegna held ég að það sé ekki nóg að segja bara enska. Við þurfum að spyrja: Hvaða enska? Og síðan: Hvað er það sem raunverulega býðst? Hvaða enska? „Íslenski tvítyngisdraumurinn er á misskiln- ingi byggður,“ segir í þessari grein þar sem bent er á að Íslendingar tali kannski ekki eins góða ensku og þeir halda. Höfundur er fræðimaður, kennari og bloggari. Ísl-enska „En því fer víðs fjarri að ungir Íslendingar séu nógu góðir í ensku til þess að geta alið upp tvítyngda kynslóð. Sú enska sem yrði til ef Íslendingar reyndu núna að gerast tvítyngdir yrði nýtt mál: ísl-enska.“ Eftir Ármann Jakobsson armannja@hotmail.com Dómadagsspáin um dauða tungu-málsins er dómadagsþvæla. Trúaslíkir dómadagsspámenn því virki-lega að fólk hætti bara sísona að tala saman á íslensku eftir hundrað ár eða eru þessir menn bara að hrista sig? Ég veit það ekki, en hitt veit ég að nú á dögum skrifa miklu fleiri miklu meira en nokkurn tíman áð- ur. Þegar ég var að alast upp skrifuðu menn varla nokkuð, sendi- bréfið var dautt og tölv- an ekki enn í hvers manns kjöltu. Nú á dög- um skrifar ungt fólk í gríð og erg; tölvupósta, smáskilaboð í síma, skjáspjall, bloggsíður og hvað og hvað. Margt af þessu eru skapandi textar og snjöll notkun á tungumálinu - sann- kallað nýmæli. Tungumálið verður að fá að vera lifandi og þróast áfram eins og allt annað í mannfélaginu, það má ekki reyra það pikk- fast í spennitreyju hreintúngustefnunnar, þá fyrst erum við komin í alvarlegan vanda. Sannast sagna er ég hræddari um að sjálf- skipaðir málhreinsunarmenn kæfi íslenskuna til dauða, heldur en að unglingarnir eyðileggi hana með því að ögra málinu og aðlaga að nýjum tíma, nýrri tækni, öðru umhverfi. Á ráðstefnum í Norrænum húsum, Þjóð- arbókhlöðum og allskonar Þjóðmenning- arhúsum situr fólk á miðjum aldri með ugg í brjósti. Heilagt í framan lýsir það áhyggjum sínum yfir enskunni, að hún tröllríði núorðið öllu, að hún taki á endanumvið af íslenskunni okkar ástsælu. Á einni slíkri ráðstefnu, sem nýlega var haldin í Norræna húsinu, sagði Páll Valsson, útgáfustjóri hjá Eddu, að sá vandi tungunnar sem Fjölnismenn stóðu frammi fyrir á sínum tíma væri „dvergvaxinn í samanburði við þá hættu sem nú steðjar að tungunni“. Hvorki meira né minna! Ég hvet lesendur til að lesa þessa tilvitnun aftur, hún er þess virði. En nú er það víst ekki lengur danskan sem ógnar, heldur enskan illvíga sem engu eirir. Áhyggjurnar af enskunni eru merkilegar í ljósi þess að Íslendingar kunna tæpast að tala ensku, hvað þá að skrifa hana. Um það get ég vottað sem háskólakennarari, einn af þeim sem nú er sakaður um að stúta ís- lenskunni með því að kenna stöku kúrs á ensku. En hver er vörn mín í málinu kann einhver að spyrja? Hún er þessi: Tungumálið er tæki til að tjá sig en ekki markmið í sjálfu sér. Það skiptir auðvitað máli að halda tækinu við, nostra við það og bæta svo það bíti betur. En það skiptir ekki síður máli að nota það tæki sem hentar best hverju sinni. Maður notar ekki skrúfjárn þegar skiptilykill dugar betur. Með því að bjóða upp á kennslu á ensku í ein- staka námskeiðum og námsleiðum í háskólum landsins, fá íslenskir stúdentar tækifæri til að nema við hlið erlendra stúdenta sem flykkjast hingað í háskólana. En eins og menn vita þá kunna ekki allir útlendingar íslensku. Vandi tungunnar í landinu er ekki sá að enskunni hafi verið hleypt inn í skólakerfið, sá vandi er allur meiri að íslenskir háskólastúdentar eru alveg hreint skelfilega lélegir í ensku þótt þeir sumir haldi kannski annað, það verður bara að segjast eins og er. Í hnattvæddum heimi okkar tíma er gerð krafa um að fólk geti tjáð sig nokkuð skammlaust á ensku, bæði í ræðu og riti. En hvort sem mönnum lík- ar það betur eða verr þá er enskan nú orðin sú tunga sem menn nota í fjölþjóðlegum sam- skiptum. Flestir vita að betra er að beita skeið en gaffli við að snæða súpu. Á sama hátt dug- ar enskan betur en íslenskan í alþjóða- samskiptum. Um það þarf tæpast að deila þótt sumir vilji frekar sulla í súpunni sinni með gaffli. Til að lifa sómasamlegu lífi hér uppi á skerinu okkar góða, þurfum við að vera í sem mestum samskiptum við útlönd. Um það eru flestir orðnir sammála nú á dögum, þótt alltaf hafi verið til menn sem vilja halda landinu lokuðu. Við Íslendingar þurfum því að kunna bæði íslensku og ensku. Hér býr nú vel mennt- að fólk og við höfum alla burði til að verða tví- tyngd þjóð. Og þangað eigum við að stefna með menntakerfið en ekki aftur til Fjöln- ismanna, þótt taugin þangað verði vissulega að vera opin. Verkefnið er því alls ekki að út- hýsa enskunni úr háskólum og útrásarfyr- irtækjum, verkefnið er miklu heldur að kenna fólki að tjá sig jafnt á bragðmikilli íslensku og góðri ensku. Og að kunna að greina þar á milli – þannig verndum við íslenskuna best. Það er grauturinn sem er verstur, ekki er- lendar tungur eða framþróun málsins. Kommon! „Hér býr nú vel menntað fólk og við höfum alla burði til að verða tvítyngd þjóð. Og þang- að eigum við að stefna með menntakerfið en ekki aftur til Fjölnismanna þótt taugin þang- að verði vissulega að vera opin,“ segir grein- arhöfundur sem þykir hrakspárnar um tung- una dómadagsþvæla. Höfundur er dósent í stjórnmálafræði við Viðskiptahá- skólann á Bifröst. Eftir Eirík Bergmann Einarsson eirikur@bifrost.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.