Lesbók Morgunblaðsins - 04.02.2006, Blaðsíða 2
2 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 4. febrúar 2006
!
Nýlega hélt Magnús Þorkell
Bernharðsson hrollkalt erindi á
vegum Mannfræðifélags Íslands
í ReykjavíkurAkademíunni um
þá brennandi spurningu hvort
fræðimenn skuli taka afstöðu í
umdeildum málum eins og
Íraksstríðinu. Hann lýsti ástandi
vestanhafs þar sem leynt og ljóst er
snuðrað eftir grunsamlegri afstöðu há-
skólakennara með vísun í reglu um „jafn-
vægi“ í málflutningi. Til er fyrirbrigðið
„Campus Watch“ þar sem stúdentar geta
unnið sér inn hundrað
dali með því að koma
upp um kennara sem
brjóta regluna. Hér á
að setja áþekka reglu
í ný lög um Ríkisútvarpið með því að segja
að það skuli „tryggja hlutlæga upplýs-
ingagjöf um íslenskt samfélag“. Slík hlut-
lægni er ekki til en hægt að kveða niður
gagnrýna umræðu í nafni hennar. Dæmi
þekkjast um skoðanakúgun gagnvart vís-
indamönnum sem komast að óþægilegum
niðurstöðum.
Fræðimenn, t.a.m. Magnús Þorkell og
kollegar hans sérfróðir um Írak, sjást vart
í fjölmiðlum og sækjast ekki eftir því.
Fræðistörf byggjast á yfirvegun og skap-
andi hugsun sem ekki rúmast á þeim fáu
sekúndum sem eru til umráða í fréttaþátt-
um. Þar hafa völdin spunameistarar sem
tilheyra svokölluðum þankatönkum,
„thinktanks“ – fljótgreindir menn, allir á
lofti en minna á dýptina, kostaðir af hags-
munaaðilum og geta hraðsoðið niður yf-
irborðslega og bjagaða greiningu á
ástandinu.
Svo virðist sem Kristján Arngrímsson
blaðamaður lýsi eftir þessari tankvæðingu
hugsunarinnar í Viðhorfspistli í Morgun-
blaðinu 31. janúar þar sem hann grautar
saman blaðamennsku og fræðimennsku
og eltir skottið á sjálfum sér í því að kenna
Sigurði Gylfa Magnússyni hvernig eigi að
skrifa fræðirit með aðferðum blaða-
mennsku. Áður hafði Kristján hnýtt í við-
leitni fræðimanna til að koma verkum sín-
um á framfæri, viss um umbun góðra
verka í himnaríki sviðsljóssins nái þau
máli um inntak og framsetningu.
Það er einfaldlega rangt – verk ná ekki
athygli í þögn og myrkri. Þar fyrir utan
getur erindi verið brýnt óháð framsetn-
ingu. Skýr málflutningur Páls Valssonar
um útrýmingarhættu íslenskrar tungu er
hvalreki í umræðunni en fjöldi annarra
fræðimanna getur tjáð sig ámóta skýrt
um önnur brýn efni. En þeir stjórna
hvorki fjölmiðlum né umfjöllun um bæk-
ur. Erindi fræðirita er einatt brýnna en
svo að þau megi víkja fyrir grunnhyggni
og róstum dægurumræðu og þeim spjöll-
um sem hún veldur. Fræðastarf á að vera
öflugt og gagnrýnið, óháð viðteknum hug-
myndum og ríkjandi hagsmunum.
Gagnrýnin viðhorf eru brýn í umræðu
um íslenska tungu. Andri Snær Magnason
hafði orð á því í útvarpi að hvert glatað orð
væri hreint tap. Ef halda á við lifandi og
blæbrigðaríkri tungu verður glíma manna
við hana um aldir að vera aðgengileg. Það
þarf að halda uppi samræðu við það sem
lifað var og hugsað í fortíðinni svo menn
geti talað af viti við samtíðina. Málið
breytist óhjákvæmilega, en ef það þynnist
hverfur það eins og ósonlagið áður en
menn vita af.
Íslensk fræði miðla þessum samræðum.
Því er það ámátlegt þegar formaður ís-
lenskuskorar Háskóla Íslands kyssir
vöndinn og sættir sig auðmjúkur við þrá-
látan niðurskurð bókmenntakennara
(Lesbók 21. jan.). Íslenskuskor hefur hlut-
verki að gegna sem ekki verður leyst með
steinsteypu og hún verður að hafa krafta
til að láta til sín taka. Ef ekki, verður að
leita annarra leiða til að miðla samræð-
unum.
Dagur íslenskrar tungu er haldinn ár
hvert. Þegar Megas var verðlaunaður
þann dag um árið og sagði „böns af
monní“ talaði rauð og blóðrík tunga enda
er Megas meistari samræðunnar við for-
tíðina. Ef haldið verður áfram að kæfa þá
samræðu breytist þessi hátíð í Dag lafandi
tungu án þess að nokkur taki eftir því.
Dagur
lafandi
tungu
Eftir Viðar
Hreinsson
vidar@akademia.is
K
irkjan var um aldir ráðandi afl
í vestrænu samfélagi. Hún
mótaði heimsmyndina fyrir
fólk, sá því fyrir samkomum,
auðgaði líf þess með lista-
verkum og tónlist, hún lagði
siðferðilegar línur og dæmdi eftir þeim, ýmist
með hjálp veraldlegra yfirvalda eða sjálf, og,
síðast en ekki síst, var handhafi sannleikans. Á
umræðu síðustu vikna í
fjölmiðlum má sjá að
fjölmiðillinn er hin nýja
kirkja. Fjölmiðillinn lít-
ur á það sem hlutverk
sitt, réttilega, að draga
upp mynd af heiminum sem er síðan troðið inn
í sjónvörp eða í gegnum bréfalúgur. Á hverj-
um degi er boðið upp á samkomur í stofum þar
sem leikin er tónlist eða sagðar sögur. Leið-
ara- og pistlahöfundar predika siðaboðskapinn
á hverjum degi, hvort sem hann fjallar um
pólitík, bílslys eða viðskipti. Glæpamenn, fórn-
arlömb og skemmtikraftar ganga til skrifta í
helgarútgáfum og slúðurblöðum, hvísla leynd-
armál og frústrasjónir í gegnum þunnt netið
þar sem lesandinn leggur við hlustir. Svo er
fjölmiðillinn handhafi sannleikans.
Messíasarkomplexar hafa verið mjög áber-
andi síðustu vikurnar. Í DV-málinu tókust
handhafar Sannleikans á um hvaða sannleikur
væri sannastur: sannleikur mildinnar eða hinn
vægðarlausi. Aftur sjáum við baráttuna um
hið heilaga Orð í umræðunni um birtingu Jyl-
landsposten á skopmyndum af Múhameð spá-
manni. Úr predikunarstólum heyrist varn-
arræða tjáningarfrelsisins: þetta má!
Auðvitað má þetta. Tjáningarfrelsið er ein
mikilvægasta undirstaða lýðræðisins ef ekki
sú mikilvægasta. Það þýðir samt ekki að við
höfum leyfi til að hæða og smána þá sem hafa
önnur gildi í lífinu en við. Tjáningarfrelsið má
ekki verða skálkaskjól fyrir vanvirðingu.
Líkt og í DV-málinu eru menn stokknir til
að hlaða bálkesti til að brenna á nornir að eigin
vali. Menn skipast í fylkingar. Öfgamenn í röð-
um múslima brenna vestræna fána sem eru í
augum margra Vesturlandabúa heilagir. Öfga-
menn í röðum blaðamanna á Vesturlöndum
birta skopmyndir af Múhameð, spámanni
múslima. Hvorir tveggja hafa sannleikann
fægðan og velinnpakkaðan í svartri skjala-
tösku úti í bíl. Haha, segja múslimsku öfga-
mennirnir, brenna fána og borða ekki lengur
danskt smjör. Haha, segja vestrænu öfga-
mennirnir og birta skopmyndir. Þið verðið að
sætta ykkur við það að svona er þetta hjá okk-
ur, eru skilaboðin til múslimanna, fáið ykkur
bara svínalifrarkæfu og tjillið, þið eruð alltaf
svo æstir.
Ástandið er eins og í vondum gagnfræða-
skóla þar sem hormónarnir eru alveg að fara
með nemendur. Gaurarnir í 8.H teiknuðu
mynd af mömmu skólastjórans í latexbúningi
og birtu í skólablaðinu. Eftir nokkurt þóf báð-
ust drengirnir afsökunar en þá tók ekki betra
við. Þeir máttu þetta, segja foreldrarnir og
vinir í öðrum bekkjum. Smámál verður stór-
mál. Eins og svo oft. En maður gerir ekki grín
að mömmum annarra. Það verður að sýna
ákveðna virðingu fyrir manneskjum. Og þótt
skólastjórinn sé ekki alltaf „þeirra“ maður þá
gerir maður ekki grín að mömmu hans.
Við verðum að virða tjáningarfrelsið en við
verðum líka að virða fólk, menningu þess og
gildi. Það að birta skopmyndir af Múhameð
spámanni til að nota tjáningarfrelsið er eig-
inlega bara barnalegt. Þá skiptir engu máli
hversu löng hefð er fyrir því að gera grín að
Guði á Vesturlöndum. Þetta er spurning um
virðingu en ekki tjáningarfrelsi.
Blaðamennska er ekki trúarlegt ástand.
Blaðamennska stjórnast af gildum og straum-
um í samtímanum. Í ljósi síðustu fjölmiðla-
mála, DV-málsins og Jyllandsposten-málsins,
jafn ólík að innihaldi og umsvifum og þau eru,
er rétt að blaðamenn spyrji sig um tilgang
starfs síns, spyrji sig stundum einfaldrar en
áhrifaríkrar spurningar: hvers vegna?
Og sætta sig ekki við svarið: af því bara.
Hin heilaga vestræna ritstjórn
Fjölmiðlar
Eftir Sigtrygg
Magnason
sigtryggur@islenska.is
’Við verðum að virða tjáningarfrelsið en við verðumlíka að virða fólk, menningu þess og gildi. Það að birta
skopmyndir af Múhameð spámanni til að nota tjáning-
arfrelsið er eiginlega bara barnalegt.‘
I Jón Kalman Stefánsson hlaut Íslensku bók-menntaverðlaunin á fimmtudaginn fyrir
skáldsögu sína Sumarljós, og svo kemur nóttin.
Þetta voru svo sem ekki mikil tíðindi, bók Jóns
Kalmans hefur hlotið afar góðar viðtökur. Í
flokki fræðibóka og rita almenns efnis hlaut
Kjarval verðlaunin, stór og mikil bók um lista-
manninn eftir sex höf-
unda, Kristínu G.
Guðnadóttur, Gylfa
Gíslason, Arthur C. Danto, Matthías Johann-
essen, Silju Aðalsteinsdóttur og Eirík Þorláks-
son. Það kom í sjálfu sér heldur ekki á óvart að
þessi bók skyldi verða fyrir valinu, um er að
ræða stórvirki í íslenskri bókaútgáfu. Eitt nafn
í höfundahópi bókarinnar vekur þó athygli í
þessu samhengi en það er Matthías Johann-
essen.
II Matthías hefur allt frá því að Íslensku bók-menntaverðlaunin voru stofnuð mótmælt
því harðlega hvernig að þeim er staðið. Hann
hefur heldur aldrei leyft útgefendum verka
sinna að leggja þau fram til verðlaunanna. Að
þessu sinni er hann aðeins einn af sex höf-
undum og hefur því vart haft neitt um það að
segja hvort bókin var lögð fram eða ekki. En
óneitanlega er það svolítið kaldhæðnislegt að
sá höfundur sem hefur andmælt verðlaununum
frá upphafi skuli nú hafa fengið þau, eiginlega
óforvarandis. Matthías stendur hins vegar enn
fast á sínu, hann var auðvitað ekki á Bessastöð-
um á fimmtudaginn til þess að taka við verð-
laununum.
III En hverju er Matthías að andmæla?Fyrst og fremst því að forlögin þurfi að
greiða með hverri bók sem lögð er fram til
verðlaunanna sem gerir það að verkum að ein-
ungis hluti bókanna sem koma út á hverju ári á
möguleika á að fá þau. Markaðstenging verð-
launanna gerir þau líka marklítil, þeim er ætl-
að að selja jólabækurnar. Bækur eru lagðar
fram í nóvember, dómnefndarmenn lesa þær í
snarhasti því tilkynnt er um tilnefningar um
mánaðamótin nóvember–desember svo hægt
sé að líma gullna miðann á þær bækur sem
verða fyrir valinu. Þetta hefur gefið góða raun í
jólabókaversluninni og útgefendur eru hæst-
ánægðir með þessa tilhögun. Þetta eru auðvit-
að þeirra verðlaun, þeir standa fyrir þeim, þeir
velja í dómnefndirnar. Það er eiginlega brand-
ari hvernig að þessum verðlaunum er staðið
sem er auðvitað ekki gott. Í því ljósi er und-
arlegt hversu mikla athygli þau fá í fjölmiðlum,
tilnefningar hafa til dæmis verið tilkynntar í
beinni útsendingu Kastljóssins undanfarin ár.
Og gott ef það var ekki bein útsending frá
Bessastöðum í Íslandi í dag á fimmtudaginn.
IV Heyrst hefur að fleiri höfundar hafi lagstgegn því að útgefendur legðu fram verk
þeirra til verðlaunanna til þess að mótmæla til-
högun þeirra. Rithöfundar vilja ekki láta
bendla sig og verk sín við markaðsstarfsemi af
þessu tagi. Matthías er greinilega ekki lengur
einn í andstöðunni.
V Í Lesbók fyrr í vetur var lagt til að stofnuðyrðu önnur verðlaun hér á landi. Þeim
væri ætlað að styðja við bakið á skáldskap og
bókmenntum og vekja athygli á nýjungum í
fræðum og skáldskap, frumsömdum og þýdd-
um. Þau gætu notið fulltingis íslenskrar aka-
demíu en dómnefndin þyrfti að vera samsett úr
allstórum hópi einstaklinga. Þessum verðlaun-
um væri síður ætlað hlutverk með tilliti til jóla-
bókamarkaðarins. Eru þau ekki tímabær nú?
Neðanmáls
En þið vitið jafnvel og ég að tilveran getur verið bráðskemmtileg,síðdegissólin í garðinum, kaldur bjór, þið kannist við þetta, en húngetur líka verið snúin, við erum ekki ein í heiminum, þurfum sí-
fellt að taka tillit til annarra, það bjó til að mynda maður í blokk í Reykja-
vík, sem hafði það fyrir sið að losa úr ryksugupokanum af svölum sínum,
og stundum öskubökkum líka, hann bjó á þriðju hæð og gumsið sáldraðist,
eða fauk, niður og meðfram blokkinni, innum glugga, á svalir nágranna.
Mér verður iðulega hugsað til þessa manns þegar vísindamenn heimsins
álykta, senda frá sér skýrslur, yfirlýsingar þar sem kjarninn er þessi: Við
erum að eyðileggja jörðina, við erum að raska lífríkinu, við erum að færa
lönd í kaf, breyta stórum landsvæðum í eyðimörk. Þungar, níðþungar
ásakanir, en við látum eins og allt sé í allra besta lagi, eins og viðvör-
unarmerkin – fellibylir, Evrópubúar að deyja í hitabylgjum, skógar sem
brenna í Portúgal – séu eitthvað sem hverfur um leið og við slökkvum á
sjónvarpinu, eða skiptum um stöð; um leið og við hættum að horfa á fréttir
og förum að horfa á bandaríska bíómynd þar sem hetjan bjargar heim-
inum á síðustu stundu. Kannski erum við búin að sjá svo margar slíkar
myndir að við trúum því innst inni, eða ljúgum því að okkur, að á elleftu
stundu birtist hetjan og reddi öllu, við sjálf þurfum því ekki að gera neitt,
þurfum ekki að breyta lífsstílnum, hugsunarhættinum; þurfum ekki að
spyrja: Hver er mín ábyrgð?
En segið mér, er ekki stundum eins og Georg Bush og hans fólk standi á
sínum svölum, losi úr ryksugupokum, öskubökkum, svo gumsið fjúki og
sáldrist yfir okkur? Bandaríkin, þessi mikla þjóð sem neitar að hlusta á
rök vísindamanna, neitar að skilja teiknin, hið góða heimsveldi sem skrifar
ekki undir alþjóðasamninga um verndun jarðar, eins og þeir kæri sig koll-
ótta um framtíðina – og síðan fljúga þeir með fólk á milli landa, pynda það
fjarri Bandaríkjunum svo kvalarópin trufli ekki svefn borgarans, trufli
ekki sjónvarpsdagskrána uppfulla af bíómyndum þar sem Bandaríkja-
menn bjarga heiminum.
Jón Kalman Stefánsson
www.bjartur.is
Maður í blokk
Reuters
Lesbók Morgunblaðsins Kringlunni 1, 103 Reykjavík, sími 5691100, Útgefandi Árvakur hf. Ritstjórnarfulltrúi Þröstur Helgason, throstur@mbl.is Auglýsingar
sími 5691111 netfang augl@mbl.is Bréfsími 5691110 Prentun Prentsmiðja Morgunblaðsins
Höfundur er bókmenntafræðingur og formaður
ReykjavíkurAkademíunnar.