Lesbók Morgunblaðsins - 18.11.2006, Síða 14
14 LAUGARDAGUR 18. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók bækur
STÓRVIRKI!
SAGA BISKUPS-
STÓLANNA
Fátt er jafngróið íslenskri sögu og
biskupsstólarnir báðir. Saga þeirra
er þjóðarsaga Íslendinga í nærfellt
þúsund ár. Þeir voru höfuðstaðir
trúarlífs landsmanna framan af
öldum en einnig menningar og
mennta og voru umsvifamiklir at-
vinnurekendur til sjávar og sveita.
Má segja að landinu hafi verið
stjórnað þaðan um margra alda
skeið og þar komu við sögu svip-
miklir biskupar og aðrir kirkjuhöfð-
ingjar.
SAGA BISKUPSSTÓLANNA - bók
sem allir Íslendingar verða að
lesa!
Eftir Þormóð Dagsson
thorri@mbl.is
L
jóðskáldið Linda Vilhjálms-
dóttir ákvað ung að árum að
hún ætlaði að skrifa. Frá og
með 1982 fóru ljóð hennar að
birtast á síðum dagblaða, tíma-
rita og safnrita en fyrsta ljóða-
bók Lindu, Bláþráður, kom út árið 1989.
Nokkrum ljóðabókum, leikriti, þýðingum,
menningarverðlaunum og lygasögu síðar hef-
ur Linda núna sent frá sér fimmtu ljóðabókina
og ber hún heitið Frostfiðrildin.
Líkt og í fyrri ljóðabókum Lindu er hér á
ferðinni heildstæður ljóðabálkur þar sem sögð
er ákveðin saga, með upphafi og endi. Í þessu
tilviki er um að ræða eins konar tilfinningalega
ferðasögu, um konu sem bíður í von og ótta eft-
ir að ástmaður hennar skili sér heim úr jökla-
göngu. Söknuður, ótti og þráhyggjukenndar
ímyndanir sækja að henni þegar óveður skell-
ur á og hún neyðist til að horfast í augu við
vanmátt sinn gagnvart náttúruöflunum sem
drottna yfir lífi mannsins.
Fyrsta ljóð bókarinnar er hugljúf ástarjátn-
ing til mannsins þar sem þau liggja bæði undir
sæng morguninn fyrir brottför hans.
nú veit ég það loksins
elskan mín
veit að hamingjan
er eins og æðardúnn
sem svífur
í loftinu á milli okkar
Þannig hefst tilfinningaferðalagið í Frost-
fiðrildunum. Stemningin er mjög róleg og
myndmálið afar einfalt en einlægt eins og
Lindu er einni lagið. Konan nýtur þess að
horfa á manninn sinn sofa, hafa hann við hlið
sér og hún heldur meira að segja andanum
niðri í sér til að trufla ekki draumana hans.
Mýktin og hlýjan í svefnherbergi elskendanna
er aftur á móti í mikilli andstöðu við kuldann
og veðurofsann sem ræðst inn í hina hugljúfu
veröld, ofan af jökli.
Konan reynir hvað hún getur til að halda
manninum frá glæfraförinni en karlmennska
mannsins streitist á móti og verður að lokum
öllu yfirsterkari. Hann „rymur“ og ryður
henni í burt, sækir ísöxina og „hvæsir reiður“.
Þegar hún horfir á eftir manninum sínum
hverfa í jökulinn fer hún smám saman að
ímynda sér allt það versta sem mögulega get-
ur hent hann.
skýið
sem skyggir á sólina
er lifandi eftirmynd jökulsins
sem hefur lagst
eins og veðurfræðileg mara
yfir allan þankagang minn
Stemningin fer þannig úr því að vera og hlý
og draumkennd í það að vera angurvær, svo
óróleg og á vissum punkti er hún orðin ansi
myrk. Kuldinn verður stöðugt meiri þangað til
hitastigið í heilabúi konunnar „er farið að nálg-
ast frostmarkið“. Hugarstríð hennar tekur
stöðugt á sig nýjar átakanlegri myndir og hún
beitir ýmsum ráðum til að glíma við þessa and-
legu reimleika.
Hún leitar t.d. á náðir gufubaðsins til að róa
taugarnar og nær að dreifa huganum þar. Hún
veltir meðal annars fyrir sér rassastærð ís-
lenskra kvenna og umfangi evrópskra brauða.
Þarna er slegið á aðeins léttari strengi og er
greinilegt að gufubaðið er prýðilegt meðal
gegn sálarpínunni.
Eftir baðið verður ljóðmælandinn töluvert
bjartsýnni en áður og smám saman fer að birta
yfir henni. Og birtan verður síðan algjör þegar
maðurinn hringir loks í hana „úr fegurstu
sveitinni á Íslandi við öræfarætur“ þar sem
„sólin skín á kulsækna menn sérhvern dag“.
Minningar verða að sögu
Ertu mikil sögumanneskja?
„Já, ég held að ég sé ansi mikil sögumann-
eskja. Það er ekkert langt síðan að ég uppgvöt-
aði það að ég set minningar mínar jafnóðum og
ósjálfrátt í söguform. Þær eru ekki vistaðar
hér og þar í heilanum sem laustengdar minn-
ingar heldur eru þær vistaðar í söguformi. Ég
hef sérstaklega orðið vör við þetta þegar ég
ferðast en þá er ég gjarnan með mjög meitlaða
ferðasögu tilbúna í höfðinu þegar ég kem
heim. Ég tók fyrst eftir þessu þegar ég skrif-
aði Valsa úr síðustu siglingu sem kom út 1996.
Bókin er um sjóferð til Frakklands og hug-
myndin var sú að ég hefði ekkert betra að gera
úti á sjó en að halda nákvæma dagbók. Svo
gafst ég fljótlega upp á því. Dagbókin er ein-
faldlega ekki mitt form og mér varð það ljóst
þarna, eins og með myndavélina sem ég hafði
lagt á hilluna á svipuðum tíma, að sagan var
skýrari í kollinum á mér ef ég hafði hvorki
glósur né myndir til að styðjast við. Það er ein-
hver stöð í heilanum sem skráir atburðina sem
einhvers konar bútasaumsbókmenntir jafn-
óðum. Þegar ég fór svo að skrifa valsana niður
var ég mjög fljót að því. Ég held ég hafi verið
þrjár vikur að skrifa þá bók og einn daginn
skrifaði ég níu ljóð í beit.“
Hrokafull
Ljóðið er augljóslega það bókmenntaform sem
hentar skáldskap Lindu best. Frá barnsaldri
hefur ljóðið verið hennar skýrasta tjáning-
arform en þó virðist sem að hún hafi átt í ein-
hverju basli með sjálfsmynd sína sem ljóð-
skáld til að byrja með.
Af hverju leið svo langur tími frá því að ljóð-
in þín fóru að birtast í blöðum þar til fyrsta
ljóðabókin kom út?
„Fljótlega eftir að fyrstu ljóðin birtust fór
ég með handrit að ljóðabók til Silju Aðalsteins-
dóttur sem þá ritstýrði tímariti Máls og menn-
ingar. Hún gaf mér góðar ráðleggingar sem
mér fannst kki mjög spennandi á þeim tíma,“
segir Linda og hlær við.
„Ég var eitthvað svo hrokafull á þessum ár-
um og gat alls ekki tekið leiðsögn þrátt fyrir að
þetta hafi verið mjög varfærin og uppbyggileg
gagnrýni hjá Silju. Hún var í rauninni bara að
benda mér á hvað vantaði í handritið. Ég kunni
hins vegar ekki að fara aftur á byrjunarreit
svo ég stakk ljóðunum ofaní skúffu og afneitaði
skáldadraumnum í nokkur ár.“
Linda vill þó meina að ljóðskáldið í henni
hafi hvergi farið þrátt fyrir heiðarlegar til-
raunir til brottreksturs.
„Ljóðin héldu áfram að sækja á mig og ein-
hverra hluta vegna rímuðu þau mjög vel við þá
þætti sem Silju fannst vanta í handritið og án
þess að ég tæki eftir því varð handritið smám
saman fyllra. Uppistaðan í fyrstu bókinni
minni voru í rauninni ljóðin sem ég fór með til
Silju. Ég orti síðan inn í þann grunn svo úr
varð heilsteypt handrit. Alveg frá upphafi fann
ég fyrir miklum velvilja hjá Máli og menningu
en þau Silja og Halldór Guðmundsson létu allt-
af í það skína að þau biðu spennt eftir handrit-
inu.“
Úr eigin reynsluheimi
Eins og áður sagði hefur Linda fengist við ým-
iss konar skrif fyrir utan ljóðin. Þó segist hún
ávallt fjalla um sama efnið hvort sem hún
skrifi ljóð, leikrit eða skáldsögu.
„Mér finnst ég alltaf vera að fjalla um sama
efnið og held ég eigi aldrei eftir að fara langt
út fyrir það. Allt sem ég skrifa á rætur að
rekja í reynsluheim minn enda hef ég ekki úr
öðru að moða. Ég held að ljóðin séu ekkert
öðruvísi en annað. Formið skiptir í rauninni
engu máli.“
Linda segir að skrif sín séu gjarnan mjög
persónuleg og lengi vel hélt hún að það væri
eitthvað ómerkilegt. Það viðhorf hefur þó
breyst.
„Ég er komin á þá skoðun að þetta sé það
sem ég hef að segja og að ég eigi ekkert annað
erindi við lesendur.“
Hvað fær þig til að skrifa?
„Ég kem úr svolítið öðru umhverfi en marg-
ir rithöfundar hér á landi og ég hef reynt að
gera því skil í skrifum mínum. Ég er t.d. alin
upp í verkamannafjölskyldu þar sem karlarnir
voru annað hvort á sjó eða unnu á eyrinni og
konurnar og börnin fóru í fiskinn í frystihúsinu
um leið og aðrar skyldur leyfðu það. Síðan hef
ég unnið á spítölum í tuttugu ár. Svo er ég
alkóhólisti í ofanálag. Þannig að mér finnst ég
hafa heldur rámari rödd en gengur og gerist
og þegar vel tekst til getur hún gefið fáfarnari
kimum samfélagsins hljóm í bókmenntum.
Mér finnst ég einfaldlega hafa eitthvað til mál-
anna að leggja og það heldur mér við efnið.
Síðan er ég svo lánsöm að mér voru gefnir
þessir hæfileikar og mér ber að nýta þá með
því að rækta í mér sköpunarkraftinn.“
Stúlkan sem horfir á hafið
Hugarstríð ljóðmælandans í Frostfiðrildum er
vissulega klassískt minni í ljóðagerð; örvænt-
ingarfullt saknaðarljóð til elskhuga, sem hér
er sett í afar íslenskan og veðurbarinn búning.
Ljóðabálknum svipar jafnframt sterklega til
sagna af eiginkonum sjómanna sem bíða í von
og ótta eftir að mennirnir skili sér í land. Slíkt
sagnaminni er Lindu alls ekki ókunnugt.
„Maðurinn minn fór í átta daga leiðangur á
Vatnajökul og ég uppgvötaði þá að ég var allt í
einu í sömu kvíðafullu sporunum og móðir mín
og aðrar sjómannskonur í gegnum tíðina. Á
meðan maðurinn minn var í burtu brast á mik-
ið vatnaveður á suðausturlandi og það var litl-
ar féttir að hafa ofan af jökli fyrstu dagana. Ég
var nýhætt að reykja og flúði inní gamal ót-
tamunstur í höfðinu á mér og festist þar. Það
er í rauninni erfitt að lýsa þessari upplifun,“
segir Linda og bætir svo við, „nema kannski í
ljóði.“
„Bókin fjallar um ákveðið innra ferðalag.
Frá því að vera heltekin af ótta og komast svo
að lokum á þann stað að geta sætt sig við lífið í
öllum sínum myndum. Að geta fetað sig í
gegnum lífið frá degi til dags, þora að finna til
og treysta forsjóninni fyrir því sem maður
stjórnar ekki sjálfur.“
Brimið í blóðinu
Náttúran og veðurfar eru tvö áberandi stef í
þínum skáldskap. Myndiru kalla þig nátt-
úrubarn?
„Nei, ég get ekki sagt það. Það er nefnilega
svolítið skrítið að ég skuli alltaf vera að skrifa
um náttúruna af því að ég er svo mikið borg-
arbarn og hef alltaf verið. Ég er t.d. ekki mikil
útivistarmanneskja. Núna sit ég og skelf úr
kulda heima hjá mér við Laugarveginn og þori
ekki að fara út,“ segir Linda og hlær.
„Þegar ég les upp í útlöndum er ég gjarnan
spurð að því hvort ég sé í nánum tengslum við
landið og náttúruna. Ég svara því yfirleitt eitt-
hvað á þá leið að maður komist einfaldlega
ekki hjá því verða fyrir áhrifum veðurs og
náttúru hér á landi, þó maður sé borgarbarn.
Ég sé Esjuna og Faxaflóann útum gluggan hjá
mér og veðrið bylur á mér, og stundum sjó-
gangur líka, dag eftir dag. Mig minnir að ég
hafi einhvern tíma orðað það þannig að ég væri
með brimið í blóðinu og veðrið í höfðinu.“
Eins er vatnið fyrirferðamikill þáttur í
myndmáli Frostfiðrildanna. Það birtist þarna í
öllum sínum myndum; sem jökull, snjór, þoka,
gufubað, sviti og úrhellisrigning. Þá segir á
einum stað í bókinni að óttinn sé „mestmegnis
vatn sem eitt og sér er skaðlaust efna-
samband“. Enn fremur segir ljóðmælandinn
að „óttinn og svitinn og tíminn og vatnið um-
lykja mig í einsemdinni“.
„Mér finnst rosalega spennandi þessi mörgu
form vatnsins. Þessi hringrás. Klakinn, vatnið
og gufan. Þetta er svo einföld birtingarmynd
af lífinu í öllum sínum afbrigðum.“
Þegar ljóðmælandinn í Frostfiðrildunum
heyrir svo loks í rödd mannsins sem hún hefur
beðið eftir skín sólin og hún heyrir klakamuln-
inginn malla í æðunum.
Ljóðið ratar til sinna
Að lokum berst talið að lífi ljóðsins á íslandi.
Linda upplifði sjálf ákveðna vakningu í listum
við upphaf níunda áratugarins, einkum á með-
al yngri kynslóðarinnar, og ljóðið fór ekki var-
hluta af henni. Listafólk stofnaði ýmiss konar
lista- og gjörningahópa sem stóðu fyrir margs
konar uppákomum í miðborginni. Linda tók
þátt í mörgum slíkum uppákomum og ber þar
að nefna listagjörningin „Gullströndin andar“
sem fór fram í aflögðu skrifstofu- og lag-
erhúsnæði í JL húsinu. Þarna var öllum list-
greinum blandað saman og þar voru ljóðin
hennar Lindu fyrst lesin upp opinberlega. Hún
var einnig þátttakandi í ljóðagjörningnum
„Fellibylurinn Gloría“ sem gefinn var út á
hljóðsnældu árið 1985. Þá var hún gjarnan
með í uppákomum félagsins „Besti vinur ljóðs-
ins“ sem hóf starfsemi sína um þetta leyti með
margs konar ljóðauppákomum og ljóða-
upplestri víða um bæ. Með þessum hópi komu
mörg skáld fram á sjónarsviðið sem þekkt eru
í dag og mætti þar nefna Margréti Lóu Jóns-
dóttur, Braga Ólafsson, Kristínu Ómarsdóttur,
Sindra Freysson, Þórunni Valdimarsdóttur og
Óskar Árna Óskarsson.
Var staða ljóðsins sérstaklega sterk á þess-
um tíma?
„Það var vissulega mikið af áhugasömum
ungum skáldum sem voru að reyna að fara
nýjar leiðir. Ljóð voru samt ekkert að seljast
betur þá en núna og það var ekkert meira út-
gefið af ljóðabókum en var fyrir okkar tíma
eða eftir hann, ef útí það er farið. Samt voru
ungskáldin töluvert að gefa út á eigin vegum.
Það var eins og við héldum að það leyndist ein-
hvers staðar miklu stærri markaður fyrir ljóð,
sem síðan reyndist ekki vera til þá, blandað
saman og er sennilega ekki heldur til núna.
„Ljóðið ratar til sinna" eins og Þorsteinn frá
Hamri sagði, og við skáldin verðum bara að
treysta því. Ljóðið er langsótt í eðli sínu og
þetta hefur aldrei verið spurning um að búa til
ljóðaunnendur með markaðsetningu og verður
aldrei, sama hversu frumleg hún er.“
„Mér finnst staðan lítið breytt í dag í sjálfu
sér,“ segir Linda. „Nýhil-hópurinn er með svo-
lítið svipaðar hugmyndir og við vorum með og
er á sinn hátt að reyna brjótast út úr ljóð-
múrnum. Það virðist eins og hver kynslóð
þurfi að fara í gegnum þetta ferli á sínum eigin
forsendum.“
Birtingamyndir vatnsins
Morgunblaðið/Kristinn
Borgarbarn Það er nefnilega svolítið skrítið að ég skuli alltaf vera að skrifa um náttúruna af
því að ég er svo mikið borgarbarn og hef alltaf verið,“ segir Linda meðal annars.
Frostfiðrildin er fimmta ljóðabók Lindu Vil-
hjálmsdóttur og kom hún nýverið út hjá Máli
og menningu. Blaðamaður ræddi við ljóð-
skáldið um bókina, ljóðið og hinar ýmsu birt-
ingarmyndir vatnsins.