Morgunblaðið - 26.11.2006, Side 38
við manninn mælt
38 SUNNUDAGUR 26. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
Á
eftirmiðdegi í kjallaraíbúð á Mel-
unum spyr Elínbjörg Magn-
úsdóttir hress eins og hún á að
sér að vera:
– Viltu kaffi?
Svo er hún rokin. Blaðamaður eftir í stof-
unni og virðir fyrir sér ljósmynd af „lillunni“
og „guttanum“ og skopteikningu af Elínbjörgu
með trefil Manchester United og takkaskó á
baki tengdasonarins, Sigursteins Gíslasonar, í
KR-búningi. Á teikningunni er innrömmuð
mynd af hrokkinhærðum manni og á henni
stendur: „Með kveðju frá Dabba“.
Ástríður Elínbjargar eru fótbolti og pólitík.
Trúarbrögðin ekki langt undan, Biblían rís
upp af kommóðunni og altarið kassalaga; helg-
ar stundir á laugardögum þegar sýnt er beint
frá enska boltanum.
Og jú, ekki má gleyma fiskinum og verka-
lýðnum. Elínbjörg er titluð „sérhæfður fisk-
vinnslumaður“ í símaskránni; hún hefur yndi
af því að vinna í fiski og hefur óspart beitt sér í
þágu verkalýðshreyfingarinnar.
– Ég reif kjaft og var sett í stjórn um leið.
Hún er kjarnyrt og kveður fast að, samt er
létt yfir málrómnum og úr verður notaleg
blanda kímni og alvöru:
– Það hefði ekki verið á nokkurn mann
leggjandi að búa með svona manneskju og ég
hefði sennilega ekki getað þetta ef ég hefði átt
stærri fjölskyldu. En ég átti góða foreldra sem
gerðu mér þetta kleift.
Elínbjörg gengur að sjónvarpinu; þingmað-
ur í pontu.
– Ég ætla að drepa á þessu.
– Horfirðu oft á umræður í þinginu?
– Já, stundum, svarar hún, gengur fram í
eldhús og kallar þaðan:
– Svona ef það er ekkert annað skárra!
Hún kemur færandi hendi með kaffi og seg-
ist hafa byrjað afskipti af pólitík á Akranesi:
– Í þessu samfélagi varð ekki aftur snúið
eftir að hafa mætt á fyrsta fundinn hjá sjálf-
stæðismönnum. Þar með vissu allir hvorum
megin hryggjar maður lá.
Og atburðarásin var hröð eins og iðulega
hjá fólki sem „rífur kjaft“. Fyrr en varði var
hún komin í prófkjör í tvöföldu kjördæmisráði
fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Vesturlandi árið
1991.
– Þeir fengu enga aðra konu, segir hún
brosandi. Það var hringt í mig kortér fyrir átta
á sunnudagskvöldi, gamall sveitungi úr hrepp-
unum sunnan heiðar. Einhver kona hafði hald-
ið þeim volgum en síðan gefið afsvar. Mér var
sagt að þeir gætu ekki farið í prófkjör án þess
að kona byði sig fram. Ég sagði að ég yrði að
hugsa þetta. „Þú getur hugsað til kortér fyrir
níu,“ sagði hann. Ég hafði fimm kortér til að
afgreiða málið.
Guðjón Guðmundsson, einnig af Skaganum,
hafði gefið kost á sér í annað sæti. Ég þekkti
hann ekki persónulega en lét bera þetta undir
hann því ég hafði ekki áhuga á því að spilla
fyrir honum. Svarið frá honum var alveg
skýrt: „Elskan mín, drífðu þig!“
Þá vantaði mig ráðgjöf um hvað ég ætti að
gera og hringdi í besta ráðgjafa sem ég hef
haft í gegnum lífið, pabba. Hann sagði þetta
mína ákvörðun en mér væru allir vegir færir.
Ég lét slag standa. Allar mínar bestu ákvarð-
anir hafa raunar verið teknar á augnablikinu.
Ég náði þriðja sæti og man alltaf hvað ég varð
undrandi. Ég fékk fyrir hjartað og titring og
hef aldrei verið skjálfandi í pontu nema þarna.
Hólmfríður [Karlsdóttir] var nýorðin ungfrú
heimur og ég hugsaði: „Nú veit ég hvernig
Hólmfríði leið.“ Nema það var ekki vegna feg-
urðar.
Elínbjörg hlær innilega.
– Ég fór tvisvar inn.
– Hvernig líkaði þér á þingi?
– Mér fannst þetta góður vinnustaður. Ég
fékk góðar móttökur, sama hvar í flokki menn
stóðu. Þetta er annasamt starf og til mikils
ætlast af manni, ekki bara á þingi heldur af
samfélaginu, og fundarhöld tíð. Ég vildi ekki
þurfa að vera á þingi með smábörn. Það er
ljótt að segja það en konur ættu fyrst að ala
upp börnin sín. Annars missa þær af því.
– Og karlar?
– Ég þekki ekki hvernig það er að vera karl
og eiga barn. Auðvitað missa þeir af þessu. En
ég hef enga sérstaka samúð með þingmönn-
um. Þeir koma þó heim á nóttunni, annað en
langferðabílstjórar og sjómenn. Börnunum er
yfirleitt hent úr rúminu þegar þessi karl-
fjandar koma heim.
Elínbjörg bauð sig ekki aftur fram að fjór-
um árum liðnum, enda sest í bæjarstjórn og á
kafi í verkalýðsmálum, fyrsta konan sem sat
fiskiþing og hefur verið í stjórn Fiskifélags Ís-
lands í rúman áratug. Hún hefur aldeilis ekki
hætt pólitískum afskiptum, var í 15. sæti á
borgarstjórnarlista Sjálfstæðisflokksins síð-
astliðið vor og situr í miðstjórn, kjörin af
landsfundi.
– Hvað heillar við stjórnmálin?
– Ég er bara pólitísk. Uppeldið var ekkert
pólitískt; ég hef ekki hugmynd um hvar pabbi
og mamma stóðu. En við systkinin fórum
snemma að vinna og okkur var kennt að við
gætum það sem við vildum, að hver væri sinn-
ar gæfu smiður. Þetta var stórt bú og pabbi
var mikið í burtu að keyra. Mamma hafði í
nógu að snúast enda eignaðist hún átta börn á
tíu árum. Þannig að við þurftum snemma að
axla ábyrgð. Mér finnst íhaldið eini ábyrgi
flokkurinn – það rýkur ekki upp til handa og
fóta eftir almenningsálitinu.
– Þannig að það getur farið saman að vera
verkalýðsfrömuður og sjálfstæðismaður?
– Ég er farin að verða ansi snefsin þegar ég
fæ þá spurningu hvernig ég geti unnið í fiski,
láglaunastarfi, og verið sjálfstæðismaður. Eins
og það sé lögmál að maður hafi ekki metnað þó
að maður sé ekki á ráðherralaunum. Ég kenni
ekki neinum um að ég gekk ekki mennta-
veginn; það var mín ákvörðun og ég ber
ábyrgð á henni. Ég gæti sjálfsagt orðið mót-
tökuritari, er búin að læra bókhald og annað,
en ég vil vinna við sjávarútveg. Ef það þýðir
slorið, þá bara gott og vel!
– Þú hefur líka dellu fyrir fótbolta; er eitt-
hvað líkt með því og stjórnmálum?
– Maður er í sínum flokki og styður sitt lið.
Það þýðir ekki að maður hrífist ekki af leik-
mönnum annarra liða. Mér finnst mikið til ein-
staklinga í öðrum flokkum koma; sumir eru
skemmtilegir en aðrir ættu betur heima í
neðri deildum.
– Hvaðan kemur knattspyrnudellan?
– Ja … spurðu! Ég veit það ekki. Í sveitinni
kviknaði áhuginn á fótbolta þegar Rúnar Júl-
íusson í Hljómum spilaði með Keflavík. Það
var náttúrulega mitt lið. Svo dalaði áhuginn
þegar hann hætti.
Hún drepur í sígarettu í öskubakka.
– En svo kemst maður ekki hjá því að fylgj-
ast með fótbolta á Skaganum. Ég horfði á
enska boltann frá byrjun og hlustaði á lýs-
ingar Bjarna Fel. Manchester United var í
uppáhaldi. Ég hafði heyrt um slysið 1958 í
München og það var draumur að horfa á
George Best þræða sig í gegnum varnirnar.
Fljótlega eftir að ég flutti upp á Skaga fór ég á
alla leiki, elti liðið út á land og út fyrir land-
steinana. Einu sinni fór ég hringveginn á
tveim sólarhringum til að fylgjast með bik-
arleik við Val á Reyðarfirði. Ég tók tíu ára
frænda minn með mér og fannst að það yrði að
sýna Val á Reyðarfirði sömu virðingu og Val í
Reykjavík.
– Og það hefur aldrei mátt hringja í þig á
laugardagseftirmiðdögum?
– Einkum þegar framboðið var takmarkað,
aðeins einn leikur sýndur. Þá voru þeir sem
þekktu mig best ekkert að hringja. Nú er það
ekki eins hátíðlegt, enda leikur um hádegið,
annar klukkan þrjú og þriðji klukkan fimm.
Það kemur nú fyrir að maður velur úr; úthald-
ið er ekki alveg það mikið – en þó fer það eftir
því hvort kalt er í veðri. Ég afsaka það með því
að ég sit með prjónana mína, þannig að tím-
anum er ekki algjörlega sóað. Ef fólk skyldi
hafa áhyggjur af því, segir hún og kímir.
– Og þú ferð utan á leiki?
– Ég hef farið á þrjá velli í Skotlandi, tvisvar
með Skagamönnum og síðan á slatta af leikj-
um í Englandi.
– Og ert að safna leikvöngum?
– Já, ég missti af Highbury, komst aldrei
þangað, og á eftir Anfield, en utan þess á ég
ekki eftir mikið af stóru leikvöngunum, South-
ampton, Middlesborough, Newcastle og Nott-
ingham – mig hefur alltaf langað þangað.
– Enginn staður jafnast á við Wembley?
– Ég hef komið þangað tvisvar, einu sinni á
leik og einu sinni á tónleika og ber mikla lotn-
ingu fyrir þeim stað. Þó að leikvangurinn sé
stór, þá er allt smærra í sniðum því hann var
byggður þegar fólk var minna. Þess vegna er
erfitt að athafna sig og þröngt um mann í sæti.
En leikvangurinn er svo tignarlegur. Ég
sakna Wembley og bíð eftir nýjum þjóð-
arleikvangi; ég hef ekkert til Cardiff að gera.
– Syngurðu með?
– Það er helst að maður læri styttri lögin en
yfirleitt situr maður bara opinmynntur. Unit-
ed hefur alltaf skorað þegar ég hef verið á Old
Trafford eða látið aðra um að skora sjálfs-
mark. Þá er næsti maður kominn í fangið á
manni – þetta er allt ein fjölskylda.
– Og þú ert í Manchester United-klúbbn-
um?
– Bæði hér heima og í One United úti. Ég er
á biðlista fyrir ársmiða og draumurinn er að
leigja „bed and breakfast“ eitt tímabil þegar
maður kemst á aldur.
– Hvað heillar við fótboltann?
– Þetta er bara svo ótrúlega skemmtilegt.
Það er ekki neitt til sem heitir stéttaskipting,
bara ein stétt – áhugafólk um fótbolta. Íslend-
ingar þykjast vita eitthvað um stéttaskiptingu
en það er kjaftæði. Bretland er önnur saga.
Það fara ekki allir á Wimbledon. En allir horfa
á fótbolta, háir og lágir. Spennan er svo mikil
að dagfarsprúðustu menn ráða ekkert við sig;
ég þekki einstaklinga sem mega ekki fara á
völlinn samkvæmt læknisráði.
Hingað til hefur Elínbjörg mætt með gula
húfu á leiki hér á landi en nú er útlit fyrir að
hún mæti stundum með svarta húfu.
– Ég á sjálfsagt eftir að styðja KR í yngri
flokkunum, þar spilar Magnús Sveinn dótt-
ursonur minn bæði fótbolta og körfubolta.
Þetta eru bara örlög manns. Ég hef reyndar
einu sinni öskrað: „Áfram KR!“ Þá sýndi Liv-
erpool þann dónaskap að koma fyrst inn á völl-
inn í jakkafötum og svo beint í leikinn, án upp-
hitunar. Ég móðgaðist fyrir hönd KR-inga.
Enda er Liverpool hálfgerður ruslaralýður.
Elínbjörg ólst upp fjarri knattspyrnu og
leikvöngum á Belgsholti í Melasveit hjá for-
eldrum sínum Önnu Þorvarðardóttur og
Magnúsi Ólafssyni, sem lést árið 1996.
– Maður fór í fjós sjö ára, keyrði traktor
átta ára og kynntist hestarekstrarvélinni.
Auðvitað var ekkert vaðið í peningum. En
samt var lögð áhersla á að við börnin tækjum
þátt í öllu sem um var að vera. Ég var í far-
skóla og við gengum 5 kílómetra fram og til
baka á íþróttaæfingar. Á vorin vorum við
keyrð í sund upp í Leirárskóg, þar sem laugin
var við heita borholu. Pabbi smalaði sveita-
krökkunum á vörubílinn og við vorum þar all-
an daginn. Það eina sem var til skjóls var hvítt
gamalt tjald. Helga Haraldsdóttir sunddrottn-
ing kenndi okkur og var alveg frábær.
Við gengum vaktir með pabba, fórum í
sandtöku við sjóinn og jöfnuðum til á pallinum.
Hann fór fyrstu ferðina til Akraness áður en
fólk vaknaði og síðustu eftir að það sofnaði. Á
sunnudögum fórum við stundum með og hann
skildi okkur eftir uppi í Fiskilækjarskógi fyrir
ofan þjóðveginn á meðan hann fór út á Skaga.
Mamma var með okkur og við vorum í útilegu,
að okkur fannst.
Elínbjörg fór fyrst á sveitaball 13 ára.
– Fljótlega upp úr því voru þau bönnuð 16
ára og yngri. Þá var sett upp unglingaball frá
22 til 24. Pabbi keyrði okkur á ballið og svaf í
bílnum á meðan. Þetta lagði hann á sig, þó að
lausar stundir væru fáar.
Elínbjörg fór að vinna utan heimilis sautján
ára, fyrst hjá verktökum í Hvalfirði og svo hjá
Ísal í Straumsvík.
– Þá gerðist það hjá mér, eins og oft vill
verða, að ég kynntist manni, varð ófrísk og það
slitnaði upp úr því áður en barnið fæddist. Þá
fór fyrir mér eins og öllum hinum; ég fór heim
til mömmu.
Upp úr því vann Elínbjörg í Hvalstöðinni
frá 1972 til 1979, níu mánaða vertíðir frá pásk-
um til jóla og táraðist þegar hvalveiðar hófust
aftur síðastliðið haust. Þegar hún flutti á
Skagann varð dóttir hennar, Anna Elín, eftir
hjá afa og ömmu.
– Ég gat ekki sagt við þau: „Við þökkum
fyrir okkur, verið þið sæl.“ Ég átti ekki mikið
meira í henni en þau. En hún kom um helgar
og flutti alveg til mín í tíunda bekk. Þá fórum
við til foreldra minna um helgar. Svo flutti hún
að heiman átján ára og fór að búa. Við héldum
samt jólin í Belgsholti þar til hún gifti sig. Það
hjónaband hefur gengið vel og barnabörnin
eru þrjú, Magnús Sveinn sjö ára, Unnur Elín
tveggja ára og Teitur Leó sjö mánaða.
– Víkjum aftur að alvöru málsins; hvaða lið
verður Englandsmeistari í vor?
– United verður meistari, segir Elínbjörg og
hallar sér aftur í stólnum drýgindalega. Ég
hugsa að þeir eigi eftir að fara langt í meist-
aradeildinni. Þetta er traust lið og það spilar
góðan bolta.
Elínbjörg er mikil keppnismanneskja og
kallar ekki allt ömmu sína, amma sjálf. Eftir
viðtalið fer hún til keppni í ólsen ólsen í
Grandaskóla með dóttursyninum.
– Ertu glúrin í ólsen?
– Já, ég kann ýmislegt fyrir mér, hvort sem
það er danskur eða verksmiðju eða Hornfirð-
ingur. En ég reikna með að þeir verði með ein-
földu útgáfuna; þetta eru sjö ára guttar.
Þetta eru bara örlög manns
Morgunblaðið/ÞÖK
Uppáhaldsliðið „United hefur alltaf skorað þegar ég hef verið á Old Trafford.“
Pétur Blöndal
ræðir við
ELÍNBJÖRGU MAGNÚSDÓTTUR