Morgunblaðið - 03.10.2007, Síða 43
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 3. OKTÓBER 2007 43
Eftir Ingveldi Geirsdóttur
ingveldur@mbl.is
„ÉG FÉKK frábærar fréttir í morg-
un og er því mjög kátur núna,“ sagði
danski leikstjórinn Peter Schønau
Fog þegar blaðamaður hringdi í hann
til Danmerkur einn septembermorg-
un. Það var líka ekki að undra að Fog
væri í skýjunum því hann var að
frétta að leikstjórnaverkefni sitt,
kvikmyndin Listin að gráta í kór
(Kunsten at græde i kor), yrði fram-
lag Dana til Óskarsverðlaunanna.
– Þú ert nú varla undrandi yfir
þeim fréttum því myndin hefur notið
mikillar velgengni um víða veröld.
„Ég er undrandi því þegar myndin
var gerð bjóst ég ekki við þessari vel-
gengni. Ég gerði myndina, ekki til að
verða frægur, heldur vegna þess að
þetta er mikilvæg saga um mikilvægt
viðfangsefni sem ég vildi koma á
framfæri. Þetta er saga um hræði-
lega hluti sem fólk vill í raun og veru
ekki heyra sögur um,“ segir Fog.
Umræðan ekki nógu djúp
Listin að gráta í kór segir frá ellefu
ára dreng sem elst upp á Suður-
Jótlandi upp úr 1970. Sagan er sögð
frá sjónarhorni drengsins og lýsir til-
raunum hans til að halda öllum góð-
um í sinni trufluðu fjölskyldu. Pabb-
inn er sígrátandi, hótar reglulega að
fremja sjálfsmorð og misnotar dóttur
sína. Móðirin er búin að gefast upp á
eiginmanninum, stóri bróðir er flutt-
ur að heiman og mjólkurbúðin sem
fjölskyldan rekur gengur ekki nógu
vel.
„Ég hugsaði sem svo að ef ég gæti
sagt söguna með augum 11 ára stráks
væri meiri möguleiki á að ná til fólks
og fá það til að hugsa um misnotkun á
börnum á dýpri hátt. Það er of oft
fjallað um misnotkun á æsifréttahátt,
þar sem sagt er frá með augum ut-
anaðkomandi,“ segir Fog.
– Hefur farið af stað umræða um
sifjaspell í Danmörku út frá mynd-
inni? „Já, myndin hefur opnað fyrir
umræðu með nýju sjónarhorni. Þó
okkur finnist umræðan í dag opin um
barnamisnotkun þá nær hún oft ekki
dýpra en æsifréttir, við hneykslumst
og gleymum þessu svo.“
Peter Schønau Fog er fæddur árið
1971 á dönsku eyjunni Fanø. Hann
lærði kvikmyndagerð við FAMU
kvikmyndaskólann í Prag áður en
hann hóf nám við danska kvikmynda-
skólann. Listin að gráta í kór er
fyrsta leikna kvikmynd hans í fullri
lengd. Myndin hefur nú verið sýnd á
32 alþjóðlegum kvikmyndahátíðum
og unnið til 17 verðlauna.
„Í þessari sögu eru tveir af aðal-
leikurunum börn og það lá mikið á
þeim. Myndin er tekin í suðurhluta
Jótlands og þar er töluð mjög sterk
mállýska, svo sterk að þegar myndin
var sýnd annarsstaðar í Danmörku
var hún textuð. Við urðum að finna
börn á Suður-Jótlandi til að leika í
myndinni því það er erfitt að kenna
börnum að tala með hreim. Það hafði
aldrei verið gerð mynd á svæðinu svo
við fundum „venjuleg“ börn og
kenndum þeim að leika. Ég er mjög
ánægður með gott gengi mynd-
arinnar því það er mikil ábyrgð að
taka börn og setja þau svona fyrir
framan myndavélina.“
Sérvitur á verkefni
Listin að gráta í kór er tilnefnd til
kvikmyndaverðlauna Norð-
urlandaráðs 2007 ásamt íslensku
myndunum Mýrinni og Börnum. Að-
spurður segist Fog ekki hafa séð þær
myndir en vonast til að berja þær
augum einn daginn.
Þar sem Fog er í Óskarstilnefning-
arvímu þykir blaðamanni vert að
spyrja hvort hann gæti hugsað sér að
vinna í Hollywood. „Ég er mjög sér-
vitur á verkefni. Ég vil segja sögu og
ef eina ástæðan fyrir því að segja ein-
hverja sögu er til að græða peninga
þá virkar það ekki fyrir mig. Ég vil
halda mig við það sem er mikilvægt.“
Fog er nú kominn hingað til lands
til að verða viðstaddur Alþjóðlega
kvikmyndahátíð í Reykjavík þar sem
mynd hans er sýnd. „Ég hef komið
einu sinni áður til Íslands og kann vel
við landið, enda ólst ég upp í litlum
bæ við vesturströnd Danmerkur og
Ísland minnir mig á æskuumhverfið,“
segir Fog og kveður blaðamann með
þeim orðum að hann hlakki mikið til
að koma aftur.
Vill segja mikilvægar sögur
Peter Schønau Fog, leikstjóri Kunsten at græde i kor, er gestur á Kvikmyndahátíð í Reykjavík
Listin að gráta í kór verður sýnd í
Tjarnarbíói í kvöld kl. 20 og þar
mun Peter Schønau Fog einnig
sitja fyrir svörum um myndina.
Peter Fog Hæfileikaríkur leikstjóri sem hefur hlotið margar viðurkenningar fyrir Kunsten at græde i kor, fyrstu mynd sína í fullri lengd.