Morgunblaðið - 30.11.2007, Síða 28

Morgunblaðið - 30.11.2007, Síða 28
28 FÖSTUDAGUR 30. NÓVEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ UMRÆÐAN H vort er ég kona eða maður? Ég er kona, en ég er líka kven- maður, og ef út í það er farið, þá er ég líka maður, því ég er mennsk. Við þessar skilgreiningar á kyni mínu er ég prýðilega sátt. Um dagana hef ég sinnt ýmsu því sem hefur skilgreint mig eftir kyni, þótt það hafi ekkert með líkamlegt kyn mitt að gera. Ég hef til dæmis bæði verið námsmaður og eiginkona. Ég hef líka gert margt það sem hefur skilgreint mig mál- fræðilega sem karlkyn, þótt kona sé. Ég hef til dæmis verið krakki, unglingur, nemandi, kennari, borg- ari, sérfræðingur, gestur, vinur og nágranni. Það, að ég hafi líka verið málfræðilega skilgreind sem hvor- ugkyn, barn, foreldri, systkini, hef- ur heldur ekki vakið hjá mér neinar efasemdir um raunverulegt kyn mitt. Allar eru þessar skilgreiningar mótaðar af því tungumáli sem ég tala, íslenskunni. Það er eðlilegt. Nú hefur Steinunn Valdís Ósk- arsdóttir, þingmaður Samfylkingar, lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að ríkisstjórnin undirbúi breytingar á stjórnarskrá og lögum til að taka megi upp nýtt starfsheiti ráðherra sem bæði kynin geta borið. Steinunn Valdís rök- styður málið meðal annars með því að kona geti hreinlega ekki verið herra, á sama hátt og karl geti ekki verið frú. Í greinargerð með tillög- unni bendir hún á að í hefðbundnum kvennastéttum þar sem karlar hafa haslað sér völl hafi starfsheitum verið breytt þannig að bæði kyn geti borið þau. Þannig hafi hjúkr- unarkonur orðið að hjúkrunarfræð- ingum og fóstrur að leikskólakenn- urum. Þvílíkt rugl! Hvað get ég annað sagt? Hvers á jafnréttisbaráttan að gjalda ef orðhengilsháttur um titla- tog er efsta mál á dagskrá? Enn getum við prísað okkur sæl að eiga nothæft, gjaldgengt og fal- legt tungumál. Það byggist á langri hefð þjóðar sem hefur talað saman, hugsað, lesið og skrifað og mótast eðlilega af hugmyndum okkar hverju sinni um fólk og fyrirbæri. Orð detta úr tísku, önnur taka við; við erum býsna glúrin að búa til ný orð yfir nýja hluti og hugmyndir, þegar við höfum þurft á því að halda. Sími, skjár og tölva eru dæmi um það. Ef við tökum bara tölvuna sem dæmi, þá spratt hugmyndin að orðinu af þeirri staðreynd að fyrstu tölvurnar voru notaðar til útreikn- inga og talnaglímna. Í því ljósi var orðið tölva snjallt og eðlilegt. En í dag hefur hlutverk tölvunnar breyst, og fæst okkar sitja yfir tal- nakúnstum fyrir framan fyrirbærið. Tölvan í dag er fyrst og fremst tæki til ritvinnslu, samskipta og tengsla við umheiminn. Dettur einhverjum í hug að nafnið á fyrirbærinu sé þar með orðið úrelt? Þurfum við að finna orð sem skilgreinir tölvu upp á nýtt? Nei. Orðið er barn síns tíma, en engu að síður fyllilega gjald- gengt, þrátt fyrir breytt hlutverk tölvunnar. Það sama á við um ráðherrann. Orðið er eðlilegt í ljósi þess að á þeim tíma sem það var tekið í notk- un voru það fyrst og fremst karlar sem gegndu starfinu. Það vita allir hvað í því felst að vera ráðherra. Þá má líka hugsa sér að í þessu tilfelli hafi orðið herra gömlu merkinguna vald, eða yfirvald; væntanlega kom- ið af orðinu hár, en ekki endilega merkinguna karlmaður. Því ættu konur þá ekki að geta verið herrar? Hvaða takmarkanir hugans búa að baki því að horfa svo einstrengings- lega á orð, að það glati þegnrétti sín- um þannig? Það myndi kalla á meiri háttar tungumálshreinsun ef ætti að „leiðrétta“ allt það kynbundna í tungumálinu til að þóknast öðru hvoru kyninu, og rökin fyrir því eru afar veik. Með því viðhorfi er verið að hunsa sérkenni tungumálsins, frjósemi þess og fjölbreytileika, fletja út eiginleika þess og sögu- legar hefðir. Til hvers? Til þess eins að þóknast tildri og tilgerð? Er í lagi fyrir konu að vera kvenmaður, en ekki ráðherra? Hvar ætlar Steinunn Valdís að draga mörkin? Hvað með hin karllægu orðin sem við konur notum um okkur sjálfar – og aðra? Er það ekki bara í fínu lagi að vera sérfræðingur, ræstitæknir, ráðgjafi og snillingur, þótt maður sé kona (!)? Steinunn Valdís nefnir nafnbreyt- ingar tveggja starfsstétta máli sínu til stuðnings. Hjúkrunarkonur urðu hjúkrunarfræðingar. Ef ég man rétt, þá var sú breyting ekki fyrst og fremst gerð til að auðvelda karl- mönnum að sinna því starfi, heldur til þess að greina á milli þeirra sem höfðu lært fagið í hjúkrunarkvenn- askóla annars vegar og háskóla hins vegar. Það var spurning um kaup og kjör og mat á menntun. Sé þetta rangt hjá mér bið ég forláts. Enn meiri missir er að starfsheitinu fóstra, sem Steinunn Valdís nefnir einnig. Orðið fóstra á sér djúpar rætur í íslenskri sögu og menningu, og ef eitthvað er hefur það víðtæk- ari merkingu en orðið leikskóla- kennari. En eins og með breyting- arnar á hjúkrunarkonunni, þá voru breytingar á starfsheiti fóstrunnar einnig liður í kjarabaráttu stétt- arinnar, og kröfu um laun á borð við aðra kennara. Breytingin á starfs- heitinu var ekki til eftirbreytni, og tungumálið mun fátækara ef orðið fóstra hverfur. Karlmenn hafa gegnt störfum með kvenkyns starfsheitum án þess að kvarta. Og karlmaður getur vissulega verið frú, meira að segja jómfrú. Jakob smur- brauðsjómfrú ber sitt starfsheiti með stolti og reisn, svo dæmi sé tek- ið af afar kvenlægu starfsheiti. Glíman stendur um meinlokur hug- arfarsins. Það er staðreynd að atvinnuþátt- taka kvenna í fjölbreyttum störfum vinnumarkaðarins á sér skemmri sögu en tungumálið. Í stað þess að hefja aðför að íslensku máli undir tilgerðarlegu yfirskini jafnréttis væri alþingismanninum nær að beita sér fyrir raunverulegu jafn- rétti; þar er af nógu að taka. Hitt er jafnréttisbaráttunni ekki til fram- dráttar, og jafnvel hlægilegt í aug- um þeirra kvenna sem hafa þurft og þurfa enn að sækja rétt sinn á at- vinnumarkaðnum. Ég geri ráð fyrir því að ráðherrar séu allir á sömu launum, hvort sem það eru konur eða karlar sem sinna starfinu. Það á hins vegar ekki við um flestar okkar hinna, sem enn búum við þriðjungi rýrari kjör en karlmenn. Á því þarf að taka með gjörðum, – ekki orðum. Það er fullreynt. Herrar og hleypidómar » Það myndi kalla á meiri háttar tungumáls-hreinsun ef ætti að „leiðrétta“ allt það kyn- bundna í tungumálinu til að þóknast öðru hvoru kyninu og rökin fyrir því eru afar veik. begga@mbl.is VIÐHORF Bergþóra Jónsdóttir GUNNAR Jóhannesson, sókn- arprestur í Hofsóss- og Hólapresta- kalli, skrifaði í Morgunblaðið um „gjald afstæðishyggjunnar“ hinn 13. október sl. og varar við póst- módernískum hugmyndum um að ekkert sé í raun satt, að sannleikurinn eigi ekki að frelsa menn heldur eigi þeir að frelsast undan sann- leikanum. Ég er að ýmsu leyti sammála Gunnari. Ég sé t.d. ekki að jafn réttur fólks til að hafa og tjá skoðanir sínar þýði að allar skoðanir séu jafnréttháar. Gunnar virðist þó falla í þá gryfju að halda að fyrst sannleikur sé til, þá sé það satt sem vill svo til að hann telur sjálfur vera satt. Það tel ég vera misskiln- ing. Annar misskiln- ingur hans virðist mér vera sá að ætla and- mælendum kristinnar kirkju og hefða póst- módernískar hvatir. Þegar ég segi að „sannleikurinn“ sem prestur boðar í pre- dikunarstólnum sé ekki sannleikur, þá meina ég ekki að enginn sannleikur sé til. Bara að presturinn hafi rangt fyrir sér. Gunnar ræðir um „pólitíska rétt- hugsun“ og tengir hana afstæð- ishyggju. Nú gengst ég fúslega við þeirri pólitísku rétthugsun að taka þarfir og jöfnuð fólks fram yfir duttlunga í þjóðsagnapersónum, en kannast ekki við að það komi af- stæðishyggju við. Þótt kristni standi að mínu mati á rök- fræðilegum og siðferðislegum brauðfótum, er þá þar með sagt að ég vísi sannleika og siðferði á bug almennt? Það sem trúað fólk hefur „fengið að heyra“ er kannski stund- um byggt á afstæðishyggju – en ég leyfi mér að halda því fram að oftar sé gagnrýnin beinskeyttari, og snú- ist beinlínis um að guð sé ekki til, borgin „á bjargi traust“ sé bara spilaborg og biskupinn sé nakinn. Maðurinn er mælikvarði alls Ég er sammála Gunnari um að til sé „raunverulegur og algildur“ sannleikur. Hann liggur hins vegar ekki á lausu, og hann er ekki að finna í neinni einni bók. Sínum aug- um lítur hver á silfrið; það er oft sett fram sem sannleikur sem í raun er bara ein hlið hans, og menn skyldu varast að túlka það of bókstaflega sem árás á „sannleikann“ þegar ráðist er á misnotkun á sannleikshugtakinu. Staðhæfingar eru réttar eða rangar eftir því hversu vel þær koma heim og saman við hlutlægan veru- leika. Hið góða og slæma er líka til, og mælikvarðinn á það er maðurinn. Það væri ekki hægt að tala um „gott“ eða „slæmt“ í sjálfu sér án þess að einhver legði mat á það; án mannsins væri hvorugt til. Enginn yrði hnugginn þótt menn útrýmdu ebóla- veirunni, en ef þeir út- rýmdu górilluöpum þætti það ferlegt. Hið góða og slæma er nefnilega huglægt. Maðurinn er ekki aðeins mælikvarðinn á hið góða og slæma heldur er hann líka rót þess. Án mannsins væri ekkert til sem héti dyggð eða löstur. Gagnrýnin hittir sjálfa sig fyrir Gunnar varar við því að ef „við útrýmum sannleikshugtakinu þá út- rýmum við líka öllum hugmyndum um rétt og rangt“. Nú veit ég ekki hvort hann hefur í huga, póstmód- erníska heimspekinga eða þá sem telja t.d. siði mismunandi menning- arheima vera jafnréttháa. Hitt efast ég um, að hann hafi sína eigin koll- ega í huga. Kirkjunnar menn hafa nefnilega sveigt hinn „algilda“ sannleik hennar að þörfum sínum, miðað við aldarfar og viðhorf sam- félagsins á hverjum tíma. Sann- leikur hennar er ekki algildari en svo, að það þarf háskólagráðu til að skilja hvað guð „raunverulega meinti“ þegar hann sagði mönnum að grýta homma eða að konur á túr væru „óhreinar“. Kirkjan „túlkar“ sig frá óþægilegum staðreyndum um ritninguna og sína eigin sögu og þegir um annað. Í Nýja testament- inu (Mark. 10:11-12) segir Jesús: „Sá sem skilur við konu sína og kvænist annarri drýgir hór gegn henni. Og ef kona skilur við mann sinn og giftist öðrum drýgir hún hór“ – hvers vegna leggur kirkjan blessun sína yfir það en ekki yfir hjónaband samkynhneigðra? Getur verið að kirkjuna reki fyrir vindum tíðarandans? Getur verið að henni væri nær að líta í eigin barm áður en hún reynir að draga flís afstæð- ishyggjunnar úr auga náungans? Gunnar segir að eftir því sem stöðu kristninnar hafi hnignað, hafi siðferðinu líka hnignað, eins og þar sé orsakasamhengi. Það væri eins hægt að segja að eftir því sem tök kirkjunnar hafi losnað, hafi ung- barnadauði minnkað og meðalaldur lengst. Það er ekki tilviljun að þetta fari saman. Orsakirnar eru betri menntun og lífskjör, afleiðingin minni trúhneigð og aðrar siðferð- ishugmyndir – sem þurfa ekki að vera verri þótt þær séu öðruvísi. Við söguleg aldahvörf losar fólk af sér viðjar fortíðar og þá skilja hliðverðir gamla tímans stundum ekki ný viðhorf eða nýja siði, en sjá í staðinn „menningarlega og sið- ferðilega upplausn“. Gamla valda- stéttin hryllir sig og ber ekki kennsl á líkindin við sína eigin sögu. Hvað var það annað en óttinn við „upp- lausn“ sem fékk valdamenn fyrri tíðar til að berjast gegn fram- förum? Var það ekki raunin þegar aðallinn og kaþólska kirkjan börð- ust gegn borgarastéttinni og mót- mælendakirkjunum? Eða þegar Rómverjar lumbruðu á frumkirkj- unni og vörpuðu kristnum mönnum fyrir ljón? Gunnar spyr og segir samfélagið fjarlægjast kirkjuna. Það er rétt til getið, þótt með nokkuð öðrum hætti sé en Gunnar telur: Við erum að vaxa upp úr henni. Séra Gunnar og afstæðishyggjan Vésteinn Valgarðsson skrifar um trúmál »Kirkjunnarmenn hafa nefnilega sveigt hinn „algilda“ sannleik hennar að þörfum sínum, miðað við ald- arfar og viðhorf samfélagsins á hverjum tíma. Vésteinn Valgarðsson Höfundur er trúlaus sagnfræðingur. UNDANFARIÐ hefur verið rætt nokkuð um byggðakvóta og hafa stjórnmálamenn mætt út- gerðarmönnum í sjónvarpssal til rökræðna um þetta fyrirbæri. Áhrif byggðakvóta, þar sem aflahlutdeildum er úthlutað af hinu opinbera til mismun- andi byggða virðast í fyrstu vera jákvæð en þegar betur er að gáð kemur annar og alvarlegri sannleikur í ljós. Við úthlutun er miðað við að viðkom- andi byggð sé ekki stærri en sem nemur 1.500 íbúum sem veldur því að mörg þorp hafa beina hagsmuni af því að vera áfram lítil og laða ekki að sér fólk af ótta við að fara yfir tilgreindan íbúafjölda. Aðrar byggðir sem eru rétt við mörkin hafa hvata til þess að fækka íbúum sínum til að kom- ast undir þau mörk sem byggða- kvóti miðast við. Kvóti kemur ekki í byggðir Þær byggðir sem byggja mikið á byggðakvóta frá sjávarútvegs- ráðherra hafa til þess hvata að bægja frá sér kvóta sem er í eigu útgerðarmanna þar sem hætta er á að byggðakvóti fari þegar almennur kvóti eykst í byggðinni. Mörg dæmi eru um að íbúar í smærri þorpum á landsbyggðinni hafi beðið útgerðarmenn þar í bæ að skrá skip sín á aðrar hafnir til að auka möguleika sína á að fá úthlutað byggðakvóta. Byggðakvótinn virk- ar því með þeim hætti að veiðiheimildir eru fluttar frá þorpi á Austurlandi til þorps á Norðurlandi. Litlu virðist skipta stjórnmálamenn að á Austurlandi missir fólk vinnu sína um leið og störf skapast á þeim stað sem heimildirnar eru færðar til. Mun eðlilegra væri að í sjávarútvegi, líkt og í öðrum atvinnugreinum, fengju veiðiheimildir, tæki, fólk og annað í atvinnulífinu að leita þang- að sem verðmætin nýtast best líkt og verið hefur á Íslandi frá því landið var numið. Skammtað úr hnefa Það er fortíðarblær yfir því að ráðherra opni árlega pyngju sína og dreifi verðmætum til þess fjölda sem hafði fyrir því að mæta í biðstofuna það árið. Á öðrum sviðum er það liðin tíð stjórn- málamenn hafi slíkt vald yfir at- vinnutækjunum. Löngu er við- urkennt að pólitísk afskipti sem þessi auka líkur á spillingu og skekkja alla eðlilega atvinnu- starfsemi á frjálsum markaði. Landsbyggðin þarf frelsi í sjáv- arútvegsmálum til jafns við aðrar atvinnugreinar í landinu. Óeðlilegt er af ríkisvaldinu að fella niður störf í sjávarútvegi á einu svæði til þess eins að skapa þau á öðrum og færa þau jafnvel aftur til baka árið eftir. Byggðakvóti er tíma- skekkja sem leggja þarf niður sem allra fyrst – landsbyggðarinnar vegna. Byggðakvóti er tímaskekkja Friðbjörn Orri Ketilsson skrifar um sjávarútvegsmál Friðbjörn Orri Ketilsson » Byggðakvóti er afmörgum talinn já- kvæður fyrir minni sjáv- arþorp en þegar betur er að gáð kemur í ljós að svo er alls ekki. Höfundur er formaður félags ungs fólks í sjávarútvegi, www.fufs.is.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.