Morgunblaðið - 05.04.2008, Side 41
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 5. APRÍL 2008 41
Í dag kveðjum við móðurbróður
okkar, Bjarna Jónsson frá Skeiðhá-
holti, í hinsta sinn. Margar minningar
koma fram í hugann um góðan og
greindan mann.
Það hefur alltaf verið jafn gott að
heimsækja fjölskylduna á Hólnum og
þær eru ógleymanlegar stundirnar
sem við höfum átt við eldhúsborðið
sem ávallt hefur verið miðpunktur
heimilisins. Gestrisni þeirra hjóna, og
fjölskyldunnar allrar, er mikil og allir
gestir jafn mikilvægir, ungir sem
aldnir. Þess höfum við notið og alla tíð
hefur fjölskyldan á Hólnum skipað
sérstakan sess í hjörtum okkar.
Seinni árin hafa svo börnin okkar not-
ið þeirra forréttinda að kynnast þessu
sómafólki eins og við höfðum með
mömmu þegar við vorum lítil.
Vart er hægt að hugsa sér sam-
rýndari hjón en Bjarna og Kristínu,
enda eru þau nánast alltaf nefnd í
sömu setningunni hjá okkur systkin-
unum. Við minnumst glettninnar í
augum Bjarna ef honum var skemmt,
enda var alltaf stutt í húmorinn hjá
honum. Við minnumst djúps skilnings
hans og þekkingar á öllu milli himins
og jarðar. Við minnumst ljóðanna
hans og þau munu lifa meðal okkar.
Við minnumst þess hve heilsteyptur
hann var og hversu mikla athygli
hann sýndi okkar hugðarefnum.
Hann kunni að hlusta, en það er van-
metin og dýrmæt gáfa á góðri stund.
Við minnumst hjartahlýjunnar og
hvernig gleðin og góðmennskan hefur
alltaf ráðið ríkjum á heimilinu.
Á síðustu árum hefur heilsu Bjarna
smám saman farið hrakandi en nær-
vera hans var alltaf jafn sterk og gef-
andi.
Meðan lífsins logi skær
logar glatt og hryggð er fjær
langt í fjarska feigðarspár
fremur sjáum bros en tár.
Samt er ekki sumum rótt.
Sjá þeir ævi líða fljótt.
Frá því birtan boðar dag
er býsna stutt í sólarlag.
Ýmsir þó með þakklátt geð
það við höfum margoft séð
eiga þegar endar för
áhyggjulaust bros á vör.
(Bjarni Jónsson frá Skeiðháholti)
Kristín, Jón, Skafti, Anna Fríða,
Gulli og fjölskyldur. Við vottum ykk-
ur okkar dýpstu samúð.
Við kveðjum þig með söknuði elsku
Bjarni okkar. Minningin um þig lifir.
Fríða Hrefna, Jón Kristófer,
Sigurður, Örn og Jóhanna Lilja.
Þegar við Hildigunnur fórum í
fyrsta skipti í sveitina börn að aldri
var það ekkert smáferðalag. Pakkað
var í eina tösku fyrir sumarið og lagt í
glæfraferð með rútu yfir Hellisheið-
ina, austur fyrir fjall niður krókóttan
„þjóðveginn“, Kambana, með þver-
hnípta og hrikalega fjallshlíð á aðra
hönd. Ferðin til Skeiðháholts á Skeið-
um tók marga klukkutíma. Núna tek-
ur hún örskotsstund!
Við systkinin Hildigunnur vorum í
sveit í Skeiðháholti í sex sumur hvort,
fyrst hún, síðan ég í kjölfarið og höfð-
um mjög gott af dvölinni. Þar lærðum
við til verka og var okkur innprentað
vinnusiðferði, sem við höfum búið að
alla tíð síðan. Aldrei féll verk úr hendi
hjá þeim Kristínu og Bjarna og hver
stund nýtt. Í Skeiðháholti lærðum við
Hildigunnur bændadugnað.
Í Skeiðháholti var á köflum talsvert
krakkastóð á þríbýlinu og ekkert
skorti á fjörið, þegar við fórum í reið-
túra eftir bökkum Þjórsár, út í Ólafs-
staðahverfi eða bara til Blesastaða,
þar sem ég var „skotinn“ í annarri
hverri stelpu! Og hver man ekki eftir
mjúkhentum „slagsmálum“ við falleg-
ustu stelpurnar í mjúku heyi hlöðunn-
ar? Hildigunnur var kaupakona öll
fyrstu árin hjá Jóni Eiríkssyni, föður
Bjarna, virðulegum hreppsstjóra
sveitarinnar. Bjarni varð reyndar
einnig hreppsstjóri. Þeir feðgar ráku
fyrst saman býli. Bjarni, sem reyndist
okkur góður húsbóndi og vinur, lézt
sl. fimmtudag 82 ára að aldri. Hann
hafði þjáðst af Parkinsonsveiki og var
lagður inn á sjúkrahús viku áður en
hann kvaddi þennan heim. Hann var
umkringdur fjölskyldu sinni, þegar
dauðann bar að garði.
Hildigunnur var hjá unga bóndan-
um sumarið 1957. Það var síðasta
sumar hennar í Skeiðháholti. Þá tók
ég við. Ég er stoltur af því að hafa ver-
ið fyrsti vinnumaðurinn hjá Bjarna og
Kristínu eftir að þau giftust árið 1957.
Áttu þau því gullbrúðkaup í fyrra.
Við Hildigunnur vorum hins vegar
ekki fyrstu börnin úr fjölskyldu okkar
sem vorum í Skeiðháholti. Við frænd-
systkinin tókum við eitt af öðru. Fyrst
var Steinunn Bjarnadóttir (Vasulka),
videólistamaður, og var hún lengst
fyrir austan, byrjaði sex ára að okkur
minnir. Hildigunnur var með henni
eitt sumar og eitt sumar með Hildi,
systur hennar, fréttamanni.
Ekki verður horft fram hjá því að
svo löng sveitadvöl smáfólks, sem við
systkinin nutum í Skeiðáholti, verður
gífurlega mikilvægur hluti af uppeldi
borgarbarna úr Vesturbænum; á kafi
í náttúrunni, umgengni við skepnur,
við heyskap, mjaltir, skítmokstur og
önnur sveitastörf. Þetta er reynsla
sem alltof sjaldan er lofuð.
Bjarni var stólpaduglegur, vinnu-
samari og þrautseigari en flestir
menn sem við höfum þekkt um ævina.
Hann var rólyndur en samt kappsfull-
ur sem eru skapgerðarkostir sem
sjaldan fara saman. Bjarni var metn-
aðarfullur ungur bóndi sem hvergi sló
slöku við.
Bjarni var gegnheill og grandvar
maður sem ekki mátti vamm sitt vita.
Það er Bjarna til mikils hróss að hann
var afskaplega varkár þegar dráttar-
vélar og heyvinnuvélar hófu innreið
sína í sveitina af alvöru fyrir röskri
hálfri öld. Hann gætti okkar krakk-
anna mjög vel, leiðbeindi okkur og
gerði lágmarkskröfur til okkar sem
voru í umsjá hans. Stundum þótti
okkur kappsfullum krökkunum nóg
um! En maður kunni að meta var-
kárni Bjarna síðar meir.
Bjarni var húmoristi, viðræðugóð-
ur og hafði fallegt bros. Hann hafði
gaman af að spjalla um menn og mál-
efni en var orðvar maður. Minning
okkar systkinanna um Bjarna Jóns-
son er sú, að hann hafi verið góður
maður, ekki sízt barngóður. Hann var
jafnframt mjög mikilvæg persóna í lífi
okkar og uppeldi, maðurinn sem opn-
aði augu okkar fyrir Íslandi sveitar-
innar og sjálfsbjörg sveitamannsins.
Er hægt að biðja um meira?
Halldór Halldórsson,
Hildigunnur Halldórsdóttir.
Að alast upp í Skeiðháholti á sjö-
unda og áttunda áratug síðustu aldar
voru einstök forréttindi, þar bjuggu
þrír bræður ásamt konum sínum og
börnum og svo voru amma og afi og
þegar flest var á torfunni bjuggu þar
um það bil tuttugu manns. Við sem
börn og unglingar áttum heimili á öll-
um bæjum. Það skipti ekki höfuðmáli
hvar maður var á matmálstímum,
hvort maður var austur í bæ eða uppi
á hól; alls staðar átti maður heima og
alls staðar var maður velkominn.
Það er ómetanlegt veganesti út í líf-
ið að fylgjast með vináttunni og virð-
ingunni sem var á milli Óla, Bjarna og
pabba.
Bjarni frændi var mikill mannvinur
og gaf sér alltaf tíma til að spjalla.
Hann hafði einlægan áhuga á því sem
við krakkarnir vorum að gera og
fylgdist vel með okkur alla tíð. Sama
áhuga og virðingu sýndi hann svo
okkar börnum eftir að þau fæddust og
eru ótal kaffibollarnir og spjallstund-
irnar sem við höfum átt við eldhús-
borðið uppi á Hól. Bjarni var einstakt
ljúfmenni, ekki munum við hann
nema í góðu skapi, meira að segja í
smalamennsku. Hann hafði ríka
kímnigáfu og læddust frá honum
mörg gullkornin.
Að sjá það skemmtilega í lífinu er
ekki öllum gefið, en það kenndi Bjarni
Jónsson föðurbróðir okkur. Dæmi-
gerð minning um Bjarna er girðing-
arvinna fyrir utan skurð þar sem þeir
bræður Bjarni, Óli og pabbi eru að
girða og við krakkarnir að reyna að
hjálpa til og allir bræðurninr að segja
okkur kennileiti og skemmtisögur af
„gömlu mönnunum“. Þetta síaðist inn
í litla kolla og var Bjarni hvað drýgst-
ur í að miðla þekkingunni. Oftar en
ekki komu vísur frá honum, frum-
samdar um líðandi stund. Hvatti hann
okkur og leiðbeindi áfram þegar við
reyndum að böggla saman vísu og var
það mikill sigur þegar Bjarni sam-
þykkti vísu leiðréttingalaust, en
seinna uppgötvuðum við að hann var
ekki strangur á bragfæðinni við
„skáldin“. Mannvinurinn Bjarni virti
viljann fyrir verkið, og þannig var
Bjarni; alltaf hrós, aldrei löstur,
hvatti okkur áfram í hverju sem við
tókum okkur fyrir hendur og treysti
fyrir verkum og leiðbeindi á sinn hæv-
erska hátt. Bjarni hafði einstakan
hæfileika til að gera lífið skemmtilegt,
sama í hversu miklu basli við vorum
alltaf var hægt að sjá eitthvað gaman
við hlutina. Var það því alltaf tilhlökk-
un að komast í vinnu með honum, og
að vinnu lokinni að fara heim í bæ og
fá sér kaffi og lenda í uppdekkuðu
kaffiborði hjá Kristínu.
Bjarni ræktaði garðinn sinn öðrum
mönnum betur í öllum merkingum
þess orðs og hann hafði einstakt lag á
að gera góða daga betri.
Við kveðjum Bjarna með virðingu
og þakklæti og vottum Kristínu og öll-
um ástvinum innilega samúð.
Ólöf, Hermann, Jón og
Sigurbjörg.
Morgunblaðið birtir minning-
argreinar alla útgáfudagana.
Skil | Greinarnar skal senda í gegnum
vefsíðu Morgunblaðsins: mbl.is –
smella á reitinn Senda efni til Morg-
unblaðsins – þá birtist valkosturinn
Minningargreinar ásamt frekari upp-
lýsingum.
Skilafrestur | Ef birta á minning-
argrein á útfarardegi verður hún að
berast fyrir hádegi tveimur virkum
dögum fyrr (á föstudegi ef útför er á
mánudegi eða þriðjudegi). Ef útför
hefur farið fram eða grein berst ekki
innan hins tiltekna skilafrests er ekki
unnt að lofa ákveðnum birtingardegi.
Þar sem pláss er takmarkað getur
birting dregist, enda þótt grein berist
áður en skilafrestur rennur út.
Lengd | Minningargreinar séu ekki
lengri en 3.000 slög (stafir með bilum -
mælt í Tools/Word Count). Ekki er
unnt að senda lengri grein. Hægt er
að senda örstutta kveðju, HINSTU
KVEÐJU, 5-15 línur, og votta þeim
sem kvaddur er virðingu sína án þess
að það sé gert með langri grein. Ekki
er unnt að tengja viðhengi við síðuna.
Formáli | Minningargreinum fylgir
formáli, sem nánustu aðstandendur
senda inn. Þar koma fram upplýsingar
um hvar og hvenær sá, sem fjallað er
um, fæddist, hvar og hvenær hann
lést, um foreldra hans, systkini, maka
og börn og loks hvaðan útförin fer
fram og klukkan hvað athöfnin hefst.
Ætlast er til að þetta komi aðeins fram
í formálanum, sem er feitletraður, en
ekki í minningargreinunum.
Undirskrift | Minningargreinahöf-
undar eru beðnir að hafa skírnarnöfn
sín en ekki stuttnefni undir grein-
unum.
Minningargreinar
Ellert Eggertsson
var borinn til grafar
mánudaginn 3. mars.
Hann lést langt um
aldur fram. Leiðir okkar lágu sam-
an seint á 8. áratugnum og við urð-
um góðir vinir um hríð. Vinátta
okkar varð til vegna sameiginlegra
vinkvenna – sem segja má að hafi
leitt okkur saman, en tók fljótlega
að snúast um sameiginlegan draum
okkar beggja. Við létum okkur
dreyma um ferðalag um Evrópu, og
létum drauminn rætast. Til stóð að
fara á Chevrolet Impala sem Elli
átti; og ég man eftir því þegar ég
heimsótti hann eitt sinn sem oftar á
Gúmmívinnustofuna, að hann sýndi
mér splunkuný dekk og spurði:
„Hvernig líst þér á að rúlla á þess-
um niður Evrópu?“ Mér leist prýði-
lega á það, en hafði reyndar hvorki
vit á bílum né dekkjum eins og Elli,
sem var með talsverða bíladellu.
Svo var hann líka fjórum árum eldri
en ég, og það réð ef til vill úrslitum
um að horfið var frá því að ferðast á
amerískum dreka suður álfuna. Af-
ráðið var að nota heldur evrópskt
lestarkerfi.
Við byrjuðum í Kaupmannahöfn
og fórum þaðan um Svíþjóð, Hol-
land, Belgíu, Þýskaland og suður til
Ítalíu – og til baka. Ferðalagið varð
viðburðaríkt, og Elli og ég kviðum
ekki morgundeginum. Báðir komum
við líka heim aftur. Það var fyrir
bráðum 30 árum, og varla að við
höfum sést síðan. Ef til vill einu
sinni eða tvisvar á hlaupum fyrir
meir en tveimur áratugum.
Þegar ég frétti andlát Ellerts,
daginn sem hann var borinn til
grafar, varð mér hugsað til hans
eins og stundum áður; og það er
engin ástæða til þess að gráta okkar
stuttu kynni. Þvert á móti er gott
að minnast þeirra. Elli var frábær-
lega góður og traustur vinur og með
afbrigðum skemmtilegur ferða-
félagi. Hann var einstaklega hrein-
lyndur maður. Þannig hef ég alltaf
munað hann og þannig mun ég
minnast hans áfram. Guð blessi Ell-
Ellert Eggertsson
✝ Ellert Eggerts-son fæddist í
Hafnarfirði 22. júní
1956. Hann lést á
krabbameinsdeild
Landspítalans við
Hringbraut 22.
febrúar síðastliðinn
og var jarðsunginn
frá Árbæjarkirkju
3. mars.
ert Eggertsson. Að-
standendum votta ég
mína innilegustu sam-
úð.
Hjörtur
Hjartarson.
Kær vinur og
starfsfélagi, Ellert
Eggertsson, er látinn
langt um aldur fram
og langar okkur að
minnast hans í fáein-
um orðum.
Elli, eins og við
kölluðum hann, rak vörubíla- og
gröfuþjónustu og kynntumst við
honum fyrst fyrir sjö árum þegar
hann var fenginn til að vinna verk
fyrir okkur í garðyrkjunni. Leist
okkur strax svo vel á hann að þaðan
í frá vildum við helst ekki neinn
annan en Ella ef við þurftum á
vörubíl eða gröfu að halda. Hann
var frábær verkmaður sem hægt
var að treysta, var ótrúlega fær á
kranann, vann sín verk fljótt en var
jafnframt afar vandvirkur. Elli var
alltaf boðinn og búinn að hjálpa
okkur þrátt fyrir annríki enda mjög
eftirsóttur. Minnumst þess nú þeg-
ar við vorum eitt sinn komnir í
vandræði, en við vorum nærri búnir
að missa vél ofan í skurð og þaðan
utan í hús. Eftir smávegis vanga-
veltur var ákveðið að hringja í Ella.
Þrátt fyrir að hann væri á fullu í
öðru verki sleit hann sig frá því, var
kominn á augabragði og náði að hífa
vélina frá hættusvæðinu. Síðan var
hann farinn jafnharðan og ekki við-
lit að fá hann til að þiggja greiðslu
fyrir.
Elli var mikið fyrir hvers kyns
útiveru s.s hestamennsku og veiði
og þá átti hann forláta mótorhjól
sem hann hafði gaman af að þeysast
um á. Oft talaði hann um sumarbú-
staðinn við Meðalfellsvatn og veiði í
vatninu. Síðasta sumar heimsótti ég
hann í bústaðinn og klippti runna. Í
staðinn fékk ég að veiða í vatninu
eins og ég vildi það sumar og nutum
við sonur minn góðs af því.
Í samtölum leyndi sér ekki að
fjölskyldan var honum mjög hug-
leikin og Spánarferðir með Elínu
konu sinni var ein af hans bestu
stundum.
Um leið og við þökkum samveru-
stundirnar vottum við öllum þeim
sem eiga um sárt að binda okkar
dýpstu samúð.
Ragnar Eyþórsson.
Sigurbjörn Rafn Ottósson.
✝
Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi,
GÍSLI GUNNARSSON,
áður til heimilis að Bárustíg 4,
Sauðárkróki,
lést á Heilbrigðisstofnun Sauðárkróks þriðjudaginn
1. apríl.
Jarðarförin fer fram frá Sauðárkrókskirkju laugar-
daginn 12. apríl kl. 13.00.
Fyrir hönd aðstandenda,
Sigríður Gísladóttir, Björn Ottósson,
Sveinn Gíslason, Jónína Þorvaldsdóttir,
Pálmey Gísladóttir, Rúnar Ingólfsson,
Haraldur Gíslason, Björg Guðmundsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Elskulegur eiginmaður minn,
EINAR GUÐLAUGSSON,
lést af slysförum þriðjudaginn 2. apríl.
Jarðarförin auglýst síðar.
Fyrir hönd fjölskyldunnar,
Ingibjörg Þ. Jónsdóttir.
✝
Ástkær móðir mín, amma og langamma,
GUÐMUNDA GUÐNADÓTTIR,
lést föstudaginn 4. apríl á hjúkrunarheimilinu
Holtsbúð, Garðabæ.
Gunnar Ingimarsson,
Guðmunda Inga Gunnarsdóttir,
Eyrún Harpa Gunnarsdóttir,
Magnús Þór Gunnarsson
og fjölskyldur.