Morgunblaðið - 05.04.2008, Síða 49
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 5. APRÍL 2008 49
Benna frænda og fjölskyldu í Noregi.
Þegar þau buðu þér með til Frakk-
lands gastu ekki verið samferða þeim
eins og til stóð og þurftir því að fljúga
ein til Nice með skiptiflugi í París
(mállaus á enska og franska tungu) og
hitta þau þar. Fjölskyldan var öll
frekar áhyggjufull en þú kveiðst
engu. Þegar ég hringdi í þig kvöldið
áður þá endaði ég samtalið á þeim
nótum að þetta gengi vonandi allt vel
og þú svaraðir svo létt „Það gerir það
alveg örugglega“, enda gekk þetta
eins og í sögu og þú hafðir svo gaman
af þessari ferð, fórst m.a.s. í rússí-
bana! Ég sagði vinum mínum stolt frá
rússíbanaferð áttræðrar ömmu minn-
ar og þú hlaust ómælda virðingu og
aðdáun fyrir.
Þú varst alltaf elskuleg við alla
enda héldu allir fast í þig sem kynnt-
ust þér. Það var alltaf sérstaklega
góður andi í kringum þig og þegar ég
kom ofurþreytt heim á aðfangadag til
mömmu og pabba, þar sem þú bjóst
síðustu æviárin, þá fannst mér best að
leggja mig í stofunni hjá þér eða í þínu
herbergi.
Í fyrsta og eina skiptið sem ég sá
þig kikna að ráði, var í lok síðasta árs
þegar seinni fóturinn var tekinn af en
það sýnir hve mikið þurfti til.
Elsku amma mín, ég vildi ég gæti
fylgt þér eftir síðasta spölinn en ég
veit ég að þú átt eftir að „kíkja á mig“
til Ástralíu og njóta þessarar heims-
álfu með mér. Ég þakka þér fyrir alla
þína elsku og hlýju og allt það sem þú
varst mér. Ég elska þig, amma mín.
Hvíldu í friði.
Þín,
Sigríður Perla.
Elsku amma, nú ert þú búin að yf-
irgefa okkur og komin á annan og
vonandi betri stað og er ég viss um að
þú ert búin að sameinast afa á ný. Ég
sit með minningu í höfðinu frá því
þegar ég og Magnús vorum litlir
pjakkar og vorum í heimsókn hjá þér í
Álfabrekku. Á morgnana varstu búin
að hita upp ilmandi kakó og að baka
þínar æðislegu bollur handa mér og
Magnúsi en skilyrðið var alltaf að við
skyldum taka eina matskeið af
þorskalýsi áður en gengið væri í
kræsingarnar. Ekki var maður hrif-
inn af lýsinu en lét sig þó hafa það á
endanum svo maður gæti gætt sér á
kræsingunum enda yrðum við aldrei
„stórir og sterkir“ nema taka lýsið
eins og þú orðaðir það.
Ég vil þakka samveruna þessi rúm-
legu 20 ár, henni verður seint gleymt
og þín verður alltaf saknað elsku
amma mín en þér líður vonandi vel og
ert örugglega komin í góðar
hendur þarna uppi.
Og með því kveð ég þig elsku
amma.
Jökull Sindri.
Amma var yndisleg og frábær
amma. Ég man alltaf eftir því þegar
við systkinin gistum uppi í Hundadal,
eða þegar hún gisti hérna heima og
maður svaf inni í sama herbergi og
hún þá fékk maður alltaf að heyra
þessar frábæru sögur um tröllin.
Svo söng hún stundum fyrir mig og
Jón Bjartmar og við auðvitað stein-
sofnuðum. Þess á ég eftir að sakna
mjög mikið. Þakka þér fyrir allt elsku
amma mín.
Sunnefa Hildur.
Ekki var hægt að eiga betri ömmu
en hana. Ég man alltaf þegar ég fór í
sveitina, þá var hún rosalega glöð að
sjá mig. Þegar mér leiddist bauðst
hún alltaf til að spila spil við mig, við
spiluðum til dæmis veiðimann, ólsen
ólsen og rommí. Hún kenndi mér líka
á mörg önnur spil sem hún kunni.
Alltaf þegar við fórum í sveitina
leyfði hún mér að sofa í þægilega
rúminu sínu á meðan hún svaf á ein-
hverjum óþægilegum sófa inni í stofu.
Á hverju kvöldi kom amma inn til mín
og settist á rúmið og kenndi mér
mörg ljóð og sagði mér skemmtilegar
sögur.
Þegar ég, amma mín og móðursyst-
ir mín Snæbjörg fórum í Búðardal,
sem er næsti þéttbýlisstaðurinn, þá
gaf amma mér alltaf peninga svo að
ég gat keypt mér eitthvað gott í Búð-
ardal. Ég man líka alltaf þegar ég var
í sveitinni, þá bjó hún alltaf til svo
svakalega góðar bollur. Ég hámaði
alltaf í mig bollurnar þangað til þær
kláruðust og næst þegar ég fór í sveit-
ina þá bað ég hana alltaf að búa til
bollur. Hún amma bjó til bestu bollur
í heimi.
Eftir andlát hennar verður skrítið
að fara í sveitina og hún er ekki þar.
Það mun taka mig langan tíma að
venjast því. Ég þakka elsku ömmu
minni fyrir samveruna.
Jón Bjartmar.
Minning um kæra systur.
Við vorum tíu systkin samfeðra
sem faðir okkar átti með tveimur kon-
um, fimm með hvorri. Olli þetta því að
fæst okkar ólust upp saman en þó var
ætíð mjög náið samband á milli allra
systkinanna. Báðar mæðurnar voru
börnunum afar ljúfar og skipti engu
máli hvert af þeim átti í hlut.
Að öllum systkinum mínum ólöst-
uðum fannst mér Hrefna bera höfuð
og herðar yfir okkur hin hvað varðaði
hennar einstöku ljúfmennsku, um-
burðarlyndi og æðruleysi. Skapgerð
hennar var einstök, enda laðaði hún
að sér alla þá sem hún umgekkst og
skipti þá engu hvort það voru börn
eða fullorðnir. Það var eins og seg-
ulmagnaðar árur legði frá henni.
Hrefna byrjaði snemma á því að
gefa mér, litla bróður sínum, afskap-
lega fallega öskupoka á öskudaginn
sem hún hafði sjálf saumað og með
tímanum eignaðist ég dágott safn af
þessum pokum. Mína fyrstu peninga
sem ég eignaðist geymdi ég einmitt í
einum af þessum öskupokum frá
Hrefnu. Þetta voru að mig minnir tíu
tíeyringar, algjör fjársjóður fyrir
ungan dreng sem ólst upp í nokkru
peningaleysi. Einhverju sinni urðum
við Hrefna ósammála um einhvern
hlut sem ég nú man ekki hvað var, en
ég var svo viss í minni sök að ég ákvað
að veðja aurunum mínum tíu upp á að
ég hefði rétt fyrir mér. Síðar kom á
daginn að Hrefna hafði rétt fyrir sér
og ég tapaði veðmálinu. Hún kom til
mín og sagði: „Hvar er pokinn?“ Eitt-
hvað maldaði ég í móinn því þessir
peningar voru mér kærir, aleigan mín
og fyrstu aurarnir mínir. Eitthvað
hefur hún nú séð á mér angistarsvip-
inn og sagði: „Minn kæri bróðir, mað-
ur á alltaf að standa við gefin loforð,
hversu erfið sem þau reynast.“
Ég rétti henni pokann og hafa þessi
orð hennar fylgt mér æ síðan og
reynst mér gott veganesti og góð
lexía.
Hrefna barðist áratugum saman
við afar kvalafullan sjúkdóm sem fór
illa með líkama hennar og liði en aldr-
ei heyrði maður hana kvarta undan
sársauka þótt hún hafi eflaust oft liðið
miklar kvalir. Líf hennar snerist
miklu frekar um umhyggju og velferð
hennar nánustu.
Hrefna giftist sr. Bjartmari Krist-
jánssyni og eignuðust þau sex mann-
vænleg börn. Bjartmar lést fyrir all-
mörgum árum og mun Hrefna verða
lögð til hinstu hvílu við hliðina á bónda
sínum í Munkaþverárkirkjugarði.
Við hjónin, okkar börn, barnabörn
og barnabarnabörn þökkum Hrefnu
og forsjóninni fyrir að hafa átt hana
að. Við viljum votta Snæbjörgu,
Kristjáni, Jónínu, Benjamín, Fann-
eyju, Hrefnu Sigríði og þeirra fjöl-
skyldum okkar innilegustu samúð.
Guði ertu falin kæra systir, megi
minning þín lifa um ókomna tíð. Takk
fyrir allt.
Aðalmundur og Hilke.
Hinn 25. mars sl. kvaddi Hrefna
Magnúsdóttir okkur. Síðustu árin
voru orðin henni erfið vegna aldurs og
veikinda, en hún hélt vel sinni and-
legu reisn. Ég trúi, að hún hafi þó orð-
ið hvíldinni fegin.
Í hvert skipti, sem maður kom í
Dalina í heimsókn, sat hún oftast inni
í stofu með bók í hendi, ellegar hún
var að vefa. Hún hafði einnig mjög
gaman af því að spila á spil við lang-
ömmubarn sitt, dóttur mína. Hún var
alltaf hlý og góð heim að sækja og það
er óhætt að segja, að ég sakni hennar
sárlega, þar sem við ræddum oft á tíð-
um mikið saman.
Ég sendi aðstandendum hennar
samúðarkveðjur og trúi því, að hún
hljóti góða heimkomu, eins og hún á
skilið.
Jóhannes S. Guðjónsson.
Þú leiðir oss, Drott-
inn, að lindunum
hreinu,
þú ljósið þitt kveikir
við himnanna stól.
Um tíma þó syrti, þá
brátt aftur birtir,
þú breiðir út þinn faðm og veitir oss
skjól.
(Óskar Ingimarsson)
Elsku Ágústa, Svava, Jóhanna
María, Alda Lára, Halldór, Þór-
unn Ágústa, Ella, Anna Lillý og
mamma. Guð styrki ykkur í sorg-
inni og gefi ykkur kraft til að
horfa fram á veginn.
Ásta, Adolf, Gunnar Þór,
Margrét, Bjarni og fjöl-
skyldur.
Við lögðum af stað í páskafrí
grunlaus um sorgina sem biði
okkar. Sævar frændi er fallinn
frá, við þá hugsun fyllist hjarta
mitt af reiði, sorg og ótal spurn-
ingum sem ekki er hægt að svara.
Ég verð þér ævinlega þakklát
fyrir hve mikið þú hjálpaðir okk-
ur þegar pabbi þurfti að fara í að-
gerðina í haust, vitandi það að
þér hefði gengið og liðið svona vel
eftir samskonar aðgerð, þú gafst
okkur trú og von um að pabbi
okkar færi sko létt með þetta
líka, sem hann svo gerði. Mér eru
minnisstæðar heimsóknirnar til
ykkar Gústu á Víðimelinn og hjól-
hýsið sem síðan varð að virðu-
legum sumarbústað og þótti okk-
ur systrum ekki amalegt að fá að
spóka okkur um í sveitasælunni.
Ég er svo stolt af frænda mín-
um sem vann áður sem sjúkra-
flutninga- og slökkviliðsmaður og
vann nú hjá SHS og var ég ófeim-
in við að segja frá því að ég ætl-
aði sko að verða alveg eins og þú,
enda slökkviliðið og sjúkraflutn-
ingar draumastarfið. Ég veit að
þú skilur eftir þig stórt skarð hjá
þeim og ég hef heyrt ófáar hetju-
sögur um þig. Mér gremst að
hafa ekki fengið að kveðja þig.
Ég veit að afi tekur vel á móti
þér, þú munt alltaf lifa í hjarta
okkar.
Góða nótt, elsku frændi, ég
mun sakna þín. Við kveðjum þig
með trega, elsku frændi minn, því
farinn ertu núna í nýjan og betri
heim. Við englunum nú treystum,
treystum fyrir þér ég horfi nú til
himins og segi góða ferð.
Þín frænka
Lára Kristín.
Við kveðjum í dag góðan félaga,
Jóhannes Sævar Jóhannesson.
Vorið 2005 réðst Jóhannes Sævar
til Slökkviliðs höfuðborgarsvæð-
isins. Þar var þó ekki nýliði á
ferð, því Sævar, eins og hann var
jafnan kallaður, átti tveggja ára-
tuga farsælan starfsferil að baki í
Slökkviliði Reykjavíkur, áður en
hann hætti til að helga krafta
sína eigin fyrirtæki árið 1990.
Þótt hann skipti um starfsvett-
vang voru slökkviliðs- og öryggis-
mál ekki langt undan, því fyr-
irtæki Sævars, Prófun ehf.,
þjónaði slökkviliðinu á ýmsan
hátt. Sævar seldi sinn hlut í fyr-
irtækinu árið 2001, þó hann starf-
aði hjá því í nokkur ár eftir það.
Starfsferill Sævars í tengslum
við öryggismál og slökkvistörf
spannar þannig næstum því fjóra
áratugi. Hann hóf störf hjá
Slökkviliði Reykjavíkur vorið
1969, var fastráðinn í febrúar
1971 og aðstoðarvarðstjóri frá
Jóhannes Sævar
Jóhannesson
✝ Jóhannes SævarJóhannesson
fæddist í Vest-
mannaeyjum 15. júlí
1941. Hann lést 20.
mars síðastliðinn og
fór útför hans fram
frá Háteigskirkju 3.
apríl.
1975. Það var því
mikill fengur í því
fyrir okkur hjá
Slökkviliði höfuð-
borgarsvæðisins að
fá hann aftur til okk-
ar fyrir um þremur
árum, til að hafa um-
sjón og eftirlit með
ýmsum búnaði sem
tengist vatns-, reyk-
og eiturefnaköfun.
Það var okkur mikils
virði að njóta þeirrar
yfirburðaþekkingar
sem hann hafði á
slíkum búnaði, eftir að hafa verið
viðloðandi slökkviliðið í þessa
fjóra áratugi. Hann var alltaf til
staðar og í góðum tengslum, þótt
vinnustaðurinn væri annar um
tíma. Fleiri nutu þekkingar Sæv-
ars, því til hans leituðu aðrir við-
bragðsaðilar, svo sem lögregla og
Landhelgisgæslan.
Sævar frá upphafi mjög virkur
í félagsmálum slökkviliðsmanna.
Honum voru falin ýmis trúnaðar-
störf og var m.a. formaður
Brunavarðafélags Reykjavíkur
1979-82, gegndi trúnaðarstörfum
í norrænu samstarfi slökkviliðs-
manna og sat þing Landssam-
bands slökkviliðsmanna, auk ann-
arra trúnaðarstarfa.
Sævar var góður vinnufélagi.
Hann var harðduglegur og vildi
hafa hlutina í góðu lagi. Þegar
hann hóf aftur störf hjá SHS, eft-
ir hlé, tók hann við viðhaldsað-
stöðunni í kjallara slökkvistöðv-
arinnar í Skógarhlíð, en tók síðan
þátt í að byggja upp nýja aðstöðu
í gamla þvottahúsinu. Það var lið-
ur í öllum þeim breytingum sem
gerðar voru í Skógarhlíðinni á
þessum tíma. Hann var óþreyt-
andi að byggja upp og bæta að-
stöðuna, þannig að nú er hún lík-
lega með því besta sem þekkist á
þessu sviði. Sævar hafði þó ýmsar
hugmyndir um frekari umbætur á
aðstöðu og vinnuferlum og það
kemur í okkar hlut sem eftir er-
um að hrinda þeim í framkvæmd.
Það er mikill missir að Sævari.
Við söknum vinar og vinnufélaga
og það er skaði fyrir slökkviliðið
að njóta ekki lengur starfskrafta
hans og þekkingar, en við erum
um leið þakklát fyrir að hafa
fengið að kynnast Sævari og
vinna með honum. Mestur er þó
missir fjölskyldunnar. Sævar var
mikill fjölskyldumaður og hafði
hugann við velferð sinna nánustu,
um leið og hann sinnti störfum
sínum af einstakri trúmennsku.
Fyrir hönd Slökkviliðs höfuð-
borgarsvæðsins og samstarfs-
fólksins votta ég fjölskyldu Sæv-
ars samúð mína. Góður drengur
lifir áfram í verkum sínum og
góðum minningum.
Jón Viðar Matthíasson,
slökkviliðsstjóri.
Góður vinur og nágranni hefur
kvatt snögglega og söknuðurinn
er sár því ekki vorum við hjónin
aðeins nágrannar Sævars, en svo
var hann ávallt kallaður, þeir Sig-
mundur R. Helgasson, eiginmað-
ur minn, voru stúkubræður í Odd-
fellow st. nr.1 Ingólfi, því urðu
kynni okkar nánari. Mikil var
ánægjan hjá mér þegar í ljós kom
að Sævar var Vestmannaeyingur í
húð og hár, en undirrituð átti þar
stóran frændgarð. Þessi tengsl
urðu til þess að kynni okkar af
þessum öðlingi urðu meiri og nán-
ari. Gaman var að rifja upp gaml-
ar sögur úr Eyjum og af mörgu
var að taka því móðir mín var
sagnaþulur og sagði lifandi frá
þannig að mér fannst ég vera á
heimavelli þegar tal barst að Eyj-
um. Sævar var einstaklega léttur
í lund og í huganum geymum við
minninguna um góðan dreng sem
sýndi með framkomu sinni hlýhug
og umhyggju til okkar og fyrir
það þökkum við.
Við biðjum Guð að blessa
Ágústu og gefa henni styrk. Sam-
úðarkveðjur til Svövu og Öldu og
fjölskyldna þeirra og til aldraðrar
móður og systkina.
Pálína Sigurjónsdóttir.
Kveðja frá Brunavarðafélagi
Reykjavíkur
Það fékk mjög á mig þegar
slökkviliðsstjórinn hringdi í mig
seinni partinn á skírdag og spurði
hvort það væri rétt að Jóhannes
Sævar væri látinn. Ég hafði ekki
heyrt neitt um það en fékk það
verkefni að kanna hvort þetta
væri rétt.
Ég sá Sævar fyrst þegar ég var
eina vakt á slökkvistöðinni í mars
1990. Þessum manni kynntist ég
svo betur þegar ég fór að vinna
hjá honum í Prófun.
Í tíu ár var ég þeirrar gæfu að-
njótandi að fá að starfa þar með
honum og öðrum úr fjölskyldunni
hans. Síðastliðin þrjú ár unnum
við svo saman á slökkvistöðinni.
Á þessum árum var ég ekkert
byrjaður að starfa að félagsmál-
um en hann uppfræddi mig um
það sem hafði gerst á þeim árum
sem hann hafði starfað hjá
slökkviliðinu sem voru miklir um-
brotatímar. Það má segja að það
sem þessir menn sáðu erum við
að uppskera í dag með þeim
breytingum sem urðu um og eftir
1990.
Alltaf var hægt að fá álit á hin-
um ýmsu málum og sagnfræði-
lega stöðu annarra mála hjá hon-
um. Með því var hægt að ná
meira samhengi í venjur og hefðir
sem skapast hafa á svona vinnu-
stað eins og við unnum á.
Sævar eins og hann var oftast
kallaður gat verið nokkuð snögg-
ur upp en jafn fljótur niður aftur.
Hann hafði gaman af því að segja
sögur og hlusta á skemmtisögur.
Þá var eins og það birti í aug-
unum á honum og svo kom mikil
hlátursroka á eftir og þegar vel
tókst til fylgdu líka tár.
Sævar hafði gaman af því að
vasast í félagsmálum og var hann
allvirkur á þeim vettvangi. Hann
var í forystu Starfsmannafélags
Rvk., einnig var hann formaður
BR og sat í ýmsum nefndum fyrir
slökkviliðsmenn.
Sævar var fulltrúi slökkviliðs-
manna í fjögur kjörtímabil hjá
Starfsmannafélagi Reykjavíkur,
fyrst sem varafulltrúi og eitt
tímabil sem aðalmaður.
Hann var einnig formaður í BR
í þrjú tímabil þannig að hann kom
að flestum þeim málum sem var
verið að höndla með í hans tíð.
Hann stofnaði ásamt öðrum
prófunarstöð fyrir öndunarbúnað.
Segja má að hann hafi verið sá
sem náði mestri færni í því fagi
hérlendis. Því má segja að með
honum sé gengin mikil þekking
sem okkur slökkviliðsmönnum er
nauðsyn til að geta stundað okkar
störf.
Það mun taka langan tíma að
loka því skarði sem Sævar skilur
eftir sig.
Ég verð að geta þess að hann
fékk leyfi slökkviliðsstjóra til að
setja upp á allar stöðvar bæn
slökkviliðsmannsins, skrautritaða
og í ramma. Það var svo fyrir
nokkrum vikum að sú hugmynd
kviknaði að semja lag við bænina.
Ég spurði hann hvort hann vissi
hvort til væri lag við bænina.
Hann kannaðist ekki við það. Við
komum okkur þá saman um að
láta semja lag við hana. Verður
það frumflutt við útför hans.
Með Sævari er genginn mikill
hugsjónamaður um velferð
slökkviliðsmanna.
Það kemur því að okkur sem
eftir stöndum að halda merki
hans á lofti.
Gústa, Svava, Alda Lára, Hall-
dór, Jóhanna, Þórunn, Ella, Anna
og aðrir í fjölskyldunni, þið hafið
misst mikið. Því bið ég góðan Guð
að vernda ykkur öll og styrkja
með öllum þeim mætti sem hann
á til.
Fyrir hönd BR
Sverrir Björn Björnsson.