Morgunblaðið - 17.06.2008, Side 26
26 ÞRIÐJUDAGUR 17. JÚNÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
Guðmundur Arason
var einstakur maður að
bæði andlegu og ver-
aldlegu atgervi þó ekki
væri nema fyrir það að hann lét að
sér kveða á tveimur afar ólíkum svið-
um. Í æsku stundaði hann hnefaleika
með góðum árangri og hafði alla ævi
mikið dálæti á þeirri íþrótt. Hann
hafði einnig mikið dálæti á skáklist-
inni, tefldi sjálfur, fylgdist vel með og
var einn allra öflugasti bakhjarl
skákhreyfingarinnar um áratuga
skeið.
Ég átti því láni að fagna að kynnast
Guðmundi vel. Mér er minnisstætt
þegar ég hitti hann fyrst sumarið
1975 í félagsheimili Taflfélags
Reykjavíkur. Ég var þá kynntur fyrir
honum sem efnilegur unglingur en
Guðmundur hafði mikinn áhuga á
æskulýðsstarfsemi og að styðja við
heilbrigða tómstundaiðkan ung-
menna. Hann tók að sér mörg trún-
aðarstörf fyrir skákhreyfinguna og
var m.a. forseti Skáksambands Ís-
lands á miklum uppgangstíma frá
1966-68, sem oft var vitnað til síðar.
Guðmundur hafði þó ekki mikinn
metnað til slíkra vegtylla, hann vildi
fyrst og fremst láta gott af sér leiða.
Ég fann síðar að honum leiddist þras
og persónulegur metingur sem vill
fylgja slíkum félagsstörfum.
Eftir þessi fyrstu kynni lágu leiðir
okkar mjög oft saman á mótum því
Guðmundur var mikill skákáhuga-
maður og hafði mjög gaman af því að
fylgjast með keppnum. Eftir því sem
mér jókst vit og aldur fórum við að
ræða aðra hluti en skák og þá sér-
staklega viðskiptalíf og efnahagsmál.
Var mjög lærdómsríkt að heyra við-
horf svo reynslumikils manns sem
var í stöðu til að skynja sviptingar og
veðrahvörf atvinnulífsins.
Upp úr 1990 fannst mér og fleiri
skákmönnum að fleiri tækifæri þyrfti
að skapa fyrir upprennandi unglinga.
Halda þyrfti hér heima alþjóðleg mót
þar sem þeim gæfist færi á að etja
kappi við erlenda stórmeistara og al-
þjóðlega meistara. Leitaði ég til Guð-
mundar og fékk hann til að styrkja
fjölmörg alþjóðamót sem fram fóru í
Hafnarfirði í frábæru samstarfi við
Hafnarfjarðarbæ. Voru þau haldin
árlega og hétu Guðmundar Arason-
armótin. Þetta var einstaklega
ánægjulegur tími, við Guðmundur
sátum þá oft lengi saman við spjall og
fylgdumst jafnframt með því hvernig
okkar ungu og efnilegu skákmönnum
vegnaði í baráttunni við ofureflið.
Guðmundur Arason var öflugur at-
vinnurekandi sem starfaði eftir gild-
um sem ekki er hægt að kenna í við-
skiptaháskólum en ungt fólk þarf
nauðsynlega að þekkja. Það sem
skipti öllu máli var mikil vinnusemi,
að standa við sínar skuldbindingar og
ætlast til þess sama af öðrum. Sýna
starfsfólki, viðskiptavinum og birgj-
um kurteisi og virðingu. Sýna gætni í
vörupöntunum og fjárfestingum
enda lifði Guðmundur Arason í gegn-
um margar niðursveiflur og kreppur,
stóð þær allar af sér og styrktist við
hverja raun. Hann var ekki maður
flækja og vafninga, en starfaði eftir
einföldum og traustum gildum. Eftir
hann stendur glæsilegt fjölskyldu-
fyrirtækið Guðmundur Arason
Smíðajárn sem ber ævistarfi hans
verðugt vitni.
Í einkalífi sínu var Guðmundur
einnig gæfumaður og fjölskyldan
samheldin. Eiginkonan Rannveig
Þórðardóttir var honum mikil stoð og
stytta og börnin, þau Ari og Anna,
störfuðu við hlið hans í fjölskyldufyr-
irtækinu.
Ég votta þeim og öðrum fjöl-
skyldumeðlimum mína innilegustu
samúð nú á kveðjustundinni.
Margeir Pétursson.
Guðmundur Arason
✝ GuðmundurArason fæddist
á Heylæk í Fljóts-
hlíð 17. mars 1919.
Hann lést á hjúkr-
unarheimilinu
Holtsbúð 27. maí
síðastliðinn og var
útför hans gerð frá
Vídalínskirkju í
Garðabæ 3. júní.
Stundin líður, tíminn tekur
toll af öllu hér,
sviplegt brotthvarf söknuð
vekur
sorg í hjarta mér.
Þó veitir yl í veröld kaldri,
vermir ætíð mig,
að hafa þó á unga aldri
eignast vin sem þig.
(Hákon Aðalsteinsson.)
Mikill dugnaðar-
maður er fallinn frá 89
ára að aldri.
Á stríðsárunum
vissu ungir sveinar að
Guðmundur kenndi hnefaleika hjá
Glímufélaginu Ármanni og sóttu
margir til hans til að læra hina göfugu
sjálfsvarnaríþrótt og oft voru yfir 30
piltar á æfingu. Hann var fararstjóri í
mörgum vinsælum sýningarferðum
sem farnar voru út á land. Í septem-
ber 1939 báðu Jens Guðbjörnsson,
formaður Ármanns, og Jón Þor-
steinsson íþróttakennari Guðmund
um að taka að sér kennslu í hnefa-
leikum hjá Ármanni. Það var vel ráð-
ið, hann gerði hnefaleikadeildina að
stórveldi og kenndi þar samfleytt í 15
ár. Af 65 Íslandsmeistaratitlum eign-
aðist Ármann 51 meistara þegar önn-
ur félög fengu 14 meistara. Guð-
mundur keppti í þungavigt fyrir
Ármann á Íslandsmeistaramótinu ár-
ið 1944 og sigraði með yfirburðum.
1948 sýndi Guðmundur á móti Otto
von Porat í Austurbæjarbíói og stóð
sig með prýði. Otto von Porat varð
Noregsmeistari og Ólympíumeistari í
þungavigt. Seinna var von Porat
skráður fjórði besti hnefaleikarinn í
þungavigt.
1956 voru hnefaleikar bannaðir
með lögum frá Alþingi. Æfingum var
sjálfhætt og íþróttin hefir ekki
blómstrað hér síðan.
Stundum var eins og Guðmundur
væri ekki einhamur. Fljótlega eftir að
Alþingi leyfði hnefaleikana útbjó
hann bráðabirgðapláss til æfinga í
Skútuvogi 4, en tók síðan í notkun
fullkominn æfingasal í Skútuvogi 1.
Sá salur er vel búinn tækjum til
hnefaleikaæfinga og nýttist vel, en
ekkert virðist varanlegt, í salnum rík-
ir nú kyrrðin ein.
Hann stofnaði heildverslun með
smíðajárn um 1970 og stjórnaði fyrir-
tækinu þar til árið 2003.
Guðmundur var sannur íþrótta-
maður. Hann æfði sundknattleik með
sunddeild Ármanns og vann þar til
verðlauna. Árið 1970 var hann for-
maður bygginganefndar Ármanns við
framkvæmd félagsheimilisins í Sig-
túni. Húsið hefur verið brotið niður
og þeirri miklu sjálfboðavinnu, sem
Ármenningar lögðu á sig, sér nú ekki
lengur stað.
Guðmundur var sæmdur gullmerki
Ármanns og síðar gerður heiðurs-
félagi og sæmdur gullmerki ÍSÍ 1984
og ennfremur var hann sæmdur gull-
merki Knattspyrnufélagsins Vals.
Hann var forseti Skáksambands
Íslands 1966-1969 og gerður að heið-
ursfélaga 1981. Þá var hann um tíma
formaður Hnefaleikaráðs Reykjavík-
ur og vann ötullega að því að fá hnefa-
leikaíþróttina leyfða á ný.
Því verður ekki neitað að Guð-
mundur náði frábærum árangri í öllu
því sem hann tók sér fyrir hendur.
Hann var sjálfmenntaður í flestum
þeim stjórnarstörfum sem hann tók
að sér. Hann hafði einbeittan vilja og
gekk ekki frá verki fyrr en því var
lokið. Fyrir þau margvíslegu störf,
sem hann innti af hendi fyrir Glímu-
félagið Ármann, þáði hann aldrei
laun.
Á þessari stundu rifjast upp marg-
ar mætar minningar um góða sam-
fylgd og vin. Konu hans, Rannveigu,
börnum hans og fjölskyldunni allri
vottum við Ásta innilega samúð.
Þorkell Magnússon.
Nú er horfinn af sjónarsviðinu stór
maður, Guðmundur Arason, já stór í
þess orðs merkingu. Hann var öllum
þeim sem honum kynntust stór og
hlýr. Þegar við hittum hann fyrst fyr-
ir mörgum árum, þá hafði sonur okk-
ar kynnst dótturdóttur hans. Strák-
inn tók Guðmundur upp á sína arma
og áttu þeir vel saman, sögur og sagn-
ir úr Eyjum fóru þeim á milli. Strák-
urinn úr Eyjum, ekki skemmdi það
fyrir honum.
Guðmundur hafði miklar taugar til
Vestmannaeyja alla tíð. Guðmundur
fór frá Eyjum sem ungur drengur til
að setjast að í Reykjavík. Siglingin
löng og ströng, í brælu og veltingi
hafði Jón heitinn frá Ólafshúsum séð
aumur á þessum unga dreng og verið
honum til halds og trausts á skipinu
til Reykjavíkur.
Oft minntist Guðmundur á þessa
siglingu og þess að hafa notið aðstoð-
ar Jóns frá Ólafshúsum. Jón þessi var
bróðir langömmu stráksins. Þarna
má segja að Guðmundur hafi siglt út í
lífið frá Friðarhöfn hér í Vestmanna-
eyjum og nú tekur Guðmundur land í
annarri Friðarhöfn þar sem hann átti
í stóru hjarta sínu trú sem gaf honum
fyrirheit um bjarta heimkomu.
Þegar fjölskyldan í Odda kom til
lands og hitti Guðmund spurði hann
ætíð frétta af sínu fólki og þá sér-
staklega fólkinu frá Laufási, þar með
var boltinn gefinn og þá komu allar
minningar hans um horfinn tíma hér í
Eyjum fram. Hann mundi vel þá tíma
þegar hann var að alast hér upp á erf-
iðum tíma þegar ekki var úr miklu að
spila. Hann kunni að fara með og
gætti þeirra guðsgjafa sem honum
voru fólgnar. Fjölskyldan var honum
allt og honum var umhugað um vel-
ferð hennar. Þegar þau hófu búskap,
Kjartan „strákurinn“ og Erla Björg,
var það honum fyrir mestu að þeim
liði vel og af elsku sinni umvafði hann
þau. Þarna var afastelpan hans og
hennar skyldi Kjartan gæta vel. Þau
eru sérstaklega minnisstæð samtölin
á milli Kjartans og Guðmundar, þeir
töluðu sín á milli mál sem báðir
skildu.
Nú þegar að leiðarlokum er komið
þá viljum við þakka þau kynni og
samverustundir sem við áttum með
Guðmundi. Við fjölskyldan í Odda
sendum aðstandendum okkar inni-
legustu samúðarkveðjur. Hvíl í friði.
Fyrir hönd fjölskyldunnar í Odda í
Vestmannaeyjum,
Ólafur E. Lárusson.
Athafnamaðurinn og íþróttakapp-
inn Guðmundur Arason er fallinn frá.
Útför hans var gerð 3. júní sl.
Guðmundur var alla tíð mikill
áhugamaður um félagsmál og íþrótt-
ir.
Glímufélagið Ármann, Rotary-
klúbbur Kópavogs og samtök skák-
manna nutu krafta hans ríkulega. Um
tíma var hann í hópi fremstu íþrótta-
manna landsins í hnefaleik og sundk-
nattleik. Hnefaleik, sund og skák
stundaði hann allt fram á síðustu ár.
Skömmu eftir að Guðmundur kom
til Reykjavíkur árið 1930 gekk hann í
Glímufélagið Ármann og hóf að
stunda hnefaleika hjá því. Hann
keppti á fyrsta Íslandsmótinu í hnefa-
leikum árið 1936. Það segir sitt um
ágæti hans sem hnefaleikamanns að
til stóð að senda hann á Ólympíuleik-
ana í Helsinki árið 1940. Ekkert varð
þó af því vegna þess að heimsstyrj-
öldin síðari kom í veg fyrir leikana.
Hún hindraði einnig að Ólympíuleik-
ar yrðu haldnir í London árið 1944. Á
þá leika hefði Guðmundur trúlega átt
erindi. Á árinu varð hann Íslands-
meistari í þungavigt. Guðmundur var
á þessum árum þjálfari hnefaleika-
manna Ármanns.
Árið 1948 kom norski hnefaleika-
kappinn Porat til Íslands. Á Ólympíu-
leikunum í París 1924 sigraði hann í
þungavigt og keppti síðar sem at-
vinnumaður í Bandaríkjunum. Mönn-
um lék forvitni á að sjá hann í hringn-
um. Sýningu var komið á og mótherji
hans var enginn annar en Guðmund-
ur Arason. Í 100 ára afmælisriti Ár-
manns segir að tvær seinni loturnar í
viðureign þeirra hafi verið „skemmti-
leg kennslustund í hnefaleik, sem
áhorfendur fögnuðu með dynjandi
lófataki“. Árið 1956 bönnuðu alþing-
ismenn hnefaleika á Íslandi. Bönnuð
var öll keppni eða sýning á hnefaleik
og óheimilt var að kenna þá. Bannið
varð til þess að keppni og opinber
kennsla í íþróttinni lagðist niður í ára-
tugi.
Guðmundur og nokkrir félagar
hans sáu hins vegar til þess að iðkun
hnefaleika féll aldrei niður hér landi
þrátt fyrir bannið. Þeir héldu áfram
✝
Elskuleg dóttir mín, eiginkona, móðir, tengdamóðir,
amma og langamma,
JÓHANNA STEINÞÓRA GÚSTAFSDÓTTIR,
Smiðjustíg 6,
Grundarfirði,
lést mánudaginn 16. júní á
St. Franciskusspítalanum í Stykkishólmi.
Útför hennar fer fram frá Grundarfjarðarkirkju
laugardaginn 21. júní kl. 14.00.
Blóm og kransar afþakkaðir en þeim sem vilja
minnast hennar er bent á MND félagið.
Jórunn Normann Frímannsdóttir,
Ívar Árnason,
Gústav Ívarsson, Herdís Gróa Tómasdóttir,
Árni Ívar Ívarsson, Arna Böðvarsdóttir,
Benedikt Gunnar Ívarsson, Iðunn Kjartansdóttir,
Marvin Ívarsson, Inga Björk Guðmundsdóttir,
ömmubörn og langömmubörn.
✝
Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengda-
faðir, afi og langafi,
GUÐMUNDUR GUÐVEIGSSON,
Kirkjusandi 3,
Reykjavík,
lést sunnudaginn 15. júní á krabbameinsdeild
Landspítalans.
Kolbrún Dóra Indriðadóttir,
Ólöf Guðmundsdóttir Salmon, Peter Salmon,
Eggert Snorri Guðmundsson, Jóhanna Guðbjörnsdóttir,
Indriði Halldór Guðmundsson, Nina Edvardsdóttir,
G. Sævar Guðmundsson, Edda Sigurbergsdóttir,
Halldóra Katla Guðmundsdóttir,
barnabörn og barnabarnabörn.
✝
Elskulegur sonur okkar, bróðir, mágur og frændi,
FANNAR LOGI JÓHANNSSON,
Furubyggð 23,
Mosfellsbæ,
sem andaðist á heimili sínu miðvikudaginn 11. júní,
verður jarðsunginn frá Digraneskirkju í Kópavogi
fimmtudaginn 19. júní kl. 15.00.
Blóm og kransar eru afþakkaðir en þeim sem vilja
minnast hans er bent á styrktarfélag krabba-
meinssjúkra barna, reikningur: 0301-26-545,
kt. 630591-1129. Tilvísun: FLJ, sími 588 7555.
Stofnaður verður sjóður í nafni Fannars Loga.
Jóhann S. Þorsteinsson, Þórunn G. Bergsdóttir,
Bergdís Júlía Jóhannsdóttir, Magnús Kr. Guðmundsson,
Daníel Ingi Jóhannsson,
Þorsteinn Freyr Jóhannsson,
Sindri Steinn Þorsteinsson.
✝
Ástkær móðir okkar,
GUÐRÚN ÁGÚSTSDÓTTIR
frá Æðey,
lést föstudaginn 13. júní á líknardeild
Landspítalans í Kópavogi.
Jarðarförin fer fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Reynir Heide,
Birgitte Heide,
Nína Heide.
✝
Elskulegur eiginmaður minn, faðir okkar, tengda-
faðir, afi og langafi,
INGVAR GUNNLAUGSSON
frá Gjábakka Vestmannaeyjum,
Heimahaga 12,
Selfossi,
lést sunnudaginn 15. júní á Sjúkrahúsinu á
Selfossi.
Ingibjörg Helga Guðmundsdóttir,
Elísabet Ingvarsdóttir, Guðmundur Þórarinn Óskarsson,
Guðmundur Kr. Ingvarsson, Elínborg Gunnarsdóttir,
Þröstur Ingvarsson, Guðbjörg Hrefna Bjarnadóttir,
Svanur Ingvarsson, María Óladóttir,
Þuríður Ingvarsdóttir, Einar Guðmundsson,
barnabörn og barnabarnabörn.