Sjómannablaðið Víkingur - 01.02.1956, Side 20
□ RÍMUR ÞGRKELSBDN STÝRIM.:
I HF.R BANDARIKJANNA
Verkfall var á kaupskipaflota Bandaríkj-
anna sumarið 1920. Náði verkfallið til kaup-
skipa, sem sigldu frá strönd Mexíkóflóans og
Atlantshafsins. Ég varð að ganga í land af
skipi síðari hluta umrædds sumars. Ég eigr-
aði um götur New-Yorkborgar dag hvern án
þess að hafa nokkuð sérstakt fyrir stafni. Ég
var með fulla vasa af peningum og því ekki
í neinum vandræðum, en mér var tekið að
leiðast. Þá var það einn tiltekinn dag, að ég
rakst á bækistöð þar sem verið var að safna
nýliðum í herinn. Þarna var nokkuð fyrir mig,
datt mér í hug. Ég var ekki lengi að velta
þessu fyrir mér, en lét skrá mig í herinn sam-
stundis til þriggja ára. Minna mátti ekki gagn
gera. Ég hafði það á tilfinningunni, að ég væri
að gera vitleysu, en gerði þetta samt. Ég var
sendur til Slocum-virkis samdægurs. Þar var
saman kominn fjöldi manna af ölluin þjóð-
löndum Norðurálfu. Voru menn þessir allir
að ganga í herinn. Ég var yfirheyrður eitt-
hvað og skoðaður af læknum, en síðan sendur
með öðrum nýliðum til Arkansasfylkis í suð-
vesturhluta Bandaríkjanna.
Ég var ekki búinn að vera lengi í hernum,
þegar ég sá að ég hafði gert regin vitleysu.
Mér þótti vænna um frelsið en flest annað,
en var nú búinn að afsala mér því í næstu
þrjú ár. Hvers vegna hafði ég gert þetta? Ég
fékk ekkert svar við þeirri spurningu.
Þegar kom á ákvörðunarstað var okkur
safnað saman inn í herbúðirnar, Að baki lá
hinn frjálsi heimur. Hvað var fram undan?
Ófrelsi og eitthvað meira, ég vissi ekki hvað,
en leizt ekki rétt vel á blikuna. Ég var látinn
í léttvopnaða stórskotaliðið, herdeild nr. 76.
Skyldustörfin byrjuðu. Liðþjálfarnir komu til
sögunnar og fylgdu okkur eins og skugginn
eftir það. Þeir eru vanir hermenn, en hafa
ekki gengið á herforingjaskóla. Við höfðum
ríka tilhneigingu til þess að bera litla virð-
ingu fyrir þeim, en urðum þó að gera það og
hlýða þeim í einu og öllu. Liðþjálfarnir byrj-
uðu á því að leggja okkur lífsreglur í smáu
og stóru. Þeir vöruðu okkur við því að strjúka.
Flestir, sem það reyndu, næðust á flóttanum,
en þeir, sem ekki næðust strax, næðust seinna,
stundum eftir mörg ár, en hvort sem menn
næðust fyrr eða síðar, þá fengju þeir hina
þyngstu refsingu. Þeir sögðu, að við værum
óvanir og agalausir grænjaxlar. Nú ætti að
skóla okkur til, kenna okkur að hlýða og
þjálfa okkur til þátttöku í mannskæðum or-
ustum, ef til þeirra kæmi, til sóknar og varn-
ar. Ekki þýddi að reyna að þverskallast, þetta
myndi takast hvort sem okkur líkaði betur
eða verr. Herinn hætti aldrei við hálfunnið
verk. Hér væri enginn staður til að kalla
,,elsku mamma". Því fyrr, sem við gerðum
okkur þetta Ijóst, þeim mun betra fyrir okkur
sjálfa. Við skyldum athuga það, að Banda-
ríkjastjórn væri góður húsbóndi, hún léti okk-
ur fá allt, sem við þyrftum til lífsins, vel úti-
látið og refjalaust, en auk þess gott kaup.
Allt væri þetta meira og betra en tíðkaðist í
herjum annarra þjóða. Liðþjálfarnir voru að
segja okkur þetta satt, það sá ég seinna. Her-
aginn og ófrelsið var slæmt, en hvort tveggja
var vel hægt að þola og komst upp í vana.
Liðþjálfarnir voru víst ekki öfundsverðir af
sínu starfi, þeir voru sumir hörkutól og oft
skömmóttir, en ekki man ég eftir, að það væri
án tilefnis. Þeir máttu ekki leggja hendur á
liðsmennina. Ef þeir börðu, mátti berja þá á
móti.
Skyldustörfin og heræfingarnar voru margs
konar. Þetta var eins og áður var sagt stór-
skotalið. Þá vorum við látnir læra að marsera
í fylkingum eftir skipun. Hver maður hafði
sérstakt númer og var raðað í fylkingu sam-
kvæmt því. Byrjað var á því að láta menn tifa
með fótunum í sama stað. Hægri, vinstri, hljóð-
aði skipunin — og áttu þá allir að hreyfa fæt-
urna samkvæmt því. Þá voru menn látnir snúa
sér á ýmsa vegu, áttu allir að gera eins og á
sama augnabliki og skipunin var gefin. Þá
var marserað fyrst í smáhópum, en síðan
stærri og stærri, þar til komnar voru stórar
fylkingar. Hermannaraðirnar áttu að vera
beinar sem veggur og hendur og fætur allar
í takt. Þessum æfingum lauk venjulega um
hádegi og var þá oftast frí það sem eftir var
20
VIKINGUR