Samvinnan - 01.12.1959, Qupperneq 7
Guðmundur Ingi Kristjánsson frá Kirkjubóli.
Þangbrandur
Ég er hinn framandi klerkur, sem kom hér til lands
með Krist fyrir brjósti og róðukross fyrir skjöld.
Drottins þjónn skal ég vera og hermaður hans,
harður og bljúgur með kirkjunnar auðmýkt og völd.
Hjá höfðingjum þessa heims er ég fastur sem steinn,
heiðingjar skelfast það drottins orð, sem ég ber.
En svo er ég bljúgur sem barn, þegar ég er einn,
þá bið ég til guðs að hann fyrirgefi mér.
Brotlegur er ég, þó að ég kennist við Krist,
kenningin gleymdist, meðan ég drakk eða sló.
Útlægur ránsmaður er ég frá konungs vist,
útvalinn prestur að boða guðsríki þó.
Einn á ég hollvin, sem mér þykir mest um vert,
Mikael engill er fulltrúi syndugs manns.
Metur hann allt það meira, sem vel er gert,
misverk og glöp eru léttvæg í dómi hans.
Síðast er ég fyrir drottni og dómi stend,
dugir sá engill, er metaskálarnar ber.
Hvenær sem víg eða hryðjuverk eru mér kennd,
Hallur og Gestur og Njáll skulu standa með mér.
Skiljir þú mig, þá tekur þú mína trú,
tekur við skírn í hvítavoðum hjá mér.
Skiljir þú lítt, mín önnur aðferð er sú:
öxi mín eða sverð skulu kenna þér.
SAMVINNAN 7