Spegillinn - 01.01.1954, Blaðsíða 14

Spegillinn - 01.01.1954, Blaðsíða 14
B SPEGILLINN í ÁSTRALÍU eru þarlendir blámenn nú teknir að kyrja sálma eftir Hallgrím okkar Pétursson, þar á meðal sálminn „Við þennan brunninn þyrstur dvel ég“, sem vér að vísu ekki þekkjum, en getur verið full- góður fyrir því og virðist vera ortur einhversstaðar í nágrenni við brennivínstunnu einhvers ein- okunarkaupmannsins á Suður- nesjum. Er gott til þess að vita, að sálmaskáld vor hafa unnið sér ítök meðal andfætlinga vorra, og ætti næst að sýna þeim Halldór á Kirkjubóli og Sigfús, og vita, hvort þeir bíta á þá líka. BÆJARSTJÓRN höfuðstaðarins hefur fyrir nokkru borizt virðulegt boð um að senda fulltrúa á höfuðborgaráðstefnu Norðurlanda (!!), sem haldin verður í Kaupinhafn í maímánuði komandi. Hefur borgarstjóra verið falið að gefa það diplómatiska bráðabirgðasvar, að aðalsvarið verði ekki gefið fyrr en að loknum bæjarstjórnarkosningum. Var þar illa farið með frí- merki, því að hvaða flokkur, sem með völdin kann að fara um það leyti, mun ekki láta á sér standa að senda álitlegan hóp ómaga, sem svo segir okkur hinum á eftir í útvarpinu, hvað hann hafi fengið að éta og hvernig það hafi farið í maga. ÁFENGISÚTSÖLUNNI á Akureyri hefur nú verið lokað, svo að Vestmannaeyjar eru ekki lengur einar um þá hitu, og þykir Eyjaskeggjum hálfskítt, að vonum. Eins og þegar er kunnugt af dæmi Eyjanna, þýðir þetta stórauknar tekjur fyrir póst og síma, en benda má póst- og símamálastjórninni á það, að þetta má auka enn meir með því að hafa ekki lager á Akureyri, heldur aðeins hér syðra, og senda sprúttið í bögglapósti. Ættu þó póst- tekjur af þessari ráðstöfun að geta orðið sambærilegar við símatekj- urnar. ADENAUER kanslari hefur verið kjörinn „maður ársins 1953“ í vikublaðinu TIME, og um líkt leyti var Elízabet drottning kjörin „kona ársins 1953“ í öðru bandarísku blaði. Er sagt, að Filpus hafi misskilið þetta þannig, að verið væri að orða konu hans við þýzkt karlhross, og verið hálf-sorrý yfir því, allt þangað til honum var komið í skilning um, að þetta væri bara grín. ÍSLENZKT ELDHÚS hefur nú verið stofnsett á Keflavíkurflugvelli, að forlagi Hamilton- félagsins, og er gott til þess að vita, hvernig íslenzk menning leggur undir sig meira og meira af hinum stóra heimi. Hafa Kanar þarna eng- an atkvæðisrétt um matarsullið, sem framið er af íslenzkum matsvein- um, á þjóðlega vísu. Framkvæmdir þessar hafa átt sér langan aðdrag- anda, og eiginlega var þarna ekkert til, sem íslenzkt eldhús mátti prýða, nema að sjálfsögðu nóg af sótröftum. J í HÚNAVATNSSÝSLU norður týndi smali nokkur úrinu sínu árið 1906, en 43 árum síðar fannst hjallurinn aftur og var trekktur upp samstundis og hefur gengið síðan, eins og ekkert hafi í skorizt, enda búinn að hvíla sig vel. Hafa fræðimenn bent á, að hér sé um að ræða nýtt met — úrgangsmet. í VIÐTALI VIÐ danskt blað hefur rithöfundurinn Halldór Kiljan Laxness neitað því . algerlega, að hann sé kommi — það gera kommarnir yfirleitt, hver um annan þveran í seinni tið — og jafnframt sagzt vera kapítalisti. Þetta síðara finnst oss 'óvarlega talað, því ekki er nú loku fyrir það skotið, að annaðhvort Guðmundur í. eða einhver rukkarinn hans skilji dönsku. BÆJARSTJÓRNIN í bæ nokkrum í Bretlandi lét listamann nokkurn mála fyrir sig mynd af drottningunni, gegn 2000 punda endurgjaldi, en er lista- verkið skyldi upp hengja kom það í ljós — að sameiginlegu áliti allr- ar bæjarstjórnarnnar — að henn- ar hátign var allt of hálslöng, og var listaverkið því endursent lista- manninum án tafar, með tilmæl- um um, að hann tæki úr því svo sem 2—3 banakringlur. ’ Eins og nærri má geta, varð atburður þessi mikill blaðamatur í Bretlandi, og erum vér þar á sama máli, en bara á öðrum forsendum, sem sé þeim, að oss finnst það fréttnæmast, að listamaðurinn skyldi láta meira fyrir peningana en um var samið. RÍKISSTJÓRNIN hefur fengið heimild frá Alþingi til þess að gefa Vesturþýzka ríkinu húseignina Túngötu 18, sem áður hafði verið tekin upp í stríðsskaða- bætur. Þjóðviljinn lætur illa yfir þessu tiltæki og segir, að hluti af Stjórnarráði Islands hafi verið gefinn Þjóðverjum. Ef þetta ber þannig að skilja, að áhöfnin verði látin fylgja húsinu, finnst oss tiltækið frem- hr lofsvert en lasts. FULLVELDISDAGINN 1. desember sl. birti Tíminn grein með svolátandi fyrirsögn: „Al- myrkvi á sólu verður hér á landi að sumri. 5 félagsbækur Menningar- sjóðs og Þjóðvinafélagsins færa mönnum skemmtun og fróðleik“. Vit- anlega er ekki nema gott að hafa eitthvað að kíkja í, þegar sólmyrkvar hanna mönnum alla útivinnu, um há-bjargræðistímann, en þá verður bara að krefjast þess, að „virkjanirnar" séu i lagi, meðan á ósköpunum stendur, svo að menn geti séð til að formyrlcva sálirnar, sér til dægra- styttingar. TÍMINN skýrir frá því — þó með spurningalmerki, að slúðurkellinga sið — að hámerar verði von bráðar settar á innanlandsmarkaðinn hér, og að talsvert magn sé fyrirliggjandi. Oss finnst þetta sjálfsögð ráðstöfun og alveg upplagt að éta merarnar við óselda smérinu, sem skósvertu- verksmiðjurnar geta aldrei torgað. Sjálfsagt væri að kalla þær lág- merar, þegar farið verður að éta þær, því að auðvitað verða þær niður- greiddar.

x

Spegillinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Spegillinn
https://timarit.is/publication/349

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.