Fréttablaðið - 17.12.2009, Síða 76
56 17. desember 2009 FIMMTUDAGUR
tonlist@frettabladid.is
TÓNNINN GEFINN
Trausti Júlíusson
Tónlistarmennirnir Danger Mouse og
James Mercer úr indípoppbandinu The
Shins leiða saman hesta sína og gera
saman plötuna Broken Bells. Platan á að
koma út 8. mars næstkomandi en fyrsta
lagið sem heyrist verður sett á heima-
síðuna Brokenbells.com á mánudaginn,
„The High Road“.
Hugmyndin kviknaði fyrir fimm árum
þegar kapparnir hittust baksviðs á Hróars-
kelduhátíðinni. Félagarnir segja að músíkin
sé ólík öllu sem þeir hafi áður gert, þetta
sé melódísk tónlist en mjög tilraunakennd.
Allt er handspilað á plötunni og allar tölvur
og slík tól fjarverandi. Þeir kalla Broken
Bells-dæmið tveggja manna hljómsveit og
gera allt sjálfir á plötunni.
Kappar í Broken Bells
TILRAUNAKENNT
Broken Bells.
Nú hefur tímaritið Rolling Stone
fylgt eftir lista sínum yfir bestu
plötur áratugarins með lista yfir
100 bestu lögin. Ekkert íslenskt
lag er á þessum lista en eins og
kunnugt er voru þrjár íslensk-
ar plötur á listanum yfir bestu
plöturnar. Það er alls kyns vin-
sældapopp og rokkslagarar sem
spekingar Rolling Stone velja á
listann, en besta lagið er Crazy
með Gnarls Barkley. Í öðru sæti
er Jay-Z með 99 Problems og
Beyoncé er með Crazy in Love
í þriðja sæti. Síðan kemur Out-
kast með Hey Ya!, M.I.A. með
Paper Planes, The White Stripes
með Seven Nation Army, Yeah
Yeah Yeahs með Maps og Amy
Winehouse með Rehab. Jálkarnir
í U2 ná níunda sæti með Beauti-
ful Day og Eminem er í tíunda
sæti með Stan.
Crazy er besta lagið
GNARLS BARKLEY
Rolling Stone finnst Crazy besta lag
áratugarins.
Þó að ég hafi engar opinberar tölur séð um það ennþá sýnist mér að
fjöldi útgefinna platna á Íslandi sé svipaður í ár og undanfarin ár og
það þrátt fyrir kreppuna og margumræddan samdrátt í sölu á tónlist í
heiminum. Það verður að teljast nokkuð merkilegt þó að það stefni í að
seld eintök verði eitthvað færri í ár en í fyrra.
Það sem vekur ekki síður athygli er að það virðast vera kynslóða-
skipti í plötuútgáfunni. Undanfarin ár hafa Sena, Smekkleysa,
Geimsteinn, Zonet og 12 Tónar verið umsvifamestu útgáfurnar, en í
ár er landslagið gjörbreytt. Sena er að sönnu enn stærst, en titlum hjá
henni hefur fækkað eitthvað og stór hluti af heildinni eru safnplötur
og endurútgáfur. Smekkleysa er enn sterk í klassíkinni og gefur út
listamenn eins og Björk, Sigurrós og Gus Gus, en að öðru leyti hefur
hún stigið til baka. 12 Tónar, Zonet og Geimsteinn hafa svo allar
dregið verulega saman seglin.
Það eru hins vegar nokkrar nýjar og nýlegar útgáfur sem koma
sterkar inn á árinu og bera hitann og þungann af nýsköpun á markaðn-
um. Borgin kemur sterk inn á sínu fyrsta starfsári með níu plötur þar
á meðal titla eins og Hjálma og Hjaltalín. Kimi og undirmerkið Brak
eru samtals með fjórtán plötur þar á meðal Morðingjana og Kimono,
Record Records eru með fjóra mjög sterka titla þar á meðal Sykur og
Bloodgroup, Kölski er með þrjár, t.d. Diktu, jafnmargar og Paradísar-
borgarplötur sem gefa m.a. út fyrstu plötu Deathmetal Supersquad.
Ekki má gleyma Dimmu sem hefur verið til í allmörg ár og er orðin
aðalútgáfan í djassinum og er með nokkrar mjög flottar útgáfur í ár,
t.d. með Árna Heiðari Karlssyni og Sigurði Flosasyni. Og svo eru það
minni útgáfur og allir einyrkjarnir og þeir sem eingöngu gefa út staf-
rænt, en á Gogoyoko er t.d. töluvert af íslenskri tónlist sem ekki er
komin í fast form.
Góðu fréttirnar eru að það er ekki bara fjöldinn sem er svipaður –
gæðin hafa heldur ekki minnkað.
Kynslóðaskipti í tónlistarútgáfu
BLOODGROUP Ein þeirra sveita sem eru á mála hjá Record Records.
> Í SPILARANUM
Elíza Newman - Pie in the Sky
Minningartónleikar um Rúnar Júlíusson 2. maí 2009
Bjarni Hall - The Long Way Home
Steve Sampling - Milljón mismunandi manns
Kimono - Easy Music for Difficult People
ELÍZA NEWMAN KIMONO
> Plata vikunnar
Dikta - Get It Together
★★★
Fín plata frá Diktu en nær ekki
að halda athygli allan tímann.
Rödd Hauks Heiðars er eftir-
minnileg í ballöðunum.
Davíð Berndsen hefur gefið út sólódisk
undir listamannsnafninu Berndsen, Lover
in the dark. Þar má finna hressandi hljóð-
gervlavætt eitíspopp. Þó að diskurinn
sé skráður á Berndsen á vinur Davíðs,
Sveinbjörn Thorarensen (Hermigervill),
stóran hlut í disknum og spilar á alla
hljóðgervlana á honum.
„Við kynntumst úti í Hollandi þegar við vorum báðir
í S.A.E. skólanum (Sound Audio Engineering),“
segir Davíð, sem vinnur nú sem hljóðmaður á RÚV.
„Við þekktumst ágætlega en urðum ekki bestu vinir
fyrr en ég spurði hann hvort hann þekkti Blade
Runner sándtrakkið eftir Vangelis. Þá sagði hann
bara: Það er uppáhaldsplatan mín! Þegar við kom-
umst að því að mömmur okkar hétu báðar Eydís
small þetta svo allt endanlega saman!“
Aðalkallinn sá um þetta
Davíð og Sveinbjörn deila gríðarlegum áhuga á tón-
list níunda áratugarins. „Hann kynnti mig fyrir
heimi hljóðgervlanna. Ég átti alltaf bara eitthvað
drasl og spilaði eiginlega meira á gítar. Þegar ég
var kominn með synta fórum við að vinna þetta
saman. En þegar platan var tilbúin kom í ljós að
hann spilaði á alla syntana, enda lætur maður
náttúrlega aðalkallinn bara sjá um þetta. Hann er
svoddan herforingi og vill hafa stjórn á þessu.“
Sveinbjörn er nú fluttur til Belgíu og reynir að
meika það sem tónlistarmaður, en hann hefur verið
stórtækur á íslensku senunni í ár. Auk þess að spila
á plötu Berndsen gaf hann út í sumar hina frábæru
plötu Hermigervill leikur vinsæl íslensk lög. En
hvað er það við eitís-tónlistina sem er svona æðis-
legt?
„Ég er náttúrlega fæddur 1985 og pabbi hlustaði
svo mikið á svona músík að það sogaðist inn. Þegar
ég byrjaði að fikta í syntum þá mundi maður eftir
öllum þessum sándum. OMD eru í miklu uppáhaldi.
Ég er nýlega búinn að kynnast þýska bandinu
Twins, sem var með smellinn Face to Face. Ég
hlusta mikið á Ultravox, Falco, Human League og
bara allt þetta dót. Ég þyrfti eiginlega að fara að
hlusta á einhverja aðra músík því ég er búinn að
vera með þetta á repeat í tvö ár meðan ég hef verið
að gera plötuna!“
Eðlilega er Davíð vel að sér í þróun hljóðgervla
og segir að þetta fari allt í hringi. Það sem er svalt í
dag er hallærislegt á morgun. „Núna er fólk að nota
synta í allt og það er mikil eftirspurn í gömlu synt-
unum frá því um 1980. Þeir hafa hækkað rosalega á
Ebay. Ég á svo sem engar rosalegar græjur og ekk-
ert af því sem ég á kostaði meira en hundrað þúsund
kall. Draumurinn er Roland Jupiter 8.“
Ekki áhugi fyrir að vera umdeildur
Berndsen hefur farið ótroðnar slóðir við að vekja
athygli á sér. „Tölvuleikjamyndband“ við lagið
Lover in the dark hefur vakið lukku, en í sumar sló
myndband við lagið Supertime í gegn, og það vakti
deilur fyrir að vera blóðugt og sýna bílslys í áður
óséðu ljósi. „Ég hef nú engan áhuga á að gera eitt-
hvað álíka aftur, enda hef ég engan áhuga á að vera
umdeildur,“ segir Davíð. „En það er æðislegt hvað
þetta myndband hefur gengið vel. Það hefur spreð-
ast út um allar trissur eins og vírus á netinu. Ég er
búinn að fá hvílíkt mikið af aðdáendabréfum frá
ólíklegustu stöðum. Það er svo fyndið hvaðan þessi
bréf koma, til dæmis mjög mikið frá Brasilíu, Pól-
landi og Litháen. Ég er svo næs að ég er stundum
heilu dagana að svara. Strákarnir sem gerðu mynd-
bandið – ungir strákar hjá fyrirtæki sem heitir
Draft – eru byrjaðir að plotta næsta myndband við
lagið Young Boy og það verður nú eitthvað. Fólk er
að spyrja mig: Hvað, átt þú bara milljónir til að gera
myndbönd?, en ég á náttúrlega ekki krónu. Þetta er
allt gert með lágmarks fjármagni af strákum sem
þurfa að sanna sig til að koma sér áfram í þessum
bransa.“
Davíð hefur sett saman hljómsveit. „Í staðinn
fyrir að hafa tölvu og ýta á „play“ vildi ég hafa band
og ekkert „playback“. Það er auðvitað miklu meiri
vinna. Bandið byrjaði að æfa fyrir þremur mán-
uðum svo við erum að smella. Ég er þegar byrjað-
ur að plotta næstu plötu og ég held að það verði
auðveldara að semja hana með hljómsveit.“
Hljómsveitin Berndsen spilar á Jól Jólsson
kvöldinu á Hótel Íslandi annað kvöld en Berndsen
stefnir á útgáfutónleika 23. janúar. „Þá verð ég 25
ára og ég bókaði Sjallann á Akureyri að því tilefni.
Mér fannst það snilld því ég er fæddur á Akureyri.
Eigandinn var mjög hress fyrir þessu. Ég lofaði
honum að það yrði troðið út úr dyrum!“
Dr. Gunni
Berndsen hefur engan
áhuga á að vera umdeildur
FÆR AÐDÁENDABRÉF FRÁ FRAMANDI LÖNDUM Tónlist Davíðs
Berndsen hefur farið víða í kjölfar dreifingar á myndböndum
hans. Nú er hann kominn með plötu, fulla af glimrandi góðu
eitís-poppi. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN