Vikan


Vikan - 03.08.1939, Qupperneq 11

Vikan - 03.08.1939, Qupperneq 11
Nr. 31, 1939 VIKAN 11 Samtal við Kristmann Guðmundsson, rithöfund. Eg er lausaleiksbarn og borinn í heiminn á móti vilja foreldra minna — eins og flest börn! Ég fæddist á Þverfelli í Lundareykjadal. Ynd- islegur staður. Ég er fæddur í kirkju, lax- maður, hjá afa mínum, Birni Sveinbjörns- syni á Þverfelli, en um hann hefir Jón Magnússon, skáld, ort kvæðabálkinn: Björn á Reyðarfelli. Ég ætlaði mér líka að skrifa um karlinn, en svo varð Jón á undan mér. Hann hefir því „faktist séð“, stolið af mér afa mínum, sem mun vera næsta sjaldgæft, að komi fyrir. En Jón hefir farið prýðisvel með þýfið, svo að ég fyrirgef honum! Þegar ég var sjö ára, flutti afi minn með mig vestur á Snæfellsnes, og dó þar frá mér, þegar ég var ellefu ára, blessaður karlinn. Síðan átti ég ekki sjö dagana sæla á uppvaxtarárunum, og upp frá því varð ég að vinna fyrir mér sjálfur, og ég gerði það. Um fermingaraldur komst ég í Hvít- árbakkaskóla. Og síðan koll af kolli, í vinnu á sjó og landi, og við nám á vetrum. Meðal annars var ég einn vetur í Samvinnuskól- anum. Pólk spyr mig stundum, hvernig ég geti skrifað sögur um lífsbaráttu fólksins, þar sem ég hafi aldrei difið hendi í kalt vatn. En það er mesti misskilningur, því að ég var í æsku verkamaður árum saman, í vegavinnu, stundaði sjó, bæði á árabátum og vélbátum, var við verzlunarstörf, sat á skrifstofu og bruggaði öl hjá Sanitas. Merkustu þættirnir í æfi flestra, gerast í æsku, meðan leiðirnar eru að opnast og maðurinn að mótast. — Hvenær ákváðuð þér að gerast rit- höfundur? — Þá var ég 10 ára. Það var skilyrðis- laus ákvörðun, sem ég hopaði aldrei frá. Börn spyrja aldrei að orsökum! — Og hvenær fóruð þér að ,,realisera“ þetta áform yðar? — Ég var ungur, kornungur. Það vár ljóð. En tæplega tvítugur missti ég heils- una og lá á Vífilsstöðum einn vetur. Þar skrifaði ég nokkuð af Rökkursöngvum mínum, en það var fyrsta bókin mín, sem nú er víst í fárra manna eigu. Þegar ég kom af hæhnu var mér sagt, að ég yrði að vinna létta vinnu, undir ber- um himni, og þá fór ég að stunda húsa- málningar hjá Jörgensen gamla, en það var danskur húsamálari hér í Reykjavík, bezti karl. Ég hafði þá gefið mig svolítið að listmálun og hafði mikinn áhuga á mál- aralistinni. En það lengsta, sem ég komst á því sviði var það, að ég var eitt sumar húsamálarameistari 1 Hafnarfirði og hafði tvo menn í vinnu. Þá var ég atvinnuveit- andi. Þetta var sumarið áður en ég sigldi með „Merkúr“ til Noregs. Og hvað við- Kristmann Guðmundsson. víkur listmálaranum í mér, sannaðist það, að lélegu málara-„talenti“ er bezt varið utan á hús. Á Reykjavíkur-árum mínum kynntist ég Sigurði Nordal, og naut leiðbeininga hans í ýmsu, sem ég var þá farinn að skrifa. Hann var strangur gagnrýnandi, en jók mér um leið bjartsýni og dirfsku og hvatti mig til utanfarar. Tuttugu og tveggja ára gamall fór ég utan með þeim einlæga ásetningi að skrifa bækur í útlandinu. Ég vildi ekki fara til Danmerkur, en langaði til Prakklands eða Englands, — en ég fór nú ekki nema til Noregs. Ég kom til Berg- en á þjóðhátíðardegi Norðmanna, 17. maí 1924. Þá átti ég túkah og tíu aura í reiðu fé, og það var steikjandi sólskin, mikill hiti og almennur þorstadagur í Noregi. Fór ég því rakleitt upp á „Flöjen“ og ætl- aði að fá mér eitthvað að drekka fyrir tú- kallinn. En einhvernveginn atvikaðist það nú svo, að ég drakk þar allan daginn og átti túkallinn óskertan að kvöldi. — Og hvar gistuð þér svo fyrstu nótt- ina í Noregi? — Uppi í sveit, hjá karli á Garnes. Það kostaði ekki neitt. Þegar ég kom af „Plöj- en“, slangraði ég inn á járnbrautarstöð- ina og keypti mér farseðil með lestinni fyr- ir túkallinn. Ég ætlaði mér bara eitthvað út úr bænum og láta fyrirberast þar, sem forsjóninni þóknaðist. Svo steig ég út úr lestinni í fallegu sveitaþorpi, og kom morg- uninn eftir að máli við Aagaard, verk- smiðjueiganda, bað hann um vinnu og trúði honum fyrir því um leið, að ég ætl- aði mér að verða norskur rithöfundur. En þar sem norskukunnátta mín var í lakara lagi, fannst karlinum þetta svo spaugilegt, að hann var búinn að lofa mér vinnu áður en hann vissi af. Þar var ég allt vorið og fram á sumar og málaði leikföng. Aagaard, vinur minn, var yndislegur karl, og marga gleðistund átti ég á heimili hans. Ðætur hans voru skemmtilegar stúlkur. — Og hvert fóruð þér svo? — Seinna um sumarið fékk ég atvinnu í niðursuðuverksmiðju í Bergen, og eftir þetta fyrsta sumar hafði ég aurað mér saman fyrir skólavist á Voss næsta vetur. Þar var ég samtíða Guðmundi Hagalín og fór vel á með okkur. Mér er sérstaklega minnisstæð jólanóttin á Voss. Eskiland skólastjóri var maður trúrækin og lét nem- endur syngja sálma og dansa kring um jólatré með fögnuði trúrækninnar í fasi og framgöngu. Og þegar aðrir sungu: Jeg er sá glad hver Julekveld, söng Hagalín á íslenzku, og voru sumir þeir bragir ekki sem guðrækilegastir. Fór nú að fara um mig, því að skólastjóri hafði oft haldið íslenzkukunnáttu sinni á lofti við okkur landana, og bjóst ég við, að vinur minn, Hagalín, fengi litlar þakkir fyrir jólasöng- inn. En það fór á annan veg, því að á eftir gekk skólastjóri til hans og þakkaði hon- um með handabandi fyrir söng hans á hin- um dásamlegu, íslenzku jólasálmum. — Hófuð þér störf yðar á Voss sem norskur rithöfundur? — Nei, ég byrjaði strax fyrstu dagana í leikfangagerðinni, og skrifaði þá smá- sögu, sem birtist í Stavanger Aftenblad veturinn eftir. Það var það fyrsta, sem kom út eftir mig á norsku. — Hvert fóruð þér svo frá Voss? — Eg vann við húsamálingar í Harð- angri um vorið og fram í júlí. Þá keypti ég mér hjól og hjólaði til Stokkhólms. Það var mjög skemmtileg ferð og lærdómsrík. Ég gisti hjá sveitabændum og skrifaði. — Hvenær kom svo fyrsta bók yðar út á norsku? — Haustið 1926 komu Pimm smásögur út hjá Aschehoug, og árið eftir Brúðar- kjóllinn. Bókum mínum var strax vel teli- ið, og nú gat ég farið að lifa eins og maður. — Hafa allar bækur yðar komið út hjá Aschehoug? — Já. Ég á því forlagi mikið að þakka. Það hefir reynzt mér vel. — Hvað hafið þér skrifað margar bæk- ur? — Ég hefi skrifað tólf bækur, og nú Pramh. á bls. 21.

x

Vikan

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.