Menntamál - 01.12.1961, Blaðsíða 69
MENNTAMAL
255
Virkt nám.
Að jafnaði er námið ekki fólgið í því að tileinka sér
„vélrænt“ einangraðar staðreyndir. Lært er til að skilja
og hagnýta námsefnið. Ef setning þessi er prófuð á efni
þessarar bókar, felur hún í sér, að lesandinn eða náms-
maðurinn á ekki einungis að vera fær um að þylja upp
þau hugtök, sem beitt hefur verið í greinargerðinni fyrir
náminu, heldur á honum að vera ljóst, hversu hugtök þessi
og meginreglur eiga við námstæknina.
Þótt hversdagsleg sannindi þyki, verður þó ekki of fast
að því kveðið, að námsárangurinn er ekki í réttu hlutfalli
við þann tíma, sem setið er yfir kennslubókinni. Mörg-
um foreldrum, er halda bókunum sýknt og heilagt að
börnum sínum, hættir þó til að trúa þeirri villu, að barnið
læri jafnlengi og það situr yfir bókunum. Fyrr hefur
verið gerð grein fyrir því, að ekki sé nóg að vilja læra.
Af því leiðir einungis, að nám sé hafið. Auk þess þarf að
koma til virk afstaða gagnvart námsefninu. Það varðar
miklu í bóklegu námi, að námsefnið sé tilreitt og námsað-
stæðum hagað þannig, að hin andlega melting þess nýt-
ist sem bezt. Síðar verður gerð rækilegri grein fyrir þess-
um þætti námsvirkninnar. Að sinni verður aðeins fjallað
um almenn auðkenni virks náms.
Fyrst skal það tekið fram, að stagl án áhuga og vilja
er yfirleitt árangurslítið. Betri raun gefa stuttar náms-
lotur, þar sem ötullega er unnið með einbeittum huga.
En hver eru þá helztu auðkenni á virkum námsháttum
manns?
1. Námsmaðurinn fylgist vel með, og hann prófar
árangur sinn með því að hlýða sér yfir í lok hvers kafla.
Með þeim hætti þröngvar hann sér til hvors tveggja, að
lesa með athygli og kanna, hvort hann hefur tileinkað
sér meginatriðin.
2. Námsmaðurinn notar blýantinn ótæpilega. Ekki ber
að hlífa kennslubókum sem væru það fágætar safnbækur.