Menntamál - 01.12.1961, Page 78
264
MENNTAMÁL
leysingjum, náði hún fljótt tökum á starfinu, og báru
framfarir nemenda hennar því glöggt vitni. Það er al-
kunna, hve misjafnlega kennurum gengur að hafa aga á
nemendum sínum, og er heyrnar- og málleysingjakenn-
urum hvað þetta snertir sérstakur vandi á höndum, því að
þeir geta ekki talað um fyrir nemendum sínum á sama hátt
og þeir, sem kenna talandi börnum. En þetta olli Rósu
aldrei erfiðleikum. Jafnvel þeir óstýrilátustu voru ekki
búnir að vera nema nokkra daga í bekk hjá henni, þegar
þeim var farið að þykja vænt um hana og bera virðingu
fyrir henni og henni hafði tekizt að vekja áhuga þeirra
á náminu.
Við Rósa unnum saman í Málleysingjaskólanum í 16 ár
og frá okkar samvinnu minnist ég einskis, sem fegra þarf
eða færa til betri vegar, en ótal margs, sem Málleysingja-
skólinn og við samstarfsmenn hennar eigum henni að
þakka. Hollusta hennar við skólann var slík, að lengra
verður ekki jafnað, og störf hennar öll í hans þágu unnin
af einstökum velvilja og festu. Rósa hirti lítt um, hvort
eftir henni eða störfum hennar væri tekið, en hitt skipti
hana öllu máli, að þau yrðu þeim til blessunar, sem áttu
að njóta þeirra.
Það er ekki ofmælt, að Rósa hafi fórnað sér fyrir börn,
auk þess sem ævistarf hennar var að kenna börnum og
síðustu 16 árin þeim börnum, sem sárast þurfa á hjálp að
halda. Hún ól upp 8 börn að meira eða minna leyti, 4 voru
hjá henni til fullorðins ára, og öllum börnunum gekk hún
í móður stað, meðan þau voru hjá henni. Þetta síðasta
segir betur en nokkuð annað, hver mannkostamanneskja
Rósa Finnbogadóttir var.
Ég veit, að ég mæli fyrir munn allra nemenda Rósu,
samstarfsmanna og vina, þegar ég segi, að okkur muni
alltaf virðing og þakklæti ríkast í huga, þegar við minn-
umst hennar.
Brandur Jónsson.