Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.11.1985, Blaðsíða 20

Bjarmi - 01.11.1985, Blaðsíða 20
Áfram, Kristsmenn, krossmenn Það kemur fram í Heimskringlu Snorra Sturlusonar að Ólafur helgi Haraldsson Noregskonungur hefur haldið áfram verki Ólafs konungs Tryggvasonar, að kristna Norðmenn. Ólafur helgi háði hinstu orrustu sína á Stiklarstöðum. Var þar hart og lengi barist og margir féllu, þar á meðal konungur. I lýsingunni á orrustunni segir Snorri: „Konungsmenn æptu þá heróp, en er því var lokit, þá eggjuð- usk þeir, svá sem þeim var áður kennt, mæltu svá: „Fram, fram, Kristsmenn, krossmenn, konungs- menn!““ Þessa eggjan konungsmanna í hita bardagans á Stiklarstöðum notar æskulýðsleiðtoginn og skáldið séra Friðrik Friðriksson þegar hann þýðir kunnan, kristilegan söng sem hefur orðið baráttusöngur í kirkjunni víða um heim og hefst þannig á frummál- inu: „Onward, Christian soldiers, marching as to war“, en í þýðingu séra Friðriks: „Áfram, Kristsmenn, krossmenn, kóngsmenn erum vér“. Séra Friðrik hafði miklar mætur á fornsögunum og í söngvum hans kveður oft við þann tón að lærisveinar Jesú Krists séu kallaðir til stríðs undir merki Krists konungs. Höfundur söngsins var enskur prestur og Iærdómsmaður, Sabine Baring-Gould að nafni. Hann fæddist í Exeter í Englandi 28. janúar 1834. Foreldrar hans áttu herragarð og veittu honum ágæta menntun. Var hann við nám í Cambridge og vígðist til prests árið 1865. Baring-Gouhl hlaut doktorstitil. enda samdi hann ýmiss konar bækur og var sískrifandi. Þar má nefna guðfræðibækur, vísindarit handa al- menningi, skáldsögur og ferðalýsing- ar, m.a. frá íslandi. Þessi enski prestur og rithöfundur hefur sagt frá því hvernig söngurinn, Áfram, Kristsmenn, krossmenn, varð til. Hann var ortur handa sunnudag- askólabörnum sem ætluðu á hátíð í næsta bæ á annan í hvítasunnu árið 1865. Prestinn langaði til þess að börnin fylktu liði og kæmu syngjandi á samkomustaðinn en gat ekki fundið neinn söng sem honum fannst við hæfi. Hann orti því þennan söng um nóttina .og var hann síðan sunginn daginn eftir í fyrsta sinn, þó ekki með því lagi sem nú er notað. Núverandi lag er mjög vinsælt, enda er höfundur þess þekkt tónskáld, Englendingurinn A. I. Sulli- van. (Óperan Míkadó eftir Gilbert og Sullivan var sýnd hér á landi fyrir skömmu.) Þegar farið var að nota lag Sullivans var sem söngurinn fengi byr undir vængi og hann barst um víða veröld. Fleiri en einn rithöfundur hafa samið ævisögu Sabine Baring-Gould. Einum þeirra segist svo frá að Baring- Gould hafi orðið ástfanginn af ungri stúlku sem hét Grace Taylor. Hún var dóttir fátæks malarasveins og því miklu neðar í þjóðfélagsstiganum en hann. En hann fékk leyfi foreldra hennar til að láta hana ganga í skóla til þess að hún fengi þá menntun sem nauðsynlegt mátti teljast svo að hún gæti verið húsmóðir á stórum búgarði. Að náminu loknu gengu þau í hjóna- band og varð sambúð þeirra einkar farsæl. Þegar Grace lést árið 1916 reisti hann legstein á leiði hennar með þessari áletrun: „Helmingur hjarta míns“. Söngurinn, Áfram, Kristsmenn, krossmenn, hefur verið mikið notaður í kristilegu félagsstarfi hér á landi. Hann er m.a. í sálmabók þjóðkirkj- unnar. Söngurinn hefur verið þýddur á yfir eitt hundrað tungumál. b. Áfram, Kristsmenn, krossmenn, Kóngsmenn erum vér. Fram í stríðið stefnið, sterki æskuher. Kristur er hinn krýndi kóngur vor á leið. Sjáið fagra fánann frelsis blakta’ á meið. Kór: Áfram, Kristsmenn, krossmenn, kóngsmenn erum vér. Fram í stríðið stefniö, sterki æskúher. Gjörvöll Kristí kirkja kveður oss með sér. Fjendur ótal eru, ei þó hræðast ber. Konungsstólar steypast, stendur kirkjan föst, bifast ei á bjargi byggð, þó dynji röst. Komið, allar álfur, allra þjóða menn. Veitið oss að vígi, vinna munum senn. Allar englatungur undir taki’ í söng: Dýrð og lof sé Drottni, dýrð í sæld og þröng. Friðrik Friðriksson 20

x

Bjarmi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.