Heima er bezt - 01.09.1965, Page 10
systir Guðrúnar, húsfreyju 12 árum yngri. Húsbónd-
inn, Jón Gíslason, eignaðist son með þessari vinnukonu
sinni: Jóhannes, fæddur 28. febrúar 1836, og ólst hann
upp á Strjúgsá. Hann giftist Rannveigu Þorsteinsdóttur
frá Hvassafelli. Elzta bam þeirra var Þorvaldur Jó-
hannesson, fæddur 5. júlí 1862. Hann var tekinn í fóstur
af þeim hjónum á Strjúgsá. Þorvaldur var vel greindur
og prýðilega hagmæltur, en flogaveikur lengst af ævi
sinnar.
Hrösun sína í hjónabandinu tók Jón sér afar nærri, og
jafnvel því fremur sem kona hans var honum jafn ástrík
eftir sem áður. Gerðist Jón, um þessar mundir, mjög
þunglyndur og einrænn, svo nærri lá sturlun. Um þetta
ber vott vísa hans.
Kross mig á er knúinn sá,
er kveikir þrá úr heimi,
engum frá ég manni má,
mínu tjá andstreymi.
En í þessu hugarstríði sá hann þó eina vök auða, sem
sjúkur hugur hans gat laugað sig í.
Sú mér treynist svölun bein,
er sorgarflein má beygja:
Guði hreinum mín þó mein
má ég einum segja.
Jón Gíslason var hæglátur í framkomu, óádeilinn við
menn og vinsæll af þeim er kynntust honum. Samtíma-
maður hans um skeið lýsir honum svo: „Hann virtist
vera nokkuð dulur í skapi og þungt hugsandi. Hann var
djúphygginn, nokkuð sérlegur og öðruvísi en fólk er
flest.“
Jón Gíslason naut allmikils álits hjá sveitungum sín-
um. Hann var kosinn hreppstjóri í Saurbæjarhreppi.
En ekki virðist honum hafa getizt að því starfi, því hann
sagði af sér eftir nokkur ár. Samt var hann lengi þar á
eftir nefndur hreppstjórinn á Strjúgsá manna á meðal.
Jón Gíslason gaf sig lítt að mannamótum í sveitinni.
En ánægju hafði hann af héimsóknum vina sinna og við-
ræðum við þá. Einn af vinum hans var Magnús Jónsson,
sem var bóndi í Stóradal, og þeir Jón því svo að segja
nágrannar. Síðan fluttist Magnús að Hólakoti. Áttu
þeir oft samræður. Meðal annars ræddu þeir um lífið
eftir dauðann, og voru báðir sannfærðir um tilveru
þess. Þeir gerðu það með sér, að hvor þeirra, sem fyrr
létizt, skyldi gera hinum viðvart, ef þess yrði auðið.
Svo var það seint um kvöld, að aflíðandi miðju sumri,
að Jón á Strjúgsá gekk út, einn saman. Þegar hann kom
inn aftur mælti hann fram vísu þessa:
Hér að ofan hægt sig bar,
hnoðri í sólarþroti,
mun það vofa Magnúsar
míns í Hólakoti.
Vísa þessi flaug brátt um sveitina og þótti að því leyti
merkileg er það vitnaðist að andlát Magnúsar í Hóla-
koti hefði borið að mjög á sama tíma og Jón á Strjúgsá
sá „hnoðrann". Magnús andaðist 1. júlí 1866.
Upp frá bænum á Strjúgsá er alldjúpt og hrikalegt
gil eða gjá í fjallið, nefnd Kötlugjá. Segir þjóðsagan að
eitt sinn hafi búið í klettunum í fjallinu tröllkona að
nafni Katla, og sé gjáin við hana kennd og nefnd Kötlu-
gjá. Venjulega er gjáin skuggaleg og grett, en á heið-
ríkum sumardögum, þegar sól er gengin til norðvest-
urs, beinir hún geislum sínum að gjánni og lýsir hana
upp. Er þá eins og hamraveggirnir kasti geislunum
brosandi á milli sín í glettnisfullum leik.
Eitt sinn var Jón Gíslason að koma heim að Strjúgsá
úr ferðalagi, síðla dags, og kveður þá þessa vísu:
Gleður Katla grett á brún,
gömlum eftir vana,
mér þá breiðir móti hún,
meyj arspékoppana.
Með aldrinum gerðist Jón Gíslason nokkuð þung-
fær. Kona hans, Guðrún Jóhannesdóttir annaðist þá alla
aðdrætti að heimilinu, og ferðalög þeim viðkomandi.
Þorvaldur sonar-sonur Jóns Gíslasonar var eftirlætið
hans og yndi í ellinni, og unni Þorvaldur afa sínum
mjög. Eitt sinn voru þeir tveir einir saman, Jón og
Þorvaldur. Allt í einu hné Jón útaf í sæti sínu, rænu-
laus. Þá var Þorvaldur 12 ára, og bar fullt skyn á hvað
hér væri um að vera. Varð honum svo mikið um, að
hann mátti ekki lengi mæla. Var talið að upp úr þessu
áfalli hefði byrjað flogaveikin, er þjáði hann alla æfi
síðan.
Jón Gíslason á Strjúgsá varð bráðkvaddur 19. janúar
1874, nær hálfáttræður.
Þegar frá líður hjúpast jafnan hérvist horfinna kyn-
slóða móðu gleymsku og heimildavöntunar um æfi
þeirra og eðliseinkunn. Á þetta við um allan þorra
manna. Þó er það svo, að upp úr standa alltaf nokkrir
tindar, sem seinna gleymast. Það eru menn, sem venju-
lega láta eitthvað eftir sig liggja, sýnilega eða sögulegt,
eða eitthvað annað, sem lengi líf þeirra í minningum
seinni tíma manna, og gerir þá að vissu leyti sýnilega
ofar móðu samtíðar þeirra, umfram flesta aðra.
Svo var það um Jón hreppstjóra á Strjúgsá. Ekki þó
vegna þess að hann léti eftir sig varanleg mannvirki eða
annað verðmæti. Varla heldur fyrir það, þó eftir hann
séu til góð og vel kveðin kvæði og lausar vísur í varð-
veizlu Landsbókasafnins í Reykjavík. Ekkert af þessu
hefir orðið til að láta hann lifa í minningu sveitunga
sinna, heldur einfaldlega það, að hann, að gáfum, góðri
hagmælsku, prúðmennsku og drengskap, var á mörg-
um sviðum, — eins og sveitungi hans sagði — „öðruvísi
en fólk er flest.“
322 Heima er bezt