Heima er bezt - 01.11.1965, Side 11
IX.
Jón í Yztafelli hefur tekið mikinn þátt í félagsmálum
og er áhugamaður um þau. Hann er samvinnumaður að
uppeldi og lífsskoðun. Var einn þeirra manna, sem tóku
ungmennafélagshreyfingunni fegins hugar og veittu
henni brautargengi. Gekk ótrauður til liðs við Fram-
sóknarflokkinn, þegar hann kom til sögunnar. Vann að
stofnun héraðsskólans á Laugum og var formaður skóla-
ráðsins frá byrjun og til ársins 1934, að hann fluttist úr
héraðinu. Hefur átt sæti í stjórnum margra félaga, svo
sem: ungmennafélags, bændafélags, skógræktarfélags,
lestrarfélags; verið sýslunefndarmaður Ljósavatnshrepps
1917—1934 og aftur síðan 1957; safnaðarfulltrúi 1917—
1960, oft verið kvaddur til nefndastarfa, m. a. af ríkis-
stjórninni 1929 í póstmálanefnd, sem lagði grundvöll að
miklum breytingum til umbóta á póstmálum í landinu.
Jón er í hópi ritfærustu manna landsins. Hann meitl-
ar mál sitt og stuðlar. Stíl hans einkenna stuttar, hnit-
miðaðar, hreinskornar setningar. Myndrænar líkingar
eru honum auðveldlega tiltækar til efnisskýringar og
skrauts. Vald hans á íslenzkri tungu sést t. d. vel, þegar
hann beitir henni við lýsingar á óvenjulegu landslagi eða
við önnur efni, sem torvelt er að skilgreina og tungan
hefur ekki tamizt við. Um hann hefur verið sagt, að
hann sé orðgnóttarmaður, og er það sannmæli. Hygg ég,
að þeir, sem orðtaka bækur, geti haft úr brunni að ausa
þar, sem eru bækur hans og ritgerðir, því jafnframt því
að hann hagnýtir vel fornmálið, er hann málþróunar-
maður.
Jón hefur frá ungum aldri verið gefinn fyrir náttúru-
athuganir. Telur hann, að fjölþætt gróðurfar og marg-
breytilegt landslag að Yztafelli hafi í bernsku og æsku
ýtt sterklega undir þá hneigð í fari sínu. Einhvers stað-
ar hefi ég séð í riti eftir Jón, að hann nefnir í þessu sam-
bandi leikbróður sinn og smölunarfélaga, Helga Jónas-
son á Gvendarstöðum, hinn sjálfmenntaða meistara í
grasafræði og náttúruathugunum. Má vera, að nágrenn-
ið við Helga í æsku hafi haft eitthvað að segja. „Hver
dregur dám af sínum sessunaut“.
Þá er ættfræðin Jóni mjög hugstæð, og ættgengi. Saga
er yndi hans og sífrjótt viðfangsefni, — einkum sam-
hengi sögunnar. í þessum greinum og fleirum er hann
óvenjulega fróður maður. Sérstaklega er hann yfirlits-
fróður. Fræðimannlegt nostur við smærri atriði sam-
rýmist síður dugnaði hans og afkastakappi.
Yztafell II. (Lengst til vinstri fjós og hlaða.) Súlan, minnismerki um stofnun S. í. S., stendur á grunni gamla hússins. (Lengst t. h.
íbúðarhúsið.) Bjarni Sigurðsson fremst á myndinni með hvolpinn Neró i fanginu.
Heima er bezt 395