Heima er bezt - 01.06.1972, Blaðsíða 15

Heima er bezt - 01.06.1972, Blaðsíða 15
BJORN SIGURBJARNARSON: Feréaminningar frá sumrinu 1954 „ ... auðnin tjarta ávann sér ást í hjarta mínu. (Hallgr. Jónasson.) I. A llur þorri íslendinga þeirra, er hafa tekið sér /\ bólfestu í bæjum og þorpum, eru fæddir og / A fóstraðir í sveitum þessa lands. Allir bera þeir í brjósti þrá til átthaganna og öræfanna, þar :sem þeirra fögur æskan bjó. Átthagaþráin er ódauðleg. Útþrá og ævintýralöngun kynda undir. Þegar sumarið er gengið í garð og nóttlaus voraldar veröld ríkir yfir landinu, vaknar heimþráin og útþráin í brjóstum hinna horsku sveitadrengja og bláeygu dalanna dætra, sem í bæjunum búa. Ymis tækifæri bjóðast til að fullnægja útþrá ungra og aldinna. Flestir hafa nokkur fjárráð. Enn er það, að vér lifum á öld ferðalaga og fjölbreytni, öld hraða og eirð- arleysis, öld véla og vagna. Þetta er öld vélamennskunn- ar í öllu sínu gegndarleysi og æðisfumi, enda er allt vort ráð og framtíðarhagur á hveli hverfanda og tor- velt að sjá hvern enda muni hafa. Farkostur vélaaldar- innar hefur og greitt götu ferðafólks, gjört mönnum kleift að komast örugglega á skömmum tíma yfir tor- færur, vegleysur og öræfi, sem áður þóttu ekki fær mönnum og hestum. Við þessi skilyrði vænkast hagur þeirra, er hafa hug á að sinna kalli átthaganna, öræfanna og sumarsins. Ferðin er ráðin og farseðill keyptur. II. Þegar ferðafélagarnir mætast í biðsal flugskýlisins í Reykjavík, er augljós ferðahugur í fólkinu. Tilhlökkun má lesa í hverju andliti. Hafa fáir einir stigið í flugvél áður, þennan víðbláins vakra fák. Er þeim flestum inn- an brjósts eins og ungum hestamanni, sem stendur hjá fjörugum gæðingi, er hann á að fara á bak í fyrsta sinni. Brottfarartími er ráðinn stundu fyrir náttmál. Flug- vélin Glitfaxi hefur sig mjúklega á loft, líkt og svanur hefji sig til flugs. Stefnt er í austurveg og stefnan tek- in á Heldu eða um 64. gráðu. Brátt hverfur Reykjavík og Mosfellssveit kemur í Ijós. Þá sést Þingvallavatn, Laugardalur, Grímsnes, Skálholt, Vörðufell, Þjórsá og Landmannasveit. Þoka er yfir austurfjöllum. Þegar flog- ið er yfir Heklu, sést í hvítan kollinn gegnum þokurof. Sést nú um skeið ekkert annað en hvítt öldumyndað þokuhaf, roðið kvöldsólarskini. Þegar komið er austur yfir Síðu og Fljótshverfi, fer að rofa til byggða gegn- um þokuhjúpinn. Ár og vötn liggja eins og silfurbönd og silfurskildir um gróðurlönd og grá hraun. Þá blasa og víða við bændabýlin þekltu, dreifð um nýhirt tún og grænar grundir. Einn er sá, sem allir veita athygli, bæði þeir sem svífa um loftin blá og hinir er halda sig við jörðina. Sá er Lómagnúpur. Hvass er hann á brún, svip- mikill og sviphreinn. Einráðinn mun hann vera í því að hopa hvergi, hversu sem þursinn Vatnajökull hamast að baki honum og óhemjan Núpsvötn geysa og grenja við fætur honum. Við þessa sýn rifjaðist upp draumur Flosa Þórðarsonar, en hann er skráður í Njálu. Þar segir svo: „Mik dreymdi þat,“ segir Flosi, „at ek þóttumsk stadd- ur at Lómagnúpi ok ganga út ok sjá upp til gnúpsins. Ok opnaðist hann. Maðr gekk út úr gnúpinum ok var í geithéðni ok hafði járnstaf í hendi. Hann fór kallandi ok kallaði á menn mína suma fyrr en suma síðar — ok nefndi þá á nafn.“ Horfðu menn mjög til gnúpsins, en engan sáu þeir bergrisann. Létti þá mörgum er áður hafði áhyggjur þungar. Þokuslæðingur er á ÖræfafjöII- um. Þó dylst engum, er þangað horfir, að Öræfajökull ber höfuð og herðar yfir öll fjöll, heiðumhár, kuldaleg- ur en sviphreinn og tíginborinn í allar ættir í ættbálki íslenzkra jökla. Skeiðarárhlaup er í aðsigi. Vatnaflaumur óskaplegur þegar kominn. Heyrist glöggt gnauð og vatnadrunur þungar. Eftir rúmlesra klukkustundarflug var lent á flugvell- inum hjá Fagurhólsmýri. Þar var sunnanstormur, þoku- slæðingur og suddi. Stigu farþegarnir skjótt út úr flug- vélinni og tóku á móti farangri sínum. Var skammt að fara til tjaldstaðar undir hamrabelti. Féll þar blátær lækur fyrir neðan. Tóku menn að velja sér tjaldstað og tjalda. Hér tók Páll Arason fararstjóri á móti oss. Flest- ir aðkomumanna fóru að skoða umhverfið og ganga sér til hressingar. Að svo búnu var matast og gengið til hvílu. Heima er bezt 195

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.