Heima er bezt - 01.06.1973, Blaðsíða 17

Heima er bezt - 01.06.1973, Blaðsíða 17
Dyrnar eru snarlega opnaðar og í þeim birtist góðlát- legt, brosandi en sýnilega undrandi karlmannsandlit. „Gott kvöld,“ segjum við. „Gott kvöld,“ er svarað hressilega. „Það var annars mikil blessun að hitta hér manna- bústað, í þessu ólundarveðri. Gætum við fengið að gista hér í nótt?“ „Já, það er velkomið, ef þið getið gert ykkur það að góðu. Annars veit ég ekki hvað ég á að segja um manna- bústaðinn. Gjörið svo vel og komið í húsaskjólið.“ Það þurfti áreiðanlega ekki að segja okkur það tvisvar. Við snöruðumst inn, og húsbóndinn skellti hurðinni að stöfum, samstundis. „Hvaðan komið þið annars og hvemig fóruð þið að rekast á þennan kofa í þessari öskustórhríð?“ „Við komum frá Reykjavík og erum á leið norður í Þingeyjarsýslur. Fórum í morgun frá Grænumýrar- tungu og ætluðum að ná að Lækjamóti. En guð hefur ætlað okkur að gista hér, eins og þú sérð.“ „Því miður er nú allt hér líkara fjárhúsi en mannabú- stað. Og allar viðtökur verða eftir því. Það þykir mér verst.“ „Blessaður vertu. Hafðu ekki áhyggjur af því. Þú mannst þó líklega, að sjálfur frelsarinn fæddist í asna- húsi, og var lagður í jötu. Og ekki bar á öðru, en öllu heilsaðist vel. Það amar ekkert að okkur hérna. Þú munt þreifa á því, áður en við skiljum.“ „Það er óvenjulegt að hitta svona hressilega lang- ferðamenn. Það á við mig. Komið þið á eftir mér inn í kofana. Þar sjáið þið betur til að verka af ykkur.“ Og nú virtist mér hann verða svo kvikur og tindil- fættur, að tilburðirnir líktust ærslafullum unglingi. Við fylgdum honum eftir nokkur skref. Þá komum við inn í vel manngengan skúr, með talsverðu risi. Mér virtist hann vel viðaður, og einn óralangur mæniás endanna á milli, eða það, sem ég sá. Og ekki sá ég betur, en veggir væru óþiljaðir. Við vesturvegg hans er elda- vél og rör beint upp úr henni, í gegnum þekjuna, svo nú fór ég að átta mig. Fyrir suðurhluta skálans, tæplega miðjan, er þvergirt með tjöldum, og flaug mér þá í hug leiksviðið í Iðnó, þar sem ég þóttist greina, að hægt væri að renna þeim til hliðar á snúru, alveg eins og þar. Nú rifaði talsvert á milli þeirra og ég sá í stafn- gluggann, sem ég tók vel eftir utan frá og virtist mér skálinn býsna langur, eða allt að 12 álnum, þegar inn var komið. Við vorum rétt búnir að losa af okkur töskurnar og byrjaðir að verka af okkur snjóinn, þegar annað tjald- ið er dregið til hliðar með hægð, og roskin kona birtist þar og ber í gluggann. Ég sá hana því óglöggt. „Jæja, heillin. Hér er ég kominn með tvo næturgesti. Þú þarft ekkert að vera feimin við þá. Þeir spjalla alveg eins og við og gera að gamni sínu. Svo þeir eru án efa ýmsu vanir, því þeir koma beint frá Reykjavík.“ Við heilsuðum konunni, og þótt við heyrðum varla, hvað hún sagði, gaf handtak hennar bendingu um það, að hún skíldi ástæðuna fyrir þessari óvæntu gestkomu. En þegar bóndi hennar sagði beint frá Reykjavík, and- varpaði hún og sagði: „Guð minn góður. Ur Reykja- vík. Og þú býður þeim að gista í þessum kofum.“ Og ekki leyndi sér minnimáttarkennd í röddinni. „Blessuð vertu. Það vorum við, sem sóttumst eftir því, svo það var ekkert undanfæri. Annars sýnist mér hér nóg af þægindunum. Brennheit eldavél, og á henni brosandi kaffikanna, sýnilega vel á sig komin, og svo tveir pottar henni til sáluhjálpar, og sýður meira að segja í öðrum. Mér sýnist þú ekki þurfa að hafa áhyggj- ur, okkar vegna. Við þekktum gömlu hlóðirnar líka, eins og þú, og erum þessu öllu vanir,“ segir Mundi bróðir. Ég sá að konan brosti, en ekki sagði hún orð. Aftur á móti stóð ekki á bónda hennar. „Jú — jú. Sagði ég þér ekki heillin. Það mun draga saman með ykkur áður en nóttin er úti. Minnztu orða minna á morgun.“ Þegar við Mundi bróðir höfðum verkað af okkur snjóinn, eftir beztu getu, bauð konan okkur inn fyrir tjaldið. Þar var stigið upp á trépall og innan við tjaldið var allt þiljað. Gluggi var á miðjum stafni, eins og fyrr segir, og undir honum ofurlítið borð, en rúm- stæði með veggjum báðum megin. Þau náðu frá stafni og hér um bil að tjaldinu,.sem þvergirti skálann. Rúm- in voru samandregin, vel breitt yfir bæði, með ullar- teppum, sýnilega ofin af vönum höndum. Það var stærðar kúpa á rúminu, sem við Mundi bróðir settumst á, undir austurhliðinni, og fór þar mun meira fyrir rúmfötunum. Og ekki leyndi sér, að blessuð konan hafði verið að lagfæra þetta allt á meðan við þrömmuðum inn í skálann. Það var heldur bærilegt að hlassa sér á rúmið. Og þótt við ýttum ofurlitlu upp að þilinu, með sitjandanum, var meira en nóg undir honum til mýktar og upphitunar. Það leyndi sér víst ekki sælubrosið á mér yfir þessum óvæntu umskiptum, því ég fylgdist vel með rödd stormsins, sem öskraði á þekjunni. Svo þegar kaffikannan kom á borðið, á milli rúmanna, og allt, sem henni fylgdi, fengu málbeinin á húsbóndanum óvænta smurningu, því auðvitað drakk hann okkur til samlætis. Það kom fljótt í ljós, að hann var bæði vel skír og átti létt með að gera að gamni sínu. Aftur á móti var mitt hlutskipti ekki annað en að nota augun og eyrun, eins og áður. Þótt liðin séu nú 50 ár síðan þessi atburður gerðist, man ég margt spaugilegt, sem þarna bar á góma, fram eftir allri nóttu. Á aðeins fátt verður þó drepið hér. Hámarki náði þó spjallið, þegar við höfðum borðað kvöldmatinn, sem var ilmandi kjötsúpa, er sauð í öðrum pottinum, þegar við komum. Það vissi ég líka áður, því blessaður ilmurinn kom á móti mér, langt fram í ganginn. Það fór líka svo snilldarlega um okkur á rúm- inu, þegar við hölluðum okkur aftur á bak. Það var hátt upp í það að hagræða sér í allra fínustu fjaðra- og púðastólum, sem forsetar og ráðherrar hafa nú til að dotta í daglega. Framhald í næsta blaði. Heima er bezt 197

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.