Heima er bezt - 01.06.1973, Page 28
hefur heimurinn færzt enn meir saman, ef svo má að
orði komast. í menningu okkar kemur því ekki aðeins
blóð frá fornum slóðum, heldur má búast við því frá
Afríku og Asíu. Amerískra áhrifa gætir nú þegar. —
Ég horfði á draummann starandi augum.
— Þú mátt ómögulega rugla þessu saman við, að ung-
menni eru að sullast með popp-texta á enskri tungu. Það
er ensk menning, sem þau eru að tileinka sér og á ekki
langa Iífdaga hér. Eigi að síður má búast við því, að
áhrifa poppsins muni á einhvern hátt gæta í menningu
okkar í framtíðinni, en aðlaga sig íslenzkri menningar-
arfleifð. Ég veit, að þú ert ekki reiðubúinn til að með-
taka þennan boðskap, nýjar stefnur, ismar, eða hvaða
heiti sem við notum, hafa aldrei runnið niður í fólk
eins og smjör. Einn góðan veðurdag þykir þetta samt
góð og gild vara, og betri en sú, sem áður var á boð-
stólum. Til að gera þér enn ljósara hvað ég á við, skal
ég taka dæmi, sem þú ættir að skilja, af því þú hefur
lesið svolítið um það í bókum. Dæmið er af einum þætti
mennningar, ljóðlistinni.
Árið 1823 var ort svona á íslandi og þótti góður skáld-
skapur:
Óvanur orðsnilldar lögum
eg (því að tíðin er Iöng)
með dimmum og dynjandi slögum
drynja læt hörpunnar söng.
í hreiðrunum hræfugla og varga,
við hrinur og ólæti bjarga
stilla þá skjálfandi strengi eg vil,
þar straumarnir buldra við niðdimmu gil.
Örfáum árum seinna birtist kvæði, sem í eru þessar
ljóðlínur:
Skein yfir landið sól á sumarvegi
og silfurbláan Eyjafjallatind
gullrauðum loga glæsti seint á degi.
Við austur gnæfir sú hin mikla mynd
hátt yfir sveit, og höfði björtu svalar
í himinblámans fagurtærri lind.
Fyrra kvæðið er eftir Sigurð Breiðfjörð, en það síðara
eftir Jónas Hallgrímsson. Það fara engar sögur af hrifn-
ingu fólks yfir kvæðum Jónasar fyrst þegar þau komu
fram, nema hvað munnmæli herma, að Bjarni Thorar-
ensen skáld hafi átt að segja, að nú væri sér bezt að
hætta að yrkja. Ég veit, að Bjarni hefur aldrei mælt
þessi orð, heldur voru þau búin til og lögð honum í
munn, þegar almenningur var reiðubúinn til að meðtaka
skáldskaparform Jónasar. Með þessu er ég ekki að segja,
að Sigurður Breiðfjörð hafi verið vont skáld, þvert á
móti, hann var góður, skáld síns tíma og þeirrar hefðar,
sem þá ríkti í Ijóðagerð, sem þá var talin það bezta.
Jónas yrkir kvæði sitt erlendis, undir áhrifum erlendr-
ar ljóðagerðar, en hann aðlagaði form sitt svo vel
íslenzkri menningararfleifð, að í dag teljum við ljóð
hans með því bezta, sem ort hefur verið á tungunni, —
svo gott, að varia er hægt að yrkja betur. Samt sem áður
er fólk alltaf að yrkja. Sama má segja um fomsögurnar.
Varla verða sögur betur skrifaðar, en samt ryðzt hver
rithöfundurinn af öðrum fram á ritvöllinn, þótt þeir
viti, að þeir geti ekki gert betur en nafnlausu höfundar
fornsagnanna. Hvers vegna? Getum við ekld látið okkur
nægja allt það góða og fagra, sem forfeðurnir hafa skap-
að í menningu? Nei, það getum við ekki. Hver ný kyn-
slóð leitast við að brjóta sér nýjar brautir í menningu.
Ef svo væri ekki farið að, er hætt við að öll menningar-
viðleitni verði eftirlíking eða hreinlega staðni. Eigum
við sögu um það. Menning getur því aldrei verið í kyrr-
stöðu, en heldur sífellt fram á við, inn á nýjar brautir.
Þú hefur lesið um það þegar þýzka skáldið og spek-
ingurinn Lessing stóð frammi fyrir Drottni allsherjar,
sem hélt á fullkomnuninni í annarri hendinni og því að
leita eftir henni í hinni og bauð skáldinu að velja. Þarna
átti skáldið kost á því að fá fyrirhafnarlítið það, sem
mannveran hefur alla tíð verið á höttunum eftir, en
Lessing kaus heldur að leita fullkomnunarinnar. Og
því erum við alltaf að leita hennar.
Þegar hér var komið sögu, var ég sokkinn enn lengra
niður á koddann minn, en draummaður hélt áfram.
— Þetta, sem ég nú hef talað, á við allar greinar menn-
ingar, lista og þjóðlífs. Horfum til tónlistarinnar. Ég
veit, að þér finnst ekkert vera tónlist nema falleg söng-
lög. En hvað er það, sem við raunverulega köllum tón-
list?
Alls konar hljóð berast okkur daglega til eyrna, og
öll hljóð eru eins konar músík: fuglasöngur, bremsu-
hljóð bíls, vélarhljóð skips. Öll þessi hljóð hafa sitt
ákveðna hljómfall, þegar þau ná eyrum. En þegar við
setjum þessi hljóð saman í ákveðið kerfi, verða þau að
list, tónum, samhljómum og hljómfalli. Mozart setti
hljóðin saman á sinn hátt fyrir 200 árum síðan, og aðrir
á undan honum. Mannkynið hefur löngum lagt mikla
vinnu og hugvit í að setja saman hljóð á listrænan hátt.
í dag er það öðruvísi gert en á dögum Mozarts, og þú
hefur heyrt hugmyndir um, hvernig það verður gert
árið 2000, því áfram verður haldið að setja saman hljóð
til skemmtunar og upplyftingar, — og líka til hrellingar.
Möguleikar slíkra samsetninga eru óteljandi. Hugsaðu
þér hvað mörg lög eru til í heiminum, og engin tvö eru
eins. Það er því til lítils fyrir þig að vera stór upp á
þig og segja einhverja tegund músíkur annarri betri.
Auðvitað hefur þú þinn smekk og átt líka að hafa hann.
En bull þarf það ekki að vera, þótt þér ekki líki eitthvað
í þessum efnum eða öðrum. —
Að svo mæltu hvarf draummaður, en ég vaknaði í
einu svitakófi, var þó býsna fljótur að átta mig, því
það fyrsta, sem ég sagði, var: Hver var nú að predika?
En ég geri mér alveg Ijóst, að þennan blessaða draum-
mann sný ég ekki af mér á næstunni.
E. E.
208 Heima er bezt