Heima er bezt - 01.05.1976, Blaðsíða 28
ANDVAKA
Hvert sinn er ég hugsa um þig,
hitastraum finn ég streyma um mig.
Hjartað sleppir slagi úr,
ég sofið fæ ei dúr.
Ég bara ligg og læt mig sjá
lífsglaða framtíð okkur hjá;
lítil börn að leika sér,
lítið húsið okkar er.
Andvaka af einskærri ást til þín.
Andvaka og hamingja við mér skín.
Lítil börn að leika sér,
lítið húsið okkar er.
Hjartað sleppir slætti úr,
ég sofið fæ ei dúr.
En svona geta mennirnir verið misjafnir. Textahöfund-
ur telur það hamingju að vera andvaka, en ég yrði
sennilega kolvitlaus með sama háttalagi. En eitt sinn
hafði ég orð á því í þessum þætti hvað mér þættu þeir
popparar vera frumlegir í nafnavali á hljómsveitum sín-
um. Oft langaði mig að vita hvað ráðið hefði nafngift-
um, t. d. Frostavetrinum mikla 1918. En ef einhver les-
enda heldur að ég hafi hneykslast á þessum nafngiftum,
þá skjátlast honum hrapallega. Ég er ekki svo mjög
hneykslunargjarn. Aftur á móti vakti það undrun mína
og forvitni þegar kotungurinn í Blönduhlíð endurfædd-
ist í líki popphljómsveitar, en Bólu-Hjálmar nefndist
ein þeirra. Nú ég vona að ég verði ekki andvaka þótt
ég fái aldrei að vita ástæðuna fyrir þessari undarlegu
nafngift popphljómsveitarinnar. Annars virðist mér að
ensk nöfn verði æ meir í tísku hjá íslensku popphljóm-
sveitunum, og því ræður vafalaust hin sígilda frægðar-
von á heimsmarkaðinum, enda staðfestir Pétur Kristjáns-
son það, að „auðvitað sé það alltaf draumurinn“. Stend-
ur ekki einhversstaðar að heit von geti orðið að veru-
leika? — Og enn skulum við líta á popptexta og þar er
Þorsteinn Eggertsson enn að verki og lagið er eftir
Rúnar Gunnarsson. Þetta lag gat að heyra á einni hljóm-
plötu „Flowers" sem kom út fyrir nokkrum árum.
GLUGGINN
Ég sit og gægist oft út um gluggann
að gamni mínu, út yfir skuggann,
því fólk á förnum vegi, fótgangandi,
að nóttu og degi — er alveg tilvalið að sjá.
% sé oft heilar skáldsögur skapast,
og skrítið fólk sem hérumbil tapast
í amstri og umferð dagsins;
eirðarlaust til sólarlagsins,
það röltir strætið til og frá.
Stúlkur og stælgæjar
standandi upp við bar,
og sitthvað fleira má þar sjá.
Glaðlegir unglingar,
góðlegir gamlingjar,
og fólk sem horfir bara á.
Nei, ég þarf ekki að sitja við sjónvarp
né sjá í bíói einhvern stríðsgarp,
því út um gluggann gaegist,
gerir ekkert þótt þú hlæir,
því þar er alltaf margt að sjá.
En textahöfundur hefði ekki átt að gerast svona þaul-
sætinn við gluggann og virða fyrir sér mannlífið út um
hann, því skömmu seinna leystist þessi ágæta hljómsveit
upp og blómin sviptust burt með vindinum. En hat-
rammt þætti mér ef mismæh hefðu orðið hljómsveitinni
að falli.
En nú langar mig að snúa mér frá popptextunum að
öðru efni. í þessum þáttum hef ég leitast við að hafa
sem fjölbreyttast textaval eftir því sem getan og kring-
umstæðurnar hafa leyft og hef ég ekki orðið var við
annað en lesendur séu sæmilega ánægðir með þá skip-
an mála. En eitt hefur vakið þó nokkra undrun mína og
það er hvað margir lesenda minna virðast vera gjör-
kunnugir ýmsum þýddum ljóðum, einkum þeim sem
eiga sér lög. Þeir voru t. d. ekki svo fáir sem þekktu
þýðingarnar á Álfakóngi Goethes, þótt kunnust væri
þýðing séra Valdimars Briems. Sama hefur mér virst
vera um ýmis önnur þýdd Ijóð sem hér hafa birst.
Þetta eykur mér kjark að birta meira af þýddum ljóð-
um. Ég vona að það verði ekki lagt út sem oflátungs-
háttur þót ég skýri frá því að hér fyrr á árum hafði
ég ákaflega gaman af þýskum Ijóðasöng, t. d. lögun-
um úr Vetrarferðinni og Malarastúlkunni fögru eftir
Schubert, sem og lögunum við Heiðarósina, Álfakóng-
inn og Næturljóð ferðalangsins; Schubert gerði lögin
við þessi þrjú síðasttöldu ljóð sem Goethe er höfund-
ur að. Þá hafði ég ekki síður gaman af hinum stór-
kostlegu lögum Schumanns við ýmis kvæði og kvæða-
bálka, ekki síst við ljóð stórskáldsins Heine. Sennilega
hefur ekkert erlent skáld sem Heine haft jafn mikil
áhrif á íslenska skáldmennt. Jónas Hallgrímsson fór
aldrei dult með Heine-áhrifin á skáldskap sinn. T.d.
skrifar hann á eitt uppkast sitt af kvæðunum Annes og
eyjar: „Hann er farinn að laga sig eftir Heine“. Rekja
má slóð Heines gegnum íslenska ljóðagerð hjá fleiri
skáldum en Jónasi. Hannes Hafstein, Steingrímur Thor-
steinsson, Benedikt Gröndal ög Grímur Thomsen og
jafnvel Matthías Jochumsson hafa aldrei dregið dul á
Heine-áhrifin í kveðskap sínum, en það var fyrst og
fremst bragform Heines, hinn einfaldi ferhendi háttur,
sem heillaði þessi og önnur skáld, — og það allt til okkar
daga.
Tónskáldið Schumann gerði mörg úrvals lög við ljóð
Heines, þ. á. m. við ljóðið Varðliðana eða Skotliðana
172 Heima er bezt