Heima er bezt - 01.05.1976, Blaðsíða 10

Heima er bezt - 01.05.1976, Blaðsíða 10
SIGRÚN Á SKARÐI SEGIR FRÁ: Grasaferð á FjöIIum Sigríður Guðmundsdóttir Schiöth, skráði Sumarið 1918 var eg kaupakona í Víðidal á Fjöll- um, hjá Jóni A. Stefánssyni, er seinna bjó í Möðrudal og konu hans, Þórunni Oddsen, sem ættuð var af Vopnafirði. Margt fólk var í heim- ilinu. Auk fjölskyldunnar voru tveir vinnumenn og þrjár kaupakonur. Einnig var þar gömul kona sem Anna hét. Var hún húsfreyju til aðstoðar við innanbæjarstörf. Nokkru fyrir slátt segir húsbóndinn, að fyrir dyrum standi grasaferð austur á Jökuldalsheiði og ættum við, kaupakonurnar þrjár, að fara með honum. Var nú tekið til við að undirbúa förina, sækja hesta og varð nokkurt bras við að beisla ótemjur, sem húsbóndinn vildi hafa með í förinni, til að láta þær venjast taum og meðreið. Höfðum við með okkur ríkulega útbúið nesti og var nú haldið af stað. Leiðin á grasafjallið var nokkuð löng og vildi Jón bóndi stytta ferðina með því að fara Sótáskarð, sem svo er kallað, en ekki er það alfaraleið. Minnir mig að við værum þrjá tíma á leiðinni. Reiðskjóti minn var grár hestur, fimm vetra. Var Jón bóndi sí og æ að gefa mér heilræði viðvíkjandi taumhaldinu á klárnum, því eg var ekki vön lítið tömdum hestum. Gekk nú ferðin sæmi- lega og komum við að bæ, nokkuð austur á heiðinni, þar sem áætlað var að við byrjuðum að tína. Taldi Jón, að best væri að við hvíldum okkur dálítið áður en við hæfumst handa og var ákveðið að byrja ekki á verkinu, fyrr en kvölda tæki. Á þessum bæ, bjuggu ung hjón og áttu þau hóp af börnum. Rann okkur til rifja, að sjá, hve blessuð börnin voru fátæklega til fara. Undir kvöldið lögðum við af stað í tínsluna og þurft- um við að ganga æði spotta frá bænum. Þarna fundum við feikna mikið af stórum og fallegum grösum. Tók- um við nú til óspilltra málanna. Veðrið var kyrrt, en þokusúld lagðist yfir með kvöldinu. Þegar leið á kvöld- íð, fór að rigna og kólna, en við létum það ekki á okk- ur fá en hömuðumst við að tína. Seinna um nóttina versnaði veðrið fyrir alvöru, úrkoman óx og nálgaðist að vera krepja. Fórum við þá að verða illa haldin, af bleytu og ku.da. Tók Jón bóndi þá það til bragðs, að við skyldum leita heim til bæjarins, í húsaskjól. Þar voru þröng húsakynni, baðstofa sæmileg, m:ð húsi í öðrum enda, þar sem hjónin sváfu með yngstu börn- in. í frambaðstofunni voru tvö rúm, í öðru var haus við haus, þar voru þrjú eða fjögur börn, en í hinu svaf kaupamaðurinn og elsti sonurinn á bænum. Lítil elda- vél var í frambaðstofunni. Sýndist okkur ekki vera mikið rúm aflögu, handa köldu og hröktu grasatínslu- fólki. Settumst við þá á gólfið og hvíldum bakið upp við vegginn. Kom þá blessuð húsmóðirin til okkar og spyr eg hana hvort nokkur dýna sé til, þó ekki sé nema reiðingstorfa, til að leggja á gólfið, svo mýkra verði að liggja þar. Við vorum alveg uppgefnar, gátum varla haldið opnum augunum. Á baðstofugólfinu stóð barna- rúm, sem ekki var í notkun, einhverra hluta vegna. Ein af okkur, Lára að nafni, hafði engin umsvif, heldur stakk sér upp í rúmið og steinsofnaði þegar í stað. Þó við værum syfjaðar og þreyttar, gátum við varla varist brosi að sjá þetta, því fætur stúlkunnar stóðu langt upp og aftur af rúmgaflinum. Nú kom húsfrevj- an, gekk að rúminu þar sem börnin sváfu, tók hvert af öðru stakk einu innundir hjá kaupamanninum og hin- um að líkindum í sitt eigið rúm, en Jón, húsbóndi okk- ar var löngu sofnaður ofan við húsbóndann á heimilinu. Síðan sótti húsfreyja hreint sængurver og ullarteppi, og setti í rúmið, þar sem börnin höfðu verið, sagði okkur svo að leggjast út af. Var það fljótt og þakksam- lega þegið og sváfum við eins og steinar fram á næsta dag. Er við komum á fætur var komið krepjuföl, svo ekki var hægt að vera við grasatínslu, var þá farið að hugsa til heimferðar, grasapokarnir bundnir í klyfjar, en þeir voru fyrirferðarmeiri, en ætla hefði mátt, því grasa- landið var með afbrigðum gott og mikið hafði aflast á svo skömmum tíma. Það sem afgangs var af nestinu okkar, var skilið eftir og konan beðin að notfæra sér það, en oft hsfir mér orðið hugsað til þessarar konu síðan. Það voru ekki glæsilegar kringumstæður á bæn- um þeim og vorkenndum við fólkinu af öllu hjarta. Eg gladdist mjög, þegar eg frétti nokkru seinna, að þessi hjón hefðu fluttst til Vopnafjarðar, fengið þar sæmilega jörð og komið þar upp stóra barnahópnum sínum, með dugnaði og sparsemi. Þessi fyrsta og síðasta grasaferð mín, hefur ætíð verið mér í minni síðan. 154 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.