Æskan

Årgang

Æskan - 01.12.1994, Side 5

Æskan - 01.12.1994, Side 5
FJÓRÐI VITRINGURINN Þegar við á aðventu hugsum til jóla þá skyldum við minnast þess að boðskapur jólanna fjallar um trú, von og kærleika. Gömul saga en góð varpar Ijósi á boðskap aðvent- unnar. Endur fyrir löngu var gráhærður öldungur á leið til Betlehem. Hann hafði í fórum sínum þrjár gjafir sem hann ætlaði að færa litla barninu sem þar hafði fæðst. Gjafirnar voru flaska með dýrindis græðandi smyrslum, gullmoli og rauður rúbín- steinn. Á göngu sinni virti hann gjaf- irnar fyrir sér með mikilli aðdáun. Er hann nálgaðist bæinn varð á vegi hans hópur manna sem var að stumra yfir særðum dreng við veg- inn. Öldungurinn gekk að drengn- um og áður en hann vissi af var hann búinn að hella öllum dýrmætu smyrslunum yfir sár drengsins. Síðan hélt hann áfram göngu sinni til Betlehem. „Ég á þó alltaf gullmolann og rúbíninn," hugsaði hann með sér. Allt í einu var gripið í hönd hans og beðið með auðmjúkri röddu: „Góði herra, gef mér ölmusu, ég er gamall og fátækur." Gráhærði öldungurinn leit á vesalings beiningamanninn og gat ekki fengið af sér að neita bón hans. En hann átti enga aðra pen- inga en gullmolann og lagði hann því í útrétta hönd beiningamanns- ins. „Enn á ég Ijómandi rúbín handa barninu," hugsaði hann, „og hann er jafnmikils virði og smyrslin og gullið til samans.“ Nú lá leið hans um torg þar sem verið var að selja þræla. Það var verið að bjóða upp yndislega fallegt barn. Rétt þar hjá stóð móðir barnsins buguð af harmi og sorg. Þetta var meira en viðkvæmt hjarta gráhærða öldungsins gat þolað. Þetta gat hann ekki horft á að- gerðalaus. „Rúbíninn minn, rúbíninn minn,“ tautaði hann fyrir munni sér þegar hann ruddist gegnum mannþyrp- inguna með steininn í hendinni og keypti barnið. Hann rétti móðurinni það og sagði brosandi: „Taktu barnið þitt. Nú áttu það sjálf.“ Svo sneri hann sér við og ruddist burtu gegnum þvöguna án þess að bíða eftir þakkarorðum konunnar. Er hann hafði gengið nokkurn spöl nam hann skyndilega staðar og á- nægjubrosið stirðnaði á vörum hans. Hann neri saman höndum í örvænt- ingu og tár komu fram í augu hans. „Ó,“ hrópaði hann upp yfir sig, „nú á ég enga gjöf eftir handa litla barn- inu.“ Og hann sneri við, hryggur í huga. Eftir stutta göngu tyllti hann sér á þúfu við veginn. Hann hallaði sér upp að tré og sofnaði. Þegar hann vaknaði aftur Ijómaði andlit hans. Hann hafði í draumi séð fyrir sér barnið í Betlehem, sitjandi í faðmi móður sinnar. Hann féll þá fram og tilbað það. En á meðan hann laut barninu fann hann daufan ilm smyrsla fyrir fótum sér. Og þegar hann leit upp sá hann að dýrmæti rúbínsteinninn glóði á enni barnsins og gullmolinn hans lá í litlu barns- hendinni. Þar sem hann horfði hug- fanginn á þetta heyrði hann lága og blíða barnsrödd sem hvíslaði: „Það sem þér gjörið einum af mín- um minnstu bræðrum það gjörið þér mér.“ Og hann hélt för sinni áfram, glað- ur í bragði. í FÓTSPOR JÓLABARNSINS Allt sem við gerum krefst rétts undirbúnings. Þegar við förum í knattspyrnu förum við í létta skó og léttan fatnað og brynjum okkur með keppnisskapi. Ef við gætum barna erum við mild í skapi og athugul. Þegar við sitjum á skólabekk erum við hljóð, iðin og eftirtektarsöm. Við undirbúning jólanna gefum við því gaum sem við getum gert til að eng- an skorti nauðsynjar á þessari miklu hátíð gleðinnar og Ijóssins. Við hugsum til fjölskyldunnar í fjárhús- hellinum við Betlehem forðum þar sem hún leitaði skjóls „því að ekki var rúm handa þeim í gistihúsi". Þessi fjölskylda þurfti margt að þola um ævi sinnar skeið. En það allt er sambærilegt við þau kjör sem mannkynið hefur ávallt búið við. Þannig kom litla jólabarnið, Jesús Kristur, að öllu leyti inn í mannlega tilveru, jafnt til þeirra lægstu sem hinna hæstu. Og nú er það verkefni okkar á að- ventunni að feta í fótspor hans við undirbúning jólanna. Oft er leitað til almennings vegna safnana af ýmsu tagi. Bæði er þá safnað fötum og peningum til að færa þeim sem minna mega sín í lífsbaráttunni, bæði innan lands og utan. Slík verk- efni eru sannarlega í anda litla jóla- barnsins sem sjálft fórnaði öllu fyrir mannkynið. En verkefnin eru líka fleiri, bæði nær og fjær: að gleðja þá sem næstir okkur standa. Oft er nóg að líta til næsta nágrennis og jafnvel í eigin barm til að finna verkefni sem færa hamingju og frið okkur sjálfum og öðrum. Guð gefi ykkur öllum gleði og frið á helgri hátíð. Sr. Rúnar Þór Egilsson. Æ S K A N S

x

Æskan

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Æskan
https://timarit.is/publication/383

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.