Prestafélagsritið - 01.01.1925, Page 18
Preataféiagsritið. Kjarni kristindómsins og umbúðir.
13
þroski hvers einstaklings og hvers félagsskapar telur æskilegar
og bezt svarar til þrár tímans og þarfa.
Kristindómslífið er að því leyti líkt öllu öðru lífi, að það
getur aldrei stirðnað eða storknað í föstum formum. Það
verður ávalt að mynda sér nýjan búning og birtast á nýjan
hátt, án þess nokkurn tíma að víkja frá því, sem er kjarni
kristindómsins og aðalatriði.
Hvert er nú stefnt með þessum hugleiðingum? — kynni
einhver að spyrja.
Svar mitt er fljótgefið.
Þessar hugleiðingar um kjarna og umbúðir kristindómsins
eiga að greiða fyrir oss úr vandaspurningunni um festu og
frelsi í kristindómsmálunum.
Eins og mörgum er kunnugt, er þar um vandamál að ræða,
sem fjölda manns hefir veitt erfitt að átta sig á.
Sumir leggja aðaláherzluna á festuna, en aðrir á frelsið. Og
báðum aðilum veitir oft erfitt að skilja afstöðu hins og hættir
því við að verða einhliða og fara út í öfgar.
Því að leggja má á þann hátt áherzlu á festuna, að ekkert
eða lítið verði úr frelsi kristins manns og mörgum verði erfitt
um andardráttinn innan kristilegs félagsskapar.
Leggja má einnig svo einhliða áherzlu á frelsið, að lítið eða
ekkert verði úr festunni, eða mörgum finnist svo að minsta
kosti, finnist alt á reiki, hvergi föst jörð undir fófum.
Hvorttveggja er stórskaðlegt. Allar öfgar í þessa átt eru
afarhættulegar kristilegu lífi einstaklinga og þjóða.
En hvorugu má sleppa, hvorki festunni né frelsinu.
Kristindómurinn byggist á opinberuðum staðreyndum, sem
aldrei má víkja frá.
Hitt er einnig jafnáreiðanlegt, að trúarbrögðin dafna bezt í
frelsi.
Hvernig á þá að sameina þetta tvent, festuna og frelsið,
svo að rétt sé og í samræmi við anda kristindómsins og
reynslu aldanna?