Prestafélagsritið - 01.01.1925, Síða 26
Prestafélagsritið.
Búddha og andastefna hans.
21
manns eða tilbeiðsluvottur, heldur töframeðal, sem knúði guð-
ina til endurgjalds. í elztu Vedaritunum ber eigi mjög á
þessari skoðun, en í hinum yngri skipar fórnin öndvegi í
helgisiðunum — svo mjög, að heilir bálkar í þeim fjalla ein-
göngu um fórnir. Töfraþulur eru teknar upp í fórnarbálkana
og má geta sér til, að þær hafi verið um hönd hafðar í
sambandi við fórnir. Þessi hluti Vedabókmentanna heitir Vajur-
veda eða Fórnarveda. Veda merkir: vizka eða speki og sumir
ætla að orðið Edda í voru máli sé skylt l/eda í sanskrít,
sem er elzta ariska málið, sem menn þekkja. Þessi fórnar-
dýrkun fór svo mjög í vöxt á næstu öldum, að athygli dýrk-
endanna snerist frá guðunum að fórninni. Og þar kom að
menn hugsuðu sér guðina sem fórnarpresta, sem eigi hefðu
annað að sýsla en fórna og fengju guðlegan mátt og megin
fyrir kraft hennar og kyngi. Þannig varð fórnin æðri öllum
guðum og varð þannig máttargjafi bæði guðum og mönnum,
og eðlilega fór svo, að fórnarprestar, þó dauðlegir væru —
hinir svonefndu Brahmanar — voru álitnir guðum líkir. Þeir
höfðu fórnina með höndum og vöktu yfir erfikenningum liðins
tíma og útskýrðu þær. Bilið milli guða og manna varð
þannig smámsaman minna og þetta bjó undir manndýrkun
Búddhismans.
Það sem var öllu meira, bæði guðum og mönnum, var
máttur fórnarinnar — þessi leyndardómsfulli kraftur. En ekki
var hann álitinn persónulegur, heldur ópersónulegur máttur,
sem allir hlutir ættu að rekja til uppruna sinn og væri alt í
öllu. Þenna mátt nefndu menn Brahma eða Atman. Eins og
skilja má, er hér ekki langt frá algyðistrú eða Panþeisma.
Eitt af því, sem einkennir trúarskoðanir Vedanna, er það,
hversu óljósa hugmynd menn gerðu sér um guðina. Menn
greindu ekki nálægt því eins í milli guðanna í goðafræði
Indverja og t. d. í goðafræði Norðurlanda eða Grikkja og
Rómverja. f goðakvæðum þessa tíma er einum guði sungið
lof og hann miklaður, svo að ætla mætti að aðrir guðir væru
ekki til — en í sömu andránni er öðrum guði sungið sama lof
og hann miklaður öldungis á sama hátt og hinn fyrri — og