Prestafélagsritið - 01.01.1925, Síða 80
Prestafélagsritið.
Skúli prófastur Gíslason.
75
var úr Borgarfirði og kunnugur á Hesti og kannaðist ekki
við, að þar ætti heima nokkur maður með því nafni.
Eftir að Skúli hafði dvalist einn vetur á Bessastöðum var
skólinn fluttur til Reykjavíkur og þar var hann þrjá hina næstu
vetur. Reyndist hann þar ágætur námsmaður og útskrifaðist
vorið 1849 ásamt sjö öðrum, þar á meðal þeim Guðbrandi
Vigfússyni, Sveini Skúlasyni og Hermanni Elíasi Jónssyni, og
hlaut hæstu einkunn allra, er það ár útskrifuðust. Ekki þóttu
Skúla þau umskifti góð, er skólinn fluttist til Reykjavíkur,
enda var bæjarbragur í Reykjavík ekki sem beztur í þá daga;
samheldni pilta sín á milli vildi fara út um þúfur þegar þangað
kom og skólalífið verða með öðrum blæ en verið hafði á
Bessastöðum.
Prestaskólinn var þá fyrir tveimur árum kominn á fót, en
meðal skólasveina var allmikil ótrú á þeirri stofnun og langaði
Skúla ekki til að gerast námsmaður þar. Síðustu skólaár sín
var það eitt aðaláhyggjuefni hans, ef hann sökum efnaleysis
yrði að ganga prestaskólaleiðina að loknu stúdentsprófi sínu.
I bréfi til föður míns, sem þá var kominn til Hafnar farast
honum orð á þessa leið haustið 1848: »Það er svo langt frá,
að ég lái þér, Helgi minn, þó þú sigldir kannske nærri því
út í ófæru, að ég lofa Guð fyrir hvern efnilegan mann, sem
ekki þarf að ganga á prestaskólann og láta gefa sér þar
góða von um gull og græna skóga síðar meir.« Nokkuru
seinna sama veturinn farast honum svo orð í bréfi: »Mikið
er mér óljóst um, í hvað ég muni ráðast eftirleiðis, en þegar
ég lít á efnahag minn, má mér þykja það hátíð, ef ég kemst
á prestaskólann, þó mér sé hann raunar næsta ógeðfeldur;
það bætir raunar mikið um, ef prestlingar fá húsaleigu í pen-
ingum og geta svo leigt sér herbergi úti í bæ, því það verður
miklu næðisbetra. »Það sem verður að vera, viljugur skal
hver bera« og mér mun vera bezt að gjöra mér svo gott af
prestaskólanum sem ég get; ef ég stunda mitt verk með iðni
og spekt og reyni að haga mér ráðvandlega vona ég, að Guð
leiði mig klaklaust skeiðið á enda«. Sýna þessi ummæli hvern