Prestafélagsritið - 01.01.1925, Page 89
84
Dr. Jón Helgason:
Prestafélagsritið.
laut, með hinni mestu og stökustu nákvæmni«. En hann var
alveg frásneiddur öllum rithöfunds-metnaði. Þetta var því til-
finnanlegra sem alkunna er, hve pennafær hann var, og það
mun ekki tekið of djúpt í árinni, þótt sagt sé um hann, að
hann hafi haft það vald á íslenzkri tungu, sem flestir mega
öfunda hann af. Um þetta ber ólygnast vitni það sem séra
Skúli hefur lagt til »Islenzkra þjóðsagna og æfintýra«. Hann
er ekki aðeins efstur á blaði þeirra, er eiga sögur í safni
þessu, fyrir það, að hann hefur lagt þar meira til en nokkur
annar maður, sem sé 62 sögur alls. En hann er jafnframt
efstur á blaði svo sem sá höfundurinn, sem með mestri snild
hefur fært frásögur sínar í stílinn. Sögur séra Skúla í safn-
inu bera það með sér, að þar hefur ísland átt einhvern sinn
ágætasta sögumann á síðari öldum, mann, sem vel má nefna
við hlið hinna beztu útlendu meistara í því að færa þjóðsögur
í stílinn. Með því, sem séra Skúli hefur lagt til safnsins,
hefur hann reist sér þann bautastein, sem standa mun um
fjölda ókominna alda og halda uppi nafni hans svo sem eins
af þeim rithöfundum íslenzkum, sem bezt hafa kunnað á
penna að halda, enda hefur því fyrir skemstu verið haldið
fram af ágætum vísinda- og fræðimanni íslenzkum, að séra
Skúli hafi »gert nafn sitt ódauðlegt í sögu íslenzkra bók-
menta“ með þjóðsögum þeim, sem hann skrifaði fyrir þá
Maurer prófessor og Jón Árnason.i) En einmitt snildar-hand-
bragðið á þessum sögum gjörir það því tilfinnanlegra, að jafn-
lærður maður og margfróður og séra Skúli var, skyldi vera
jafnsnauður að öllum metnaði í þá átt að nota penna sinn,
til þess að miðla öðrum af mikilli auðlegð anda síns og
lærdómi. — —
Eins og þegar hefur verið vikið að, var séra Skúli Gísla-
son með einkennilegustu kennimönnum sinna tíma, en jafn-
framt hvorttveggja í senn höfðingi í sjón og höfðingi í lund.
Hann var prúðmenni í framgöngu, en samdi sig annars lítt
1) Sbr. Sig. Nordal: Snorri Sturluson, bls. 46.