Prestafélagsritið - 01.01.1925, Qupperneq 114
Prestafélagsritið.
Markús og guðspjall hans.
109
til þess að láta þjóna sér, heldur til þess að þjóna og til þess
að gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga«. Það er yfir-
skriftin yfir píningarsögunni og raunar guðspjallinu öllu. Og
hver, sem vill fylgja ]esú, verður að afneita sjálfum sér, taka
upp kross sinn og fylgja honum. Krossinn er leyndardómur-
inn heilagi, sem alt beinist að. Svo mundi Páll hafa viljað
kenna, og lærisveinninn skrifar í anda hans. Enn kemur
Markús að öðrum minningum um ]esú, er lifðu þá manna á
milli, þar sem hann skrifar guðspjall sitt. En það mun vera í
Antíokkíu, aðal-miðstöð kristniboðsins annari en Róm, og hefir
Markús leitað þangað eftir dauða Péturs á fund vina þeirra
beggja og dvalið eystra upp frá því.
Guðspjallið er fyrst og fremst ætlað rómverskum mönnum
austur þar, er kristni hafa tekið, og svo öðrum í söfnuðunum.
Þá þyrsti að fá að heyra meira um ]esú, son Guðs. Þeir
þráðu það, að geta horft til hans í anda, er dáinn var fyrir
þá, og safna saman minningunum um hann eins og dýrasta
auði hjarta síns. Þessari þrá þeirra allra vildi Markús reyna
að svala. Hann hefir langað til þess, að hver sá, er guð-
spjallið heyrði eða læsi, mætti sjá persónu ]esú í hugarsýn
og sannfærast um það, að hann væri upprisinn og Drottinn
sinn til hægri handar Guði.
Frásögnin um ]esú er sönn og sögulega áreiðanleg, að svo
miklu leyti, sem »saga« kemst þar að. Enda líður ekki nema
hálfur fjórði tugur ára frá því, er atburðirnir gerast og þang-
að til þeir eru færðir í letur. Auk þess er Markús framúr-
skarandi samvizkusamur rithöfundur og man vel það, sem
honum er svo hugstætt og kært. Að vísu eru veilur í lýsingu
hans á aldarhættinum á Gyðingalandi og það kemur fyrir, að
hann misskilur atburði og orð ]esú; en honum auðnast engu
að síður að leiða í Ijós sanna mynd af persónu ]esú, sem er
ofar öllu því, er skáldi gæti komið til hugar, sjálfri sér sam-
kvæma, heilaga, kærleiksríka, guðlega. Og hver sem í auðmýkt
og trú tekur sér stöðu við hlið honum lítur einnig í anda
ásjónu ]esú.