Prestafélagsritið - 01.01.1925, Síða 129
124
Dr. Jón Helgason:
Prestafélagsritið.
næsta morgun. Þar áttu þeir að prédika báðir Hróarskeldu-
biskup Fonnesbeck Wulff og erkibiskup Svía. En Oslóar-
biskup Lunde og ég áttum að vera fyrir altari eftir prédikun
ásamt Hróarskeldu-biskupi. Héldum við allir fjórir í bifreið
til Hróarskeldu kveldið fyrir, til þess að vera þar um nóttina.
I rauninni átti ég ekkert sérstakt erindi þangað þá um kveldið
annað en það, að hitta konu mína og dóttur, sem þá voru
staddar þar í bænum, en mér hafði ekki unnist tími né tæki-
færi til þess að hitta þær, frá því ég kom að heiman. Þótti
mér því vænt um, að þess var óskað, að ég færi ferðina með.
— Allir hinir biskuparnir biðu til næsta morguns og hittumst
við allir á heimili Hróarskeldu-biskups stundu áður en til
kirkju var gengið. Gengum við síðan allir saman, í »skrúð-
göngu«, til dómkirkjunnar, með þá erkibiskup Svía og Hró-
arskeldubiskup í fararbroddi. Til Hróarskeldu hafði þennan
dag safnast múgur og margmenni, og í dómkirkjunni var hvert
sæti skipað og mannþröng hin mesta. A undan prédikun
þjónaði fyrir altari fundarritarinn Joh. Engel prestur, sem er
orðlagður raddmaður og fórst þá líka hlutverkið vel úr hendi.
Prédikanir þeirra biskupanna voru báðar ágætar, en annars
svo ólíkar sem hugsast getur. Svo sem við mátti búast, þá
beindist athygli manna einkum að prédikun erkibiskups, enda
hefir hann alla þá hluti til bera, sem prýða mega kristinn
kennimann. Hann er mikill mælskumaður, röddin silfurhrein
og þó kröftug, svo að heyrist út í hvern kima, jafnvel stærstu
kirkjuhúsa. Þar var ekkert sem minti á prédikunartón, heldur
talaði hann eins og maður við mann. Hann hafði ræðu sína
skrifaða fyrir framan sig, en leit sjaldan á blöðin. Ræðan var
þróttmikil og persónuleg. Textinn var úr 12. kap. Matteusar-
guðspjalls, þar sem Farísearnir krefjast tákns af Jesú, en hann
svarar, að þeim skuli ekki verða gefið annað tákn en tákn
Jónasar spámanns. Ræðan var öll um Jónasar-táknið. —
Jónasar-táknið hefði verið vitnisburðurinn um sannleikann,
þann vitnisburð hefðu Nínívemenn ekki viljað viðurkenna, og
vegna hins sama vitnisburðar hefðu Farísearnir reiðst Jesú
og að síðustu krossfest hann. Sannleikans vitnisburður sé á